Sveitasæla – Neighbours meets The naked chef og Gordon Ramsey!

by soffiagudrun

Eitt af því besta við að búa í sveitinni eru nágrannarnir. Þetta er smá svona “Neighbours” fílíngur, Neighbours meets The naked chef og Gordon Ramsey!

Það er alltaf gaman að heimsækja hænsnabóndann, sem er mikill matgæðingur með glæsilegt gróðurhús, fiskinn eiginmann og auðvitað fullt hús matar í hænsnakofanum. Og tala ekki um að hafa rekið veitingastað í Danmörku.

Skammt frá okkur búa hjónin á Hálsi, þarf að segja ykkur meira frá þeim næst.

Því miður þurftu nágrannar okkar á horninu að flytja í bæinn, mikil eftirsjá eftir þeim og kanilsnúðunum og fallega rjómanum…fallegi rjóminn fær líka sér færslu síðar.

Svo er það fólkið við hliðin á. Oft borðum við saman. Það er aldrei tekin skýr ákvörðun hvað verður borðað, heldur segjum við hvað til er í kotinu og eldum við svo úr því sem til er.

Einn sér um aðalrétt og hinn meðlætið. Eða báðir elda smárétti. Það fer bara eftir því hvað til er og stemmningu, veðri og vindum.

Og það er þannig með sveitina, að ef eitthvað “vantar” þá er ekki stokkið út í búð. Það er kostur og finnst mér skemmtileg eldamennska, að nota það sem til er og spila eftir eyranu.

pizza

Um daginn var dásamleg frittata og pizza með krydduðu aðbrigði af klettasalati úr garðinum og grænpipars salami.  Það góða við frittata er að hún er upplögð þegar tæma þarf ísskápinn af grænmeti sem er komið á tíma.

frittata - soffía

Frittata (fyrir ca 3)

 • 5 egg
 • Sveppir, nokkrir
 • Beikon, 4-5 stk
 • Paprika, 1/2 stk
 • Blómkál, 1 bolli eða svo
 • Soðnar kartöflur,skornar í munnbita. 2-3 stk
 • Púrra, lúka eða svo
 • 1-2 hvítlauksrif
 • Ostur (brauðostur eða parmasen) hálfur bolli, eða bara eftir smekk
 • Salt og pipar
 • Smjör eða olía til að steikja grænmetið upp úr.

Skerið allt grænmeti niður.   Steikið létt á pönnu, sem má fara inn í ofn.

Hrærið eggjunum saman í skál, þannig að þau verði létt og fluffy. Saltið og piprið

Hellið eggjunum yfir grænmetið á pönnuna og eldið á lágum hita í korter.

Setjið ost yfir og pönnuna í miðjan ofn á medium heitt grill í 2-3 mín.  Fylgist vel með svo hún brenni ekki.

Um að gera að prófa sig áfram með ýmis hráefni og krydd.  Pepperoni eða skinka passar vel í frittata.

Advertisements