Húsið við sjóinn

Foodwaves

Category: Indverskt

Þurrkaður chili pipar og markaðsetning fyrir börn

Chili piparinn frá Engi er svo góður, hæfilega sterkur.  Ég kaupi sjaldan þurrkuð krydd, þessi í stórmörkuðum eru bragðlausari en Fréttablaðið.

Ég tók mig til og þurrkaði nokkra chili pipra og setti þá í mortel og hamraði á þeim þar til þeir voru orðnir að dufti.  Það væri eflaust hægt að mala þá í kaffikvörn. Þetta var svo gott krydd að ég er komin með 4 aðra í þurrkun.  Ég bjó til Indverskan mat um daginn þar sem ég notaði engin krydd nema ferskan hvítlauk, ferskt engifer og chiliduftið mitt og smá túrmerik.  Þetta var ótrúlega bragðgóður og bragðmikill réttur.

chiliduft2

Ég fór í Krónuna, um leið og maður gekk inn var búið að setja parísar hoppileik á gólfið og dóttir mín hoppaði eftir tölunum í leiknuð þar til hún stoppaði við stóra stæðu af Orkumjólk frá Latabæ. Frábær markaðsetning.  Hún ætlaði að taka sér kippu en ég tók fyrir það.  Mér er svo illa við svona markaðsetningar fyrir börn og versla ekkert með Latabæ.  Innihaldslýsing Orkumjólkur er sú sama og á sykurskertri kókómjólk. Það stendur meira að segja orðrétt að mjólkursykurinn sé klofinn eins og stendur á kókómjólkinni.

Þannig að ég er að velta fyrir mér hvort þetta sé sama mjólkin og frá MS, þótt svo að Vífilfell sé framleiðandi?

Undir áhrifum Aloo Palak

Ég freistast alltaf til að kaupa fjallaspínat þegar ég fer í mín vikulegu grænmetisinnkaup hjá Frú Laugu.  Ég datt niður á uppskrift af Aloo Palak og hafði hana til hliðsjónar þegar ég eldaði kvöldmatinn í gær.

Spínat kartöfluréttur

  • 1 poki spínat
  • 2 tómatar
  • 1/2 laukur
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 1-2 tsk Karrí krydd blanda frá Yndisauka (eða annað gott indverskt krydd)
  • 5-6 soðnar kartöflur
  • 1/2 tsk sykur
  • Skvetta af mjólk, kannski 1/2 – 1 dl, ekki svo nojið
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Smjörklípa

Skolið spínatið og hitið það á pönnu með smá vatni.  Maukið það í blender.  Geymið.

Svitið lauk og hvítlauk á pönnu Bætið við kryddum og svo tómötum, fínt skornum og smá sykri. Bætið út í þetta spínatinu, smá mjólk og hrærið saman.  Bætið við kartöflum og saltið og piprið eftir smekk.

Ég bætti við smá smjörklípu í lokin, en það má sleppa því.

Þá er þetta tilbúið.  Berið fram með góðum fiski eða þess vegna eitt og sér sem léttur grænmetisréttur.  Ég bar hann fram með þorski.

Jóladagatal Soffíu – 20 dagar til jóla – Indverskt og Naan

Heilræði við piparkökugerð:

Alveg dæmigert ég, skellti í piparkökudeig.  Kældi það, flatti út, skar deigið svo fyllti þrjár plötur.  Bakaði fyrstu plötuna til þess eins að komast að því að ég gleymdi að setja smjör í uppskriftina.  Enda fannst mér hún einstaklega þurr svo ég þurfti að setja skvettu af mjólk í deigið.

Kökurnar urðu extra harðar og því miður óætar, þannig að… ekki gleyma smjörinu!

Enn er ég að telja niður í jólin með jólalegum færslum og í dag langar mig að koma með hugmyndir að innpökkun sem ég hefir rekist á á netinu.

