Undir eþjópískum áhrifum // Instant Pot

Eftir að hafa heimsótt tvo eþjópíska veitingastaði á Íslandi og fundist maturinn á báðum stöðum mjög góður ákvað ég að fara í smá rannsóknavinnu hvernig hægt væri að leika þetta eftir.

Kökurnar sem notaðar eru taka nokkra daga að gera og eru gerðar úr súr. Ég var ekki að fara þá leiðina í þetta sinn, en ég átti súr inn í ískáp og gaf honum bóghveiti og notaði það sem grunn í kökurnar sem ég verð að segja að voru þokkalega í áttina að því sem ég hef smakkast og meir að segja urðu svona “bubblóttar”.

Ég átti hvítkál og ákvað að styðjast við uppskrift að Atakilt Wat sem ég eldaði í Instant Pot, ég fékk slíkan pott um daginn og hann er snilldin ein. Einnig gerði ég tvo aðra rétti og hafði ég til hliðsjónar uppskrift af Doro Wet og linsubaunaréttinum Misir Wat.

INJERA INSPIRED PÖNNUKÖKUR

  • Bóghveitisúr
  • 4-5 dl volgt vatn
  • 1 stk Salt
  • 2,5 dl bóghveiti.

Fyrst mataði ég 30g venjulegan súr með 30 g vatni og 30 g bóghveiti og lét standa í ca 5 klst. Því næst tók ég súrinn og bætti við 4-5 dl volgt vatn sem ég hrærði í súrinn og svo við 2,5 dl bóghveiti og salti þannig að þetta leit út eins og pönnukökudeig.

Svo bakaði ég kökurnar við meðalhita á pönnu, eins og ég væri að gera pönnukökur.

KRYDDIN

Í flestum uppskriftum var talað um krydd sem heita Mimita og Berbere sem hægt er að gúggla til að fá nákvæma uppskrift. Ég átti hvorugt til en bjó til eigin uppskrift eftir bestu getu miðað við það sem til var á heimilinu.

Hér er flott samantekt um Berbere og Mimita

MÍN MIMITA

  • 2 tsk Chili, sterkur og þurrkaður
  • 1/2 tsk Kardamommur
  • 1/8 tsk Negull
  • 1 tsk Salt
  • 1/2 tsk Cumin
  • 1 tsk Engifer

MÍN BERBERE

  • 5 msk reykt paprika
  • 2 msk Cayanne
  • 2 msk Engifer (powder)
  • 2 msk laukduft
  • 1 msk coriander (powder)
  • 1 msk kanill
  • 1/2 msk negull
  • 1/4 msk múskat

ATAKILT WAT að mínum hætti

  • Avocado olía, til steikingar
  • 3 rif Hvítlaukur
  • Ferskur rifinn engifer, ég notaði ca 3 cm bút
  • 2 tsk Turmerik
  • 1 tsk Cumin
  • 1/2 rauðlaukur
  • 1 hvítkál
  • 3 gulrætur
  • 5-6 litlar kartöflur skornar í helminga
  • 2,5 dl kjúklingakraftur eða vatn
  • Salt og pipar

Hér eru leiðbeiningar fyrir Instant Pot, en það er að sjálfsögðu hægt að elda þetta í venjulegum potti.

Kveikið á Instant pot, setjið á Sauté stillingu. Þegar potturinn segir HOT setjið þá skvettu af olíu í pottinn og svitið laukinn í nokkrar mín þar til að hann mýkist, bætið þá við hvítlauk, engifer, túrmeriki og cumin og hrærið aðeins í.

Gerið Cancel á sauté stillinguna.

Bætið söxuðum gulrótum, kartöflum og söxuðu hvítkáli í pottinn, ásamt vökvanum, salti og pipar. Lokið pottinum og setjið ventilinn í rétta stöðu. Stillið pottinn á Pressure Cook á eina mínútu. (já bara eina mín).

Leyfið pottinum að losa þrýsting í um það bil 5-10 mín, losið þá ventilinn VARLEGA til að athuga hvort þrýstingar sé farinn og litla tippið dettur niður. Þá má opna pottinn og rétturinn er tilbúinn. Slökkvið á pottinum.

DORO WAT að mínum hætti

  • Úrbeinuð kjúklingalæri
  • 1 msk sítrónusafi
  • 2 msk Berbere kryddblanda
  • Olía (eða Ghee)
  • 1 laukur, smátt skorinn
  • Salt
  • Engifer, rifinn, ca 3 cm bútur
  • 3 hvítlauksrif
  • 2 msk tómat paste (ég notaði hálfan dl af tómata passata)
  • 1/2 dl vatn
  • Harðsoðin egg

Skerið kjúkling í bita og marinerið með salti, pipar og sítrónusafa (þetta var í ískáp hjá mér í 3-4 klst)

Kveikið á Instant Pot og setjið á Sauté stillingu.

Mýkið laukinn í 3-5 mín, setjið svo hvítlauk og engifer og mallið í eina mín.

Slökkvið á pottinum (Cancel).

Bætið við 1/2 dl vatni, kjúklingi og tómat-paste. Stráið Berbere kryddinu yfir.

Lokið pottinum, setjið ventil í rétta stöðu (Sealing). Stillið á Pressure Cook og setjið tímann á 8 mín. Leyfið 10 mín að líða til að losa þrýsting. Athugið hvort ventill sé komin í rétta stöðu (VARLEGA) til að opna pott. Slökkvið á pottinum.

Skerið nokkur harðsoðin egg til helminga og bætið þeim í réttinn.

MIRIR WAT að mínum hætti

  • 2.5 dl rauðar linsur
  • 2 msk olífuolía eða ghee
  • 1 rauðlaukur, saxaður
  • 1 msk fersk rifin engiferrót
  • 4 rif hvítlaukur, pressaður
  • 2-3 msk Berbere kryddblanda
  • 1 tsk salt
  • 1/2 líter vatn
  • smátt skorið ferskt kóríander
  • ½ lime, safinn

Kveikið á pottinum og setjið á Sauté. Þegar potturinn segir HOT setjið skvettu af olíu og lauk í hann og svitið í tvær mín.

Bætið við engifer og hvítlauk, blandið vel við laukinn (30 sek).

Bætið við rauðum linsum, berbere kryddblöndu, salti og vatninu og blandið vel saman.

Setjið lokið á pottinn og setjið ventil í rétta stöðu. (Sealing). Veljið Pressure Cook og MAnual (HI) í 15 mín, og ljúkið með “natural pressure”.

Opnið pottinn (varlega), hrærið í honum, og þá er hann tilbúinn. Hér má bæta við smá lime skvettu og kóríander.

Slökkvið á pottinum.