Húsið við sjóinn

Foodwaves

Category: Sósur og ídýfur

Einföld sulta, frekar en að láta berin rotna inn í ísskáp

Af því að ég er svo brjálæðislega “seasonal”  þá verð ég að koma þessu frá mér. Það er reyndar aðeins of seint í rassinn gripið en ég get þá bara endurbirt þetta að ári liðnu, á réttum tíma, það væri í sirka september. En ég er nú líka bara að hugsa um öll berin sem fólk kaupir út í búð.

ber

Ef þið eigið innflutt fersk ber sem þið hafið keypt á uppsprengdu verði út í búð inn í ísskáp og þau eru að fara að mygla (þrátt fyrir að þið hafið keypt þau í gær) þá er algjör snilld að henda þeim í lítinn pott með sykri og skvettu af vatni og þá eigið þið sultu sem geymist …að minnsta kosti lengur en “fersku” berin.

ber

Sulta

 • Ber
 • Sykur (50% af þyngd berja)

Ég set stundum smá vatn með berjunum, nokkrar matskeiðar til að fá meiri vökva því það gufar svo upp.

Allt sett í pott og leyfið suðu koma upp.  Látið þá malla við meðal hita í 10 mín.  Setjið sultuna í skál og leyfið henni að kólna.  Ef þið viljið hana hana maukaða þá skellið þið henni í blender (eða maukið með töfrasprota).

IMG_0781

Á hverjum degi þegar ég var að sækja stelpuna á leikskólann í haust gekk ég fram hjá fáeinum rifsberjarunnum. Það virtist engin hafa áhuga á að sækja sér ber þannig að ég tók mig til einn daginn og týndi nokkur ber.  Það var nú ekki stór uppskera þetta árið en ég fór sæl heim með að minnsta kosti 100 grömm af rifsberjum. Það tók enga stund að henda þeim í pott með smá vatni og sykri og tíu mínútum seinna var ég komin með stórgóða rifsberjasultu. Einfaldara gæti það ekki verið.

 

Advertisements

Heimagerður sýrður rjómi og Labneh

Sýrður rjómi passar svo vel með mörgu, hann fer sérstaklega vel með mexíkóskum mat, ef þið prófið að gera Huevos Rancheros sem ég talaði um í síðustu færslu þá er heimagerður sýrður rjómi fullkominn með þeim rétti.  Svo er hann góður í súpur, frábær með reyktum lax, kemur í staðin fyrir mæjónes í sósum og svo má setja hann út í pottrétti og ofnrétti.

Ég nota sýrðan rjóma mjög mikið, nema í staðin fyrir að kaupa hann út í búð þá bý ég hann til sjálf og það er einfaldasta mál í heimi og maður sparar meira að segja smá aur.

Ég helli AB mjólk í gegnum kaffipoka eða grisju þannig að mysan í AB mjólkinni lekur í gegn. Því betur sem þið látið mysuna leka úr mjólkinni því mýkri afurð fáið þið og þykkari.

Yfirleitt tekur það ekki meir en klukkutíma að fá ágætan skammt af sýrðum rjóma.  Alls ekki henda mysunni því það má nýta hana í ýmislegt.  Mysan er meinholl og próteinrík.  Til dæmis er hægt að nota hana í brauðgerð í stað mjólkur eða vatns, setja í smoothie og svo þykir hún góð sem fóður fyrir skepnur.

Heimagerður sýrður rjómi.

Sýrður rjómi

 • 2 dl Ab mjólk
 • Kaffifilter eða grisja


Setjið kaffipokann ofan í glas eða annað ílát og fyllið það af AB mjólk.  Leyfið mysunni að leka í gegn í klukkustund eða lengur, eftir því hvaða áferð þið viljið fá á lokaafurðina. Ef þið eigið kaffitrekkt, þá virkar það mjög vel.

Sýrður rjómi með mið-austurlensku ívafi.