Ég sá þennan tvinna á einhverri síðunni og fannst hann svo fallegur, væri eflaust fallegur utan um einhverja pakkana.  Og viti menn, stuttu síðar rakst ég á hann í Barnabúðinni á Laugarveginum, ég gáði ekki að því hvað hann kostaði en mun gera það næst þegar ég á leið hjá og eflaust fjárfesta í honum ef mér blöskrar ekki verðið…

tvinni

Og hér er heimasíðan þeirra.

pasta pakki

Þetta eru sætir pakkar, með pasta slaufum, fyrir mataráhugafólk, nánar um þá hér.

indverskur matur

Við gerðum indverska matarveislu í gær með vinarfólki okkar.  Þau komu með alls konar krydd og fulla poka af mat.  Úr varð að við elduðum lambarétt og kjúklingarétt.  Ekki fórum við sérstaklega eftir uppskriftum heldur gerðum við bara “eitthvað” með hliðsjónsjón af fyrri reynslu í eldun á indverskum réttum.

Við vorum með það sem er mikilvægast í indverskri matargerð, góð krydd.  Við byrjuðum á að fá fram bragðinu í kryddunum með því að hita þau í olíu á pönnu.  Svo fór lambið á eina pönnu og kjúklingurinn á hina.

Og því næst tómatar, jógúrt og grænmeti með lambinu og maukaðar cashew hnetur, kúrbítur og tómatar með kjúklingnum.

Svo var fullt af fersku kóríander, hvítlauk, engifer og chile.

Í hrísgrjónin fór eitthvað af kryddi og svo goji ber, það var mjög gott.

Og að sjálfsögðu var heimalögðu raita og heimagert mango chutney.

Raita

  • 2 dl AB mjólk
  • hálf agúrka, gróft skorin
  • hálfur rauðlaukur (rokkar) fínt skorinn
  • 1 tsk garam masala
  • ca 2-3 tsk Maldon salt
  • Sett í kæli í svona hálftíma.

Naan brauðið heppnaðist einstaklega vel.  Ég notaði pizzu grill aðferð Hestons sem ég bloggaði um hér þar sem ég set ofninn á grill og hef brauðin eins nálægt grill elementinu og ég get.

naan

Og hér er naan brauðið

  • 2 tsk ger
  • 4 msk volg mjólk
  • 2 tsk sykur
  • 1 egg
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 kg hveiti
  • 1 dl ab mjólk
  • Vatn eftir þörfum

Ég byrjaði á að leysa gerið upp með volgri mjólk og sykri í kitchen aid skálinni minni.  Bætti því næst hveitinu, eggi, lyftidufti, ab mjólk og setti hrærivélina í gang.  Svo bætti ég við vatni þar til ég var komin með mjúkt og fallegt deig. (Ég reyndar blandaði saman ab mjólk með vel volgu vatni og hrærði það smá saman, byrjaði á að setja út helminginn af því og svo restina smám saman þar til ég var ánægð með áferðina.  Ætli ég hafi ekki verið með um 1.5 dl af vatni út í ab mjólkinni. Og svo áttiég ekki mjólk, þannig að ég leysti gerið upp með smá ab mjólk og heitu vatni svo úr varð volg blanda)

Mér fannst koma vel út að setja egg í deigið.

Svo flatti ég þetta út, svona eins og naan lítur yfirleitt út.  Við vorum með mjög góðan chile, ekki of sterkan en þó með góðu bite-i.  Þannig að við skárum hann smátt og svo potaði ég því hér og þar í naanið.  Svakalega gott.  Og um leið og naan brauðið kemur úr ofninum, setið þá smjörklípu á það svo hún bráðni yfir brauðið.

Kjúklingabitar með cashew hnetum og indverskum kryddum

Ég á stundum kjúklingabita í frysti, leggir, læri og vængir. Margt gott hægt að gera við það.  Að þessu sinni fór ég út í indverskt þema.

Ég var ekki með uppskrift heldur nýtti það sem til var og spilaði þetta jafnóðum.  Ég átti Cashew hnetur sem mig langaði að nota.  Þannig að það var grunnurinn.

Þetta var mjöööööög mjög bragðgóður réttur.

