Sólarlag í Hvalfirði og nýji drykkurinn okkar sem gestir og gangandi fá að smakka

by soffiagudrun

liljur

Það er Páskadagur hér í sveitinni þegar þetta er skrifað og hér snjóar og það er hífandi rok og skítakuldi. Stundum held ég að þakið ætli af húsinu, er þetta ekki komið gott?

En, þá er lítið annað að gera en að opna góða rauðvínsflösku og skrifa niður allar góðu uppskriftirnar sem hafa orðið til yfir páskana.

Föstudagskvöldið var stórskemmtilegt. Við ákváðum að elda sinn hvorn smáréttinn, og til að fá smá krydd í eldamennskuna þá urðum við að nota hráefni sem hinn aðilinn lagði til. Ég lét kærastann nota bulgur og grænan aspas í dós og hann lét mig nota kjúklingabringu, sykur og sólblómafræ.

Kærastinn gerði dúndurgóðan rétt, í anda saumaklúbbs-aspasréttina. En í staðin fyrir brauð vorum við með bulgur.

(Ég steingleymdi að mynda þessa rétti, vandræðalegt!)

Sólarlag í Hvalfirði

 • Aspas í dós
 • Bulgur, soðnar skv leiðbeiningum
 • Tómatar
 • Kartöfluklattar
 • Hvítlaukur
 • Ostur
 • Salt
 • Pipar

Kartöflubrauðið rifið niður, tómatar skornir smátt, hvítlaukurinn pressaður. Bulgurnar settar í botninn á eldföstu móti og bleyttar aðeins með safa úr aspasdósinni, restinni dreift yfir og rifinn ostur stráður yfir allt.

Í þessu tilfelli var afgangur af kartöfluklöttum, það má algjörlega sleppa þeim, eða t.d rífa niður soðnar kartöflur og nota í réttinn.

Þetta var bakað í ofni við 200°c í korter eða svo.

fylltir tómatar

Ég þurfti að nota kjúklingabringu, sykur og sólblómafræ og bjó til úr því fyllta tómata með virkilega góðum sumarlegum drykk þrátt fyrir að það hafi ekkert gefið til kynna að sumarið væri komið..

Fylltir tómatar

 • Tómatur
 • Kjúklingabringa
 • Rúsínur
 • Sólblómafræ
 • Soðnar bulgur
 • Lime
 • Engifer
 • Hvítlaukur
 • Mynta
 • Smjör

Ég skar í tvennt tómat og skóf innan úr honum. Setti þá í eldfast fat og inn í ofn á meðan ég gerði eftirfarandi:

Ég setti soðnar bulgur í pott með smjöri, myntu, rúsínum, sólblómafræjum, það sem var inn í tómatnum og hvítlauk og lét “sjóða saman”.

Á pönnu steikti ég kjúkling með hvítlauk, lime, salti og pipar og blandaði honum svo við bulgurnar.

Ég fyllti tómatana í eldfasta fatinu með bulgur-kjúklinga mixinu, dreifði smá rifnum ost yfir og setti inn í ofn á 200°c í smá stund, eða þar til osturinn var fallega bráðnaður.

Ég bar tómatana fram á hvolfi og skreytti með myntu sem ég skar til í hjarta. Rómó…

páskaliljur

Páskaliljurnar horfa út um gluggann og skilja ekkert í þessu íslenska sumarveðri.

Með þessu bar ég fram drykk sem var með svipuð element og rétturinn, þ.e lime og myntu til að vinna með bragðinu í réttinum. Einnig notaði ég eitt af því hráefni sem ég varð að nota, þ.e sykurinn.

Þessi drykkur verður á boðstólnum fyrir gesti og gangandi í sumar og heitir:

Velkomin í Hvalfjörðinn

 • Sykur
 • Lime
 • Fersk mynta
 • Ferskt engifer
 • Sódavatn
 • Hvítvín
 • Skvetta af Superberries djúsi frá the berry company.

Maukið saman myntu, sykur, lime og engifer, svipað og ef þið væruð að gera Mojito. Hellið saman við það hvítvíni, smá sódavatni og skvettu af berjadjúsi. Það mætti nota hvaða berjadjús sem er, Pomegranate djús væri eflaust rosalega góður líka.

Advertisements