Saltfiskur í bjór”batter”

by soffiagudrun

Þá held ég áfram að deila með ykkur réttum frá tapaskvöldinu forðum, ég bjó til djúpsteiktan saltfisk. Mér fannst þessi réttur svo góður að það er ekki fyndið.

Mig hefur lengi langað að gera þennan dæmigerða spánska tapasrétt, eða síðan ég bjó í Madrid, en þar fann ég lítinn stað sem bauð upp á þennan rétt.

Þetta var einn af þessum gömlu stöðum, þar sem ekki var búið að endurinnrétta fyrir milljónir en maturinn og stemmningin var æði. (Myndirnar eru frá þessum stað)

tapas

Þeir buðu upp á rauðvín í pinkulitlum glösum (eitthvað ódýrt sull, en það rann mjög vel!) Og svo fékk maður sér eitt glas, og annað og þriðja, og svo buðu þeir oft upp á fjórða og jafnvel fimmta.  Með þessu fengum við okkur alltaf djúpsteiktan saltfisk.

tapas bar

Sá sem ég bjó til fyrir tapaskvöldið góða var bara næstum því eins og á þessum tapasbar í Madrid. En svo má ekki gleyma að stemmningin setur sitt bragð á matinn.

tapas bar

Ég mæli með að þið fáið ykkur frekar ódýra crianza og lítil glös til að drekka rauðvínið úr með þessum rétti, það er stemming 😛  Nú eða bara eðal kristal og gran reserva  🙂 Það er sko líka stemming..

 

djúpsteiktur saltfiskur

Djúpsteiktur saltfiskur í bjór”batter”

  • 1/2 kg saltfiskur
  • 1  bjór (ég notaði lítinn tékkneskan  budwar)
  • 200 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • Olía til djúpsteikingar

Hrærið saman hveiti, lyftidufti og bjór.  (Deigið á að líta ca út eins og vöffludeig/pönnukökudeig).  Skerið saltfiskinn í litla bita (ca tveggja munnbitastærð). Steikið þá létt á pönnu.  Setjið saltfiskinn í bjór”batterið” og veiðið svo bitana varlega uppúr og setjið þá í pott með olíunni sem er þá orðin vel heit.

Steikið nokkra bita í einu, í 1 – 2 mínútur eða þar til þeir eru fallega gullinbrúnir.

Berið strax fram.

Saltfiskurinn getur orðið laus í sér við steikingu á pönnunni þannig að það þarf að fara mjúkum höndum um hann.

 

Advertisements