Húsið við sjóinn

Foodwaves

Category: Sjávarréttir

Túnfiskur undir þaki – Fyrsta máltíðin sem ég eldaði fyrir kærastann

Þessi máltíð hefði bara betur mátt lifa í minningunni.  Þegar uppi  er staðið þá er þetta bara heitt túnfisksalat með bechamel sósu og smjördegi.

Við erum að tala um að það eru næstum því 20 ár síðan ég dúkaði skrifborðið mitt inn í herberginu mínu og bauð upp á þennan rétt með flösku af Lambrusco.

Þetta var fyrir tíma digital myndavéla og instragram þannig að ég því miður ekki mynd frá þessu stórkostlega kvöldverðarboði.  En það lifir þrátt fyrir það vel í minningunni, eins og það hafi gerst í gær…næstum því.

tuna

Ég á litla ferðatösku fulla af úrklippum og litlum bæklingum með uppskriftum sem ég hef sankað að mér (Þessir sem maður fær ókeypis hér og þar í búðum frá t.d osta og smjörsölunni og fleira.)

Einn af þessum bæklingum, einmitt frá Osta og smjörsölunni inniheldur uppskrift sem ég fór eftir þegar ég bauð kærastanum í mat í fyrsta sinn, eins og ég sagði, það eru ansi mörg ár síðan og margt munnvatn runnið til sjávar síðan þá.

Ég fór að grafa ofan í töskuna í leit að þessari uppskrift því ég hef bara gert hana í þetta eina skipti og mundi ekki alveg hvernig hún var.  Lukkulega þá fann ég hana. Ég fór mjög nákvæmlega eftir uppskriftinni á sínum tíma og gerði slíkt hið sama núna.  Myndin sem fylgir uppskriftinni í bæklingnum er rosalega girnileg samt.  Þetta er alls ekki vont og ef þið kaupið vandaðan túnfisk í dós þá er þetta frekar hreint og basic hráefni, þó ekki megrunarfæði.

Uppskriftin er svohljóðandi.

tuna

Túnfiskur undir þaki (Gott úr ofninum, NR 95.  Osta og smjörsalan sf.)

 

  • 1/2 laukur, sneiddur
  • 1/4 paprika, sneidd
  • 3 msk smjör
  • 6 msk hveiti
  • 1/2 tsk salt
  • 7 1/2 dl mjólk
  • 200 g túnfiskur úr dós
  • 3 harðsoðin egg, söxuð
  • 2 msk sítrónusafi

þak

  • 225 g hveiti
  • 3 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk pipar
  • 3 msk smjör
  • 1 1/4 dl mjólk
  • 75-100 g 26% ostur, rifinn
  • 2 paprikur, saxaðar

Hitið ofn í 220°c.  Laukur og paprika látið krauma í smjöri þar til það verður mjúkt.  Þá er hveitinu hrært saman við.  Mjólk bætt út  og hræra þar til þetta sýður og þykknar. Saltið.  Bætið út í túnfiski., eggjum og sítrónusafa.  Setjið blönduna í smurt eldfast mót.

tuna

Þak: Sigtið saman hveiti og lyftidufti.  Saltið og piprið.  Myljið smjörið saman við með fingrum.

Þá er mjólkinni bætt út í.  Hnoðað með hröðum handtökum þar til deigið verður samfellt og glansandi.

Svo fletjið þið það út í ferkantaða köku.

tuna

 Stráið osti og papriku yfir.

tuna

Rúllið upp eins og þið væruð að rúlla upp rúllutertu.

tuna

Skerið rúlluna í sneiðar, ca 2 sm sneiðar.

 tuna

Raðið rúllum yfir fyllinguna í eldfasta mótinu.

tuna

Bakið í um 30 mínútur.

tuna

 

Þetta verður kannski á boðstólnum hjá einhverjum um helgina.  Ég er viss um að mörgum krökkum þætti þessi réttur góður.

Góða helgi.

 

Farro og cannellini með risarækjum

Ég fékk þó nokkrar frábærar uppskriftir eftir að ég var andlaus þarna um daginn.

