Endalausir skandalar

by soffiagudrun

Ég nenni nú ekki að fara út í þetta í löngu máli, en að engin af 16 sýnum hafi uppfyllt allar kröfur um merkingar er ansi slakt og að ekki hafi verið nautakjöt í nautakjötsböku…Það er ekki verið að eitra fyrir okkur en það er verið að blekkja okkur og ef þeir komast upp með það þá ganga þeir eflaust bara alltaf lengra og lengra.  Ætli þeir myndu þá ekki blákalt eitra fyrir okkur ef það sparaði krónur og aura.  Annað eins gerðist nú í Kína með þurrmjólk (FYRIR UNGABÖRN) og mörg dóu og hundruð þúsundir veiktust…Allt til að græða?

Eins og ég hef nú oft sagt þá eyði ég miklum tíma í eldhúsinu því ég geri nánast allt frá grunni og kaupi ekki  unnar vörur, engan pakkamat eða sósujafnara, kraft eða teninga… ég bý til nú samt alltaf Pig in a blanket með SS pulsum fyrir afmæli 😀

pulsur

Ég bjó til færslu fyrr á síðasta ári en birti hana aldrei.  Ég náði í hana núna því hún á ágætlega við í dag og hér er hún:

Smá breytingar – engir öfgar.  Hvað má betur fara? 10 dagar!

Það er hægt að gera ágætis breytingar á matarræði án þess þó að fara út í öfgar.  Og ef þið eruð eins og ég og eruð ekki að fara að elda úr agavesýrópi, spelti, kókósolíu og viljið baka pizzur úr venjulegu hvítu hveiti þá er hægt að gera ýmislegt til að leggja grunn að góðu matarræði.

Það eru margir sem nota mikið af tilbúnum mat að það er ágæt tilraun fyrir marga að prófa að sleppa því að kaupa pakkamat og tilbúin mat í 10 daga til að vera meðvitaðri um það sem maður borðar. 

Það gæti verið aðeins dýrara ein innkaup þegar maður er að koma sér upp smá matarbúri en ég hef tekið eftir því að verðið á matarkörfunni hjá mér er mun minni en áður eftir að ég fór að gera mest allt sjálf, eins og pasta, núðlur, ís, kex, sultur, sósur og fleira.

Það er mikil breyting og meiri vinna sem fylgir eldamennsku, en það getur verið gaman og  um að gera að virkja alla fjölskylduna í að elda og vera meðvitaðri um góðan mat.  

Með tilbúnum mat þá er ég til dæmis að tala um:

 • Allar sósur osfv í krukkum
 • Pakkamat 
 • Amerískt og önnur morgunkorn
 • SS pulsur
 • Frosin mat
 • Tortilla kökur
 • Granóla orkubar
 • Kjötfars
 • Pepperóní
 • Súputeninga
 • Kex og sælgæti 

… og svo mætti lengi telja.  

Mjólk, jógúrt, AB mjólk og skyr er í góðu lagi svo framarlega sem það er ekki með bragði.  Það er svipað og að kaupa nammi að versla svona Skóla-jógúrt, Engjaþykkni og hvað þetta allt heitir.  

Eitt einfalt skref í rétta átt er að versla hreinar mjólkurvörur og sæta þær sjálfur með smá hunangi eða ávöxtum.   

 

Hollt og gott í 10 daga

 • Fyrst og fremst er það að kaupa engan tilbúin mat, hvorki í pökkum, krukkum, bökkum né frosinn.
 • Ekki fara út að borða eða take away.
 • Engar kökur eða kex nema maður geri það sjálfur
 • Ekkert gos, Svali og sykraðir ávaxtadrykkir eða nammi.
 • Hafa meirihluta fæðunnar grænmeti og fisk.
 • Ef þið bakið ekki brauð sjálf, kaupið góð brauð, ekki froðubrauð í stórmarkaði. 
 • Sleppið súputeningum, kryddum með msg osfv.
 • Borða eingöngu hreinar mjólkurvörur sem þið bragðbætið sjálf með ávöxtum (og sykri ef þið viljið).
Þannig að þetta þarf ekki að vera alslæmt, bara elda heima frá grunni, svona 90 %. Þó svo að eitt hamborgarabrauð slæðist á matseðil eða sinnep  þá er það í góðu lagi.  Ég ætla ekkert að segja um að það þurfi að vera hýðishrísgrjón í staðin fyrir hvít hrísgrjón eða heilhveiti í staðin fyrir hvítt hveiti.  Það finnur hver hjá sjálfum sér hvað hentar í þeim efnum…. Það er nóg að byrja á að sleppa tilbúnum og unnum mat.
Það sem á ekki heima á borðum þessa 10 daga er til dæmis:
 • Cheerios
 • Pulsa í pulsubrauði með tómatsósu
 • Frosin pizza úr stórmarkaði
 • Pasta með HUNT’S spagettí sósu
 • Tikka Masala með mangó chutney úr krukku
 • Burritos gert með salsa í krukku, kryddi úr pakka og Tortilla kökum í lofttæmdum poka
 • Kjötfarsbollur með brúnni sósu

Þegar þið farið næst að versla, horfið á hlutinn sem dettur ofan í innkaupakörfuna og spurjið ykkur. Er þetta unnin vara?

Ef þið vitið ekki hvað á að vera í matinn og lítill tími þá er fiskur og kartöflur með íslensku smjöri alltaf hollur og góður kostur. 🙂

 

 

 

 

Advertisements