Húsið við sjóinn

Foodwaves

Month: February, 2013

Endalausir skandalar

Ég nenni nú ekki að fara út í þetta í löngu máli, en að engin af 16 sýnum hafi uppfyllt allar kröfur um merkingar er ansi slakt og að ekki hafi verið nautakjöt í nautakjötsböku…Það er ekki verið að eitra fyrir okkur en það er verið að blekkja okkur og ef þeir komast upp með það þá ganga þeir eflaust bara alltaf lengra og lengra.  Ætli þeir myndu þá ekki blákalt eitra fyrir okkur ef það sparaði krónur og aura.  Annað eins gerðist nú í Kína með þurrmjólk (FYRIR UNGABÖRN) og mörg dóu og hundruð þúsundir veiktust…Allt til að græða?

Eins og ég hef nú oft sagt þá eyði ég miklum tíma í eldhúsinu því ég geri nánast allt frá grunni og kaupi ekki  unnar vörur, engan pakkamat eða sósujafnara, kraft eða teninga… ég bý til nú samt alltaf Pig in a blanket með SS pulsum fyrir afmæli 😀

pulsur

Ég bjó til færslu fyrr á síðasta ári en birti hana aldrei.  Ég náði í hana núna því hún á ágætlega við í dag og hér er hún:

Smá breytingar – engir öfgar.  Hvað má betur fara? 10 dagar!

Það er hægt að gera ágætis breytingar á matarræði án þess þó að fara út í öfgar.  Og ef þið eruð eins og ég og eruð ekki að fara að elda úr agavesýrópi, spelti, kókósolíu og viljið baka pizzur úr venjulegu hvítu hveiti þá er hægt að gera ýmislegt til að leggja grunn að góðu matarræði.

Það eru margir sem nota mikið af tilbúnum mat að það er ágæt tilraun fyrir marga að prófa að sleppa því að kaupa pakkamat og tilbúin mat í 10 daga til að vera meðvitaðri um það sem maður borðar. 

Það gæti verið aðeins dýrara ein innkaup þegar maður er að koma sér upp smá matarbúri en ég hef tekið eftir því að verðið á matarkörfunni hjá mér er mun minni en áður eftir að ég fór að gera mest allt sjálf, eins og pasta, núðlur, ís, kex, sultur, sósur og fleira.

Það er mikil breyting og meiri vinna sem fylgir eldamennsku, en það getur verið gaman og  um að gera að virkja alla fjölskylduna í að elda og vera meðvitaðri um góðan mat.  

Með tilbúnum mat þá er ég til dæmis að tala um:

  • Allar sósur osfv í krukkum
  • Pakkamat 
  • Amerískt og önnur morgunkorn
  • SS pulsur
  • Frosin mat
  • Tortilla kökur
  • Granóla orkubar
  • Kjötfars
  • Pepperóní
  • Súputeninga
  • Kex og sælgæti 

… og svo mætti lengi telja.  

Mjólk, jógúrt, AB mjólk og skyr er í góðu lagi svo framarlega sem það er ekki með bragði.  Það er svipað og að kaupa nammi að versla svona Skóla-jógúrt, Engjaþykkni og hvað þetta allt heitir.  

Eitt einfalt skref í rétta átt er að versla hreinar mjólkurvörur og sæta þær sjálfur með smá hunangi eða ávöxtum.   

 

Hollt og gott í 10 daga

  • Fyrst og fremst er það að kaupa engan tilbúin mat, hvorki í pökkum, krukkum, bökkum né frosinn.
  • Ekki fara út að borða eða take away.
  • Engar kökur eða kex nema maður geri það sjálfur
  • Ekkert gos, Svali og sykraðir ávaxtadrykkir eða nammi.
  • Hafa meirihluta fæðunnar grænmeti og fisk.
  • Ef þið bakið ekki brauð sjálf, kaupið góð brauð, ekki froðubrauð í stórmarkaði. 
  • Sleppið súputeningum, kryddum með msg osfv.
  • Borða eingöngu hreinar mjólkurvörur sem þið bragðbætið sjálf með ávöxtum (og sykri ef þið viljið).
Þannig að þetta þarf ekki að vera alslæmt, bara elda heima frá grunni, svona 90 %. Þó svo að eitt hamborgarabrauð slæðist á matseðil eða sinnep  þá er það í góðu lagi.  Ég ætla ekkert að segja um að það þurfi að vera hýðishrísgrjón í staðin fyrir hvít hrísgrjón eða heilhveiti í staðin fyrir hvítt hveiti.  Það finnur hver hjá sjálfum sér hvað hentar í þeim efnum…. Það er nóg að byrja á að sleppa tilbúnum og unnum mat.
Það sem á ekki heima á borðum þessa 10 daga er til dæmis:
  • Cheerios
  • Pulsa í pulsubrauði með tómatsósu
  • Frosin pizza úr stórmarkaði
  • Pasta með HUNT’S spagettí sósu
  • Tikka Masala með mangó chutney úr krukku
  • Burritos gert með salsa í krukku, kryddi úr pakka og Tortilla kökum í lofttæmdum poka
  • Kjötfarsbollur með brúnni sósu