Labneh
Í Mið-Austurlöndum er þessi aðferð þekkt sem Labneh og það má bragðbæta hann á ýmsa vegu.
Ef þið viljið bjóða upp á Labneh með mið-austurlenskum mat þá væri hægt að setja sýrða rjómann í skál og dreypa góðri ólífuolíu ofan á og eitthvað gott krydd eins og smátt saxaða steinselju og þurrkaðar chili-flögur.
Ég mæli með því að hafa það einfalt og leyfa góða bragðinu af jógúrtinni að njóta sín og fá svo kryddið úr réttunum sem borið er fram með Labneh.

Chili frá Frú Laugu.

Ég keypti svo fallegan chili-pipar í Frú Laugu, ræktaður hér á Íslandi og góður styrkur í honum.  Ég tók mig til og keypti heilan helling og þurrkaði hann og marði hann svo í flögur. Nú á ég fulla krukku af  dásamlega “ferskum” chili.

Eggjasalat

Hvað er það besta sem þú hefur borðað á þessu ári? Ég var að velta þessu fyrir mér, nú eru að verða búnir 2 mánuðir af þessu nýja ári sem mér finnst hafa byrjað í gær.  Ég var að reyna að rifja upp hvað ég hef verið að gera og ég held að kínversku dumplingarnir mínir séu það besta sem ég hef eldað á þessu ári.

Ég kem með uppskrift við fyrsta tækifæri.

Ég ætlaði að skera grænmeti sem álegg á brauð en ákvað svo að skera allt smátt og hræra þvi saman við eggjasalat.  Það var mjög ferskt og bragðgott.

eggjasalat

Eggjasalat 

 • 3 egg
 • 1/2 paprika
 • 1/4 agúrka
 • 1-2 vorlaukar
 • 3-5 msk heimagert mæjónes eða sýrður rjómi
 • Salt og pipar
(mælieiningar eru svona til viðmiðunar)

Skerið eggin með eggjaskera, langsum og þversum.  (Hæfilega miðlungsbita).  Skerið grænmetið smátt.  Blandið öllu saman með heimagerðu mæjó eða sýrðum.  Saltið og piprið eftir smekk eða um 1 tsk af salti og 1/2 af pipar.  Magnið af mæjó fer líka eftir smekk, bætið við einni og einni matskeið þar til þið eruð sátt við áferðina.

Ég kryddaði mitt ekkert meir, en það gæti eflaust verið gott að setja karrí eða jafnvel smá sinnep. Þetta var mjög ferskt svona einfalt og borið fram með nýbökuðu súrdegisbrauði

Það var ansi vetrarlegt í Kjósinni um daginn en hundarnir að Hálsi létu það ekkert á sig fá og hlupu um í snjónum, en það er sem betur fer aðeins hlýrra þessa dagana.

kjós

Ekki er allt vænt sem vel er grænt – Svínafóður!

Ég er frekar fúl út í einstaka kartöflubændur, ég hef keypt oftar en ekki poka þar sem meirihlutinn eru grænar kartöflur.  Þsð er sagt að maður eigi ekki að borða grænar kartöflur, þær hafa fengið á sig sól og mynda óæskileg efni (Sólanín) ásamt því að vera beiskar og þar af leiðandi bara óætar.

Og þótt svo þetta drepi mann ekki endilega þá er þetta ekki eitthvað sem maður á að láta bjóða sér, sérstaklega þar sem kartöfluræktun er eitt af því fá hér á landi sem þrífst vel.

Svo er maður svo mikill plebbi að maður fer aldrei í búðina til að skila svona óætum vörum, heldur sker maður hýðið af kartöflunni, svo vel að eftir stendur afhýðuð kartafla á stærð við baun.

Svo eru þessar kartöflur í gulum pokum svo það er ómögulegt að segja til um hvernig ástand þeirra er.

Þá er ég búin að létta á mér.  Á hressari nótum…  þá geri ég stundum mæjónes.  Stundum tekst það ekki sem skildi og ég sit uppi með hálfan líter af olíu og eggjarauðu.

