Húsið við sjóinn

Foodwaves

Category: Pizza

Meistarakokkurinn Hrefna Sætran í eldhúsinu hjá mér

Haldiði ekki að ljúflingurinn og meistarakokkurinn Hrefna Sætran hafi komið í heimsókn.  En því miður var það ekki hún sem eldaði fyrir mig heldur ég fyrir hana.

Hún er með frábæra matreiðsluþætti á Skjá Einum og hún fékk mig til að elda fyrir sig dýrindis Lahmacun, tyrkneska pizzu.

Uppskriftina má nálgast hér.

Ef þið eruð með Skjá Einn þá getið þið séð þáttinn á vefsíðu stöðvarinnar, þetta var þriðji þáttur í sjöundu seríu.

hakk

EF þið ætlið að skella í pizzu um helgina prófið þá þessa.  Finnið ykkur gott lambakjöt og hakkið það sjálf eða fáið þá í kjötborðinu til að gera það fyrir ykkur, er ekki annars svoleiðis þjónusta einhverstaðar í boði hér á Íslandi?

Svo er hægt að fylgjast með Hrefnu á Facebook, Matarklúbburinn með Hrefnu Sætran.

GÓÐA HELGI!

Advertisements

Basil pestó með möndlum – frábært á pizzuna með mossarella og tómötum.

Flestar basil  pestó uppskriftir sem ég hef séð  innihalda furuhnetur.  Þær átti ég ekki til en ég átti möndlur og úr varð virkilega gott basil pestó.

basil pestó

Basil pestó

 • Möndlur (ca 150 g)
 • 4 stórar lúkur fersk basilíka
 • 1-2 hvítlauksrif
 • Ferskur rifinn parmesan ostur (1-2 dl)
 • 1 tsk salt
 • Ólífuolía (6 msk eða svo)
 • 1 tómatur

Allt maukað í blender eða matvinnsluvél.  Gott að byrja á möndlunum og olíu og mauka það saman, svo basil og rest.

pizza með basil pesto

Ég smurði pestóinu á pizza botn og setti ofan á það ferskan mossarella og tómata. Frábært kombó.

Góð ráð til að gera góða pizzu fullkomna – panna á hvolf inn í funheitan ofn

Alltaf gaman að eiga góða vini sem benda manni á skemmtilega þætti um mat.  Þetta eru þættir með manni sem heitir Heston Blumenthal.

Meðal þess sem hann fjallar um í þáttunum er hvernig maður getur gert pizzu í venjulegu heimiliseldhúsi sem smakkast eins og pizzurnar í Napoli.  Það má finna eitthvað af þessum þáttum á youtube.

Pizzabotninn

Sósan

Áleggið

Mér finnst snilld hvernig hann snýr pönnunni við eftir að hafa hitað hana á hellu og bakar pizzuna á pönnubotninum.

Ég vaaaarð að prófa þetta.  Og viti menn….botninn bakaðist á örskots stundu. Ég var með pizzuna í ofninum í innan við 3 mínútur.  Málið er að nota cast iron pönnu (pönnu úr steypujárni) því hún hitnar vel, en ég átti bara stálpönnu og notaði hana.

pizza

Svo gerði ég þetta aftur, í litlum “sumarbústaðarofni” og notaði pönnukökupönnu.  Þetta er svo mikil snilldar aðferð að nú verður ekki aftur snúið.  Og næsta mál á dagskrá er að versla cast iron pönnu.

pizza

pizza

Og þar sem þessi ofn hitnar ekki alveg jafn mikið og stærri ofnar þá varð pizzan að vera lengur í ofninum. EN, algjörlega miklu betri eldunaraðferð.  Og nb skaptið á pönnunni kemst ekki inn í ofninn fyrir utan að vera úr plasti.  Þannig að það skagar út og ofnhurðin er opin.

pizza

Svo er annar galdur, heeeld ég…. Og það er að rúlla ekki deigið með kökukefli heldur snúa því í hringi á meðan maður klípur það út með puttunum þar til maður er komin með nógu stóran hring.  Þannig hefur maður  ekkert flatt út endana þannig að þeirra verða flöffí og næs.