Þegar þið farið næst að versla, horfið á hlutinn sem dettur ofan í innkaupakörfuna og spurjið ykkur. Er þetta unnin vara?

Ef þið vitið ekki hvað á að vera í matinn og lítill tími þá er fiskur og kartöflur með íslensku smjöri alltaf hollur og góður kostur. 🙂

 

 

 

 

Eggjasalat

Hvað er það besta sem þú hefur borðað á þessu ári? Ég var að velta þessu fyrir mér, nú eru að verða búnir 2 mánuðir af þessu nýja ári sem mér finnst hafa byrjað í gær.  Ég var að reyna að rifja upp hvað ég hef verið að gera og ég held að kínversku dumplingarnir mínir séu það besta sem ég hef eldað á þessu ári.

Ég kem með uppskrift við fyrsta tækifæri.

Ég ætlaði að skera grænmeti sem álegg á brauð en ákvað svo að skera allt smátt og hræra þvi saman við eggjasalat.  Það var mjög ferskt og bragðgott.

eggjasalat

Eggjasalat 

  • 3 egg
  • 1/2 paprika
  • 1/4 agúrka
  • 1-2 vorlaukar
  • 3-5 msk heimagert mæjónes eða sýrður rjómi
  • Salt og pipar
(mælieiningar eru svona til viðmiðunar)

Skerið eggin með eggjaskera, langsum og þversum.  (Hæfilega miðlungsbita).  Skerið grænmetið smátt.  Blandið öllu saman með heimagerðu mæjó eða sýrðum.  Saltið og piprið eftir smekk eða um 1 tsk af salti og 1/2 af pipar.  Magnið af mæjó fer líka eftir smekk, bætið við einni og einni matskeið þar til þið eruð sátt við áferðina.

Ég kryddaði mitt ekkert meir, en það gæti eflaust verið gott að setja karrí eða jafnvel smá sinnep. Þetta var mjög ferskt svona einfalt og borið fram með nýbökuðu súrdegisbrauði

Það var ansi vetrarlegt í Kjósinni um daginn en hundarnir að Hálsi létu það ekkert á sig fá og hlupu um í snjónum, en það er sem betur fer aðeins hlýrra þessa dagana.

kjós

Þurrkaður chili pipar og markaðsetning fyrir börn

Chili piparinn frá Engi er svo góður, hæfilega sterkur.  Ég kaupi sjaldan þurrkuð krydd, þessi í stórmörkuðum eru bragðlausari en Fréttablaðið.

Ég tók mig til og þurrkaði nokkra chili pipra og setti þá í mortel og hamraði á þeim þar til þeir voru orðnir að dufti.  Það væri eflaust hægt að mala þá í kaffikvörn. Þetta var svo gott krydd að ég er komin með 4 aðra í þurrkun.  Ég bjó til Indverskan mat um daginn þar sem ég notaði engin krydd nema ferskan hvítlauk, ferskt engifer og chiliduftið mitt og smá túrmerik.  Þetta var ótrúlega bragðgóður og bragðmikill réttur.

chiliduft2

Ég fór í Krónuna, um leið og maður gekk inn var búið að setja parísar hoppileik á gólfið og dóttir mín hoppaði eftir tölunum í leiknuð þar til hún stoppaði við stóra stæðu af Orkumjólk frá Latabæ. Frábær markaðsetning.  Hún ætlaði að taka sér kippu en ég tók fyrir það.  Mér er svo illa við svona markaðsetningar fyrir börn og versla ekkert með Latabæ.  Innihaldslýsing Orkumjólkur er sú sama og á sykurskertri kókómjólk. Það stendur meira að segja orðrétt að mjólkursykurinn sé klofinn eins og stendur á kókómjólkinni.

Þannig að ég er að velta fyrir mér hvort þetta sé sama mjólkin og frá MS, þótt svo að Vífilfell sé framleiðandi?

