Leyndardómar kókóskúlunnar

by soffiagudrun

Ein af fáum uppskriftum sem ekki er hægt að nálgast svo auðveldlega eru kókóskúlur, svona eins og maður fær í bakaríinu.  Einn sem ég þekki gaf mér upp hið leynilega hráefni kókóskúlunnar sem gera kúlunar að því sem þær eru.  Og  það útskýrði líka afhverju þetta er ekki á almanna rómi.

Vínabrauðsafgangar og snúðar og annar bakarísmatur er skafinn upp úr gólfinu og hent í degið sagði hann.  Eins og ein orðaði það þá, ” Kókóskúlur eru sem sagt pulsur bakarísins”.

Það er kannski ofsögum sagt að hráefnið sé skafið upp úr gólfinu, ég held að mér hafi verið sagt þetta meira í gríni en hugmyndin var sú að mauka afganga eins og af gömlum vínarbrauðum og öðru sætabrauði sem selst ekki eða er afskurður og annað og nota í kókóskúlur.  Er það fjarri lagi?  Gæti þetta verið hið leynilega hráefni?

Ég finn hvergi uppskrift sem gæti orðið eitthvað eins og bakarís kókóskúlur.  Og forðið mér frá uppskriftinni sem maður notaði sem barn, flórsykur, haframjöl, kakó….

Ég bjó til kókóskúlur um helgina.  Þær voru góðar, runnu út eins og kaldar kókóskúlur, ég rétt náði að mynda 3 síðustu.

En þær voru samt ekki eins og það sem mig langar að ná fram.  Í alvöru, það vantaði tveggja daga gamla vínarbrauðið.

kókóskúlur

Góðar kókóskúlur, en ekki þessar einu sönnu…

  • 2-3 msk smjör
  • 2-3 msk mjólk
  • 120 – 200 g 70% súkkulaði, suðusúkkulaði  eða annað gott  súkkulaði
  • 1 msk kakó
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 msk romm
  • 300 g marsípan
  • 3-4 dl haframjöl
  • 2-3 dl kókós
  • 3-4 msk flórsykur

Hitið saman í potti smjör, mjólk, súkkulaði, kakó og vanilludropa þar til súkkulaðið er bráðnað..  Bætið út í í lokin smá rommi.

Setjið marsípan, haframjöl, kókós og flórsykur í matvinnsluvél.  Hellið vökvanum saman við og mixið vel saman.

Ég setti aðeins of mikið af mjólk þannig að deigið mitt var mjöööög blautt.  Ég vildi ómögulega setja meira haframjöl þannig að ég endaði á að nota deigið svona mjúkt og velti því upp úr kókósmjöli um leið og ég mótaði úr því kúlur.  Það virkaði mjög vel.

ÞANNIG AÐ…. ef ykkur finnst deigið ykkur of mjúkt, örvæntið ekki, leyfið því vera þannig að notið kókósmjöl til að rúlla því í kúlur.  Þegar þær fara svo í ísskáp þá harðna þær.

Eins og þið sjáið þá er uppskriftin ekki mjög nákvæm, ég gerði bara eitthvað, byrjaði á að velja hráefnið sem ég vildi nota og setti svo smá af þessu og smá af hinu og svo aðeins meir af þessu, þar til ég var komin með eitthvað sem smakkaðist ágætlega. Ég á eflaust eftir að leika mér með þessa uppskrift til að reyna að gera hana enn betri.

Ef einhver lumar á góðri “bakarís” kókóskúluuppskrift  þá má hinn sami gjarnan deila henni með okkur hinum : )

Advertisements