Hugmynd að einföldu Tapas matarboði inni eða í góða veðrinu úti á svölum með svalandi hvítvíni

by soffiagudrun

Stundum langar manni að njóta þess að drekka góð vín, spjalla fram eftir kvöldi við borðstofuborðið með góðum vinum og seðja hungrið nú eða spjalla, borða og drekka  í sól og sumri út á svölum.  Þá eru tapas réttir málið.

 

Það eru til svo mikið af góðum tapasréttum, suma þarf maður að dudda sér við eins og kartöflukroketur, djúpsteiktur saltfiskur og tortilla (spænsk eggjakaka).

Ef ykkur langar að henda í mjööög einfalt smáréttaboð sem KLIKKAR EKKI!  þá væri hægt að bjóða upp á eftirfarandi:

Ostar og salami

 • Brie ost
 • Prima Donna ost
 • Franska eða Ítalska salami
 • Sulta
 • Rauðlaukur skorinn í hringi
 • Paprika, skorin í hringi
 • Baguette

Raðað á ostabakka og brauðið skorið í sneiðar

Hráskinka

 • Klettasalat
 • Hráskinka
 • Hunangsmelóna

Melóna skorin í bita, skinkan rifin niður mjög gróft. Lagt á klettasalatbeð.

 

Bruchetta í baguette

 • 3-4 tómatar, skornir í teninga
 • 1 búnt fersk basil, söxuð
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 kúla ferskur mossarella, skorinn í sneiðar
 • Góða EV ólífuolíu
 • Maldon salt
 • Svartur pipar
 • Frosið baguette (látið þiðna)

Forhitið brauðið aðeins. Öllu blandað saman í skál nema baguette og osti. Baguette klofið ofan á, eða skorið eins og pulsubrauð og fyllingin sett í brauðið og svo ostsneiðarnar ofan á.  Hitað í ofni á ca 200°c  þar til osturinn bráðnar og brauðið orðið fallega gullið.

Baguette með brie

 • Frosið baguette
 • Brie ostur, skorinn í sneiðar
 • Frönsk salami
 • Rauðlaukur, skorinn í hringi

Forbakið brauðið í nokkrar mínútur. Kljúfið brauðið svo og raðið salami, osti og lauk í brauðið, dreypið yfir með góðri ólífuolíu, saltið og piprið.  Setjið í ofn á ca 200°c þar til osturinn er aðeins farin að bráðna.

Svartar og grænar ólífur í skál

Berið fram eina skál með svörtu ólífum og aðra með grænum.

Balsamic og olía

Hafið á borðinu góða ólífuolíu og balsamic , gróft salt og piparkvörn.  Gott er að hella smá af olíu og balsamic á diskinn sinn, salta vel og pipra og dýfa góðu baguette í þetta.

 

Flóknara þarf þetta ekki að vera, þetta er ávísun á gott kvöld. Svo er málið að bera fram extra góð vín!