Indverskur kjúklingaréttur

Indverskur kjúklingaréttur

  • Kjúklingabitar
  • 1 poki cashew hnetur
  • 2-3 msk ólífuolía
  • 1 dós tómatar
  • 1/2 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • Salt
  • Pipar
  • 1 -2 tsk Durban krydd
  • 3-4 msk sýrður rjómi (eða jógúrt sem ég hefði frekar notað ef það hefði verið til)
  • 3-4 msk smjör

Saltið og piprið kjúklinginn og setjið í eldfast fat.  Eldið í ofni við 200°c í klst eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.  Þetta geri ég því stundum vil ég ekki það sem lekur úr kjúklingnum í réttinn.

Allt nema kjúkling og smjör setti ég í matvinnsluvél og maukaði í sósu.  Sósuna setti ég á pönnu og hitaði hana upp, setti kjúklinginn út í og lét malla á meðan ég gerði hrísgrjón og naan.  Í lokin bætti ég við smjöri í sósuna og hrærði því saman þar til það bráðnaði.

Naan brauðið var afgangur af pizzadeigi, flatt út og steikt á pönnu.  Annað meðlæti var hrísgrjón, mangó chutney og agúrkusalat, svo er alltaf gott að hafa Raita.

Þetta er kryddið sem ég notaði, fékk það í Nóatúni einhvertíma.  Það má nota hvaða indverska krydd í þennan rétt.  Bara það sem ykkur finnst gott.

durban curry

Gerlaust naan brauð

Ég er að reyna að gera gott naan, svona eins og maður fær á virkilega góðum indverskum stöðum. En þar sem ég á ekki tandoori ofn veit ég nú ekki hvort mér eigi eftir að takast það.

Ég fylgdi uppskrift sem ég fann í eldgamalli indverskri matreiðslubók. Þar er ekki notað neitt ger. Hráefni er blandað saman og látið standa í 6-8 klst.

naan

Naan

  • 450 g hveiti
  • 2 eggjahvítur
  • 1 msk smjör
  • 1 1/2 tsk sykur
  • 5 dl ab mjólk eða jógúrt
  • 1 tsk salt
  • Vatn eftir þörf (1/2 dl eða jafnvel minna)

Blandið öllu saman í skál nema vatni og hnoðið (með höndum eða í hrærivél) Bætið við vatni ef þess þarf. (Mér finnst ab mjólkið svo blaut að ég notaði rétt 3-4 msk af vatni)

Hnoðið þar til deigið er mjúkt og fínt. Breiðið yfir skálina (filmu, plastpoka eða rakann klút) og látið standa í 6-8 tíma út á borði.

Skiptið svo deiginu í kúlur, ca á stærð við tennisbolta og fletjið út í ílanga hringi. (Ef deigið klístrast við hendurnar þá má strá örlitlu hveiti á það).

Bakið í vel heitum ofni í 5- 10 mínútur. Fylgist bara vel með brauðunum og takið út þegar þau eru tilbúin. Ég hafði brauðin í 250° heitum ofni í 4- 5 mín.  Ekki hafa þau of lengi í ofninum svo þau verði ekki hörð.

Ég held að leirofninn hefði komið sterkur inn 😛

Ég á eftir smá afgang af deiginu sem er búið að hvíla inn í ísskáp.  Ég ætla að prófa að setja það á pönnuna á eftir.

lamb vindaloo

Þetta smakkaðist ljómandi vel  með Lamb Vindaloo.  Ég notaði Lamb Vindaloo fráThe Cape herb and spice company.

Uppskrift fylgir kryddinum á umbúðunum, Ásamt kryddunum fór í réttinn tómatar úr dós, ab mjólk og laukur, hvítlaukur og ferskt engifer.  Einfalt og smakkaðist mjög ferskt. Þetta er frekar sterkur réttur.

vindaloo

Indverskur réttur – sittlítið af hinu og þessu og smá salt…

Ég get ekki hætt að hugsa um Vindaloo réttinn sem ég fékk mér alltaf þegar ég bjó í Madríd.  Og í gær ætlaði ég að reyna að gera eitthvað í líkingu við hann.  Kíkti á nokkrar Vindaloo uppskriftir og rölti svo út í búð.  Það gekk ekki betur en svo að ég kom heim með mangó og bufflauk og ekkert annað því ég ætlaði í aðra búð og versla kindafille og vidaloo krydd.  En ákvað svo að láta bara duga það sem til var því ég nennti ekki aftur út.