Ég fékk eina uppskrift af Quinoa salati, sú sem sendi mér hana hafði fengið hana hjá öðrum bloggara, gert hana að sinni og nú tók ég hennar uppskrift og gerði að minni, því ég átti ekki Quino, en ég átti Farro, svo átti ég ekki svartar baunir heldur Cannellini baunir.  Það væri einnig hægt að nota bankabygg í staðin fyrir Farro, nú eða Quinoa.

Þið getið kíkt á uppskriftirnar og séð hvernig þær þróast og jafnvel  gert ykkar eigin útgáfu af minni uppskrift.  Ég líki þessu við hvísluleik, einn segir eitthvað orð og þegar sá síðasti í röðinni hvíslar orðið þá er það orðið að einhverju allt öðru…

Hér er upprunalega uppskriftin:
Mango and Avocado Quinoa Salad with Blackened Shrimp

Sú sem gaf mér uppskrift af sínum rétti, Trials in food:
Recipe (adapted from Daily Crave)

Hér er mín uppskrift:

Farro og cannellini með risarækjum, frá Trials in food)

  • 1 bolli Farro (soðið í 40 mín eða svo)
  • 2 rauðar paprikur
  • 3 gulrætur
  • 1 bolli Cannellini baunir (úr dós eða soðnar)
  • 3-4 vorlaukar
  • 1/2 agúrka2 tómatar
  • 1/2 bolli maískorn, lífrænt ræktuð helst
  • 2-3 msk ólífuolía
  • Safi úr 1/2 sítrónu
  • Tiger Prawns (I used about 12)
  • Kryddblanda á rækjur, égnotaði papriku, oregano, hot pizza spice mix frá Pottagöldrum, salt og pipar.

Sjóðið baunir (ef þær eru ekki úr dós) og Farro.  Skerið grænmetið smátt.  Steikið rækjurnar, (blackened). Setjið allt í skál, blandið vel saman og berið fram eitt og sér eða sem meðlæti með t.d fiski.

Meira um Blackening hér.

– Salat í þróun –

Daily Crave

Trials in food

The House by the sea – foodwaves

(Þú)

Masterchef á Íslandi – ég yrði send heim fyrst

Ég tók Top Chef moment í eldhúsinu um daginn.  Kærastinn gaf upp 2 hráefni og svo mátti ég bæta við tveim hráefnum og ég hafði 2 mínútur til að elda.

Þetta endaði í að ég bætti við 3 hráefnum og var að í næstum 3 mínútur.

Svo var komið að honum.  Ég gaf honum 2 hráefni, melónu og hnetusmjör.  Hann mátti bæta við 2 hráefnum og hafði 3 mínútur.  Hann bætti við rjóma og heitt kakó sem ég hafði gert fyrr um daginn og var orðið kalt út á borði.

Ég væri sem sagt ekki að gera góða hluti í svona þáttum.  Ég er búin að horfa á ansi margar seríur af Top Chef bæði afmeríska og Kanadíska og hef gaman að.  (Langar að horfa frönsku útgáfuna). Það verður fróðlegt að sjá þá Íslensku.

En ég er ekki að grínast með að ég myndi ekki gera góða hluti í þessum þáttum.  Ég dáist af fólkinu fyrir hugmyndaflugið að réttunum sem þau gera miðað við hráefni sem þau hafa og tímanum.  Það er aðallega þetta tímaspursmálið sem myndi stressa mig upp úr öllu valdi.

Melónurétturinn hjá kærastanum var afbragð.  Hann þeytti saman rjóma, hnetusmjör og skvettu af kalda “heita” kakóinu og bar það fram á melónusneið.

Hnetusmjör og rjómi þeytt saman = frábært! 

Kærastinn lét mig fá ferska basil og engifer og ég bætti við baguette sneið, sesamfræjum og það þriðja (svindlið) var olía til steikingar, þannig að úr varð snitta sem smakkaðist ágætlega, engin snilld samt.

En hér snilld, réttur sem ég bloggaði um fyrir þó nokkru og er vel þess virði að rifja upp.