pizza

Pizza bökuð á pönnu – nokkrir punktar

 • Ef þið viljið hafa þetta Napoli style þá þarf botninn að vera þunnur og áleggið tómatsósa, fersk basil og helst mossarella di buffola, en þar sem ég hef ekki séð svoleiðis í búðum hér heima þá má notast við mossarella.
 • Það er best að gera starter daginn áður, blautt deig sem þið blandið svo saman við pizzadeigið.
 • Ég mæli með því að taka skinnið af tómötunum og kjarnahreinsa þá eins og ég gerði við tómatana í þessari færslu áður en þið maukið þá í sósu.  Og setjið hvítlauksbita í hvern tómat.
 • Ferskur mossarella er lykilatriði, en ekki rifinn plastostur í poka!

basil

 • Svo er málið að notuð sé fersk basilika.
 • Hafið ofninn eins heitann og þið getið, best er að baka pizzuna í stuttan tíma.  Aðferð Hestons er að hita ofninn og setja hann svo á grill, pizzuna á funheita cast iron pönnu og eins ofarlega í ofninn og þið getið, svo pizzan sé mjög nálægt grill elementinu.

IMG_0419

Ef þið viljið láta reyna á aðferðina hans Hestons þá er hér  búið að útlista nokkuð nákvæmlega hvernig hann fór að í þessum þætti.

Og hér eru ýmsar hugmyndir til að gera góða pizzu betri.

Stromboli, alveg jafn gott og það er gaman að segja stromboli

Stromboli er pizzadeig, flatt út ferkantað og fyllt með kjöti og osti og svo er því rúllað upp og bakað í ofni.  Það er engin sósa inn í rúllunni heldur er hún borin fram með þessu í skál “on the side”  Rúllan er skorin í sneiðar og sneiðinni svo dýft í sósuna.

Það á engin gestur eftir að vera svikinn af Stromboli…nema hann sé grænmetisæta 😛

Það sem mér finnst best við mitt stromboli er 5 kornablandan sem ég strái ofan á rúlluna. Hér kemur hugmynd að Stromboli eins og ég gerði það síðast og það smakkaðist rosalega vel.

stromboli

Stromboli

 • Pizzadeig
 • Grænpipars-salami (fæst í ostabúðinni) eða annað gott pepperoni
 • Steikt nautahakk (steikt með hvítlauk, smátt skornum lauk og pizzakryddi)
 • Skinka
 • Ferskur mossarella
 • Einhver góður brauðostur
 • Brie

Álegginu er raðað á pizzadeigið eins og sýnt er á myndinni hér fyrir neðan.

stromboli

Svo er því rúllað upp, skerið rendur í rúlluna og penslið hana með eggjahvítu.  Ef þið viljið stráið þá smá fimmkornablöndu eða sesamfræjum ofan á rúlluna.

stromboli

Bakið í ofni við 200°c þar til það er fullbakað, um 20 mínútur.

stromboli

 stromboli

Sósan:

 • Hakkaðir tómatar í dós eða tómatsósa í dós
 • Laukur
 • Hvítlaukur
 • Oregano
 • Salt og pipar
 • Smá sýróp
 • pínku balsamik edik

Laukur og hvítlaukur svitaður í olíu. Restin sett í pottinn. Allt soðið saman.

Pizzabotn úr blómkáli og fjörugur föstudagur

Já, þið lásuð rétt.  Pizzabotn úr blómkáli.  Ég veit ekki hvernig ég á að byrja þessa færslu til að sannfæra ykkur að pizzabotn úr blómkáli er góður. Það kemur ekkert í staðin fyrir þunnan hveitibotninn finnst mér en þetta er skemmtileg tilbreyting og frábært fyrir þá sem forðast hveiti.

Setjum á tónlistinaPostal service.

Uppskrift vikunnar er áður óbirt uppskrift af þessum magnaða blómkálspizzabotni:

blómkál

Galdurinn við þennan pizzabotn er að rífa blómkálið í matvinnsluvél, en ekki of lengi svo það verði ekki of blautt, heldur þannig að það verði svipað og hrísgrjón.

Blómkálspizzabotn

 • 1 blómkál, rifið
 • 2 dl rifinn ostur, mossarella eða brauðostur
 • 1 egg, hrært
 • Krydd (2 hvítlauksrif, salt, pipar, oregano)

Takið rifið blómkálið og bætið við 1 eggi, rifnum osti og því kryddi sem þið viljið.  Ég notaði pressaðan hvítlauk, 2 rif, salt og pipar og smá oregano. Blandið saman með höndum eða sleif.

Pressið blómkálsblöndunni með fingrunum á smjörpappír.  Bakið í ofni við 200° í u.þ.b 20 mínútur.

blómkáls pizzabotn

ATH, bakið botninn áður en þið setjið áleggið á, svo setjið þið hann aftur í ofninn með álegginu í nokkrar mínútur.

