Gerlaust naan brauð

by soffiagudrun

Ég er að reyna að gera gott naan, svona eins og maður fær á virkilega góðum indverskum stöðum. En þar sem ég á ekki tandoori ofn veit ég nú ekki hvort mér eigi eftir að takast það.

Ég fylgdi uppskrift sem ég fann í eldgamalli indverskri matreiðslubók. Þar er ekki notað neitt ger. Hráefni er blandað saman og látið standa í 6-8 klst.

naan

Naan

  • 450 g hveiti
  • 2 eggjahvítur
  • 1 msk smjör
  • 1 1/2 tsk sykur
  • 5 dl ab mjólk eða jógúrt
  • 1 tsk salt
  • Vatn eftir þörf (1/2 dl eða jafnvel minna)

Blandið öllu saman í skál nema vatni og hnoðið (með höndum eða í hrærivél) Bætið við vatni ef þess þarf. (Mér finnst ab mjólkið svo blaut að ég notaði rétt 3-4 msk af vatni)

Hnoðið þar til deigið er mjúkt og fínt. Breiðið yfir skálina (filmu, plastpoka eða rakann klút) og látið standa í 6-8 tíma út á borði.

Skiptið svo deiginu í kúlur, ca á stærð við tennisbolta og fletjið út í ílanga hringi. (Ef deigið klístrast við hendurnar þá má strá örlitlu hveiti á það).

Bakið í vel heitum ofni í 5- 10 mínútur. Fylgist bara vel með brauðunum og takið út þegar þau eru tilbúin. Ég hafði brauðin í 250° heitum ofni í 4- 5 mín.  Ekki hafa þau of lengi í ofninum svo þau verði ekki hörð.

Ég held að leirofninn hefði komið sterkur inn 😛

Ég á eftir smá afgang af deiginu sem er búið að hvíla inn í ísskáp.  Ég ætla að prófa að setja það á pönnuna á eftir.

lamb vindaloo

Þetta smakkaðist ljómandi vel  með Lamb Vindaloo.  Ég notaði Lamb Vindaloo fráThe Cape herb and spice company.

Uppskrift fylgir kryddinum á umbúðunum, Ásamt kryddunum fór í réttinn tómatar úr dós, ab mjólk og laukur, hvítlaukur og ferskt engifer.  Einfalt og smakkaðist mjög ferskt. Þetta er frekar sterkur réttur.

vindaloo