Svona gerði ég hann síðast:

Humar og avocado (Uppskrift miðað við 4)

  • Slatti af Humarhölum, skelhreinsuðum (einnig hægt að nota tígrisrækjur)
  • 2 Avocado, þroskaðir og vel mjúkir
  • Hvítlaukur, kannski 1-2 rif
  • 1/2 rauðlaukur
  • 1/2 rauð paprika
  • Smjör, til að steikja, 2-3 msk, eða bara eftir smekk

Paprika, rauðlaukur og hvítlaukur skorið smátt og léttsteikt á pönnu í íslensku smjöri.  Humar steiktur með í ca 2-3 mín í lokinn.

Skerið avacadoinn til helminga og takið hann úr hýðinu og skerið í fremur grófa bita.  Blandið við humar og grænmetið í skál.  Hreinsið vel báða helminga hýðisins og notið sem skálar, setjið gumsið ofan í og berið fram.

Undir áhrifum Aloo Palak

Ég freistast alltaf til að kaupa fjallaspínat þegar ég fer í mín vikulegu grænmetisinnkaup hjá Frú Laugu.  Ég datt niður á uppskrift af Aloo Palak og hafði hana til hliðsjónar þegar ég eldaði kvöldmatinn í gær.

Spínat kartöfluréttur

  • 1 poki spínat
  • 2 tómatar
  • 1/2 laukur
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 1-2 tsk Karrí krydd blanda frá Yndisauka (eða annað gott indverskt krydd)
  • 5-6 soðnar kartöflur
  • 1/2 tsk sykur
  • Skvetta af mjólk, kannski 1/2 – 1 dl, ekki svo nojið
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Smjörklípa

Skolið spínatið og hitið það á pönnu með smá vatni.  Maukið það í blender.  Geymið.

Svitið lauk og hvítlauk á pönnu Bætið við kryddum og svo tómötum, fínt skornum og smá sykri. Bætið út í þetta spínatinu, smá mjólk og hrærið saman.  Bætið við kartöflum og saltið og piprið eftir smekk.

Ég bætti við smá smjörklípu í lokin, en það má sleppa því.

Þá er þetta tilbúið.  Berið fram með góðum fiski eða þess vegna eitt og sér sem léttur grænmetisréttur.  Ég bar hann fram með þorski.

Brilliant réttur fyrir litlu frosnu rækjurnar sem maður á stundum í frysti…

Einstaka sinnum á ég poka af frosnum rækjum í frysti, mér dettur sjaldan nokkur í hug í hvað ég get notað þær nema þá í rækjusalat með mæjónesi.  Þar til um daginn, þá var ég að ráfa um netið og satt niður á svo girnilegan rétt, en þar var reyndar notaðar einhverjar fínar hráar rækjur.

Ég ákvað því að heimfæra þennan rétt upp á gömlu góðu mæjónesrækjurnar og hann endaði á að smakkast dúndur vel.

Þessi réttur hljómar kannski undarlega en ég segi það og skrifa, þetta var ofboðslega gott.

djúpsteikt rækjubrauð

Djúpsteikt rækjubrauð

  • Brauðsneiðar án skorpu, franskbrauð t.d eða annað hvítt brauð
  • 1/4 poki frosnar rækjur
  • Vorlaukur, 1 eða 2
  • 1 egg
  • Salt og pipar
  • Ferskt rifið engifer, 2-3 msk
  • Sesamfræ
  • Olía til steikingar

Skerið brauðið í þríhyrninga, eins marga og rækjumaukið dugar á.  Ef þið eruð með formbrauð skerið skorpuna frá og brauðið í 4 ferhyrninga.

Blandið saman í blender eða matvinnsluvél rækjum, einu eggi, engifer, salti og pipar.  Maukið. Setjið maukið í skál og blandið við það smátt skornum vorlauk.

rækjumauk

Smyrjið þessu á þríhyrningana, um það bil 1 matskeið á hvern þríhyrning.  Stráið yfir þá sesamfræjum, svörtum (ef þið eigið til) og ljósum.

Djúpsteikið í 1 mín með rækjuhliðina niður fyrst.  Snúið sneiðunum  við og steikið í 1/2 – 1 mín til viðbótar.  Leggið á eldhúspappír til að þerra mestu olíuna.

rækjumauk

Ég prófaði líka að setja maukið í hrísgrjónapappír og djúpsteikja, það var einnig mjög gott.

bodskort

Nú er ég á fullu að undirbúa sýningu, en ég verð með opnun á fimmtudaginn milli 17.00-19.00 og allir eru velkmomnir.

