Flatkökur

by soffiagudrun

Ég var að lesa á umbúðir á flatkökum sem fást út í búð en röð innihalds fer eftir magni og á öllum pökkum sem ég hef lesið er alltaf meir af einhverskonar hveiti en rúgmjöli. Ein innihaldslýsing var hveiti, haframjöl, rúgmjöl. Fjallagrasaflatkökur innihalda ekkert rúgmjöl.

Það er mjög mismunandi innihaldslýsingar á flatkökupökkum eftir framleiðanda þannig að endilega lesið á umbúðirnar til að vita hvað þið eruð að versla.

Allar uppskriftir að flatkökum sem ég hef lesið innihalda mest af rúgmjöli þannig að ég gerði bara ráð fyrir að mest væri af rúgmjöli í þessum út í búð, en það útskýrir hvers vegna flatkökurnar út í búð eru “mýkri”. Ég fann það þegar ég var að laga hlutföllin hjá mér að þær urðu viðráðanlegri ef meira var af hveiti, ég nota heilhveiti.

Ég hef þróað mig áfram með hlutföll og þær eru mýkri ef maður notar annað hveiti með rúgmjölinu. Flatkökurnar mínar innihalda þó alltaf meir af rúgmjöli en öðru mjöli.

Eini gallinn við flatkökugerð er að það kemur svo mikill reykur hjá mér þegar ég byrja að baka þær.  Það verður því ljúft þegar það kemur gott veður næst að skella sér út á hlað með litla sumarbústaðarofninn og henda í nokkrar flatkökur. Það mætti líka setja þær á grillið.

Á Brauðbrunni má sjá frábært video sem sýnir flatkökugerð.  Ása Ketilsdóttir er greinilega búin að mastera flatkökugerð en hún notar eingöngu rúgmjöl en fletur það svo út með hveiti.

Það væri gaman að prófa uppskriftina hennar Ásu og nota natrón, smá sykur og salt.

Það er með flatkökur eins og margar aðrar uppskriftir, engar tvær eru eins.  Ég sagði ykkur frá uppskriftinni í bókinni Matarást ekki alls fyrir löngu og hún er ágæt,  en hún hljómar svona:

Flatkökur

  • 200 g rúgmjöl
  • 100 g heilhveiti
  • 2 1/2 dl sjóðandi vatn
  • 1/2 tsk lyftiduft

Blandið öllu vel saman, og vatninu smám saman þar til þið eruð komin með gott deig.  Kannski þarf aðeins meir af vatni.

Skiptið því niður í kúlur sem þið rúllið út í flatar kökur.  Pikkið í þær með gaffli.

Eldið á heitri pönnu (t.d pönnukökupönnu) eða hreinni hellu.  Bakist í ca eina mín á hvorri hlið.

Setjið kökurnar ofan í skál með smá vatni í og svo í plastpoka eða geymið þær í blautu viskastykki, það er svo að þær þorni ekki.  Þegar þið hafið bakað þær allar geymast þær í plastpoka.