Úr varð einn besti indverskur dinner sem ég hef matreitt.

Heimagert mango chutney eins og ég bloggaði um fyrri stuttu, nema ég notaði hvítvín í staðin fyrir eplaedik.  Mæli geggjað með að gera sitt eigið mango chutney!

Raita,  Ab mjólk, salt, agúrka, túrmerik og 2 tsk salthnetublandan frá Yndisauka.

Hrísgrjónin krydduð með túrmerik, grænum baunum og fullt af smjöri og smá salt.  (Hefði sett út í ferskt kóríander hefði það verið til.

Roti, hveiti, vatn og salt.  Flatt út í kökur og steikt á pönnu.

Aðalrétturinn endaði sem lambahakksbollur með durban kryddi.  Góð krydd eru gulli betri.  Ég hef áður sagt ykkur frá Durban kryddinu, það er lúmskt gott! ( Durban curry og er frá Cape herbs)

durban curry

Þessi réttur varð til jafnóðum og ég eldaði. Ég fór ekki eftir neinni uppskrift og notaði það sem til var.  En þetta var svo gott að ég væri til í þennan rétt aftur í kvöld.  Það sem gerði þennan rétt var þetta Durban krydd sem ég á, keypti það í Krónunni um daginn.  En ég hef séð þessi krydd frá Cape Herbs bæði í Nóatúni og Krónunni.

indverskt

Lambahakksbollur með indversku ívafi (fyrir 2)

  • 600 g  lambahakk
  • 1 tómatur
  • 1 tsk Durban krydd
  • 1 tsk túrmerik
  • 1 tsk salt
  • 1/2 laukur
  • smá ferskur chile (magn fer eftir styrkleika chilísins)
  • 2 hvítlauksrif
  • 1-2 msk ólífuolía
  • Öllu skellt í mixer og hakka vel saman.  Gerið litlar bollur og steikið á pönnu.

 

Sósan:

  • 2 tsk fersk rifin engifer ( eða smá klumpur)
  • !/2 laukur
  • Tómatsósa í dós (Ég nota þessar frá Eden, langbestar)
  • 1/2 dl Ab mjólk
  • Durban krydd, 2-3 tsk…smakkið til.
  • Salt eftir smekk
  • 2-3 hvítlauksrif
  • Smá ferskur chile

Hakkið vel saman í mixer lauk, hvítlauk og engifer og smá chile svo úr verði paste. Svitið paste-ið á pönnunni hjá kjötbollunum, bætið við tómatsósunni og kryddið.  Setjið ab mjólk í og leyfið þessu að malla í amk korter, hrærið í öðru hvoru.

Þetta var svoooo gott.  Með þessu bar ég fram hvítvín, Sauvignon Blanc frá Montes, Chile, 2009. En Sauvignon Blanc fór mjög vel með þessum rétti.  Ég mæli því með  Sauvignon Blanc með sterkum indverskum réttum.

Annars er mögnuð þessi þoka í dag.  Ég rölti um Hljómskálagarðinn og mýrina út að Norræna húsinu, en þegar ég var komin út stíginn þá tók við brekka sem var ekki séns að komast upp með barnavagn þannig að ég þurfti takk fyrir að labba til baka út á Hringbraut.  Algjör hönnunargalli. En þvílíkt spúkí stemmning þarna í mýrinni, ekki sála á ferli, nema köttur og nokkrir fuglar og skyggni nokkrir metrar.

þoka

Roti með kjúklingabaunum

Ég bauð hænsnabóndanum í mat.  Hún á samkynhneigðan hana sem er með fjaðurskreytta leggi og hann býr með þó nokkrum hænum. Það verður fróðlegt að sjá hvort það koma ekki einhver egg í vetur.

