Heimagert smjör – 1 hráefni

by soffiagudrun

Það er ekkert praktískt fjárhagslega við að gera sitt eigið smjör en það er ótrúlega flott að sjá það gerast þegar rjómi verður að smjöri.

Þannig að ef þið hafið aldrei prófað að gera ykkar eigið smjör þá mæli ég með því að þið prófið það bara til að sjá ferlið og til að geta boðið gestum upp á heimagert smjör með heimabakaða brauðinu.

Þetta er einstaklega einfalt, ferlið tekur innan við 10 mínútur ef þið eigið  hrærivél.  Ég notaði Kitchen aid, fyrst notaði ég þeytarann og svo spaðann.

Áður en ég fór í smjörgerð þá horfið ég á þetta video sem sýnir nákvæmlega hvernig þetta er gert.  Það má eflaust finna myndbönd sem sýna hvernig hægt er að gera þetta í matvinnsluvél eða með blender.

Heimagert smjör

  • 1/2 L rjómi

Þeytið rjóman í ca 3 mínútur eða þar til hann verður að smjöri og vökvinn (áfir) skilur sig frá.  Hellið honum frá. (Þið getið geymt hann og notað siðar, t.d í bakstur.)

Setjið ca dl af ísköldu vatni í skálina og þeytið með spaðanum í smá stund.  Kreistið vökvan reglulega úr smjörinu.  Því meiri vökva sem þið náið úr smjörinu því lengur eykst geymsluþolið segja þeir.

Eftir að hafa þeytt með spaðanum í smá stund þá er komið smjör, þið sjáið það strax þegar þið eruð ánægt með afurðina og getið látið staðar numið.  Þetta gerist mjög fljótt.

Nú er hægt að krydda smjörið eftir smekk og jafnvel blanda það saman með góðri óífuolíu í hrærivélinni.  Ég leyfði mínu vera hreint en saltaði það aðeins með Maldon salti.

Advertisements