Sýningin er í Skotinu hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu 15, 6.hæð.  (Sama hús og Borgarbókasafnið).

Rauðrófu-tagliatelle með pestó, kræklingum og hvítvíni – Eldað með Jamie

Þessi uppskrift er í matreiðslubókinni hans Jamie Oliver, Nakti kokkurinn.

Það er ekki flókið að gera sitt eigið pasta, en tekur smá tíma og maður þarf að nostra svolítið við þetta.  En algjörlega þess virði.  Alveg upplagt að eyða köldum og blautum haustdegi í pastagerð með allri fjölskyldunni, eða góðum vinum og smá vínsopa.

Það er mjög nice að blanda rauðrófum við pastadeig.  Þið hafið kannski tekið eftir því að það er búið að vera svolítið mikið um bleikan mat hjá mér undanfarið.  En ég keypti 2 rauðrófur sem ég ofnbakaði og þær hafa enst vel.

rauðrófupasta

Rauðrófu-tagliatelle með pestó, kræklingum og hvítvíni

Rauðrófu-pasta (fyrir ca 4)

  • 1/2 rauðrófa, vel maukuð, t.d með töfrasprota og smá skvettu af vatni til að auðvelda það að mauka hana
  • 3 egg
  • 400 g hveiti (og kannski aðeins meir, þar til þetta er orðið að mjúku klísturslausu deigi)

Hnoðið allt saman í höndum eða í hrærivél,ég nota Kitchen Aid).

Geymið pastadeigið  í ísskáp í klst í skál undir plasti.

Rúllið út deigið, notið hveiti eins og þið þurfið svo það klístrist ekki við kökukeflið, eða rúllið þetta út í pastavél.  Ég var ekki með pastavél þannig að ég notaði kökukefli, og rúllaði það svo upp eins og pönnuköku og skar það í strimla, þá var ég komin með tagliatelle.

Sjóðið í bullandi vatni í 3-4 mín, eða þar til það er tilbúið. Ferskt pasta þarf ekki langa suðu.

Þumalputtareglu í pastagerð er 1 egg á móti 100 g hveiti, en þar sem rauðrófurnar eru blautar þá þarf að auka hveitimagnið

Kræklingur

  • 1/2 kg kræklingur
  • 150 g hvítvín
  • 1-2 hvítlauksrif, pressað í gegnum hvítlaukspressu eða skorið smátt.
  • Ferskur svartur pipar
  • Smjörklípa

Setjið kræklinginn í rúmgóðan pott, hellið botnfylli af hvítvíni í pottinn, athugið að setja ekki of mikið vín, því við viljum gufusjóða hann, en ekki sjóða.  Þannig að það þarf ekki að hylja kræklinginn með vökva.  Pressið hvítlauk út í pottinn og jafnvel smá pipar.

Gufusjóðið krækling í hvítvíni og hvítlauk þar til allur kræklingur hefur opnað sig, hendið þeim sem opnast ekki..   (það má líka sjóða hann í vatni)

Þegar kræklingur er tilbúinn hendið þá smjörklípu út í og ferskri steinselju.  Ég átti hana ekki til þannig að ég sleppti henni.

Pestó

  • 1/4 hvítlauksrif
  • 3 lúkur fersk basil
  • 1 lúka léttristaðar furuhnetur
  • 1 lúka parmasenostur
  • Extra virgin ólífuolía
  • Salt og pipar

Maukiða allt saman í matvinnsluvél, en hellið olíunni hægt út í þar til þið hafið fengið þann þéttleika sem þið viljið á pestóið.  Parmasenostur getur verið saltur, þannig að saltið og piprið eftir á.  Jamie talar einnig um að setja smá sítrónusafa út í pestóið því hann magni upp ilminn af basil.

pasta og kræklingur

Setjið pasta á disk ásamt kræklingnum, smá skvettu af kræklingasoðinu og pestó.  Berið fram með góðu brauði sem þið getið drekkt í soðinu.

Það er mikil matarveisla í Kjósinni í kvöld, ég er mjög spennt en þar verður eldaður matur, beint af býli, en ég segi ykkur allt um það næst.

Ég vona að þið eigið góðan dag og gott kvöld.

