Húsið við sjóinn

Foodwaves

Month: October, 2013

Brauðterta með reyktum laxi og rjómaosti

Ég bjó til brauðtertu fyrir eins árs afmæli sonar míns. Þegar maður er svona ungur þá er ekki í boði að háma í sig súkkulaðiköku þannig að ég ákvað að gera köku sem hann gæti fengið smá smakk af.

Í þessari uppskrift maukaði ég saman reyktum lax og sýrðan rjóma, að sjálfsögðu heimagerður sýrður rjómi. Maður smyr svo rjómaosti utan á brauðtertuna, en rjómaostur og reyktur lax passar svo vel saman.

Uppskriftin kemur upphaflega frá tímaritinu Saveur. Ég ákvað að nota brauðtertubrauð sem fæst út í búð en einnig er hægt að baka sitt eigið brauð og skera það í sneiðar, langsum.

Þetta endaði á að vera hin glæsilegasta terta og sómaði sér vel á hlaðborðinu og ekkert er til fyrirstöðu að stinga einu eða fleiri kertum á þessa brauðtertu ef það er afmælisbarn á staðnum sem vill blása.

01terta

Laxamauk:

  • 400 g reyktur lax

  • 100 ml mæjónes

  • 100 ml rjómi

Blandið saman reyktum lax, mæjónesi og sýrðum rjóma í blender eða matvinnsluvél.

Rjómaostablanda:

  • 300 g rjómaostur

  • 300 ml sýrður rjómi

  • 1 tsk salt

  • 1/2 tsk svartur pipar

Blandið saman rjómaosti og sýrðum rjóma með gaffli. Kryddið með salti og pipar.

Sinnepssósa:

  • 1 1/2 msk sykur

  • 1 1/2 msk Dijon sinnep, við stofuhita

  • 1 1/2 msk sætt sinnep, við stofuhita

  • 1/2 tsk salt

  • 100 ml góð ólífuolía, við stofuhita

Hráefnið í sinnepssósuna þarf að vera við stofuhita svo það skilji sig ekki. Blandið öllu saman og hrærið því vel saman t.d með gaffli.

Álegg milli laga og ofan á tertu:

  • 400 g reyktur lax

  • 2-3 soðin egg

  • 1/2 agúrka

  • Romaine salat

  • Steinselja, með flötum laufum

  • Smjör, 2-3 msk

02terta

Fyrsta lag:

Smyrjið laxamaukinu á brauðtertubrauðsneið og þekið svo með agúrkusneiðum.

03terta

Annað lag:

Smyrjið smá smjöri á næstu brauðtertusneið. Leggið svo laxasneiðar ofan á brauðsneiðina. Geymið nokkrar sneiðar til að skreyta tertuna. Smyrjið sinnepssósunni yfir laxasneiðarnar.

04terta

Dreyfið salati yfir laxinn og sinnepssósuna.

Gerið fyrsta og annað lag til skiptist miðað við hversu mörg lög þið viljið hafa, ég var með 5 sneiðar og því tvö lög af hvoru.

05terta

Nú kemur að því að draga fram listamanninn í ykkur. Ég skreytti með soðnu eggi sem ég skar í sneiðar, reyktum laxi, rækjum og steinselju. Þessi með flötum laufum kemur fallega út.

Byrjið á því að smyrja rjómaostblöndunni á allar hliðar kökunnar, svipað og ef þið væruð að smyrja köku með smjörkremi.

06terta

Ég bjó til rósir úr laxinum, það er mjög auðvelt, maður einfaldlega rúllar upp þunnum laxasneiðum.

07terta

Ég átti afgang af brauðtertubrauði og laxamaukinu og bjó til þríhyrningssamlokur úr afganginum.

08terta

Daginn eftir í blíðviðri fórum við í bíltúr um nágrenni okkar í Hvalfirðinum og enduðum á Bjarteyjarsandi. Þar er lítið notalegt kaffihús, það fannst geitinni.

10terta

Bókaskápurinn:

Nú er ég að lesa bók eftir Michael Moss sem heitir Sugar, salt, fat:How the Food Giants Hooked Us

Ég mæli eindregið með þessari bók, hún fæst einnig fyrir Kindle.

Heimagerður sýrður rjómi og Labneh

Sýrður rjómi passar svo vel með mörgu, hann fer sérstaklega vel með mexíkóskum mat, ef þið prófið að gera Huevos Rancheros sem ég talaði um í síðustu færslu þá er heimagerður sýrður rjómi fullkominn með þeim rétti.  Svo er hann góður í súpur, frábær með reyktum lax, kemur í staðin fyrir mæjónes í sósum og svo má setja hann út í pottrétti og ofnrétti.

Ég nota sýrðan rjóma mjög mikið, nema í staðin fyrir að kaupa hann út í búð þá bý ég hann til sjálf og það er einfaldasta mál í heimi og maður sparar meira að segja smá aur.

Ég helli AB mjólk í gegnum kaffipoka eða grisju þannig að mysan í AB mjólkinni lekur í gegn. Því betur sem þið látið mysuna leka úr mjólkinni því mýkri afurð fáið þið og þykkari.

Yfirleitt tekur það ekki meir en klukkutíma að fá ágætan skammt af sýrðum rjóma.  Alls ekki henda mysunni því það má nýta hana í ýmislegt.  Mysan er meinholl og próteinrík.  Til dæmis er hægt að nota hana í brauðgerð í stað mjólkur eða vatns, setja í smoothie og svo þykir hún góð sem fóður fyrir skepnur.

Heimagerður sýrður rjómi.

