HVERNIG Á AÐ VERSLA Í STÓRMARKAÐI? – Eplakaka – 4 hráefni! AÐEINS FJÖGUR

by soffiagudrun

Það var nokkuð gott sem Michael Pollan talaði um í einni bókinni sinni um hvernig stórmarkaðir eru byggðir upp. Og sú lýsing smellpassar við stórmarkaðina hér á Íslandi.

Ég man ekki nákvæmlega hvernig hann orðaði þetta en málið er að versla “hringinn í kringum búðina”, allt sem er meðfram útveggjum búðarinnar því þar staðsetja þeir ferskmetið, mat sem hefur ekki hillulíf upp á marga mánuði.

Ef ég skoða t.d hvernig Krónan er uppbyggð þá stemmir þetta. Maður byrjar á fersku grænmeti og ávöxtum, færir sig svo í fiskinn og kjötið. Því næst tekur við egg og mjólkurvörur.

En þá er þetta líka komið. Svo fer maður “inn í búðina” einstaka sinnum til að ná sér í hreinlætisvörur, hveiti og sykur og annað hráefni sem geymist í “búrinu” hjá manni.

Annað sem er í hillurekkunum og frystikistum eru meir og minna unnar vöru, þessar fersku eru meðfram allri búðinni. Og þar á maður að versla.

HEIMABAKAÐ ER BEZT

Þessi kaka var of einföld til að prófa hana ekki. Hún hvarf liggur við um leið og hún kom úr ofninum.

Það er hægt að bera hana fram með ís (munið bara að nota heimagerða ísinn…) eða rjóma, en hún svínvirkar líka svona ein og sér, og nei ég stráði engum kanil eða sykri ofan á hana. Það var ekki í uppskriftinni.

Hveiti, sykur, egg, epli…kviss bamm búmm. Ég mæli algjörlega með þesari næst þegar ykkur vantar eitthvað maul með kaffinu.

Ég var að maula á því litla sem var eftir nú daginn eftir og hún var alveg jafn góð og í gær, mjúk og fín. Þannig að það væri hægt að henda í hana að kvöldi til og koma svo með hana í vinnuna dagin eftir handa vinnufélögum næst þegar að þið eigið að sjá um bakkelsi.

Einföld eplakaka

  • 1 1/3 bolli hveiti
  • 1 bolli sykur
  • 3 egg
  • 3 epli

Afhýðið og skerið eplin í bita.

Þeytið saman eggjum og sykri með rafmagnsþeytara í ca 2 mín.

Bætið við hveitinu í skálina og hrærið með trésleif (eða plastsleif) Ég notaði sleif og það tók ekki meir en mínútu að blanda þessu vel saman. (Það á semsagt ekki að hræra hveitinu saman við með rafmagnsþeytara).

Setjið eplin í kökuform sem hefur verið smurt að innan og hellið deiginu yfir eplin.

Bakið í ofni við 200°c í 5 mín. Lækkið þá hitann niður í 180°c og bakið í 30 mín, eða þar til kakan verður gullinbrún.

Það er búið að vera svo yndislegt að fylgjast með nátturunni vakna til lífsins í sveitinni. Maður vaknaði sjálfur til lífisins nú þegar það fór að hlýna aðeins og maður gat verið úti að sinna vorverkunum. Á heimimleið keyrðum við fram hjá einu túninu þar sem kálfarnir voru að taka sín fyrstu skref, á næsta túni voru það folöldin og síðsast en ekki síst voru litlu lömbin nýkomin í heiminn.

Má maður vera væmin í friði og nei ég ætla sko ekki að koma með uppskrift af Lambakássu núna 🙂

Advertisements