Að elda allar uppskriftir upp úr einni matreiðslubók. Fyrsti rétturinn…

Og nú er ég komin með rauðvín í glas og hér hefst ritgerðin (og lesturinn fyrir ykkur, mæli með vínglasi  á meðan þið rúllið yfir þetta….nema þið séuð í vinnunni)
Og þá hefst lesturinn…

Það hefur verið í tísku undanfarið að taka fyrir eina matreiðslubók og elda allar uppskriftirnar sem í bókinni eru. Eins og margir kannast við m.a frá myndinni Julie and Julia.

Með metnaðarfyllri verkefnum af þessum toga er án efa þessi kona sem ætlar að elda allar uppskriftir úr Alinea.

Ég keypti mér þessa bók, Alinea, og hún er listaverk út í gegn með fullt af spennandi uppskriftum og skemmtilegum útfærslum.
Það hefur stundum hvarflað að mér að ráðast í svona verkefni.  Sérstaklega þegar ég hef verið að hjakkast í sama farinu, þ.e elda sömu réttina, nota mikið sama hráefnið og verið andlaus í eldhúsinu.

Og þá hefur valkvíðinn komið til sögunnar, hvaða matreiðslubók maður ætti að taka fyrir.
Nú finnst mér ég einmitt búin að vera að elda svipað og mig langar mikið til að fara að prófa nýjar uppskriftir.
Ég er oft hrædd við að prófa sumar uppskriftir því þær hljóma kannski ekki nógu vel eða virðast flóknar.

Ég var að kíkja á þær matreiðslubækur sem ég á og ein af þeim sem mér finnst spennandi en er ódugleg að elda upp úr er með fyrstu bókum Jamie Oliver, Kokkur án klæða.

Uppskriftir eins og ravioli með hestabaunamauki, myntu og ricotta eða snöggmaríneraður heilbakaður leirslabbi með balsamikediki og stökku marjora hljóma spennandi en hráefni eins og brenninetlur og hjólkróna hafa gert það að verkum að ég nenni ekki að prófa þær uppskriftir. Ég hef reyndar aldrei heyrt talað um leirslabba, veit ekki ef ég hvort ég fæ hann út í fiskbúð.
Þannig að það er bara að taka ákvörðun.  Sumar bækur sem ég á eru of einhæfar, t.d einungis fiskiréttir eða pasta eða þá frá ákveðnum löndum t.d indverskt (ég gæti nú samt alveg borðað indverskt á hverjum degi í nokkra mánuði 🙂

Bókin hans Jamie er með mjög fjölbreyttan mat, fisk, kjöt, súpur, pasta og grænmeti.  Það er oft skemmtileg samsetning á hráefni og oftar en ekki hráefni sem ég nota sjaldan eða aldrei.  Þannig að það væri góð áskorun að elda upp úr þessari bók.  Ég á aldrei eftir að elda allar þessar uppskriftir en ég ætla að minnsta kosti að reyna að elda helminginn og bara gefa mér góðan tíma í þetta, þess vegna nokkur ár 🙂

Fyrsta uppskriftin sem ég ætla að elda er hörpudiskur. Og svona fór þetta hjá mér…
Í fyrsta lagi á ég greinilega erfitt með að elda eftir uppskrift nákvæmlega, mig langaði strax að gera breytingar. EN ég ákvað að halda mig við uppskriftina, þannig myndi ég kannski læra eitthvað nýtt og leyfa því hráefni sem í uppskriftunum eru að njóta sín …eins og kokkurinn hannaði þær.
Og viti menn.  Þessi samsetning var bragðlaukaveisla!
hörpudiskur
Hörpudiskur með salvíu, beikoni og puy baunum. (Fyrir 2)

  • 6 beikonsneiðar
  • 6 hörpudiskar
  • 1 msk ólífuolía
  • 8 fersk salvíublöð
  • Salt og pipar
  • Safi úr hálfri sítrónu
  • 4 msk linsubaunir, gufusoðnar með hvítlauk og rósmarín í kjúklingasoði *
  • 2 lúkur af salati (það sem þið eigið eða ykkur finnst gott)
  • Salat olía (sjá uppskrift hér fyrir neðan

það mætti líka sjóða puy baunirnar í vatni og sleppa öllu tilstandi!  Þetta er það bragðmikill réttur.  (Ég gerði það því ég fattaði of seint að þetta voru fyrirfram soðnar baunir úr bókinni, sem ég á því eftir að prófa síðar).

Steikið beikon á pönnu, rétt í lokin bætið þið við salvíu og steikið hana í 2 mín.  Setjið á eldhúspappír til að draga í sig fitu.  Salvían verður stökk og flott.
hörpudiskur
Steikið hörpudisk á sömu pönnu og beikonið (funheitri), skvettið smá ólífuolíu á pönnuna áður.  Steikið hörpudiskinn í 1-2 mín á hvorri hlið.  Kreistið sítrónusafa yfir hörpudiskinn í miðjum eldunartíma. (Þá á hann að brúnast betur)
puy
Hitið upp soðnu puy baunirnar á pönnunni.
Veltið salati upp úr dressingu, setjið á disk.  Raðið ofan á það hörpudiskinum, beikoni og salvíu og svo puy baunum.
Berist fram stax.

Salatdressing
  • 1 msk sítrónusafi
  • 2 msk ólífuolía
  • Salt og pipar

Blandið vel saman.
brauð

Svo gerði ég örsnöggt brauð.  Leyfði geri, sykri og volgu vatni að freyða í 5 mín.  Bætti þá við hveiti og fjölkornablöndu.  Hrærði því saman með gaffli í eina mínútu.  Lét það hefast í tæpan hálftíma.  Hrærði upp í því með smá hveiti …með gafflinum. (Nennti ekki að skíta út puttana).  Mótaði það eins og baguette, penslaði með eggjahvítu og stráði yfir meiri fræjum.

Bakaði í 220°c ofni í 20 mín.

Hlutföll í brauði sirka… (mældi þetta ekki nákvæmlega)

  • 2 tsk ger
  • 1 tsk sykur
  • 1/2 glas volgt vatn
  • (láta freyða)
  • Bæta við 1 glasi af hveiti og hálfu vatnsglasi til viðbótar
  • Strá út í fræjunum.  Hræra þessu saman með gaffli.  Bæta við hveiti eftir þörfum.

Og hvernig smakkaðist svo herlegheitin?  Fyrsti rétturinn af mörgum… MJÖG VEL!  Þetta var rosalega gott.

Sumir myndu líta á þetta sem forrétt en ég bar þetta fram sem aðalrétt.  Með brauðinu sem var étið upp til agna þá dugar þetta okkur sem aðalréttur.
Þannig að þetta er flottur forréttur, þá miðað við t.d 2 hörpudiska á mann með 1-2 sneiðum af beikoni.  Og ekki spurning, súper góður léttur aðalréttur.

beaujolais
Með þessu bar ég fram George Dubæuf, Beaujolais.  Mig langaði meir í rauðvín en hvítvín. Hvítvín fer þó sérlega vel með þessum rétti.
Og lærði ég eitthvað á þessu?
Já.  Hörpudiskur, salvína og beikon fer mjög vel saman.  Puy baunirnar fóru sérlega vel með réttinum.  Sítróna!  Þarf að nota hana meira.
Kærastinn sagði:  Þetta var fáránlega gott!
Ég á eflaust eftir að bjóða gestum upp á svipaðan rétt.

Fiskur, samtíningur úr ísskápnum en herramannsmatur engu að síður

Nú var tekið til í ísskápnum og það nýtt sem til var.

Ýsan tekin úr frysti, skellt á bökunarpappír í ofnskúffuna.

fiskur

Hráefni í fiskrétt

  • 4 frosin ýsuflök
  • 4 msk  Roasted red peppers pestó
  • 1/4 gróft baguette
  • Nokkur lauf af ferskri basil
  • Salt og pipar

Afgangurinn af grófu baguette sem ég keypti í gær var skellt í matvinnsluvél ásamt rest af ferskri basil, salti og pipar. Ég smurði um það bil matskeið af Roasted red peppers pestó á hvert flak og brauðmylsnunni var svo dreift ofan á þessi 4 stk af ýsuflökum.

Það gæti verið gott að rífa smá ferskan parmasen ost og blanda við brauðmylsnuna.

