Heimagerðar vorrúllur og vorrúlludeig

by soffiagudrun

Ég er að verða óþolandi í öllu þessu heimagerða, en það er ekki fyrr en ég fer að rækta og mala mitt eigið hveiti sem ég verð sátt…

Nei, ekki alveg.  Það er samt gaman að prófa að gera heimalagað frá grunni.  Maður lærir ýmislegt á því og þá oftast hvað það er auðvelt að gera hlutina, stundum ögn tímafrekara en að grípa í tilbúið en yfirleitt alltaf þess virði þegar uppi er staðið, sérstaklega hvað bragð varðar.

Það er leikur einn að gera deig fyrir vorrúllur. Heimagerðar vorrúllur eru lostæti. Ég gerði fyllingu sem var að minnsta kosti ótrúlega góð.

Með þessu verður að vera heimagerð Thai sweet chili sósa.

Passið ykkur bara á að vera ekki í stressi að rúlla upp vorrúllunum, gefið ykkur góðan tíma í það. Ég hefði mátt vanda mig ögn betur, bara svona upp á presentatioooon. En útlitið að þessu sinni hafði engin áhrif á bragðið.

vorrúllur

Vorrúllur (fyrir 4)

Deig

 • Hveiti, magnið er eins mikið og þarf til að fá gott, mjúkt klísturslaust deig.
 • 1.5 dl vatn
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1 tsk salt
Hnoðið ofantöldu vel saman þar til þið fáið mjúkt og gott deig.

Fylling

 • 2-3 gulrætur
 • 3-4 vorlaukar
 • 1 rauð paprika
 • 2-3 rif hvítlaukur
 • 2-3 msk ferskt engifer
 • 1 lúka af sveppum
 • 1/4 haus kínakál
 • Ferskt kóríander, góð lúka
 • Skvetta af soyasósu
 • 1-2 msk sweet chili sósa

Skerið grænmetið fínt, t.d í mjóa stutta strimla og saxið kálið.  Raspið engifer og hvítlauk.  Steikið allt ofantalið á wok pönnu.  Bætið við chili sósu og soya.  Bætið við kóríander í lokin. Leggið grænmetisblönduna til hliðar.

vorrúllur

Rúllið út  deiginu mjög þunnt og skerið í ferninga (ca 10×10 cm).  Leggið 1-2 msk af grænmetinu á deigið og rúllið upp.  Hér er góð myndskýring á hvernig hægt er að rúlla upp vorrúllum ásamt góðum ráðum við að gera vorrúllur.

Steikið á pönnu eða wok í slatta af sólblóma olíu eða hlutlausri steikingarolíu, um eina mín á hvorri hlið.  Það er líka hægt að djúpsteikja þær alveg.

Hrísgrjón

Ég bar einnig fram hrísgrjón sem slógu í gegn. Þegar ég var búin að sjóða þau svitaði ég papriku og vorlauk á pönnu og bætti svo við hrísgrjónum, cashew hnetum, fersku kóríander og smá salti ásamt 2-3 msk af thaí sweet chili sósunni sem ég gerði.

sriracha sósa

Svo er mjög gott að hafa chili mayo með.  Það gerði ég með þvi að blanda saman sýrðum rjóma og sriracha sósu.  Það má líka nota mæjónes, heimagert að sjálfsögðu 😀

Advertisements