Pizzabotn úr blómkáli og fjörugur föstudagur

by soffiagudrun

Já, þið lásuð rétt.  Pizzabotn úr blómkáli.  Ég veit ekki hvernig ég á að byrja þessa færslu til að sannfæra ykkur að pizzabotn úr blómkáli er góður. Það kemur ekkert í staðin fyrir þunnan hveitibotninn finnst mér en þetta er skemmtileg tilbreyting og frábært fyrir þá sem forðast hveiti.

Setjum á tónlistinaPostal service.

Uppskrift vikunnar er áður óbirt uppskrift af þessum magnaða blómkálspizzabotni:

blómkál

Galdurinn við þennan pizzabotn er að rífa blómkálið í matvinnsluvél, en ekki of lengi svo það verði ekki of blautt, heldur þannig að það verði svipað og hrísgrjón.

Blómkálspizzabotn

  • 1 blómkál, rifið
  • 2 dl rifinn ostur, mossarella eða brauðostur
  • 1 egg, hrært
  • Krydd (2 hvítlauksrif, salt, pipar, oregano)

Takið rifið blómkálið og bætið við 1 eggi, rifnum osti og því kryddi sem þið viljið.  Ég notaði pressaðan hvítlauk, 2 rif, salt og pipar og smá oregano. Blandið saman með höndum eða sleif.

Pressið blómkálsblöndunni með fingrunum á smjörpappír.  Bakið í ofni við 200° í u.þ.b 20 mínútur.

blómkáls pizzabotn

ATH, bakið botninn áður en þið setjið áleggið á, svo setjið þið hann aftur í ofninn með álegginu í nokkrar mínútur.

Takið botninn úr ofninum og bætið ofan á hann því áleggi sem þið viljið, sósu og osti…

blómkáls pizzabotn

Ég google-aði blómkálsbotna og fann á flestum síðum að fólk setur rifið blómkálið í örbylgjuofn í 8 mínútur áður en það blandar því við annað innihald og bakar, en ég las líka að það væri óþarfi.  Ég sleppti því reyndar því ég prófaði að setja smá í skál og í örbylgjuna en það var eflaust aðeins of lengi því það hálf brann.  Maður þarf víst bara að þreifa sig áfram í þeim efnum.  En mér fannst koma mjög vel út þrátt fyrir að hafa ekki eldað kálið áður.

Vín vikunnarer J. Lohr seven oaks, Cabernet Sauvignon, 2006 frá Bandaríkjunum.  Ekki ódýrasta vínið í búðinni og mjög gott.

Vefsíða vikunnar er http://www.foodbuzz.com/, þetta er einhverskonar “myspace” mataráhugamannsins.  Fullt af matarbloggurum, uppskriftum og fleiru matartengdu…

Uppskrift valin af handahófi úr uppskriftarsafninu mínu að þessu sinni er rétturinn Gridexian, sambland af grískum, indverskum og mexíkönskum…góð blanda og réttur sem smakkaðist mjög vel.

Mynd vikunnarer mynd sem ég tók á síðasta ári af frægasta “Emo” hesti landsins…

emo hestur

Advertisements