Húsið við sjóinn

Foodwaves

Category: Uncategorized

Plokkfiskur með gráðosti

Foodwaves: Smáréttir vippaðir upp án uppskrifta úr því sem til er í eldhúsinu án umhugsunar og stærð réttarins er svo algjört forrétta smakk. Þetta er stutta skilgreiningin.

Ég var að segja vinum okkar frá Foodwaves conseptinu okkar og á meðan henti ég í einn Foodwaves.

Í ísskápnum var afgangur af plokkfiski sem ég gerði úr nætursaltaðri ýsu. Ég tók hluta af því sem til var og setti í lítið eldfast mót og muldi yfir hann gráðosti en ég notaði ostinn Ljótur. Skellti þessu í Airfrer í ca 5 mínútur og borinn fram á rúgbrauðsneið sem var smurð með hvítlauksmjöri og skreyttur með vorlauk. Þetta smakkaðist svo vel að allir voru til í meira, en það var ekki í boði…

Kjötbollur úr folalda- og nautahakki

Krakkarnir mínir elska gömlu góðu ritzkex kjötbollurnar og við einstaka tækifæri geri ég þannig bollur. Í þetta sinn notaði ég 500 g af folaldahakki sem mér áskotnaðist frá vinum og 500 g af 100% grasfóðruðu nautahakki frá Hálsi í Kjós. Ég notaði ekki púrrulaukssúpu en muldi niður einn pakka af ritzkexi, en það er eins og ég segi endrum og eins því mér er meinilla við svona “processed & branded” stöff. Það væri því ekki úr vegi að skipta út ritzkexinu fyrir heimagert brauðrasp.

Kjötbollur úr folalda- og nautahakki

  • 500 g nautahakk
  • 500 g folaldahakk
  • 1 pakki ritzkex eða heimagert brauðrasp
  • Kryddin sem ég notaði voru oregano, Brauðstangakrydd frá Kryddhúsinu, salt, pipar, laukduft og hvítlaukskrydd frá Kryddhúsinu.

Blandað vel saman og mótað í fremur litlar bollur. Ég eldaði þær í air fryer við 180°c í u.þ.b 18 mín. Ég fylgist vel með svo að þær brenni ekki. Einnig er hægt að elda þær í ofni eða steikja á pönnu.

Rifsberjasósa

  • Rifsberjasulta
  • Tómatsósa frá Biona. (því ég kaupi ekki Heinz vörur 😉
  • 1/2 – 1 tsk Cyanne pipar ef þið viljið hafa hana spicy
  • 1/2 tsk laukduft

Fiskisúpan sem verður endurtekin

Það var ekki arða eftir í pottinum að máltíð lokinni, svo góð var hún. Ég átti næstursaltaða ýsu og var á leiðinni að pönnusteikja hana í rjóma þegar ég skipti um skoðun og gerði þessa uppskrift jafnóðum og ég eldaði úr því sem til var. Ég slumpa í eldamennsku og því uppskriftin ekki nákvæm en nærri lagi og um að gera að imprúvæsa miðað við hvað manni sjálfum finnst gott, meir af einu og minna af öðru.

Ég skar fiskinn í hæfilega stóra bita og kryddaði með kryddi frá Oliva “Flavoring for meat, fish and vegetables” og er geggjað á fisk. Annað krydd sem ég nota mikið á eiginlega allt er Brauðstangakryddið frá Kryddhúsinu.

