Húsið við sjóinn

by soffiagudrun

"hafið bláa"

Ég var að lesa grein í blaði, skrifuð af dálkahöfundi í Country Living.  Hún býr í sveit og allt er svo rómantískt sem hún skrifar um um sveitina sína, eina pöbbinn, hanagal, samheldnir nágrannar, maturinn beint af býli og svo framvegis.  Ég fór að öfunda hana og hugsaði með mér hvað það væri gaman að búa svona og sá þetta alveg fyrir mér.  Ég sá þetta eiginlega einum og vel fyrir mér.  Þá rann það upp fyrir mér, bíddu aðeins.  Ég bý svona.

Ég bý í húsi upp í sveit við sjóinn, landið í kringum húsið mitt er þakið krækiberjum á haustin.  Í þessu húsi bý ég með besta fólki í heimi.

egg

Ég vakna nú ekki við hanagalaið hjá hænsnabóndunum fyrir neðan, en stundum heyrir maður mjóróma galið í honum.  Og þangað fer ég með alla matarafganga þannig að ég hef aldrei áhyggjur yfir að þurfa að henda mat og þar fæ ég egg, nýorpin, “free range” “organic” egg.  Og stundum fær maður sér rauðvínssopa með hænsnabændunum.

Ofar við veginn búa svo bændurnir, vinir okkar.  Þar reka þau nautabú og litla sælkeraverslun með dásamlegum heimagerðum afurðum.  Þarna fæ ég besta kjöt í heima, beint af býli.  Stundum eldum við saman og og fáum okkur rauðvínssopa.

Við hliðina á okkur búa svo okkar bestu vinir.  Æskufélagarnir, maðurinn minn og vinur hans hafa verið samtaka, fundu sér  dásamlegar, listmenntaðar kærustur sem kunna til verka í eldhúsinu, eignuðust stúlkubörn á nákvæmlega sama tíma og byggðu sér hús hlið við hlið….í sveitinni.  Góðir grannir og æskuvinir.  Og stundum bjóða þeir upp á rauðvínssopa.

Það er nú ekki langt að fara á sveitapöbbinn ef manni langar að lyfta sér upp og þar hittast sveitungar gjarnan við ýmis tækifæri.  Einnig eru sveitungarnir iðnir við að slá upp matarveislum fyrir alla þá sem vilja.  Ekki amalegt það fyrir matgæðina eins og mig.

kræklingur

Í sjónum fyrir neðan er spriklandi ferskur kræklingur, ýsa og þorskur.  Berin allt um kring á haustin og matjurtagarðurinn blómstar á sumrin.

Svo á ég yndislegt eldhús og nóg af plássi til að taka á móti öllum góðum vinum úr borginni sem koma í “bed & breakfast” og smá rauðvínssopa.

Advertisements