Matur fyrir ungabörn – Hvað er tísku núna?

by soffiagudrun

Það vefst eflaust fyrir mörgum foreldrum hvað gefa eigi börnunum þegar þau fara að fá fyrstu alvöru fæðuna.

boy

Það er ekki langt síðan ég var í þessum vangaveltum með fyrsta barn og er nú aftur að velta þessu fyrir mér með annað barn.  Auðvitað byrjar maður á því að flækja hlutina því maður er að reyna að gera sitt allra allra besta þegar kemur að því að næra litla krílið sitt.

Ef þið nennið ekki að lesa alla færsluna þá er hér stutta útgáfan:

Stutta útgáfan…

Fiskur er víst rosa fínn fyrir 7. mánaða skv nýjustu rannsóknum.

Cheerios er skítur, Byggi er flottur

Borðum íslenskt, eldum mat frá grunni

Bökum brauð

Og sú langa… 

kartöflur

Ég var á því að kartöflur og fiskur væri góður matur.  Þetta hefur fætt íslendinga frá örófi alda.  Þetta er eitthvað sem landið gefur af sér og það er það fyrsta sem ég hugsa til, hvað vex í kringum okkur.

Kornið hefur verið lengi til.  Bygg er ræktað á Íslandi með góðum árangri.  Bygggrautur með íslensku smjöri er afbragðs fæða.  Ég byrjaði á hirsigraut fyrsta mánuðinn á meðan líkaminn var að koma sér í gang að byrja að melta eitthvað annað en móðurmjólkina.

En svo byrjar maður að google-a og þá byrja vandræðin.  Það má alls ekki gefa hveiti, það er svo mikill ofnæmisvaldur, það má alls ekki gefa fisk fyrsta árið og svo framvegis, ekkert má.

drekaávöxtur

En svo les maður að það sé svaka sniðugt að gefa Papya, kókósolíu, og eitthvað fleira sem er svo fjarri mér hér á litla Íslandi.

Þangað til…  Ég talaði við hjúkrunarfræðinginn um fiskinn góða og jújú, nú er búið að breyta.  Það má alveg gefa fisk.  Rannsóknir sem sýndu annað eru þá úreldar og nýjustu rannsóknir sýna að fiskur er fínn fyrir 7. mánaða börn og ekki sá ofnæmisvaldur sem menn héldu.

Jæja, segi ég þá.   Fiskur, kartöflur og íslensk smjör skal það vera, ÍSLENSKT SMJÖR en ekki kókósolía í krukku sem ég veit ekkert um… (miðað við ólífuolíu skandalinn)

gulraetur

Svo eigum við fullt af góðu grænmeti, paprikur, gulrætur, agúrkur, tómatar svo eitthvað sé nefnt.

Það þarf ekki alltaf að flækja málin.

rauðmagi

En eins og málin standa í dag þá á að vera í góðu lagi að gefa ungabörnum fisk, samkvæmt hjúkrunarfræðingi í ungbarnaeftirliti.

Það er mjög gott að hafa til hliðsjónar hvað sé ekki æskilegt því það er ýmislegt sem ekki ekki má gefa ungum börnum eins og til dæmis hunang og það er vitað mál og sleppa salti því nýrun eru óþroskuð.  Maður verður svo einna helst að hlusta á eigin sannfæringu.

Og svo í lokin þá er ég antí Cheerios manneskja.  Þar er afurð full af allskonar þótt þeir gefi sig út fyrir að vera rosa hollir, aðallega því þeir eru með minni sykur en margt annað morgunkorn.

Ástæðan fyrir því að ég útiloka Cheerios og amerísk morgunkorn er sú að það er hægt að dansa svo í kringum hlutina til að þeir hljómi hollir og FDA dansar með stóru fyrirtækjunum.  (ég er farin að hljóma eins og samsæriskenningaróð manneskja, o well).   Cheerios inniheldur Trisodium phosphate sem er notaði í þvottaefni og sápur, bragðefni, HFCS (High fructose corn syrup), svo hef ég heyrt að 8 g af 28 g séu whole grain.  Og þar sem FDA segir að MSG þurfi ekki að standa á vörunni þá er það eflaust til staðar.

Ég kaupi Bygga, hreinan og íslenskur í alla staði.  Þegar litlu dúllurnar eru farnar að æfa fínhreyfingar þá er upplagt að gefa þeim Bygga, frekar en Cheerios.  Og þá segja margir, en Byggi er eins og borða fréttablaðið á meðan Cheerios er gott, en afhverju haldiði að Cheerios sé svona “gott”?  Því það er allt sett í það til að kítla bragðlaukana og fá okkur til að kaupa meira og meira, því þegar allt kemur til alls þá snýst þetta um markaðsetningu og sölumennsku.

brauð

Á ég eitthvað að minnast á hversu frábært það er að baka sitt eigið brauð þar sem þú veist hvað fer í það.  Ég veit að mörg brauð út í búð nota til dæmis smjörlíki og heyrst hefur líka, tata… iðnaðarsalt 😉

Ef þið kaupið brauð spurjið bakarann hvaða hráefni hann notar.  Ég get mælt með súrdeigsbrauðunum frá Sandholt.

hveiti

Ég nota lífrænt hveiti, steinmalað frá ítalíu, hveiti sem ég treysti að sé gott.  Hvað er betra fyrir litlu angana en að narta í litla brauðmola, heimabakað með smá smjöri?

Þetta voru hugleiðingar dagsins, alltaf gott að hugsa “upphátt”.

Skál 😛 !

Advertisements