Takið botninn úr ofninum og bætið ofan á hann því áleggi sem þið viljið, sósu og osti…

blómkáls pizzabotn

Ég google-aði blómkálsbotna og fann á flestum síðum að fólk setur rifið blómkálið í örbylgjuofn í 8 mínútur áður en það blandar því við annað innihald og bakar, en ég las líka að það væri óþarfi.  Ég sleppti því reyndar því ég prófaði að setja smá í skál og í örbylgjuna en það var eflaust aðeins of lengi því það hálf brann.  Maður þarf víst bara að þreifa sig áfram í þeim efnum.  En mér fannst koma mjög vel út þrátt fyrir að hafa ekki eldað kálið áður.

Vín vikunnarer J. Lohr seven oaks, Cabernet Sauvignon, 2006 frá Bandaríkjunum.  Ekki ódýrasta vínið í búðinni og mjög gott.

Vefsíða vikunnar er http://www.foodbuzz.com/, þetta er einhverskonar “myspace” mataráhugamannsins.  Fullt af matarbloggurum, uppskriftum og fleiru matartengdu…

Uppskrift valin af handahófi úr uppskriftarsafninu mínu að þessu sinni er rétturinn Gridexian, sambland af grískum, indverskum og mexíkönskum…góð blanda og réttur sem smakkaðist mjög vel.

Mynd vikunnarer mynd sem ég tók á síðasta ári af frægasta “Emo” hesti landsins…

emo hestur

Pizza með dijon sinnepi, fetaosti, ólífum og hvítlauk

Það er gaman í sveitinni. Sérstaklega þegar kemur að því að borða með nágrönnunum.

Þá þarf ekki að hafa mörg orð um hvað verður á boðstólnum, heldur töfrum við húsmæðurnar fram hverja stórmáltíðina á fætur annarri, þegjandi og hljóðalaust. Það sem til er í ísskápnum er notað og spunnið út frá því.

leggir

Ef þið eigið kjúklingaleggi þá mæli ég með því að þið setjið þá í eldfast fat með döðlum, kapers, ólífum, balsamikediki og hunangi, smá hvítlauk, salti og pipar.

pizza

Ef ykkur langar í öðruvísi pizzu þá sló þessi í gegn:

 • Pizzabotn, þunnt útflattur
 • Ólífur
 • Hvítlaukur, skorinn í skífur
 • Fetaostur í kryddolíu
 • Dijon sinnep
 • Salt og pipar

Smyrjið smá sinnepi á pizzabotninn, raðið álegginu á, saltið og piprið. Bakið í ofni þar til botninn er bakaður.

Ég hef sérstaklega gaman að ílöngum pizzum þessa dagana og skera þær í þunnar ræmur og renna þeim niður með rauðvínstári og nágrannaspjalli.

pizza

pizza

Föstudagsfjör á ansi stormasömum föstudegi

Föstudagur heima í firðinum góða, kenndan við Hval.  Nágrannar okkar í næsta húsi voru einnig heima í dag og því var slegið til veislu og borðaður saman síðbúinn hádegisverður með rauðvínstári.  Ég keypti tómata í gær, græna, gula og svarta.  Þannig að úr varð tómatapizza með mossarella.

tómatapizza

tómatapizza

Vindum okkur í fjörið.

Tónlistin:Ég kann alltaf vel við hana Feist, og þetta lag kemur mér alveg í gírinn.

Uppskrift vikunnar: Þær voru nú ekki margar þessa vikuna en ég get alveg mælt með konfektinu, með eða án marsípans.

Vínið: Beronia vínin hafa sjaldan svikið mig, ég mæli sérstaklega með gran reserva, en crianzan stendur líka alveg fyrir sínu.

Uppskriftin sem valin var að handahófi þessa vikuna er grísalund með mojo marineringu.  Það er ekki verra að bera hana fram með í samloku að hætti Kúbubúa
Vefsíðan þessa vikuna er epicurius.com. Ég tala nú ekki um appið sem þeir eru með fyrir Android síma.  Ég setti það í símann minn og nota það óspart, óteljandi uppskriftir til að fletta upp í.