Það er víst lykilatriði að vera með olíu og eggjarauðu við stofuhita.

Ef þið eruð með egg beint úr ísskáp þá má setja það í  volgt vatn í smá stund til að flýta fyrir að það nái stofuhita.

mayo

Mayo

 • 1 eggjarauða
 • 3/4 bolli ólífuolía (eða um það bil)
 • Salt, bara smá
 • 1-2 msk sítrónusafi

Nú þarf sterka hönd og eitthvað til að hræra mig, eða það þarf helst 2 hendur þannig að það er ágætt að fá einhvern í lið með sér til að skiptast á að hræra.

Blandið saman eggjarauðu, salti og sítrónusafa.  Hellið olíunni mjög hægt til að byrja með, bara í dropatali. Þegar blandan fer að ná þeirri þykkt sem líkist mæjónesi þá má hella henni hraðar.

mayo

Eins og svo oft þá má finna heilan helling um mæjónes gerð á netinu og með því að fara á Youtube þá er hægt að sjá myndbönd þar sem fólk gerir mæjó á engri stundu með matvinnsluvél eins og til dæmis hann Gordon Ramsey eins og sjá má hér.

Það má nota ýmsa olíu, grænmetis, ólífuolíu eða jarðhnetuolíu.  Extra Virgin olía er bragðmeiri en mér finnst það reyndar gott.

Svo er hægt að krydda mæjónesið að vild með því að blanda saman við rauðuna t.d hvítlauk eða Dijon sinnepi.

Follow Me on Pinterest

 

Sýrður rjómi – heimagerður og betri en nokkur annar…og einfalt

Eitt hráefni eins og svo oft áður en þessi sýrði rjómi eða öllu heldur Creme Fraiche er frábær.  Þú einfaldlega lætur súrmjólk leka í gegnum kaffisíu í örfáa klukkutíma, ætli það taki ekki um 1-2 klst að fá um 1 dl.

Þegar súrmjólkin hefur runnið í gegnum síuna ofan í bolla þá stendur þú uppi með mysuna í bollanum og þennan fína Creme Fraiche í kaffisíunni, tilbúin til notkunar.

Það er nefnilega munur á sýrðum rjóma og creme fraiche, og ég veit ekki til þess að það sé hægt að kaupa creme fraiche í búðum hér á Íslandi. Þessi uppskrift kemst nær því að vera creme fraiche, en það má víst gera hann með því að hræra saman rjóma og súrmjólk, en alla vega þá er þetta frábær aðferð að einfaldlega sía súrmjólk.

Haust

Heimagert smjör – 1 hráefni

Það er ekkert praktískt fjárhagslega við að gera sitt eigið smjör en það er ótrúlega flott að sjá það gerast þegar rjómi verður að smjöri.

Þannig að ef þið hafið aldrei prófað að gera ykkar eigið smjör þá mæli ég með því að þið prófið það bara til að sjá ferlið og til að geta boðið gestum upp á heimagert smjör með heimabakaða brauðinu.

Þetta er einstaklega einfalt, ferlið tekur innan við 10 mínútur ef þið eigið  hrærivél.  Ég notaði Kitchen aid, fyrst notaði ég þeytarann og svo spaðann.

Áður en ég fór í smjörgerð þá horfið ég á þetta video sem sýnir nákvæmlega hvernig þetta er gert.  Það má eflaust finna myndbönd sem sýna hvernig hægt er að gera þetta í matvinnsluvél eða með blender.

Heimagert smjör

 • 1/2 L rjómi

Þeytið rjóman í ca 3 mínútur eða þar til hann verður að smjöri og vökvinn (áfir) skilur sig frá.  Hellið honum frá. (Þið getið geymt hann og notað siðar, t.d í bakstur.)

Setjið ca dl af ísköldu vatni í skálina og þeytið með spaðanum í smá stund.  Kreistið vökvan reglulega úr smjörinu.  Því meiri vökva sem þið náið úr smjörinu því lengur eykst geymsluþolið segja þeir.

Eftir að hafa þeytt með spaðanum í smá stund þá er komið smjör, þið sjáið það strax þegar þið eruð ánægt með afurðina og getið látið staðar numið.  Þetta gerist mjög fljótt.

Nú er hægt að krydda smjörið eftir smekk og jafnvel blanda það saman með góðri óífuolíu í hrærivélinni.  Ég leyfði mínu vera hreint en saltaði það aðeins með Maldon salti.

Besti eftirréttur sem ég hef smakkað langa lengi, kókós desert

Þetta er einn besti eftirréttur sem ég hef smakkað. Ég smakkaði hann fyrst hjá bóndakonunni á Hálsi og fékk að sjálfsögðu uppskriftina.

Ég lét svo vaða í að prófa hann núna um páskana, sem eftirrétt á Páskadag.  Ég var með svo miklar væntingar og vissi svo sem ekki hvort hann yrði jafn góður hjá mér.  En, ég fylgdi uppskriftinni samviskusamlega og hann varð alveg jafn góður og sá sem lifði í minningunni.

Þannig að þessi uppskrift er skotheld og ég algjörlega gjörsamlega mæli með því að þið prófið þennan eftirrétt. Hmmmm, það sakar ekki að prófa!

Svona fallegur var eftirrétturinn hjá húsfrúnni á Hálsi

Kókós desert

 • 400 ml kókósmjólk í dós
 • 30 g kókósmjöl
 • 120 g sykur
 • 3 gelatin blöð
 • 400 ml rjómi
 • 2 msk ferskur sítrónusafi
 • 10 g vanillusykur (eða 1 tsk vanilludropar)

Kókósmjólk, kókósmjól, sykur, vanillusykur og sítrónusafi sett í pott og fengin upp suða.  Takið pott af hellu og látið standa í 5 mín.

Setjið kókósmjólkurblönduna í skál og bætið gelatíni við og hrærið því vel saman við, látið kólna í 40 mín.

Þeytið rjómann og blandið honum saman við herlegheitin.

Kælið inn í ísskáp í a.m.k 2 klst

Berið fram með rifsberjasósu eða einhverri góðri berjasultu. Svo er hægt að skreyta hann með rifnu góðu súkkulaði og blæjuberjum.

Ég notaði þessa uppskrift af sultu með.

Skógarberjasulta

 • 2,4 dl blönduð ber (frosin) ég notaði berjablöndu, jarðaber, hindber, bláber ofl.
 • 1/2 bolli sykur
 • 1/2 dl vatn

Allt sett í pott og leyfið suðu koma upp.  Látið þá malla við meðal hita í 10 mín.  Setjið sultuna í skál og leyfið henni að kólna.  Ef þið viljið hana hana maukaða þá skellið þið henni í blender (eða maukið með töfrasprota)

Hversdagslífið tekið við og 45 krydda blandan

Ég vona að þið hafið fengið ykkur páskaegg með góðri samvisku þetta árið því það er svo hol(l)t að innan.  Er það bara ég eða spændust þessi egg upp eitthvað fyrr en í gamla daga.  Ég man þegar maður var lítill þá gat maður verið að maula á einu eggi alla páskana.  Nú setti ég brotið eggið á disk og það var horfið áður en ég gat lesið málsháttinn.

Við vorum svo heppin að eyða páskadeginum með nágrönnum okkar hér í sveitinni. Fyrst var farið í brunch til bændanna.

Þar eru skemmtilegir siðir sem húsfrúin kom með sér frá Sviss, þaðan sem hún er. Fyrri siðurinn er að bjóða upp á freyðivín eða Mimosa, ekki slæmur siður það og hinn er einhverskonar eggjaleikur.

paskahefdir

Hún litar eggin með náttúrulegum litum, sýður þau með t.d lúsum eða laufum og fær þannig á þau mjög fallega liti. Þessi egg eru ekki hol að innan heldur eru þau soðin í öllu sínu veldi og síðan borðuð. En leikurinn er sá að tveir skella saman eggjum sínum og ef eggið þitt brotnar ekki þá máttu ekki borða það fyrr en einhver annar er með egg til að skella saman við þitt egg þar til það brotnar.