Fiskisúpan

  • 800 g nætursöltuð ýsa
  • 2-3 lúkur rækjur
  • 1 dós San Marzano tómatar
  • Paprika, 1/2 gul og 1/2 rauð
  • 1 bolli kartöflur skornar í 2 cm bita (…væri líka gott að nota sætar)
  • 1 – 2 tsk “red curry paste” eða eftir smekk
  • 3-4 cm bútur af fersku engifer
  • 2-3 hvítlauksrif
  • Kryddið frá Oliva, “Flavoring for meat, fish and vegetables”
  • Pipar
  • 1 tsk túrmerik
  • Rjómaostur, ca 3-4 msk
  • Rjómi, 1 dl því ég átti ekki meir og bætti því við kókósmjólk
  • 1 dós kókósmjólk
  • 2-3 dl vatn
  • 1 – 2 msk olía til steikingar

Svitið grænmeti, bætið fiskmeti og kryddi í pottinn og hrærði aðeins í. Því næst setti ég vatn og svo allt hitt. Mallaði þar til fiskurinn var eldaður. Þar sem ég notaði nætursaltaða ýsu þá bætti ég ekki við salti en pipraði með blönduðum pipar.

Borið fram til dæmis með góðu brauði, sítrónubáta og fersku kóríander fyrir þá sem eru ekki í kóríandersápuliðinu og jafnvel skemmtilegri chili-olíu.

Blómkáls-gratín

Það var til blómkál svo ég ákvað að henda í blómkáls-gratín sem meðlæti en það eiginlega endaði á að vera aðalrétturinn, það varð svooo gott. Bakaraofninn okkar bilaði í apríl 2023 og ég er ekki enn búin að skipta honum út. Ég keypti airfryer og nota hann sjúklega mikið og Instant Pot. Svo fjárfestum við í almenninlegum pizzaofni til að hafa inni. Hann hitnar upp í 500 og pizzan er tilbúin á innan við mínútu. Mæli svooo með! Ég fékk mér þennan: https://napoli.is/product/effe-n3-rafmagnsofn/

Blómkáls-gratín og að sjálfsögðu í Air-fryer og Instant Pot. 

  • 1 blómkálshaus
  • 2 dl rjómi
  • 2msk rjómaostur
  • 1 tsk salt
  • 1 msk Brauðstangakrydd (Kryddhúsið)
  • Emmental ostur

Ég byrjaði á að setja blómkálið sem ég tók aðeins í sundur á grindina og í Instant Pot með 4 dl af vatni. Setti á pressure Cook og stillti á 1. mín (svo natural release eða opna sjálfur…FARA VARLEGA! ) Hér er einning hægt að nota pott og hellu og mýkja blómkálið þar.

Í potti bræddi ég ca 2 dl rjóma, 2 msk rjómaost og kryddaði með 1 tsk salt og 1 msk Brauðstangakrydd frá Kryddhúsinu. Blómkálið setti ég í eldfast mót og helti rjómablöndunni yfir og reif niður heilan helling af Emmental osti og stráði yfir. Emmental osturinn er stjarnan í þessum rétti og því meira af honum, því betra! Þetta fór inn í Air fryer í 10 mín eða þar til ykkur finnst osturinn hæfilega gullinn að lit. Einnig hægt að setja í ofn á 200°c þar til osturinn er gullin og fylgjast vel með.

Það er um að gera að nýta sína uppáhalds osta í þennan rétt.


MEÐ FYRIRVARA:  
Ég er algjör slumpari þegar kemur að eldamennsku, þannig að mælieiningar hjá mér eru ekki sérlega nákvæmar, en nærri lagi.  Með æfingunni finnur maður sinn takt í eldamennsku.  

Uppskriftirnar hér eru hugsaðar sem hugmyndir að samsetningu frekar en hárnákvæmum lýsingum á innihaldi og aðferð.  Þær eru svo settar hér á internetið fyrir sjálfa mig til að muna eftir uppskriftum sem mér þykja góðar, fyrir vini og vandamenn og alla aðra sem ramba inn á þessa síðu.

Grænmetis og kjúklingasúpa í Instant Pot

Það er svo auðvelt að elda allskyns dýrindis súpur í Instant Pot. Ég gerði eina slíka í gær fyrir 15 manns, en var þá með tvo Instant potta og aðra súpuna gerði ég aðeins mildari. Þetta var mjög ónákvæm eldamennska, slump eftir tilfinningu.

