Jóladagatal Soffíu – 12 dagar til jóla

by soffiagudrun

Jóladagatal…12

Í gær vorum við með jólaglögg fyrir sveitunganágranna.  Það var gaman og góður matur og að sjálfsögðu gott glögg.

Á boðstólnum var meðal annars:

pate

Hreindýrapate og meðlæti

 • Hreindýrapate (fæst í flestum matvöruverslunum)
 • Súrar gúrkur
 • Steikt beikon
 • Sveppasósa
 • Rúgbrauð

Sveppasósan er sveppir, steiktir upp úr smjöri og hvítlauk.  Slatti af rjóma og smá sósujafnara.  Saltað og piprað.

Allt borið saman á borð, fáið ykkur rúgbrauð, setjið á það kæfuna, gúrku, beikon og sósu.

Sérrí sveskjur með beikoni

 • Sérrí
 • Sveskjur, þurrkaðar
 • Beikon
 • Valhnetur
 • Múskat

Ég er ekki með nákvæma uppskrift af þessum rétti, en málið er að leggja þurrkaðar sveskjur í sérrí yfir nótt.  Veltið valhnetubrotum upp úr múskati.  Stingið einu broti í hverja sveskju.  Vefjið utan um hana beikoni.  steikið á pönnu.  Það má einnig elda þetta í ofni.  Jólalegur réttur og mjög bragðgóður.

lax

Laxasamlokur

 • Fransbrauð
 • Reyktur lax
 • Rjómaostur
 • Graslaukur
 • Steinselja

Smyrjið brauð með rjómaosti og setjið laxinn ofan á, dreifið yfir smátt skornum graslauk.  Gerið samloku og skerið í þríhyrninga.  Smyrjið rjómaosti á endann á hverjum þríhyrningi og þrýstið honum í steinselju sem þið skerið mjög smátt.

panettone

Panettone var á borðum, mjög gott ítalskt jólabrauð. Það væri gaman að gera svoleiðis við tækifæri.  Ég á eftir að googla allt um Panettone.

Einnig var boðið upp á óheyrilega gott ris a la mande sem ég er ekki búin að fá uppskrift að, ætla að fá einkakennslu í gerð þess.  Svo voru tartalettur með hangikjöti sem slóu í gegn.

Og svo svona til að minna mann á að einfaldleikinn svíkur engan þá kom einn gesturinn með rækjusalat og ritz kex sem gerði mikla lukku og var étið upp til agna.

Þessa fann ég netinu, svoldið sætt.

jólaherðatré

Advertisements