Hvítkáls-karrí og Gúllas

Ég bjó til gúllas fyrir krakkana, eingöngu gúllas sem var létt steikt upp úr smá blöndu af avocado-  og ólífuolíu, saltað, piprað og ögn af hvítlauksdufti.  Bætti við líter af vatni og dós af maukuðum tómötum og lét malla við vægan hita eftir að suðan var komin upp, í ca.  2 klst.  

Kjötið var bragðgott og mjúkt, fengið í búðinni að Hálsi í Kjós, en þeir eru með grasfóðruð naut.  

Ég hefði sett kartöflur út í ef ég ætti, en ákvað að sleppa sveppum, gulrótum og papriku sem ég vanalega bæti við því þetta var fyrir krakkana gert, sem eru minna fyrir slíkt.  Gúllaspottrétturinn var étinn upp til agna með hrísgrjónum.   Þrátt fyrir einfaldleikann þá var hann mjög bragðgóður, en stundum langar manni í eitthvað einfalt…. 

Nema ekki mér, í þetta sinn… því gerði ég í öðrum potti eitthvað ögn meira krassandi fyrir fullorðna fólkið.  Ég fann uppskrift af ungverskri hvítkálsúpu, sem ég hélt að gæti farið vel með gúllasinu ef manni langaði að blanda saman réttunum, en svo fannst mér uppskriftin ekki nógu djúsí.  Ég var búin að saxa niður hvítkál og epli og ákvað að skera niður næpu sem ég átti í ískápnum,  þá sá ég ferskt engifer og ákvað að taka u-beyju og breyta þessu í karrý rétt.  Úr varð þessi uppskrift, og var hún mjög góð.

Ég fékk vin í mat, og hann viðurkenndi eftir að hafa borðað að hann hafi nú verið efins þegar ég var að telja upp hvað fór í réttinn áður en við settumst við matarborðið, en svo kom annað á daginn, þetta var mjög gott…og hollt!!

IMG_20200814_082413-01

Hvítkáls-karrí

  • 1/2 hvítkálshaus, saxað
  • 1/2 Næpa, julienne cut*
  • 1 epli, teninga eða julienne cut*
  • Engifer, skorið eða rifið eftir smekk, mér finnst gott að hafa það í julienne cut
  • Grænar baunir, FROSNAR!  ekki “gráar” niðursoðnar
  • Karrí
  • 1 tsk Marokkósk Harissa frá Kryddhúsinu.
  • 1 dós hakkaðir tómatar (hakkaðir eða heilir, eftir smekk, ég átti bara hakkaða)
  • 1/2 dl rjómi
  • 2 msk kókósolía, til steikingar (eða önnur olía)

Olían sett í pott með karríblöndu og látið malla í 2 mín til að fá sem mest út úr kryddinu.  Magn kryddsins ræðst af styrkleika þess, ég notaði um það bil 2-3 msk af karrí og eina tsk af Harissa-kryddinu, en það er frekar í sterkari kantinum og mætti sleppa fyrir þá sem vilja mildara karrí.

Kál, næpa, eplið og engifer sett í pottinn og látið mýkjast í nokkrar mín, ég læt það ekki brúnast.

Grænum baunum bætt út í, ásamt tómötum og rjóma. Lét malla í ca. korter við vægan hita.  (neðstu stillingu á gashellum).

Ef að þið vitið um gott karrí sem fæst á Íslandi megið þið endilega láta mig vita hér í athugasemdum.

*Julienne skurður //  “julienne cut ” 

Á Google er hægt að leita að myndböndum og myndum sem sýna hvernig það er gert.

Screen Shot 2020-08-08 at 08.09.47

MEÐ FYRIRVARA:  Ég er algjör slumpari þegar kemur að eldamennsku, þannig að mælieiningar hjá mér eru ekki sérlega nákvæmar, en nærri lagi.  Með æfingunni finnur maður sinn takt í eldamennsku.  

Uppskriftirnar hér eru hugsaðar sem hugmyndir að samsetningu frekar en hárnákvæmum lýsingum á innihaldi og aðferð.  Þær eru svo settar hér á internetið fyrir sjálfa mig til að muna eftir uppskriftum sem mér þykja góðar, fyrir vini og vandamenn og alla aðra sem ramba inn á þessa síðu.