Það er alveg frábært að hafa hænur í næsta húsi, því allir matarafgangar fara í sér fötu og svo beint í hænurnar, því það er fátt leiðinlegra en að henda mat.  En þarna er honum vel varið.  Og svo dekrar maður þær stundum með að setja girnilega afganga í fötuna frekar en í frystinn.

hæna

Svona litu þessar elskur út fyrir nokkrum mánuðum, en í dag eru þetta stálpaðar hænur.

ungi

Eins og ég sagði ykkur frá síðast þá gerði ég mango chutney sem heppnaðist svo vel og einnig var ég búin að þurrka kjúklingabaunir úr dós til að setja saman við Roti þannig að ég ákvað að slá upp indverskri veislu handa nágranna mínum, hænsnabóndanum.

dahl

Ég hafði verið að lesa mér til um Gram hveiti sem er gert úr þurrum kjúklingabaunum.  En þar sem ég átti bara baunir í vökva í dós þá ákvað ég að gera tilraunir.  Ég þurrkaði þær í ofni við lágan hita (um 100°c ) og lét þær svo standa út á borði yfir nóttina.

Roti með kjúklingabaunum

  • Kjúklingabaunir í dós, þurrkaðar
  • 1 dl Hveiti
  • ca 1/2 dl vatn
  • 1 tsk salt

 

Maukið baunirnar í mixer, þær verða blautari við það þar sem þær hafa ekki þornað alveg í gegn.  En það er bara gott.  Það mætti líka setja baunirnar beint úr dósinni í deigið (sía vökvann þó frá)

Blandið saman 1 dl af hveiti, kjúklingabaununum og ca 1/2  af volgu vatni  og hnoðið þar til þetta er farið að líta út eins og pizzadeig.  Búið til litlar kúlur og fletjið út í þunnar kökur (svona eins og mexikóskar tortillur).  Hitið pönnu vel (ég notaði pönnukökupönnuna mína) og setjið smá matarolíu á hana.  Steikið kökurnar á hvorri hlið í ca 30 sek. á hlið.   leggið síðan spaða eða bak á skeið og þrýstið á kökuna til að fá loft inn í hana.

Þetta myndband hér sýnir frábærlega vel hvernig Roti er gert.

Svo gerði ég Dalh úr því sem til var, ásamt  nýuppteknum kartöflum.

dahl

Dahl með grænum linsubaunum og kartöflum

  • Grænar linsubaunir, 1 dós (eða sjóða þurrkaðar)
  • Spínat, 2-3 lúkur
  • Tómatar í dós, chrushed
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður, en ekkert of smátt
  • 1/2 laukur, saxaður
  • 1-2 hvítlauksrif
  • Græn paprika
  • Nokkrar kartöflur, skornar í litla munnbita
  • Salt
  • Pipar
  • Olía
  • 2 msk smjör
  • Krydd frá Vindalookit-inu frá Cape herb and spice company sem fæst í Nóatúni

Grænmeti og krydd steikt lauslega upp úr olíu og smá smjöri, baunum og tómötum í dós ásamt spínatinu bætt við.  Látið malla þar til kartöflur eru soðnar í gegn.

Ég notaði smá af vindaloo kryddinu, EKKI ALLAR dósirnar, bara smáúr hverri dollu, 1/2 tsk eða svo.  Þetta er fremur sterkt krydd þannig að smakkið ykkur bara til.

Dahl er hægt að krydda á svo marga vegu, túrmerik eða eitthvað karry, garam masala,  chili og hvítlaukur  gera mikið.

Þegar gesturinn mætti bauð ég upp á hummus.  Ég notaði organic curry rub út í, það var rosalega gott.

hummus

 Hummus

  • 1 dós kjúklingabaunir, skola lítillega
  • 2-3 tsk organic curry rub
  • 1-2 tsk salt
  • 3-4 msk Ólífuolía
  • Ólífuolía til að dreypa yfir
  • Paprikuduft, 1 tsk eða svo

Öllu maukað saman í mixer Sett í skál og góðri ólífuolíu og smá paprikudufti stráð yfir.

