Besti eftirréttur sem ég hef smakkað langa lengi, kókós desert

by soffiagudrun

Þetta er einn besti eftirréttur sem ég hef smakkað. Ég smakkaði hann fyrst hjá bóndakonunni á Hálsi og fékk að sjálfsögðu uppskriftina.

Ég lét svo vaða í að prófa hann núna um páskana, sem eftirrétt á Páskadag.  Ég var með svo miklar væntingar og vissi svo sem ekki hvort hann yrði jafn góður hjá mér.  En, ég fylgdi uppskriftinni samviskusamlega og hann varð alveg jafn góður og sá sem lifði í minningunni.

Þannig að þessi uppskrift er skotheld og ég algjörlega gjörsamlega mæli með því að þið prófið þennan eftirrétt. Hmmmm, það sakar ekki að prófa!

Svona fallegur var eftirrétturinn hjá húsfrúnni á Hálsi

Kókós desert

  • 400 ml kókósmjólk í dós
  • 30 g kókósmjöl
  • 120 g sykur
  • 3 gelatin blöð
  • 400 ml rjómi
  • 2 msk ferskur sítrónusafi
  • 10 g vanillusykur (eða 1 tsk vanilludropar)

Kókósmjólk, kókósmjól, sykur, vanillusykur og sítrónusafi sett í pott og fengin upp suða.  Takið pott af hellu og látið standa í 5 mín.

Setjið kókósmjólkurblönduna í skál og bætið gelatíni við og hrærið því vel saman við, látið kólna í 40 mín.

Þeytið rjómann og blandið honum saman við herlegheitin.

Kælið inn í ísskáp í a.m.k 2 klst

Berið fram með rifsberjasósu eða einhverri góðri berjasultu. Svo er hægt að skreyta hann með rifnu góðu súkkulaði og blæjuberjum.

Ég notaði þessa uppskrift af sultu með.

Skógarberjasulta

  • 2,4 dl blönduð ber (frosin) ég notaði berjablöndu, jarðaber, hindber, bláber ofl.
  • 1/2 bolli sykur
  • 1/2 dl vatn

Allt sett í pott og leyfið suðu koma upp.  Látið þá malla við meðal hita í 10 mín.  Setjið sultuna í skál og leyfið henni að kólna.  Ef þið viljið hana hana maukaða þá skellið þið henni í blender (eða maukið með töfrasprota)