Tyrkneska veislan – nú er það Bulgur pilaf

by soffiagudrun

Bulgur er skemmtileg tilbreyting frá t.d couscous eða hrísgrjónum.

 

bulgur

 

Ég gerði Bulgur pilaf í tyrknesku veislunni sem ég var með um daginn. Þessi réttur færi rosalega vel með lúðu, steinbít eða skötusel, lambakótelettum eða kjúklingi. Ooooh, þetta meðlæti gæti farið vel með svo mörgu.  Ég notaði þetta með falafel.  Svona fór ég að:

 

Bulgur pilaf

  • 1 græn paprika
  • 2 stk tómatar úr dós (eða ferskir)
  • 60 g smjör
  • 1  lítill laukur
  • 4 dl bulgur
  • 8 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur (eða nauta)
  • 1 msk fersk mynta
  • Salt og pipar

 

Skerið lauk og  papriku smátt. Brúnið lauk í bræddu smjörinu á rúmgóðri pönnu eða potti og bætið svo við paprikunni.  Bætið því næst við bulgur og hrærið vel saman, mallið í 3-4 mínútur.  Bætið við fremur smátt skornum tómötum, saxaðri myntu, vatninu og tening, salti og pipar. Hrærið aðeins í þessu og látið svo malla í um 20 mínútur.  Hrærið upp í réttinum með gaffli áður en þið setjið í skál og berið hann fram.