Lasagna, eldað úr íslensku hráefni

by soffiagudrun

Ég gerðist mjög metnaðarfull í eldamennsku minni þar sem ég nota eingöngu íslenskt hráefni og bjó til lasagna. Ég þurfti því að gera allt frá grunni, þ.á.m lasagna plöturnar og tómatsósuna. Og auðvitað þurftu lasagna plöturnar að vera úr íslensku byggmjöli og bechamel sósan einnig. Með þessu var borið fram hið óalíslenska rauðvín Marques de Casa Concha, Cabernet Sauvignon

Þetta var fróðleg eldamennska og útkoman ágæt. Allt smakkaðist vel, nema það vantaði púður í tómatsósuna, tómatarnir voru hálf óþroskaðir, þið vitið, bara svona eins og þeir eru í búðunum, fölir og ekki sérlega safaríkir.Þar sem ég átti allt eins von á bragðlausu lasagna þá setti ég Caprese salat ofan á lasagna-ið í lokin og bakaði það bara örstutt til viðbótar í ofninum, svona 2-3 mínútur.

Hér er uppskriftin af alíslensku lasagna.

lasagna

Lasagna úr íslensku hráefni

Lasagna plötur

 • 3 dl byggmjöl
 • 3 egg

Hnoðað saman og flatt út í pasta vél eða með kökukefli. Ég var ekki með pastavéĺina þannig að ég notaði kökukefli og það gengur ljómandi vel. Ef deigið vill festast við keflið þá gluða ég bara smá byggmjöli á deigið.

Bechamelsósa

 • 3 msk smjör
 • 3-4 msk byggmjöl
 • Mjólk eftir þörfum, eða þar til sósan er orðin hæfilega þykk.

Bræðið smjör, hrærið saman við það byggmjölinu og búið til bollu. Hellið saman við mjólkinni, smám saman og hrærið stanslaust þar til þið eruð komin með fallega þykkt á sósuna, svona hefðbundna sósuþykkt, ekki of þunna samt.

Tómatsósa

 • 6 tómatar
 • 6 plómutómatar
 • Fersk Basil
 • Ferskt oregano
 • 1 msk smjör

Skerið kross í tómatana ofan á þá og setjið í sjóðandi vatn í 1 mínútu, þá losnar skinnið af þeim. Takið þá upp úr vatninu og losið af hýðið.

Bræðið smjör í potti, bætið við tómötum og merjið þá.

Saxið kryddjurtirnar og bætið þeim við.

Leyfið þessu malla í smá stund.

Hakk

 • 500 g nautahakk
 • Sveppir, góð lúka
 • 4 sneiðar beikon
 • Hálf paprika, smátt skorin
 • Smjör til steikingar, væn klípa

Steikið hakk í smjöri og svo beikonið.  Bætið við sveppum og papriku. Þegar kjötið er ágætlega steikt bætið þá við tómatsósunni sem þið bjugguð til.

Leyfið þessu að malla í korter eða svo.  Raðið þessu í eldfast mót, kjötsósa, bechamelsósa, lasagnaplötur til skiptis. Bakið í ofni við 200° C í korter.

Rífið niður mossarella (ekki þennan ferska heldur þann sem er eins og brauðostur í útliti) og dreifið honum ofan á lasagna-ið og bakið í 10 mínútur til viðbótar.

Setjið þá ferskan mossarella, ferskar tómatsneiðar og ferska basil ofan á og setjið inn í ofn aftur í nokkrar mínútur.

lasagna

Þá er það komið. NB: Þar sem ég vil að allt sé ræktað hér heima þá nota ég kryddjurtir frá Engi, hinar sem eru í svona plastöskjum með íslenskri merkingu eru ræktaðar í Hollandi.

Hér er skemmtileg lesning frá heimasíðu Krúsku:

Advertisements