Mynd vikunnar er af þessum fallegu tómötum, en það er ekki á hverjum degi sem maður dettur niður á jafn fjölbreytt úrval af tómötum.

tómatar

Pizza með lambapepperoni og emmental osti, borið fram með Gnarly Head

Ef þið eruð eins og ég og eigið til að setja alltaf sama áleggið á pizzuna af gömlum vana og af því að það er bara svo gott en langar að prófa eitthvað nýtt þá er hér skemmtileg leið til að brydda upp á nýjugum í áleggi.

Fletjið út nokkra 8″ botna og finnið ykkur góðan félagsskap og góð vín og skiptist á að búa til pizzur úr því sem til er.  Gætuð keypt nokkur exótísk eða skemmtileg hráefni, spennandi osta, spennandi grænmeti eða lambakjöt….

pizza

Það er svo alveg makalaust hvað ótrúlegustu hlutir smakkast vel, ég gerði t.d einu sinni pizzu með grísalund, súrum gúrkum og sinnepssósu og hún var hrikalega góð.  Ég ætlaði ekki að þora því en lét vaða og sé ekki eftir því.

Það er hægt að kaupa fínar “pepperonistangir” úr lambakjöti frá Fjallalambi, þetta fæst í nokkrum búðum eins og kemur fram á heimasíðunni þeirra.

emmental

Ég bitaði þær niður og setti ofan á pizzu, það var ekki vont.  Einnig átti ég smá emmental ost, ferska basil og shallot lauk, þetta var fínt kombó.

Ég sá mynd af geðveikt girnilegum hamborgara með þykka sneið af emmental, það verð ég að prófa einhvern tíman.

gnarly head

Með pizzunni drukkum við Gnarly  frá Californiu, Old vine zinfandel, ferlega fínt vín.  Þetta er svona pizzu og bbq vín. Ég ætla að prófa þetta vín aftur við tækifæri.  Svo var ég að kaupa ný kristals vínglös, kannski það hafi gert vínið betra…

Góða helgi!

Lahmacun

Það eru margir sem eiga pizzadag með fjölskyldunni einu sinni í viku eða svo þar sem allir koma saman og gera heimagerða pizzu frá grunni.  Skemmtileg hefð finnst mér.

Hér er uppskrift að  pizzu, sem stundum er nefn Tyrknesk pizza og ég mæli með að þið  prófið.  Ég hef áður bloggað um þessa pizzu.  En í gær lagði ég mig alla fram við að gera hana almennilega og betrumbætti uppskrifitna!

Ég bauð vinum í mat þar sem boðið var upp á Tyrkneskan mat, fullt af skemmtilegum nýjum brögðum og allt harmoneraði vel saman.  En ég ætla að byrja á að segja ykkur frá því hvernig ég gerði Lahmacun.

Lykilatriðið er gott hráefni.  Lambahakk er málið!  Það er hægt að nota nautahakk en ég algjörlega mæli með lambahakkinu.  Svo er málið að vera með ferska myntu og ferska steinselju.  FERSKT FERSKT FERSKT!

Þetta var svo gott að það ást upp áður en ég náði að mynda það almennilega.

lachmahun

Og zoom á Lahmacunið

Lachmacun

 

 Lahmacun (fyrir 6)

Ég notaði kíló af hakki, og átti smá afgang sem er enn að “marinerast”  inn í ísskáp og ætla ég að nota það í lambaborgara.  Þannig að um 700 g dugar ca  á 5 stk 12″ pizzur

Byrjið á að gera pizzadeig

Hér er uppskriftin eins og ég gerði í gær og kom vel út.

 • 500 g hveiti
 • 300 ml volgt vatn, um það bil, þið finnið það í hnoðinu hve mikið vatn þarf á móti hveitinu
 • 1 msk sykur
 • 2 tsk salt
 • 2 tsk þurrger
 • 1-2 tsk ólífuolía

Leysið gerið í 3-4 msk af volgu vatni og með sykrinum í korter, eða þar til freyðir vel.   Setjið hveiti í skál og bætið við gerblöndunni, restinni af volgu vatn, salti og olíu og hnoðið lauslega.  Setjið poka yfir skálina eða filmu og látið hefast í klst eða svo.

