Íslenskur matur og íslenski kúrinn

by soffiagudrun

Hvernig mynduð þið svara þessum spurningum?

  • “What are the typical Icelandic foods?”
  • “Does the Icelandic kitchen have some impacts from some foreign country?”

Í tilefni þess að Eistland fékk sjálfstæði fyrir 20 árum og að íslendingar voru fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði þeirra var haft samband við mig hjá eistnesku matarvefriti og ég svaraði nokkrum spurningum um íslenskan mat.

Hér má lesa viðtalið en þeir sem kunna ekki eistnesku en vilja lesa þetta geta nýtt sér google translate 🙂

Ég gaf þeim uppskrift af rúgbrauði og plokkfisk.  Þeim fannst það mjög áhugavert að hægt sé að baka rúgbrauð í heitum hverum.

Hér eru tvær uppskriftir af plokkfiski, ekki alveg þessi hefðbundna uppskrift.  Ég mæli sérstaklega að prófa plokkfisk með byggmjöli, íslenskara verður það ekki.

Plokkfiskur með vorlauk

Plokkfiskur með byggmjöli

Það er búið að vera mikið í umræðunni einhverskonar íslenskur kúr, þar sem einungis er borðað íslenskur matur.  Ég hef ekki enn séð út á hvað sá kúr gengur og hversu nákvæmt farið er eftir því hvað sé íslenskt hráefni.

En þessi matarkúr er eflaust ágætur ef farið er fremur nákvæmt eftir honum því þá þarf að útiloka allt sælgæti, kex, gosdrykki, keypt brauð því hvítt hveiti er ekki íslenskt (Kornax flytur inn sitt mjöl) og ekki er ræktaður sykur hér á landi svo fátt eitt sé nefnt.

Eins getur maður ekki verslað sér skyndibita eða farið út að borða því eflaust er eitthvað ekki svo íslenskt þar á borðum, t.a.m flest grænmeti, hveiti, krydd osfv.  Því mér finnst að ef maður er í “íslenska kúrnum” að þá geti maður ekki borðað papriku frá Hollandi, þótt svo hægt sé að rækta slíka hér.

bygg

Ég gerði einmitt tilraun síðasta janúar þar sem ég eldaði nánast eingöngu úr íslensku hráefni.  Það var mjög fróðlegt og ég mæli með því að fólk prófi það.  Eins og ég segi þá útilokar maður sykur og flest allt hveiti, nema byggið og heilhveitið frá Vallarási og Þorvaldseyri.

Ég nýtti mér byggið mjög mikið þegar ég stóð í þessari tilraun, sem og borðaði ég mikinn fisk og verslaði eingöngu íslenskt grænmeti.

fiskur og kartöflur

Það sem er einnig skemmtilegt við þessa tilraun, að elda úr íslensku hráefni, er að eldamennskan er yfirleitt einföld.  Ég hef sjaldan haft jafn oft einfaldlega FISK OG KARTÖFLUR á borðum og þennan janúarmánuð.  Soðin fiskur, soðnar kartöflur og smjör!  Eitthvað sem mér finnst ekki mest spennandi í heimi en samt lúmskt gott og nauðsynlegt öðru hvoru.

Það er t.d hægt að gera klatta úr íslensku hráefni og barasta sleppa sykri og lyftidufti.  Byggmjöl, byggflögur, skyr, mjólk, smjör og egg.

Hér eru svo fleiri uppskriftir sem ég gerði þar sem ég nota eingöngu íslenskt hráefni:

Lasagna – eingöngu íslenskt hráefni

Byggklattar – mætti sleppa matarsóda

Steikt ýsa – ýkt steikt ýsa

Advertisements