Grænmetis og kjúklingasúpa

  • Kjúklingur, skorinn í bita. Mér þykir best að nota úrbeinuð læri.
  • Sæt kartafla
  • Paprika, hvaða litur sem er, græn er beiskari og rauð sætari, ég nota oft gula, græna og rauða
  • Laukur
  • Púrra
  • Sveppir
  • 1 lítið blómkál
  • 1 lítill brokkólíhaus
  • 1 dós Chili nýrnabaunir frá Biona
  • 2 dósir San marzano tómatar
  • Hvítlaukur
  • Góð olía til steikingar
  • Salt, pipar, cayenne pipar, oregano
  • Vatn eftir smekk 3-5 dl. Muna að vökvainnihaldið heldur sér í Instant potti.

Ég notaði eina sæta kartöflu, einn hvítan lauk, ca 5 cm af púrru, 4 hvítlauksrif, 2 paprikur og 3 stóra brúna Flúðasveppi. Ég deildi grænmetinu og kjúklingi í báða pottana en munurinn á mildari súpunni var að ég sleppti cyenne pipar og chili nýrnabaunum.

Meðlætið er stór hluti af súpunni þar sem hver og einn getur bætt í eftir smekk. Með súpunni bárum við fram afbragðsbrauð úr bakaríi, nachos flögur, rifinn ost, mossa og cheddar, ferskan habanero í olíu,smátt skorinn vorlauk, ferskt kóríander, avocado og sýrðan rjóma.

Ef ég hefði átt rjómaost þá hefði farið 2-3 msk af honum í súpuna. Einnig er hægt að styðjast við Listamannasúpu uppskriftina þar sem rifinn sítrónubörkur og eplaedik gerir oftar en ekki gott betra. Ef ég hefði átt soð af beinmergi hefði ég notað það í staðin fyrir vatnið og rífa upp hollustuna enn frekar.

INSTANT POT LEIÐBEININGAR: Ég byrja á að stilla á SAUTÉ og brúna kjúklinginn, svona rétt aðeins að loka honum og með kryddunum. Svo bæti ég við öllu öðru, geri cancel á SAUTÉ og loka pottinum. Stilli á Pressure Cook í 10 mín og svo er annað hvort hægt að gera natural release eða opna fyrir ventilin ef maður vill komast fyrr í að borða.

Alltaf að passa að ventill sé í lokaðri stöðu þegar verið er að elda

MEÐ FYRIRVARA:  Ég er algjör slumpari þegar kemur að eldamennsku, þannig að mælieiningar hjá mér eru ekki sérlega nákvæmar, en nærri lagi.  Með æfingunni finnur maður sinn takt í eldamennsku.  

Uppskriftirnar hér eru hugsaðar sem hugmyndir að samsetningu frekar en hárnákvæmum lýsingum á innihaldi og aðferð.  Þær eru svo settar hér á internetið fyrir sjálfa mig til að muna eftir uppskriftum sem mér þykja góðar, fyrir vini og vandamenn og alla aðra sem ramba inn á þessa síðu.

NAUTAKINNAR

Þvílík veisla! Ég mæli með nautakinnum fyrir alla þá sem hafa gaman að góðum mat. Þessar kinnar eldaði ég í Instant Pot og að suðu lokinni datt kjötið í sundur eða eins og vinur minn segir gjarnan, það mátti tyggja þetta með augnlokunum, svo meyrt var kjötið.

NAUTAKINNAR

  • Nautakinnar
  • Paprika
  • Gulrætur
  • Laukur
  • Sveppir
  • Hvítlaukur
  • Tómatar í dós
  • 1 msk lífrænt eplaedik
  • 1-2 tsk Cyenne pipar
  • 1 msk Oregano
  • 1 bolli soð (ég notaði heimagert soð af mergbeinum)

Hér mætti setja hitt og þetta sem til er í ísskápnum eins og sellerí, sætar kartöflur eða kúrbít og auðvitað upplagt að skvetta rauðvíni ef til er. Magn af grænmeti er ekki svo nojið, ég notaði 1 papriku, 2-3 gulrætur, handfylli af sveppum, 3-4 hvítlauksrif og hálfan stóran lauk. 