Lambahakkmixtúra

 • 1 kg Lambahakk
 • 1 laukur
 • 1 gul paprika
 • 2-3 hvítlauksrif
 • 3-4 smátt tómatar úr dós, niðursoðnir. skornir í teninga. Ég nota Roma tómata frá Eden
 • 1/2 meðalsterkur rauður chile.  Smakkið hann áður til að finna út hve mikið þið þurfið.
 • 2 dl fersk söxuð mynta
 • 2,5 dl fersk söxuð steinselja
 • 1 tsk cumin
 • 2-3 tsk turmeric
 • Salt og pipar

Hakkið saman lauk, hvítlauk og papriku.  Setjið lambahakkið í stóra skál og blandið öllu hráefninu vel saman með fingrunum. (Einnig hægt að nota ferska tómata)

lambahakk

Fletjið út pizzadeigið þunnt og setjið á bökunarpappír á ofnplötu eða pizzastein. Makið lambahakkinu fremur þunnt á pizzadeigið en þannig að það þeki og passið að það nái vel út í alla kanta því hakkið skreppur saman við eldun.  Inn í ofn með þetta á 220°c í 10 – 15 mín eða þar til hakkið er eldað.

 

Meðlæti:

 • Gróft söxuð steinselja
 • Sítróna (eða lime) skorið í báta
 • Rauðlaukur skorinn í strimla

 

Þegar pizzan er borin fram þá er mjög gott að dreyfa yfir hana ferskum rauðlauk og ferskri steinselju og það gerði ótrúlega mikið að kreista smá sítrónu yfir pizzuna, einhvernvegin náði að draga fram bragðið í öllu.

Á boðstólnum hjá mér var einnig  hot kebab tómatsósa, jógúrtsósa, tómatar og agúrkusalat, falafel og pítubrauð og svo bulgur pilaf.  Fullt af brögðum í gangi sem kítluðu alla bragðlaukana.  Meir um það næst.

Sveitasæla – Neighbours meets The naked chef og Gordon Ramsey!

Eitt af því besta við að búa í sveitinni eru nágrannarnir. Þetta er smá svona “Neighbours” fílíngur, Neighbours meets The naked chef og Gordon Ramsey!

Það er alltaf gaman að heimsækja hænsnabóndann, sem er mikill matgæðingur með glæsilegt gróðurhús, fiskinn eiginmann og auðvitað fullt hús matar í hænsnakofanum. Og tala ekki um að hafa rekið veitingastað í Danmörku.

Skammt frá okkur búa hjónin á Hálsi, þarf að segja ykkur meira frá þeim næst.

Því miður þurftu nágrannar okkar á horninu að flytja í bæinn, mikil eftirsjá eftir þeim og kanilsnúðunum og fallega rjómanum…fallegi rjóminn fær líka sér færslu síðar.

Svo er það fólkið við hliðin á. Oft borðum við saman. Það er aldrei tekin skýr ákvörðun hvað verður borðað, heldur segjum við hvað til er í kotinu og eldum við svo úr því sem til er.

Einn sér um aðalrétt og hinn meðlætið. Eða báðir elda smárétti. Það fer bara eftir því hvað til er og stemmningu, veðri og vindum.

Og það er þannig með sveitina, að ef eitthvað “vantar” þá er ekki stokkið út í búð. Það er kostur og finnst mér skemmtileg eldamennska, að nota það sem til er og spila eftir eyranu.

pizza

Um daginn var dásamleg frittata og pizza með krydduðu aðbrigði af klettasalati úr garðinum og grænpipars salami.  Það góða við frittata er að hún er upplögð þegar tæma þarf ísskápinn af grænmeti sem er komið á tíma.

frittata - soffía

Frittata (fyrir ca 3)

 • 5 egg
 • Sveppir, nokkrir
 • Beikon, 4-5 stk
 • Paprika, 1/2 stk
 • Blómkál, 1 bolli eða svo
 • Soðnar kartöflur,skornar í munnbita. 2-3 stk
 • Púrra, lúka eða svo
 • 1-2 hvítlauksrif
 • Ostur (brauðostur eða parmasen) hálfur bolli, eða bara eftir smekk
 • Salt og pipar
 • Smjör eða olía til að steikja grænmetið upp úr.

Skerið allt grænmeti niður.   Steikið létt á pönnu, sem má fara inn í ofn.

Hrærið eggjunum saman í skál, þannig að þau verði létt og fluffy. Saltið og piprið

Hellið eggjunum yfir grænmetið á pönnuna og eldið á lágum hita í korter.

Setjið ost yfir og pönnuna í miðjan ofn á medium heitt grill í 2-3 mín.  Fylgist vel með svo hún brenni ekki.

Um að gera að prófa sig áfram með ýmis hráefni og krydd.  Pepperoni eða skinka passar vel í frittata.

%d bloggers like this: