Fiskisúpan sem verður endurtekin

by soffiagudrun

Það var ekki arða eftir í pottinum að máltíð lokinni, svo góð var hún. Ég átti næstursaltaða ýsu og var á leiðinni að pönnusteikja hana í rjóma þegar ég skipti um skoðun og gerði þessa uppskrift jafnóðum og ég eldaði úr því sem til var. Ég slumpa í eldamennsku og því uppskriftin ekki nákvæm en nærri lagi og um að gera að imprúvæsa miðað við hvað manni sjálfum finnst gott, meir af einu og minna af öðru.

Ég skar fiskinn í hæfilega stóra bita og kryddaði með kryddi frá Oliva “Flavoring for meat, fish and vegetables” og er geggjað á fisk. Annað krydd sem ég nota mikið á eiginlega allt er Brauðstangakryddið frá Kryddhúsinu.

Fiskisúpan

  • 800 g nætursöltuð ýsa
  • 2-3 lúkur rækjur
  • 1 dós San Marzano tómatar
  • Paprika, 1/2 gul og 1/2 rauð
  • 1 bolli kartöflur skornar í 2 cm bita (…væri líka gott að nota sætar)
  • 1 – 2 tsk “red curry paste” eða eftir smekk
  • 3-4 cm bútur af fersku engifer
  • 2-3 hvítlauksrif
  • Kryddið frá Oliva, “Flavoring for meat, fish and vegetables”
  • Pipar
  • 1 tsk túrmerik
  • Rjómaostur, ca 3-4 msk
  • Rjómi, 1 dl því ég átti ekki meir og bætti því við kókósmjólk
  • 1 dós kókósmjólk
  • 2-3 dl vatn
  • 1 – 2 msk olía til steikingar

Svitið grænmeti, bætið fiskmeti og kryddi í pottinn og hrærði aðeins í. Því næst setti ég vatn og svo allt hitt. Mallaði þar til fiskurinn var eldaður. Þar sem ég notaði nætursaltaða ýsu þá bætti ég ekki við salti en pipraði með blönduðum pipar.

Borið fram til dæmis með góðu brauði, sítrónubáta og fersku kóríander fyrir þá sem eru ekki í kóríandersápuliðinu og jafnvel skemmtilegri chili-olíu.