Brunchinn var svo ekki af verri endanum.  Margt girnilegt í boði, enda miklir matgæðingar hér á ferð, professional matgæðingar sem reka nautabú og sælkeraverslunina Matarbúrið hér í Kjós.

nautatunga

Það sem mér fannst sérstaklega spennandi var nautatungan.  Hún var svo meir og bragðgóð, alveg lungamjúk, eða ætti ég að segja tungumjúk?

Svo var farið heim og slakað á því ekki þurfti ég að sinna kvöldmat heldur.  Nágrannarnir hér við hliðina á okkur komu nefnilega í heimsókn kvöldið áður og tóku með sér lambalærið mitt þegar þeir fóru.

Þau lumuðu á allskyns marakóskum  kryddum og vildu bjóða okkur í páskamat. Þessir nágrannar eru einnig listakokkar (voðalega er ég heppin með nágranna, allir snillingar í eldhúsinu og hafa gaman að þvi).

lambalæri

Úr varð að þau tóku lærið því fátt fer betur saman en marokkósk krydd og lamb.  Og ekki sé ég eftir því.  Lambið smakkaðist ótrúlega vel og meðlætið var brilliant og félagsskapurinn draumur einn, því fyrir utan nágrannana í næsta húsi komu líka bændahjónin sem buðu okkur í brönsinn.

Eins og góðum kokki víst sæmir þá var ekki farið eftir neinni sérstakri uppskrift og kryddin sem voru notuð fást ekki hér, en þar var m.a ilmandi cumin og kryddblanda sem nefnist 45 krydda blandan.

Í Marakkó er hver kryddsali með sína eigin “45 krydda blöndu” sem getur þó innihaldið allt að 100 krydd.   Þessi blanda nefnist Ras el hanout og er blandað saman af bestu kryddum salans.

Það er smá lesning um Ras el Hanout á wikipedia.

lambalæri

Einnig fór í pottinn sæt kartafla og laukur.  Meðlætið var svo kryddaðar sveskjur, lambasoðið, kartöflur og jógúrtsósa.  Ég sá um að gera sósuna og reyndi að hafa hana í marókóskum stíl.  Því miður átti ég ekki myntu, en myndi eflaust bæta henni við næst svona upp á stílinn.

Magnið í þessari uppskrift er ekki svo nojið. Ég mæli með að þið smakkið hana til.

jógúrtsósa

Jógúrtsósa

 • Grísk jógúrt
 • Rifin agúrka
 • Rifinn sítrónubörkur
 • Ferskur sítrónusafi
 • Fersk mynta
 • Hvítlaukur
 • Salt
 • Smá pipar

Öllu blandað vel saman í skál.  Rífið agúrkuna með rifjárni.

Þetta voru með skemmtilegustu páskum sem ég man eftir.

Heilaga þrenningin var til staðar, góður matur, góð vín

og góðir vinir.

Þið fáið svo uppskrift af brálæðislega góðum eftirrétt næst, ég er að meina það, BRJÁLÆÐISLEGA góður! : )

Heimagerð Thai sweet chili sósa

Alltaf minnka hjá mér innkaup á tilbúnum vörum.  Nýjasta afurðin er Thai sweet chili sósa sem mér finnst vera ómissanleg með núðluréttum og öðrum asískum mat.

Ég hélt að það væri fremur flókið að gera svoleiðis sósu þannig að hún líktist þessum sem ég er vön að kaupa.  En viti menn. Eftir 10 mínútna mall á örfáum hráefnum var komin dásamlega bragðgóð sæt chili sósa.

(Chili, chilli, chile…ég kalla þetta chile, það þykir voða fínt hjá”hard core” chile aðdáendum. En svo segi ég Thai sweet chili sauce því þannig er það yfirleitt á umbúðum sósunnar).