Stillið pott á Sauté, setjið saxað grænmeti og létt brúnið, bætið við kjöti og leyfið að brúnast einn augnablik. Bætið við kryddum og vökva og stillið á Pressure Cook í 40 mín og svo natural release nú eða quick release.

Borið fram með góðu salati og kartöflumós eða einhverju skemmtilegu pasta.

MEÐ FYRIRVARA:  Ég er algjör slumpari þegar kemur að eldamennsku, þannig að mælieiningar hjá mér eru ekki sérlega nákvæmar, en nærri lagi.  Með æfingunni finnur maður sinn takt í eldamennsku.  

Uppskriftirnar hér eru hugsaðar sem hugmyndir að samsetningu frekar en hárnákvæmum lýsingum á innihaldi og aðferð.  Þær eru svo settar hér á internetið fyrir sjálfa mig til að muna eftir uppskriftum sem mér þykja góðar, fyrir vini og vandamenn og alla aðra sem ramba inn á þessa síðu.

LISTAMANNASÚPA

Ég geri reglulega kjúklingasúpu, fyrir ónæmiskerfið og sálina. Í dag langaði mig að gera virkilega góða súpu og eina sem að krakkarnir myndu borða með bestu lyst…listamannasúpa varð til.

Það hafa margir heyrt um skólastjórasúpu, sem ég veit að syni mínum þykir góð. Ég gúglaði nokkrar þannig uppskriftir og “for the soul” og fór svo og týndi úr ískápnum það sem til var, með hollustuna að leiðarljósi og úr varð Listamannasúpa.

Ég gerði þessa súpu í Instant Pot, sem ég BTW elskaaaa, en auðvitað hægt að gera hana í potti á hellu.

Þar sem ég tók ekki mynd af súpunni læt ég þessa fylgja með til að krydda aðeins upp á færsluna og minna á að GÓÐUR hvítlaukur gerir súpuna betri…Bíð spennt eftir að sjá þann íslenska í verslunum.

LISTAMANNASÚPA

  • Kjúklingur, úrbeinaðir leggir. ( Heill kjúklingur með beini og gera soð væri skrefi ofar.)
  • Sæt kartafla, notaði 1/2
  • Græn paprika, 1 stk
  • Brokkólí
  • 2 Gulrætur
  • 1/2 laukur
  • Góður biti af púrru
  • Hvítlaukur, 3-5 rif
  • Engifer, 2 cm bútur
  • Olía til steikingar
  • Eplaedik, lífrænt 1 msk
  • Lífræn tómatsósa, Biona, 2 msk
  • 1/2 dós rjómaostur
  • 2 dl rjómi
  • Rifinn börkur af 1/2 sítrónu
  • 1 líter vatn.

Krydd sem ég notaði voru túrmerik, karrý, shawarma frá kryddhúsinu, cyenne pipar, hvítlaukssalt og grænn pipar. Ferskar kryddjurtir ættu vel við hér og hefði ég notað þær ef ég hefði átt til, t.d kóríander, graslauk og/eða steinselja.

Skerið kjúklinginn í bita og steikið upp úr olíu, bætið við kryddum. Saxið grænmeti eftir hentugleika og smekk og bætið við og að lokum öllu öðru nema rjóma og rjómaosti. Setjið stillingu á Instant Pot á Pressure Cook á 5 mín. Eftir það losaði ég þrýsting og setti á saute stillingu og bætti við rjómaosti og rjóma.

Með þessu bar ég fram “on the side” spaghetti frá Tariello.

Heitur réttur í hádeginu

Þegar að maður er hvorki í saumaklúbbi eða á leið í fermingaveislu en langar í heitan rétt þá er um að gera að henda í þennan einfalda rétt.