 

Punjabi with twists

Það er ekkert smá flott hvað fólk sem kemur til okkar í foodwaves er duglegt að elda og  frumlegt í eldamennsku, það þorir að prófa allskonar skemmtilegar samsetningar.
Eins og þið kannski vitið þá á ekki að styðjast við uppskriftir og fólk má gramsa í öllum skápum og nota hvaða hráefni sem það finnur.
Því er fólk að koma inn í eldhús án þess að hafa glóru um hvaða hráefni er til sem það getur eldað úr.
Og nú held ég áfram að segja ykkur frá réttunum sem voru framreiddir föstudagskvöldið forðum. Sú sem var næst í eldhúsið að malla brást ekki bogalistin og eldaði hún dýrindis rétt.
naan

Punjabi with twists (fyrir 2 sem aðalréttur)

  • 2 Naan brauð
  • 2 Dvergrauðlaukur
  • Ca 1/3 krukka Feta ostur
  • 1/2 Grænt epli
  • 2-3 msk Mangó – jalapeno glaze
  • Hamborgarakrydd
  • Svartur pipar
Laukur og epli steikt upp úr mangó glaze, kryddað með svörtum pipar og hamborgarakryddi. Það er sett á naan brauð ásamt fetaosti.  Hitað í ofni við 200° c í ca 5 mínútur.

Kjúklingabollur með indversku ívafi

Góð krydd eru gulli betri, eða þau að minnsta kosti geta gert góðan mat betri.  Ég á nokkrar virkilega góðar kryddblöndur sem ég hef sankað að mér.  Sú nýjasta er frá NOMU og heitir Indian rub.  Ég fékk hana í Mosfellsbakaríi.

Ég bjó til kjúklingabollur með þessu kryddi og þær heppnuðust mjög vel. Það er ágætt “bite” í þessu kryddi.

kjúklingabollur

Kjúklingabollur með indversku ívafi (fyrir 2)

  • 1 Kjúklingabringa
  • 1 vorlaukur
  • Hálf brauðsneið
  • 2 msk ólífuolía
  • Salt
  • Pipar
  • 1-2 msk Nomu Indian rub
  • 1 hvítlauksrif, pressað

Öllu blandað saman í blender/matvinnsluvél.  Búið til bollur eða klatta (auðveldara að steikja klattana).  Steikið á pönnu.

Svo setti ég á pönnuna með kjúklingabollunum 2 shallott lauka, 1 hvítlauksrif, 1/3 dós tómata, salt, pipar og smá af Nomu kryddinu. Þetta bar ég fram með hrísgrjónum (setti salt og túrmerik útí hrísgrjónin) mango chutney og raitu.

 

Naan

Bjó til naan brauð sem var alveg ágætt, doldið þétt.  Svo notaði ég afganginn af deiginu daginn eftir í pizzabotn og það virkaði ansi vel. Deigið var mjúkt og auðvelt var að rúlla því þunnt út í pizzabotn.

www.soffia.net

Naan brauð

  • 100 ml mjólk
  • 1 msk sykur
  • 5 g þurrger
  • 300 g hveiti
  • 1/2 – 1 tsk salt
  • 1 tsk lyfitduft
  • 2 msk olía
  • 100 g ab mjólk
  • 1 eggjahvíta

 

  1. Setjið ger, sykur og volga mjólk  í skál og látið gerið leysast upp í ca 10 mín.
  2. Blandið rest saman við og hnoðið.  (Bætið við hveiti ef deigið er of blautt)
  3. Látið hefast í amk klst á hlýjum stað.
  4. Skiptið deiginu í ca 6 kúlur og fletjið þær út frekar þunnt.
  5. Bakið í 5 –  8 mín við 270°
  6. Dreypið bráðnuðu smjöri með hvítlauk, salti og fersku kóríander yfir brauðin.

 

Næst ætla ég að prófa þessa uppskrift

Naan

  • 450 g hveiti
  • 2 eggjahvítur
  • 1 msk olía
  • 1 1/2 tsk sykur
  • 2 bollar jógúrt
  • 1 tsk salt
  • 1 1/2 bolli vatn, eða eftir þörf…

 

  1. Blandið öllu saman með eins miklu vatni og þarf, hnoðið vel.
  2. Látið deigið standa í 6-8 klst.  Skiptið því niður í kúlur og fletjið þunnt út.
  3. Bakið við 300° í nokkrar mínútur.

NB: 1 bolli er 2,4 dl