Kúrbíts-gulrótarbrauð

by soffiagudrun

Opnaði í dag fína rauðvínsflösku. Vínið er frá Spáni, Cepa Gavilán, 2005. Mjög gott!  Og alveg perfect að opna eina og fá sér í glas á meðan maður bakar þessa uppskrift.

Ég bakaði brauð fyrr á árinu, eftir uppskrift sem ég get ómögulega munað hvaðan ég fékk.    Í fyrsta skiptið sem ég bakaði þetta brauð át ég hálft brauðið í hádegismat, sem er mjög saðsamt, og mér leið ekki sérlega vel á eftir.  Þannig að ég mæli ekki með að borða yfir sig af þessu brauði.

brauð

 Kúrbíts-gulrótarbrauð

 • 1 gulrót , lítil (75 g)
 • 1/2 kúrbítur , lítill (75 g)
 • 1-2 hvítlauksgeirar
 • 100 g valhnetukjarnar
 • 200 g hveiti , óbleikt
 • 200 g heilhveiti
 • 2 1/2 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk hunang , þunnt (má sleppa)
 • 1 msk olía , t.d. maís- eða sólblómaolía
 • 400 ml ab-mjólk

Leiðbeiningar

Rífið gulrótina og kúrbítinn og saxið hvítlaukinn. Leggið þetta á milli nokkurra eldhúsrúllublaða, þrýstið létt á og setjið síðan til hliðar.

Ristið valhneturnar á þurri pönnu, setjið þær svo í sigti (helst gróft, t.d. pastasigti) og hristið hýðið frá. Kælið hneturnar og grófsaxið þær. Hitið ofninn í 200°C og smyrjið ofnplötu.

Blandið saman, í stórri skál, þurrefnunum, grænmetisblöndunni og valhnetunum. Bætið hunanginu og olíunni út í og hrærið í með sleifarskafti.

Hellið síðan ab-mjólkinni smátt og smátt saman við og hrærið þangað til allt hefur blandast vel saman. Setjið þá deigið á hveitistráð borð og hnoðið smástund.

Skiptið deiginu í tvo jafnstóra hluta og rúllið þeim í jafnlangar lengjur, u.þ.b. 35 sm hvora. Vefjið lengjurnar varlega saman, klípið endana og stingið þeim undir. Setjið brauðið á ofnplötuna og sáldrið örlitlu hveiti yfir.

Bakið í u.þ.b. 30-35 mínútur eða þangað til brauðið er orðið ljósbrúnt. Ég reyndar baka þetta brauð alltaf í a.m.k klst.

 

Á meðan brauðið er í ofninum er gott ráð að klára úr vínsflöskunni sem var opnuð í byrjun baksturs.

Salut,

Soffia

Advertisements