Vatnsdeigsbollur

Ég valdi af handahófi nokkrar vatnsdeigsbolluuppskriftir af netinu til að bera saman ásamt uppskriftum frá mömmu og tengdó sem hafa bakað sínar bollur í tööööttöguogfimm ár (eða kannski nær 45 árum).  Uppskrift frá Cafe Sigrún fær að fljóta með því það eru svo margir í spelt – agave – kókósolíu pælingunni.

bollur

Leiðbeiningar við bakstur eru yfirleitt mjög svipaðar.

Sjóðið saman vatn og smjör (sykur og salt ef það er notað).  Bætið við hveiti í pottinn og hræra því kekklaust saman við. Sumir hafa pottinn á hellunni á meðan þeir hræra í hveitið aðrir taka pott af hellunni á meðan.

Setjið deigið í hrærivél

Hrærið við eggjum, einu í einu.

Deigið á ekki að leka, heldur halda lögun.

Og svo þarf að muna:

  • Það er alveg bannað að opna ofninn á meðan verið er að baka bollurnar
  • Hafa gott bil á milli þeirra  á plötunni
  • Betra of lítið af eggi en of mikið, hálft egg of mikið getur eyðilagt uppskrift

Smellið á myndina til að sjá hana stærri:

vatnsdeigsbolla

Leiðbeiningamiðstöð heimilina

Mosfellsbakarí

Pressan.is

Freisting.is

Mömmur.is

Cafe Sigrún

bolla

UPPFÆRSLA FRÁ RITSTJÓRA:

Ég var að smakka bollurnar hennar mömmu, bakaðar skv. hennar uppskrift sem má sjá hér að ofan.  þær heppnuðust vel og voru mjög bragðgóðar.  Get mælt með þeirri uppskrift.

Möndlu og 70 % súkkulaðikaka með döðlum

Dóttir mín átti afmæli og við heldum litla afmælisveislu í tilefni dagsins.  við ákváðum að “less is more”.  Það voru krakkar, kaka, kerti og blöðrur.  Fyrir henni var það hið fullkomna afmæli.

Ég á það til að fara fram úr sjálfri mér og gera roooosa mikið en í þetta sinn staldraði ég við og hugsaði, hvað borðar fólk og hvernig köku langar afmælisbarninu í.   Henni langaði í Dóru landkönnuðar köku.  NEI! Ég var ekki að fara að gera Dora the Explorer köku í fullri stærð úr fondant sem engum finnst gott.  Kökur eru til að borða ekki bara til að dást að…

Ég notaði Betty Crocker Devil´s köku,  mér finnst þær svo miklu betri en heimabakað og það er ekki eins og ég sé með hollustuna í fyrirrúmi hvort eð er.

Svo klippti ég út Dóru landkönnuðar pappadisk og setti fígúrur á grillpinna og stakk í kökuna.  Sú þriggja ára var rosalega ánægð og fondant smondant, kakan var góð.

Ég var þó næstum búin að klúðra þessu þegar ég setti stjörnuljós sem var búið að beygja eins og tölustafinn 3 á kökuna en engin kerti.  Þá sagði mín, “Ég vil fá kerti til að blása á! “. Ég átti sem betur fer kerti.

 

Note to self…  Þetta eru börn, það eru hefðir, höldum okkur við þær.  Héðan í frá verða alltaf kerti á afmæliskökum 🙂

hamborgarakaka02

Einu sinni gerði ég hamborgaraköku, það var samt alveg gaman.  Og reyndar var fondant bara inn í kökunni.

Heilsusamlega kakan kom úr uppskriftarsafni frá Ebbu Guðnýju skilst mér.  Ég fann uppskriftina hér.

döðlukaka

Möndlu og 70 % súkkulaðikaka með döðlum  

  • 1 bolli döðlur, (leggja ´ibleyti í smá stund)
  • 1 bolli möndlur
  • 120 g 70 % súkkulaði
  • 1/4 bolli sykur
  • 3 msk hveiti
  • 1 teskeið vanilludropar
  • 3 msk vatn (vatnið sem döðlurnar lágu í)
  • 2 egg
  • 1 tsk lyftiduft
Blandið öllu saman.  Ég saxaði möndlurnar og súkkulaði gróft, en það mætti líka setja það í matvinnsluvél.

Setjið blönduna í form og bakið við 150°c í 40 mínútur.  Berið fram með rjóma eða Ís.

Ég nota venjulegan sykur og hvítt hveiti (reyndar lífrænt og steinmalað en ekki spelt eins og upprunalega uppskriftin segir)

döðlukaka