Íslenskur matur …nei, ekki “íslenski kúrinn”

by soffiagudrun

Við höfum tekið okkur til öðru hvoru hér á heimilinu og borðað eingöngu íslenskan mat, mánuð í senn. Já,ég hef talað um það áður, og nú er komið að því aftur. Það er mjög fróðlegt.  OG NEI! KEX FRÁ FRÓN ER EKKI ÍSLENSKUR MATUR.  Því það er hvorki ræktað og malað hvítt hveiti né ræktaður sykur hér á landi til að nefna fátt eitt sem kex inniheldur.

Fyrir mér er grænmeti sem er ræktað á Íslandi íslenskt, og kóríander frá Engi er nógu íslenskt fyrir mér.  Þótt svo að fræ paprikurnar hafi einhverntíma verið flutt til landsins þá er grænmetið sjálft ræktað hér heima og það er það sem ég sækist eftir.  Og það er kostur að borða mat sem hefur ekki ferðast um hálfan heiminn og maður veit lítið sem ekkert um hvað varðar framleiðsluferli og geymslu.

Það er nefnilega mjög fróðlegt að taka svona verkefni fyrir, að borða bara íslenskt.  Það sem ég er að læra núna er að finna íslenska sæta elementið.  Það er ekki mikið um það.  Enn sem komið er hef ég einungis fundið hunang sem ætti að teljast alíslenskt.

Ég væri til í að kynna mér nánar framleiðsluferli hunangs, eru býflugurnar kannski bara nærðar á DANSUKKER?

hunang

Hunangið sem ég keypti í Frú Laugu, og á því stóð frumraun…

Þannig að þegar uppi er staðið þá sleppir maður algjörlega hvítu hveiti og sykri ef maður borðar íslenskan mat og að sjálfsögðu allri unnri vöru og skyndibita.  (Ég myndi gera undantekningu ef ég væri að fara fínt út að borða samt 🙂

Sem betur fer er farið að framleiða heilhveiti og bygg.  Ég finn að ég er fremur háð því þegar kemur að matargerð.  En ég hef gert pizzur og pasta og bechamelsósu og margt fleira með bygghveitinu og það var mjög gott.

gulrætur

Vel lyktandi íslenskar gulrætur, sérvaldar…

Íslenskur matur

 • Mjólk og hreinar mjólkurvörur
 • Smjör
 • Ostur
 • Hreint skyr (NB HREINT, ekki eitthvað sykursull)
 • Egg
 • Tómatar
 • Sveppir
 • Agúrka
 • Paprika
 • Bygg
 • Heilhveiti
 • Hunang
 • Bláber
 • Fiskur
 • Kræklingur
 • Lambakjöt
 • Nautakjöt
 • Svínakjöt
 • Kjúklingur
 • Kartöflur
 • Fjallagrös
 • Rófur
 • Gulrætur
 • Kryddjurtir (ræktaðar t.d hjá Engi)
 • Salat

….svo fátt eitt sé nefnt.  Eins og þið sjáið þá er af nógu að taka og þetta er allt hollt og ferskt!

Það sem ég hef ekki íslenskt er til dæmis baunir, hrísgrjón, laukur, hvítlaukur, engifer, ávextir og ýmislegt grænmeti eins og eggaldin og fleira. Svo má ekki gleyma áfengi, ekkert íslenskt við rauðvín…

Fyrir ári síðan fjallaði ég um matargerð úr íslensku hráefni þar sem ég var að tala um þetta sama ef þið viljið kíkja á það.  Og svo talaði ég eitthvað meir um þettahér.

Ég læri eitt og annað um íslenska framleiðslu á matvælum þegar ég stússast í þessu, það er rosalega gaman.  Alla vega,ég mæli með þessu.  Þetta fær mann til að hugsa um það sem ofan í mann fer.

Ég minni enn og aftur á bókina hanns Michael Pollan, Mataræði, handbók um hollustu, auðveld og fljótleg lesning og margt áhugavert sem stendur þar og góð áminning um marga hluti.

Nú eru jólin búin, þetta var góður tími í skammdeginu. Enn og aftur, gleðilegt ár og munið að huga vel að mataræðinu.  Smá kaffi og smá rauðvín, hitt og þetta af og til og sitt lítið af öllu og eins og Michael Pollan sagði, mest af grænmeti!

hús

Og þá er komin tími á að taka niður jólatréð,ætli ég leyfi jólaseríunni

ekki að loga aðeins lengur í svartasta myrkrinu…