Í potti: Rjómaostur, camembert smurostur, beikon smurostur, skvetta af mjólk eða rjóma, sveppir, aspas úr dós (hella með smá af vökvanum), skinka, brauðstangarkrydd, súrdeigsbrauð skorið í teninga, paprika smátt skorin ef til vill, salt og grænn pipar. Allt sett í pott og mallað. Hægt að byrja á að smjörsteikja sveppi í pottinum og ég setti brauðið í síðast.

Hitað saman og sett í eldfast mót sem passar í air fryer.

Ostagljáð ofan á : Hektor, ostur, emmental, rifinn ostur að eigin vali.

Air fryer í 10 mín á 180°c síðustu tvær mín hækkaði ég í 200°c.

Heitur brauðréttur

Ég gerði hæfilegt magn fyrir 3-4 sem forrétt.

  • 2 msk rjómaostur
  • 2 msk beikon smurnostur
  • 2 msk camembert smurostur
  • 2-3 msk mjólk eða rjómi
  • 2 sneiðar súrdeigsbrauð
  • 1 stór sveppur (2-3 litlir)
  • 3 sneiðar skinka
  • Aspas úr dós og smá af vökvanum
  • 1/4 rauð paprika
  • 1-2 tsk brauðstangarkrydd frá Kryddhúsinu

Ostagljáð

  • Rifinn ostur
  • Emmental ostur, rifinn
  • Hektor, rifinn

Svo má leika sér með þá osta sem til eru, bæði í réttinn og til að bræða ofan á

Gallo Pinto

Daglegur morgunverður þegar við bjuggum í Monteverde, Costa Rica var Gallo Pinto. Uppistaðan eru hrísgrjón og svartar baunir. Margir telja að þessi samsetning, grjón og baunir séu ofurfæða fyrir meltinguna.

Gallo Pinto

  • 3 dl Hrísgrjón, soðin. (um það bil)
  • Ein dós svartar baunir (eða ferskar sem búið er að sjóða)
  • 1 Paprika
  • 1/2 Laukur (ég notaði hvítan lauk)
  • Salt
  • Kóríander
  • Góða olíu til steikingar

Svitið lauk og papriku í smásvegis olíu, bætið út í soðnum hrísgrjónum, svörtum baunum, kóríander og saltið til. Ég notaði gula papriku en það má nota rauða eða græna eða alla liti ef út í það er farið, gula og rauða eru þó sætari.

Með þessu steiki ég egg og stundum heimagerðar maís tortillas. Svo væri hægt að gera Huevos Rancheros en uppskrift af því og maís tortillas má finna hér.

MEÐ FYRIRVARA:  Ég er algjör slumpari þegar kemur að eldamennsku, þannig að mælieiningar hjá mér eru ekki sérlega nákvæmar, en nærri lagi.  Með æfingunni finnur maður sinn takt í eldamennsku.  

Uppskriftirnar hér eru hugsaðar sem hugmyndir að samsetningu frekar en hárnákvæmum lýsingum á innihaldi og aðferð.  Þær eru svo settar hér á internetið fyrir sjálfa mig til að muna eftir uppskriftum sem mér þykja góðar, fyrir vini og vandamenn og alla aðra sem ramba inn á þessa síðu.

Svartbauna-salsa

  • 1 dós svartar baunir
  • 1/4 hvítur laukur
  • 1 tsk salt
  • Chili pipar (fer eftir styrkleika hans og smekk)
  • 2-3 sneiðar niðursoðinn jalapeno
  • 2 msk vökvinn úr jalapeno krukkunni

Hitið baunir að suðu. Setjið allt í matvinnsluvél og maukið vel.

Passið að velja baunir sem ekki er búið að bæta neinu við, Gestus baunirnar innihalda t.d sykur og eru fyrir minn smekk ekki góðar. Ég kaupi vanalega frá Biona eða þá þurrar og sýð sjálf.

Einnig væri hægt að “roast-a” laukinn aðeins.