Inn í ofn á 200°c í ca 20 mín.

 Hráefni í kartöflur
  • Soðnar kartöflur, skornar í fernt ef þær eru mjög stórar
  • Nokkrar matskeiðar af feta osti í kryddolíu

Soðnar kartöflur fóru einnig inn í ofn, setti þær í eldfast fat með nokkrum msk af fetaosti í kryddolíu, ásamt slatta af olíunni.

Hráefni í sósu

  • 1/4 dós Roasted red peppers pestó
  • 1 dl chopped tomatoes í dós
  • Smá rjómi, dl eða svo…

Enn var smá eftir af Roasted red peppers pestó, það fór í pott ásamt afgangi af “chopped tomatoes” úr dós.

Deselíter af rjóma fann ég í ísskápnum og setti með. Hitað upp í potti og þar var komin sósan.

Einfalt og mjög bragðgott.

Hvað er hægt að gera við 21 kg af rabarbara?

Þá er ég búin að ná í “smá” rabarbara. Ég og nágranninn sóttum nokkra stilka sem við skárum niður og gengum frá í frysti og þegar uppi var staðið vorum við með 21 kg.

rabarbari1

rabarbari2

Þá er bara að ráðast í það að finna skemmtilegar rabarbara uppskrifir til að nýta þetta c vítamín og járnríka grænmeti.

aflinn

Aflinn kominn í hús.

Ég leyfi ykkur svo að fylgjast með hvað verður úr þessum frábæra rabarbara.

En hér er einfaldur réttur sem ég gerði því ég varð að nota spínatið sem ég átti inní ísskáp.

Wok the line

  • 2-3 lúkur spínat
  • lúka af kasjúhnetum
  • humar ..eða rækjur
  • 2-3 rif hvítlaukur
  • 2-3 tsk rifinn ferskur engifer
  • Sweet thai chile sósa, 1-2 msk
  • 1 msk soya sósa
  • 1 epli smátt skorið í teninga
  • 1 lúka sesame fræ
  • smá olia til steikingar

Steikið hvítlauk og spínat á pönnu (helst wok) í smá stund.  Bætið restinni saman við og látið malla þar til humarinn (eða rækjurnar) er eldaður.

Kræklingur, nýtíndur og spriklandi ferskur

Á föstudeginum fórum við í sveitina og byrjuðum á því að týna krækling. Nóg var til af honum í fjörunni. Þetta var hin besta skemmtun, góð hreyfing, hressileg útivera og síðast en ekki síst fullur poki af fersku hráefni.

kræklingatínsla

Kærastinn úti að tína krækling í poka

Ég eldaði kræklinginn að þessu sinni svona…

kræklingur

Kræklingur í hvítvínssósu

  • Nokkrar lúkur af kræklingi
  • Dágóð skvetta af hvítvíni
  • Laukur
  • Græn paprika
  • Tómatur
  • Hvítlaukur
  • Salt
  • Pipar
  • Fersk steinselja
  • Smjör
  • Smá Dijon sinnep

Bræðið smjör. Svitið lauk, hvítlauk, papriku og svo tómata. Bætið við hvítvíni, eins mikið og þarf til að fá gott soð miðað við magn af kræklingi og smakkið svo til með salti, pipar og Dijon sinnepi.

Í þessu tilviki þá sauð ég kræklinginn í smá vatni í öðrum potti og setti hann svo í hvítvínssoðið eftir á því það var svolítill sandur sem fylgdi honum. Vatnið þarf ekki að fljóta yfir kræklinginn heldur lokaði ég pottinum þannig að hann gufusauð einnig og veiddi hann svo upp úr pottinum og setti í hvítvínssoðið.

Berið fram með góðu brauði sem hægt er að drekkja í soðinu.. Ég átti ekki brauð þannig að ég sauð kartöflur, stappaði þær með hveiti og smá vatni og salti og steikti á pönnu, einhverskonar kartöfluklattabrauð. Það var mjög gott. Ég ætlaði að djúpsteikja kartöflurnar og hafa með að Belgískum sið en svo nennti ég ekki að djúpsteikja þannig að ég ákvað að gera klatta, kartöflurnar fara mjög vel með krækling.

Einnig bar ég fram með kræklingnum ferskan lime.