Lahmacun

by soffiagudrun

Það eru margir sem eiga pizzadag með fjölskyldunni einu sinni í viku eða svo þar sem allir koma saman og gera heimagerða pizzu frá grunni.  Skemmtileg hefð finnst mér.

Hér er uppskrift að  pizzu, sem stundum er nefn Tyrknesk pizza og ég mæli með að þið  prófið.  Ég hef áður bloggað um þessa pizzu.  En í gær lagði ég mig alla fram við að gera hana almennilega og betrumbætti uppskrifitna!

Ég bauð vinum í mat þar sem boðið var upp á Tyrkneskan mat, fullt af skemmtilegum nýjum brögðum og allt harmoneraði vel saman.  En ég ætla að byrja á að segja ykkur frá því hvernig ég gerði Lahmacun.

Lykilatriðið er gott hráefni.  Lambahakk er málið!  Það er hægt að nota nautahakk en ég algjörlega mæli með lambahakkinu.  Svo er málið að vera með ferska myntu og ferska steinselju.  FERSKT FERSKT FERSKT!

Þetta var svo gott að það ást upp áður en ég náði að mynda það almennilega.

lachmahun

Og zoom á Lahmacunið

Lachmacun

 

 Lahmacun (fyrir 6)

Ég notaði kíló af hakki, og átti smá afgang sem er enn að “marinerast”  inn í ísskáp og ætla ég að nota það í lambaborgara.  Þannig að um 700 g dugar ca  á 5 stk 12″ pizzur

Byrjið á að gera pizzadeig

Hér er uppskriftin eins og ég gerði í gær og kom vel út.

 • 500 g hveiti
 • 300 ml volgt vatn, um það bil, þið finnið það í hnoðinu hve mikið vatn þarf á móti hveitinu
 • 1 msk sykur
 • 2 tsk salt
 • 2 tsk þurrger
 • 1-2 tsk ólífuolía

Leysið gerið í 3-4 msk af volgu vatni og með sykrinum í korter, eða þar til freyðir vel.   Setjið hveiti í skál og bætið við gerblöndunni, restinni af volgu vatn, salti og olíu og hnoðið lauslega.  Setjið poka yfir skálina eða filmu og látið hefast í klst eða svo.

Lambahakkmixtúra

 • 1 kg Lambahakk
 • 1 laukur
 • 1 gul paprika
 • 2-3 hvítlauksrif
 • 3-4 smátt tómatar úr dós, niðursoðnir. skornir í teninga. Ég nota Roma tómata frá Eden
 • 1/2 meðalsterkur rauður chile.  Smakkið hann áður til að finna út hve mikið þið þurfið.
 • 2 dl fersk söxuð mynta
 • 2,5 dl fersk söxuð steinselja
 • 1 tsk cumin
 • 2-3 tsk turmeric
 • Salt og pipar

Hakkið saman lauk, hvítlauk og papriku.  Setjið lambahakkið í stóra skál og blandið öllu hráefninu vel saman með fingrunum. (Einnig hægt að nota ferska tómata)

lambahakk

Fletjið út pizzadeigið þunnt og setjið á bökunarpappír á ofnplötu eða pizzastein. Makið lambahakkinu fremur þunnt á pizzadeigið en þannig að það þeki og passið að það nái vel út í alla kanta því hakkið skreppur saman við eldun.  Inn í ofn með þetta á 220°c í 10 – 15 mín eða þar til hakkið er eldað.

 

Meðlæti:

 • Gróft söxuð steinselja
 • Sítróna (eða lime) skorið í báta
 • Rauðlaukur skorinn í strimla

 

Þegar pizzan er borin fram þá er mjög gott að dreyfa yfir hana ferskum rauðlauk og ferskri steinselju og það gerði ótrúlega mikið að kreista smá sítrónu yfir pizzuna, einhvernvegin náði að draga fram bragðið í öllu.

Á boðstólnum hjá mér var einnig  hot kebab tómatsósa, jógúrtsósa, tómatar og agúrkusalat, falafel og pítubrauð og svo bulgur pilaf.  Fullt af brögðum í gangi sem kítluðu alla bragðlaukana.  Meir um það næst.

Advertisements