Jóladagatal Soffíu – 20 dagar til jóla – Indverskt og Naan

by soffiagudrun

Heilræði við piparkökugerð:

Alveg dæmigert ég, skellti í piparkökudeig.  Kældi það, flatti út, skar deigið svo fyllti þrjár plötur.  Bakaði fyrstu plötuna til þess eins að komast að því að ég gleymdi að setja smjör í uppskriftina.  Enda fannst mér hún einstaklega þurr svo ég þurfti að setja skvettu af mjólk í deigið.

Kökurnar urðu extra harðar og því miður óætar, þannig að… ekki gleyma smjörinu!

Enn er ég að telja niður í jólin með jólalegum færslum og í dag langar mig að koma með hugmyndir að innpökkun sem ég hefir rekist á á netinu.

Ég sá þennan tvinna á einhverri síðunni og fannst hann svo fallegur, væri eflaust fallegur utan um einhverja pakkana.  Og viti menn, stuttu síðar rakst ég á hann í Barnabúðinni á Laugarveginum, ég gáði ekki að því hvað hann kostaði en mun gera það næst þegar ég á leið hjá og eflaust fjárfesta í honum ef mér blöskrar ekki verðið…

tvinni

Og hér er heimasíðan þeirra.

pasta pakki

Þetta eru sætir pakkar, með pasta slaufum, fyrir mataráhugafólk, nánar um þá hér.

indverskur matur

Við gerðum indverska matarveislu í gær með vinarfólki okkar.  Þau komu með alls konar krydd og fulla poka af mat.  Úr varð að við elduðum lambarétt og kjúklingarétt.  Ekki fórum við sérstaklega eftir uppskriftum heldur gerðum við bara “eitthvað” með hliðsjónsjón af fyrri reynslu í eldun á indverskum réttum.

Við vorum með það sem er mikilvægast í indverskri matargerð, góð krydd.  Við byrjuðum á að fá fram bragðinu í kryddunum með því að hita þau í olíu á pönnu.  Svo fór lambið á eina pönnu og kjúklingurinn á hina.

Og því næst tómatar, jógúrt og grænmeti með lambinu og maukaðar cashew hnetur, kúrbítur og tómatar með kjúklingnum.

Svo var fullt af fersku kóríander, hvítlauk, engifer og chile.

Í hrísgrjónin fór eitthvað af kryddi og svo goji ber, það var mjög gott.

Og að sjálfsögðu var heimalögðu raita og heimagert mango chutney.

Raita

 • 2 dl AB mjólk
 • hálf agúrka, gróft skorin
 • hálfur rauðlaukur (rokkar) fínt skorinn
 • 1 tsk garam masala
 • ca 2-3 tsk Maldon salt
 • Sett í kæli í svona hálftíma.

Naan brauðið heppnaðist einstaklega vel.  Ég notaði pizzu grill aðferð Hestons sem ég bloggaði um hér þar sem ég set ofninn á grill og hef brauðin eins nálægt grill elementinu og ég get.

naan

Og hér er naan brauðið

 • 2 tsk ger
 • 4 msk volg mjólk
 • 2 tsk sykur
 • 1 egg
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1/2 kg hveiti
 • 1 dl ab mjólk
 • Vatn eftir þörfum

Ég byrjaði á að leysa gerið upp með volgri mjólk og sykri í kitchen aid skálinni minni.  Bætti því næst hveitinu, eggi, lyftidufti, ab mjólk og setti hrærivélina í gang.  Svo bætti ég við vatni þar til ég var komin með mjúkt og fallegt deig. (Ég reyndar blandaði saman ab mjólk með vel volgu vatni og hrærði það smá saman, byrjaði á að setja út helminginn af því og svo restina smám saman þar til ég var ánægð með áferðina.  Ætli ég hafi ekki verið með um 1.5 dl af vatni út í ab mjólkinni. Og svo áttiég ekki mjólk, þannig að ég leysti gerið upp með smá ab mjólk og heitu vatni svo úr varð volg blanda)

Mér fannst koma vel út að setja egg í deigið.

Svo flatti ég þetta út, svona eins og naan lítur yfirleitt út.  Við vorum með mjög góðan chile, ekki of sterkan en þó með góðu bite-i.  Þannig að við skárum hann smátt og svo potaði ég því hér og þar í naanið.  Svakalega gott.  Og um leið og naan brauðið kemur úr ofninum, setið þá smjörklípu á það svo hún bráðni yfir brauðið.