Sýrður rjómi

  • 2 dl Ab mjólk
  • Kaffifilter eða grisja


Setjið kaffipokann ofan í glas eða annað ílát og fyllið það af AB mjólk.  Leyfið mysunni að leka í gegn í klukkustund eða lengur, eftir því hvaða áferð þið viljið fá á lokaafurðina. Ef þið eigið kaffitrekkt, þá virkar það mjög vel.

Sýrður rjómi með mið-austurlensku ívafi.

Labneh
Í Mið-Austurlöndum er þessi aðferð þekkt sem Labneh og það má bragðbæta hann á ýmsa vegu.
Ef þið viljið bjóða upp á Labneh með mið-austurlenskum mat þá væri hægt að setja sýrða rjómann í skál og dreypa góðri ólífuolíu ofan á og eitthvað gott krydd eins og smátt saxaða steinselju og þurrkaðar chili-flögur.
Ég mæli með því að hafa það einfalt og leyfa góða bragðinu af jógúrtinni að njóta sín og fá svo kryddið úr réttunum sem borið er fram með Labneh.

Chili frá Frú Laugu.

Ég keypti svo fallegan chili-pipar í Frú Laugu, ræktaður hér á Íslandi og góður styrkur í honum.  Ég tók mig til og keypti heilan helling og þurrkaði hann og marði hann svo í flögur. Nú á ég fulla krukku af  dásamlega “ferskum” chili.

Huevos rancheros, besti morgunmatur í heimi, og egg elduð í muffinsformi

Næst þegar þið bjóðið í brunch þá mæli ég með Huevos rancheros. Þetta er mitt uppáhald, með slatta af jalapeno og fersku kóríander.
Farið nú og finnið einhverja góða vini eða fjölskyldumeðlimi og bjóðið þeim í Huevos ranchers brunch  fljótlega.
Svo þetta smakkist sem best þá verðið þið að nota ferskt kóríander, ferska heimagerða salsa, ferskt heimagert guacamole og heimagerðar nýsteiktar tortillur.

Já það þarf að hafa fyrir þessum rétti en það er hverrar mínútu virði þegar sest er til borðs, fáið ykkur bara smá Mímósu á meðan þið nostrið við matargerðina.

Besti morgunmatur í heimi

Til að gera gott Huevos rancheros þarf:

Svartar baunir, steiktar með góðgæti
Tómat salsa
Egg
Mossarella, ferskur
Guacamole eða bara avacado
Maís tortillur
Fullt af fersku kóríander
Sýrður rjómi

Besti morgunmatur í heimi

Svartar baunir

  • Svartar baunir, í dós eða soðnar
  • Græn paprika, smátt skorin
  • Laukur, smátt skorinn
  • Salt og pipar
  • Ferskt kóríander
  • Hvítlaukur, 2-3 rif pressuð
  • Ferskur jalapeno, smátt skorinn
  • Gott krydd.  Ég nota helst chilpotle í adobo sósu, og svo á ég líka þurrkað “smoked chilpotle” krydd.

Grænmetið skorið smátt og allt steikt á pönnu í góðri olíu, kryddað eftir smekk.

Besti morgunmatur í heimi

Ef maður er á annað borð að gera Huevos rancheros þá er nauðsynlegt að gera heimalagaða tómat salsa.

Tómata salsa

  • Tómatar, smátt skornir
  • Hvítur laukur, smátt skorinn
  • Ólífuolía
  • Ferskur eða niðursoðinn jalapeno, smátt skorinn
  • Ferskt kóríander, smátt skorið
  • Salt og pipar

Blandið öllu saman í skál.  Það er hægt að sleppa jalapeno ef þið viljið hafa hana milda.  Það er lykilatriði að vera með ferskt kóríander.  Einnig væri hægt að merja smá hvítlauk út í.

Besti morgunmatur í heimi

Egg

Ekki má gleyma eggjunum.  Það er sniðugt að baka eggin í muffinsformi í ofni ef maður þarf að elda mörg egg í einu.  Hafið ofninn á 190°c og fylgist vel með þeim, sérstaklega ef þið viljið ekki ofelda rauðuna.

Guacomole

Ég geri lítið annað en að stappa avocado gróft og salta hann vel.  Stundum saxa ég ferskt kóríander og blanda við.

Besti morgunmatur í heimi

Best af öllu er tortillur úr Masa harina hveiti, maíshveiti.  Ég held að Kostur selji Masa harina. En ef þið getið ekki nálgast Masa harina þá má nota venjulegt hveiti í staðin fyrir maís hveitið.

Maís tortilla

  • 5 dl Masa harina
  • 2,5 dl volgt vatn
  • 1-2 tsk salt
  • Ferskur chile pipar (má sleppa)

Setjið maíshveitið og salt í skál.  Bætið við volgu vatni eftir þörfum, ca 2,5 dl og hrærið saman þar til þið erum komin með mjúkt deig, það má vera svolítið blautt.  Búið til nokkrar kúlur á stærð við golfkúlu og fletjið þær út með því að leggja nestispoka sitthvorum megin við kúluna og þrýsta svo flötum diski eða skurðarbretti ofan á þær.  Leggið chili piparinn ofan á kökurnar og þrýstið aftur létt á kökurnar. Steikið á pönnu í olíu, eða á þurri pönnu, á báðum hliðum, um það bil 1 mínúta á hvorri hlið.

Berið öll herlegheitin á borð og bjóðið fólki að fá sér tortilla köku og allt það meðlæti sem það kærir sig um.

Ég ber einnig á borð ferskan mossarella og sýrðan rjóma.

Njótið!