Að elda allar uppskriftir upp úr einni matreiðslubók. Fyrsti rétturinn…

by soffiagudrun

Og nú er ég komin með rauðvín í glas og hér hefst ritgerðin (og lesturinn fyrir ykkur, mæli með vínglasi  á meðan þið rúllið yfir þetta….nema þið séuð í vinnunni)
Og þá hefst lesturinn…

Það hefur verið í tísku undanfarið að taka fyrir eina matreiðslubók og elda allar uppskriftirnar sem í bókinni eru. Eins og margir kannast við m.a frá myndinni Julie and Julia.

Með metnaðarfyllri verkefnum af þessum toga er án efa þessi kona sem ætlar að elda allar uppskriftir úr Alinea.

Ég keypti mér þessa bók, Alinea, og hún er listaverk út í gegn með fullt af spennandi uppskriftum og skemmtilegum útfærslum.
Það hefur stundum hvarflað að mér að ráðast í svona verkefni.  Sérstaklega þegar ég hef verið að hjakkast í sama farinu, þ.e elda sömu réttina, nota mikið sama hráefnið og verið andlaus í eldhúsinu.

Og þá hefur valkvíðinn komið til sögunnar, hvaða matreiðslubók maður ætti að taka fyrir.
Nú finnst mér ég einmitt búin að vera að elda svipað og mig langar mikið til að fara að prófa nýjar uppskriftir.
Ég er oft hrædd við að prófa sumar uppskriftir því þær hljóma kannski ekki nógu vel eða virðast flóknar.

Ég var að kíkja á þær matreiðslubækur sem ég á og ein af þeim sem mér finnst spennandi en er ódugleg að elda upp úr er með fyrstu bókum Jamie Oliver, Kokkur án klæða.

Uppskriftir eins og ravioli með hestabaunamauki, myntu og ricotta eða snöggmaríneraður heilbakaður leirslabbi með balsamikediki og stökku marjora hljóma spennandi en hráefni eins og brenninetlur og hjólkróna hafa gert það að verkum að ég nenni ekki að prófa þær uppskriftir. Ég hef reyndar aldrei heyrt talað um leirslabba, veit ekki ef ég hvort ég fæ hann út í fiskbúð.
Þannig að það er bara að taka ákvörðun.  Sumar bækur sem ég á eru of einhæfar, t.d einungis fiskiréttir eða pasta eða þá frá ákveðnum löndum t.d indverskt (ég gæti nú samt alveg borðað indverskt á hverjum degi í nokkra mánuði 🙂

Bókin hans Jamie er með mjög fjölbreyttan mat, fisk, kjöt, súpur, pasta og grænmeti.  Það er oft skemmtileg samsetning á hráefni og oftar en ekki hráefni sem ég nota sjaldan eða aldrei.  Þannig að það væri góð áskorun að elda upp úr þessari bók.  Ég á aldrei eftir að elda allar þessar uppskriftir en ég ætla að minnsta kosti að reyna að elda helminginn og bara gefa mér góðan tíma í þetta, þess vegna nokkur ár 🙂

Fyrsta uppskriftin sem ég ætla að elda er hörpudiskur. Og svona fór þetta hjá mér…
Í fyrsta lagi á ég greinilega erfitt með að elda eftir uppskrift nákvæmlega, mig langaði strax að gera breytingar. EN ég ákvað að halda mig við uppskriftina, þannig myndi ég kannski læra eitthvað nýtt og leyfa því hráefni sem í uppskriftunum eru að njóta sín …eins og kokkurinn hannaði þær.
Og viti menn.  Þessi samsetning var bragðlaukaveisla!
hörpudiskur
Hörpudiskur með salvíu, beikoni og puy baunum. (Fyrir 2)

 • 6 beikonsneiðar
 • 6 hörpudiskar
 • 1 msk ólífuolía
 • 8 fersk salvíublöð
 • Salt og pipar
 • Safi úr hálfri sítrónu
 • 4 msk linsubaunir, gufusoðnar með hvítlauk og rósmarín í kjúklingasoði *
 • 2 lúkur af salati (það sem þið eigið eða ykkur finnst gott)
 • Salat olía (sjá uppskrift hér fyrir neðan

það mætti líka sjóða puy baunirnar í vatni og sleppa öllu tilstandi!  Þetta er það bragðmikill réttur.  (Ég gerði það því ég fattaði of seint að þetta voru fyrirfram soðnar baunir úr bókinni, sem ég á því eftir að prófa síðar).

Steikið beikon á pönnu, rétt í lokin bætið þið við salvíu og steikið hana í 2 mín.  Setjið á eldhúspappír til að draga í sig fitu.  Salvían verður stökk og flott.
hörpudiskur
Steikið hörpudisk á sömu pönnu og beikonið (funheitri), skvettið smá ólífuolíu á pönnuna áður.  Steikið hörpudiskinn í 1-2 mín á hvorri hlið.  Kreistið sítrónusafa yfir hörpudiskinn í miðjum eldunartíma. (Þá á hann að brúnast betur)
puy
Hitið upp soðnu puy baunirnar á pönnunni.
Veltið salati upp úr dressingu, setjið á disk.  Raðið ofan á það hörpudiskinum, beikoni og salvíu og svo puy baunum.
Berist fram stax.

Salatdressing
 • 1 msk sítrónusafi
 • 2 msk ólífuolía
 • Salt og pipar

Blandið vel saman.
brauð

Svo gerði ég örsnöggt brauð.  Leyfði geri, sykri og volgu vatni að freyða í 5 mín.  Bætti þá við hveiti og fjölkornablöndu.  Hrærði því saman með gaffli í eina mínútu.  Lét það hefast í tæpan hálftíma.  Hrærði upp í því með smá hveiti …með gafflinum. (Nennti ekki að skíta út puttana).  Mótaði það eins og baguette, penslaði með eggjahvítu og stráði yfir meiri fræjum.

Bakaði í 220°c ofni í 20 mín.

Hlutföll í brauði sirka… (mældi þetta ekki nákvæmlega)

 • 2 tsk ger
 • 1 tsk sykur
 • 1/2 glas volgt vatn
 • (láta freyða)
 • Bæta við 1 glasi af hveiti og hálfu vatnsglasi til viðbótar
 • Strá út í fræjunum.  Hræra þessu saman með gaffli.  Bæta við hveiti eftir þörfum.

Og hvernig smakkaðist svo herlegheitin?  Fyrsti rétturinn af mörgum… MJÖG VEL!  Þetta var rosalega gott.

Sumir myndu líta á þetta sem forrétt en ég bar þetta fram sem aðalrétt.  Með brauðinu sem var étið upp til agna þá dugar þetta okkur sem aðalréttur.
Þannig að þetta er flottur forréttur, þá miðað við t.d 2 hörpudiska á mann með 1-2 sneiðum af beikoni.  Og ekki spurning, súper góður léttur aðalréttur.

beaujolais
Með þessu bar ég fram George Dubæuf, Beaujolais.  Mig langaði meir í rauðvín en hvítvín. Hvítvín fer þó sérlega vel með þessum rétti.
Og lærði ég eitthvað á þessu?
Já.  Hörpudiskur, salvína og beikon fer mjög vel saman.  Puy baunirnar fóru sérlega vel með réttinum.  Sítróna!  Þarf að nota hana meira.
Kærastinn sagði:  Þetta var fáránlega gott!
Ég á eflaust eftir að bjóða gestum upp á svipaðan rétt.

Advertisements