Morgunverðarbollur

by soffiagudrun

Kostir og gallar þess að búa í sveit.  Þegar manni langar í rauðvín og beljan sem maður keypti smakkast skemmd þá er lítið annað en að gera en að fá sér te eða…

Það væri reyndar hægt að fara yfir á næsta bæ í kurteisisheimsókn, t.d með nýbakað brauð og vonast til að heimilisfólkið bjóði manni upp á eitt glas.  Ég held ég geri það og á meðan getið þið lesið uppskriftina af þessum auðveldu og bragðgóðu morgunverðarbollum.

bollur
Morgunverðarbollur

Fátt betra en nýbakaðar bollur í morgunsárið, jah eða um hádegisbil…

Þessi uppskrift býr til um 16 bollur

  • 2/3 bollar volgt vatn
  • 2 bollar mjólk
  • 5-6 msk smjör
  • 2 tsk salt
  • 1/2 bolli sykur
  • 9 bollar hveiti 
  • 5 msk þurrger
  • 1 msk sykur í gerið og 1/2 bolli í mjólkina
  • 3 egg

1 bolli er 2,4 dl

hefing 
Lét gerið freyða með volgu vatninu og sykri.  Það tekur um 10 mínútur. Það er mikilvægt að gerið freyði vel.  Þess vegna setjum við sykur út í en alls ekki salt.
Hitaði í potti mjólk, smjör, sykur og salt þar til smjörið bráðnaði.  Kælið þar til blandan verður volg (svo hún drepi ekki gerið).
Setjið mjólkurblöndu og 3 bolla af hveiti í hrærivél og hrærið í 30 sek.  Blandið gerinu saman við.  Svo 3 pískuðum eggjum og að lokum restina af hveitinu, eins mikið og þið þurfið til að úr verið gott brauðdeig, eða um 5-6 bollar.  Hnoðið vel.

Setjið rakan klút yfir skálina og látið hefast í klst.

Hitið ofninn í um 190°c

Hnoðið deigið niður, mótið úr þessu bollur sem þið raðið í eldfast mót.  Leggið rakan klút yfir og leyfið bollunum að hefast í hálftíma.  Bakið í ofni í 15-20 mín.  Mínar bollur lágu þétt saman þannig að þær mynduðu brauð, en þó var auðvelt að slíta þær í sundur.

brauð

Ef ykkur langar í pizzu með brauðkenndum botni, takið þá frá part af deiginu, fletjið út og bakið með vel völdu áleggi þar sem ofninn er heitur og bollurnar að hefast.