Lömb um haust

by soffiagudrun

Þessu dásamlega hausti fylgir svo margt skemmtilegt.  Fyrir utan endalaus myndefni, fallega birtu og yndislegt veður þá fáum við haustuppskeruna, t.d berin, kartöflur og grænmeti og ég tala nú ekki um haustslátrun.

erika

Lítil vinkona var nú ekki alveg sátt við að hlutverk ærinnar væri að bera lömb á hverju ári sem síðar yrðu leidd til slátrunar þegar þau væru orðin stálpuð.   Æ, ég skil hana nú alveg.

Þegar ég vann við sauðburð eitt vorið þá tengdist ég einu lambinu “vinarböndum” þar sem móðirin hafnaði því og í ofanálag var það með smá kryppu. Hann Kryppi litli var svo sætur. Ég er því ekki mikið að leiða hugann að því hvernig lærið eða framparturinn leit út áður en það fór í sláturhúsið.

lamb

Hænsnabóndinn slátraði lambinu sínu um daginn og það vildi svo heppilega til að við áttum leið hjá þegar við fundum ilminn af grillinu.  Okkur var þar með boðið  í mat.  Ljúffengt var það!

Húsbóndinn kryddaði sneiðarnar með salti og hvítum pipar.  Ég hef ekki notað hvítan pipar í matargerð, nema í plokkfisk.  Spurning með að finna not fyrir hvítan pipar svolítið meira í matargerð.

lambakjöt

 

Annars gerði ég rosalega gott lambalæri um daginn,kryddaði það með lamba rub blöndu frá NOMU og  eldaði í ofni um um það bil 1 1/2 klst, tók það út, vafði í þrefaldan álpappír og lopapeysu,keyrði með það í bæinn á um klukkutíma og þegar í hús var komið og lærið borið á borð var það lungamjúkt og fullkomið í alla staði.  Og meir að segja volgt og gott.   Lambið fór sem sagt aftur í ullina, sem sannarlega hélt á því hita.

 

Advertisements