Bláberjakaka með “crumble”, sérlega góð með ís

by soffiagudrun

Mér finnst epla eða bláberja crumble svo gott með ís.  Ég bjó til þessa bláberjaköku um daginn og ofan á er crumble.  Í staðin fyrir að nota haframjöl eða hveiti í “crumblið” þá notaði ég musli.  Það var mjög gott.

Þetta er svolítið sæt uppskrift, ég mun eflaust minnka sykurmagnið næst, sérstaklega ef hún er borin fram með ís.

bláberjakaka

Bláberjakaka með crumble

 • 60 g smjör
 • 3/4 bolli sykur
 • 1 egg
 • 1/2 tsk vanilla
 • 2 bollar hveiti
 • 2 1/4 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 3/4 bolli mjólk
 • 2 bollar bláber, fersk eða frosin

“Crumble”

 • 80 g smjör
 • 1/2 bolli sykur
 • 1/2 tsk kanill
 • 1/2 bolli ykkar uppáhalds musli (eða t.d 50/50 hafrar og hveiti)
 • 1/4 tsk salt

1 bolli er 2,4 dl

bláberjakaka

Blandið saman smjöri og sykri, gott að vera með smjör við stofuhita eða skera það smátt.

Bætið við eggi og vanillu.  Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti og blandið því við smjörblönduna, hellið mjólkinni saman við og hrærið saman.

Blandið berjunum varlega við deigið.

Setjið það í smurt form.  Mitt var um 20 x 30 cm.

bláberjakaka

Crumble:

Skerið smjörið í teninga.  Setjið allt hráefnið í skál og klípið það saman með puttunum.  Myljið það svo yfir bláberjadeigið í forminu.

Bakið í 40 – 50 mín við 180° c.

bláberjakaka

Mér finnst þessi svo góð með ís.  Einnig hægt að bera hana fram með rjóma eða bara eina og sér.

Ef þið notið musli sem er búið að sæta, minnkið þá sykurmagnið í crumble kannski um helming eða svo, en það fer kannski líka svolítið eftir því hversu miklar “sætutennur” fólk er.