Myntu og melónusalat – Kona kærir Nutella, hélt að súkkulaðihnetusmjörið væri hollt

by soffiagudrun

“Ég stóð mig að því um daginn að kaupa Svala af því að tveggja ára dóttir mín vildi fá appelsínu með augu og munn að spila á gítar. ”

Það var kona í Bandaríkjunum, en ekki hvar, að lögsækja Nutella.  Hún var búin að vera að gefa fjögurra ára dóttur sinni Nutella súkkulaðihnetusmjörið í morgunmat haldandi það eftir að hafa séð auglýsingu frá þeim að þetta væri hollt.  Ætli hún fari ekki svo á MCdonalds til að gefa dóttur sinni kjöt með kartöflum og sósu í kvöldmat.

Í alvöru?  Og ekki bara það heldur vann hún málið.  Ég hef ekki kynnt mér lagalega hlið málsins en skil ekki hvernig henni tókst að vinna mál, þar sem það fer ekki milli mála á innihaldslýsingu krukkunnar að þetta er ekki hollt.  Fyrir utan það, síðan hvenær er unnin súkkulaðivara holl hvað þá vara framleidd af sælgætisfyrirtæki (Ferrero)?

Hér fann ég smá klausu um málið ásamt auglýsingunni, sem er með engu móti villandi.  Þarna talar móðirin um hvernig hún geti fengið börnin sín til að borða morgunmat, ekkert um að það sé hollur morgunmatur.

En þetta er víst svona í Ameríku.  Margt fólk tekur enga ábyrgð á sjálfu sér og lætur mata sig af endalausri markaðsetningu án þess að hugsa.

Þetta er kannski skárra hér á Íslandi en samt til staðar.  Ég stóð mig að því um daginn að kaupa Svala af því að tveggja ára dóttir mín vildi fá appelsínu með augu og munn að spila á gítar.  Hún hafði í sjálfu sér engan áhuga á innihaldinu en umbúðirnar heilluðu miklu meira en umbúðirnar á Trópí, sem er mun betri vara.  Þetta geri ég ekki aftur, að láta fyrirtæki sem selur bölvaða óhollustu í krakkavænum umbúðum stjórna mér, ….hvað þá að láta krakkann stjórna mér svona. 🙂

Hér er mynd sem útskýrir afhverju mér finnst Trópí betri en Svali, og fyrir utan sykurmagnið í Svala þá eru það öll gerviefnin, sýrur, bragðefni og ég tala nú ekki um aspartam.  

Svo eru örugglega einhverjir sem gefa börnunum sínum Skólajógúrt eða Engjaþykkni og halda að það sé hollt. 

En næg predikun um hvað sé hollt og hvað ekki.  Það verður hver og einn að vera í stíl við sjálfan sig.  Á mínu heimili er ekki drukkið gos og ekki keyptur svali eða aðrir gerfiefnadrykkir.  Ég kaupi Appelsínutrópí, og meir að segja þennan dýrari sem er framleiddur úr appelsínusafa en ekki þykkni. 

Að sjálfsögðu stefni ég að því að kreista minn eigin appelsínusafa úr appelsínunum hjá Frú Laugu, eingöngu… 🙂 

Ef ykkur langar í ferskt salat þá er þetta málið.  Það verður vart ferskara.  Þrátt fyrir óhefðbundin hráefni þá passar þetta svo vel með ýmsum mat.  Meir að segja pizzu.

melonusalat

Myntu og vatnsmelónu salat

  • Vatnsmelóna
  • Mynta
  • Hreinn fetaostur
  • Góð ólífuolía
  • Salt eftir smekk

Skerið melónu í ferninga, svona litla munnbita, skerið fetaostinn í litla ferninga eða mjög litla bita, hálfgerða mylsnu, mér finnst það mjög gott.  Saxið myntuna fremur fínt.  Blandið öllu vel saman í skál og dreypið smá ólífuolíu yfir (en bara ef hún er bragðgóð og alvöru).  Saltið ef þið viljið og þá bara eftir smekk.

Advertisements