Húsið við sjóinn

Foodwaves

Month: September, 2022

Gallo Pinto

Daglegur morgunverður þegar við bjuggum í Monteverde, Costa Rica var Gallo Pinto. Uppistaðan eru hrísgrjón og svartar baunir. Margir telja að þessi samsetning, grjón og baunir séu ofurfæða fyrir meltinguna.

Gallo Pinto

  • 3 dl Hrísgrjón, soðin. (um það bil)
  • Ein dós svartar baunir (eða ferskar sem búið er að sjóða)
  • 1 Paprika
  • 1/2 Laukur (ég notaði hvítan lauk)
  • Salt
  • Kóríander
  • Góða olíu til steikingar

Svitið lauk og papriku í smásvegis olíu, bætið út í soðnum hrísgrjónum, svörtum baunum, kóríander og saltið til. Ég notaði gula papriku en það má nota rauða eða græna eða alla liti ef út í það er farið, gula og rauða eru þó sætari.

Með þessu steiki ég egg og stundum heimagerðar maís tortillas. Svo væri hægt að gera Huevos Rancheros en uppskrift af því og maís tortillas má finna hér.

MEÐ FYRIRVARA:  Ég er algjör slumpari þegar kemur að eldamennsku, þannig að mælieiningar hjá mér eru ekki sérlega nákvæmar, en nærri lagi.  Með æfingunni finnur maður sinn takt í eldamennsku.  

Uppskriftirnar hér eru hugsaðar sem hugmyndir að samsetningu frekar en hárnákvæmum lýsingum á innihaldi og aðferð.  Þær eru svo settar hér á internetið fyrir sjálfa mig til að muna eftir uppskriftum sem mér þykja góðar, fyrir vini og vandamenn og alla aðra sem ramba inn á þessa síðu.

Svartbauna-salsa

  • 1 dós svartar baunir
  • 1/4 hvítur laukur
  • 1 tsk salt
  • Chili pipar (fer eftir styrkleika hans og smekk)
  • 2-3 sneiðar niðursoðinn jalapeno
  • 2 msk vökvinn úr jalapeno krukkunni

Hitið baunir að suðu. Setjið allt í matvinnsluvél og maukið vel.

Passið að velja baunir sem ekki er búið að bæta neinu við, Gestus baunirnar innihalda t.d sykur og eru fyrir minn smekk ekki góðar. Ég kaupi vanalega frá Biona eða þá þurrar og sýð sjálf.

Einnig væri hægt að “roast-a” laukinn aðeins.