Fyrst er að smakka til rauðan chile.  Þeir geta verið mjög mis sterkir.  Í þessa sósu er gott að vera með fremur bragðsterkan chile.

Ef þið eruð með mjög sterkan chile þá getið þið notað minna af fræunum eða skafið þau öll í burtu, en í þeim er mesti hitinn.

thai sweet chili sósa

Thai sweet chili sauce

 • 3 hvítlauksrif, afhýdd
 • 2 rauðir chile piprar (með eða án fræja)
 • 1.2 dl sykur
 • 1.8 dl vatn
 • 0.6 dl borðedik
 • 1/2 msk salt
 • 1 msk kornsterkja eða kartöflusterkja
 • 2 msk vatn

Setjið allt í blender nema kornsterkjuna og 2 msk af vatni.  Maukið vel.

Setjið maukið í pott og leyfið suðu koma upp. Lækkið hitann niður í meðalhita og látið malla þar til sósan byrjar örlítið að þykkna, um 3 mínútur.

Hrærið saman kornsterkju og vatni og bætið út í sósuna, hrærið í pottinum um leið og þið hellið sterkjunni út í og látið malla í 1 mínútu.

Kornsterkjan þykkir sósuna og gefur henni flotta áferð, annars væri þetta bara eins og þunn sósa með chile bitum fljótandi á yfirborðinu.

Kælið sósuna alveg og setjið í sótthreinsaða krukku og geymið í ísskáp.

Ef þið ætlið að gera svona sósu í einhverju magni til að geyma í lengri tíma þá er talað um að nota “Pre-gelatinized” sterkju.

Ég læt mér bara duga minna magn í einu, enda er þetta einföld og fljótleg uppskrift.  Tekur um hálftíma að skella í eina litla krukku.

thai sweet chili sósa

Áferðin á sósunni var fullkomin, styrkleikurinn á chilebragðinu góður, fersk hvítlauks og chile lykt. Alveg frábært!

Og best af öllu…nú er maður miklu nær því að vita hvað fer ofan í mann og sykurmagninu getur maður stjórnað sjálfur. 

Ég datt niður á blogg um tælenska matargerð shesimmers.com.  Það lítur út fyrir að vera margar skemmtilegar uppskriftir þarna.

Jóladagatal Soffíu – 19 dagar til jóla og myntu dressing

JÓLADAGATAL…19

Ef þið bakið amerískar pönnukökur í morgunmat fyrir krakkana þá má nota piparkökumót til að skera þær út.  Ég skar þær út eins og jólatré og smá mætti nota hugmyndaflugið til að skreyta þær, t.d bláber eða önnur ber smátt skorin.  (Afskurðurinn fór svo ofan í mig)

pönnukökur

pönnukökur

Svo má nota piparkökumótin til að skera út brauðsneiðar, melónur, eplasneiðar og ýmislegt fleira.

myntu dressing

Ég veit ekki hvort það er út af því að það eru að koma jól eða hvort þetta er tilviljun en ég er farin að nota ansi mikið af jólalegu litasamsetningunni rauðu og grænu í matargerðina.  Áðan var Rib eye steik í matinn.  Ég ákvað að vera með nýjung og gera myntu dressingu til að setja ofan á steikina.

steik með myntu dressingu

Það smakkaðist ágætlega.  Ég er bara svo vanaföst þegar kemur að steik að ég vil helst ekkert nema pipar, og nóg af honum.  En dressingin var fersk og mjög góð og væri alveg frábær með góðum fiski.

myntu dressing

Myntudressing

 • Ein lúka fersk mynta
 • Ferskur rauður chile (magn fer eftir styrk piparsins, ég notaði hálfan)
 • 2-3 geirar hvítlaukur
 • Safi úr hálfri sítrónu
 • 2 msk ólífuolía
 • smá salt og pipar

Saxið myntuna smátt, skerið piparinn mjög smátt ásamt hvítlauk.  Blandið öllu vel saman.

 

%d bloggers like this: