Hunangs hafra kafbátur (Sub)

by soffiagudrun

Það er ótrúlegt hvað maður getur hringsólað á netinu í uppskriftarleit og vaðið úr einu í annað.  Ég byrjaði á að leita að uppskrift að grísalundum fyrir  kúbanska samloku, datt svo niður á víetnamska samloku sem ég þarf að skoða nánar.  Ég endaði á að skoða uppskriftir af sub brauðum sem varð til þess að ég bakaði honey oat subway brauð sem heppnaðist nokkuð vel.

En ég ætlaði að finna uppskrift af kúbönsku samlokubrauði sem ég og gerði en á eftir að prófa.  Grísalundina eldaði ég áðan með marineringu a la cuban sandwich, mínus sandwich en nánar um það allt síðar.
Fyrst ætla ég að koma með uppskriftina að honey oat sub brauðinu.  Þetta var nú ekki nákvæmlega eins og á Subway en mjög gott engu að síður.

subway

Hunangs hafra kafbátur

 • 1 1/2 bolli vatn
 • 1/2 bolli fljótandi hunang
 • 1/3 bolli smjör
 • 5 1/2 bolli hveiti
 • 1/2 bolli Ota hafrar
 • 2 tsk salt
 • 2 tsk þurrger
 • 2 stór egg
 • 1 tsk kalt vatn
 • 1 eggjahvíta
 • 1/2 bolli Ota hafrar

Hitið vatn, hunang og smjör á pönnu.  ATH að það sjóði ekki.

Blandið saman 5 bollum af hveitinu (skiljið hálfan bolla eftir þar til síðar).

Blandið vökva við þurrefni og hnoðið.

Blandið við eggjum og hnoðið.
Blandið nú restinni af hveitinu við deigið og hnoðið.
Hyljið með plasti eða rökum klút og látið hefast í klst.
Hnoðið deigið niður og skiptið því í 8 jafna hluta.
Rúllið því út í um það bil 15 cm langar “kafbáta” og 3-4 cm þykkar.
Setjið 4 báta á bökunarplötu (2 bökunarplötur fyrir 8 báta).
Hyljið með rökum klút eða plasti, látið hefast í 1 klst.
Hitið ofninn í 170°c.

Blandið saman eggjahvítu og 1 tsk köldu vatni og hrærið saman þart til það freyðir.
Penslið ofan á brauðin með eggjahvítunni og stráið svo höfrum ofan á.
Bakið í ofninum í um það bil 20 – 25 mín.
Kælið á grind.

Svo klauf ég kafbátinn, setti ost og beikon og ristaði í ofni í smá stund, bætti svo við því ferska grænmeti sem til var og bjó til mæjónes með sinnepi.  Þannig að úr varð mjög fín samloka.

Þetta er eiginlega í fyrsta sinn sem mér tekst að gera gott brauð en ekki eitthvað sem er svo hart að það megi rota mann með því.

Advertisements