Húsið við sjóinn

Foodwaves

Category: Brauð

Brauðterta með reyktum laxi og rjómaosti

Ég bjó til brauðtertu fyrir eins árs afmæli sonar míns. Þegar maður er svona ungur þá er ekki í boði að háma í sig súkkulaðiköku þannig að ég ákvað að gera köku sem hann gæti fengið smá smakk af.

Í þessari uppskrift maukaði ég saman reyktum lax og sýrðan rjóma, að sjálfsögðu heimagerður sýrður rjómi. Maður smyr svo rjómaosti utan á brauðtertuna, en rjómaostur og reyktur lax passar svo vel saman.

Uppskriftin kemur upphaflega frá tímaritinu Saveur. Ég ákvað að nota brauðtertubrauð sem fæst út í búð en einnig er hægt að baka sitt eigið brauð og skera það í sneiðar, langsum.

Þetta endaði á að vera hin glæsilegasta terta og sómaði sér vel á hlaðborðinu og ekkert er til fyrirstöðu að stinga einu eða fleiri kertum á þessa brauðtertu ef það er afmælisbarn á staðnum sem vill blása.

01terta

Laxamauk:

 • 400 g reyktur lax

 • 100 ml mæjónes

 • 100 ml rjómi

Blandið saman reyktum lax, mæjónesi og sýrðum rjóma í blender eða matvinnsluvél.

Rjómaostablanda:

 • 300 g rjómaostur

 • 300 ml sýrður rjómi

 • 1 tsk salt

 • 1/2 tsk svartur pipar

Blandið saman rjómaosti og sýrðum rjóma með gaffli. Kryddið með salti og pipar.

Sinnepssósa:

 • 1 1/2 msk sykur

 • 1 1/2 msk Dijon sinnep, við stofuhita

 • 1 1/2 msk sætt sinnep, við stofuhita

 • 1/2 tsk salt

 • 100 ml góð ólífuolía, við stofuhita

Hráefnið í sinnepssósuna þarf að vera við stofuhita svo það skilji sig ekki. Blandið öllu saman og hrærið því vel saman t.d með gaffli.

Álegg milli laga og ofan á tertu:

 • 400 g reyktur lax

 • 2-3 soðin egg

 • 1/2 agúrka

 • Romaine salat

 • Steinselja, með flötum laufum

 • Smjör, 2-3 msk

02terta

Fyrsta lag:

Smyrjið laxamaukinu á brauðtertubrauðsneið og þekið svo með agúrkusneiðum.

03terta

Annað lag:

Smyrjið smá smjöri á næstu brauðtertusneið. Leggið svo laxasneiðar ofan á brauðsneiðina. Geymið nokkrar sneiðar til að skreyta tertuna. Smyrjið sinnepssósunni yfir laxasneiðarnar.

04terta

Dreyfið salati yfir laxinn og sinnepssósuna.

Gerið fyrsta og annað lag til skiptist miðað við hversu mörg lög þið viljið hafa, ég var með 5 sneiðar og því tvö lög af hvoru.

05terta

Nú kemur að því að draga fram listamanninn í ykkur. Ég skreytti með soðnu eggi sem ég skar í sneiðar, reyktum laxi, rækjum og steinselju. Þessi með flötum laufum kemur fallega út.

Byrjið á því að smyrja rjómaostblöndunni á allar hliðar kökunnar, svipað og ef þið væruð að smyrja köku með smjörkremi.

06terta

Ég bjó til rósir úr laxinum, það er mjög auðvelt, maður einfaldlega rúllar upp þunnum laxasneiðum.

07terta

Ég átti afgang af brauðtertubrauði og laxamaukinu og bjó til þríhyrningssamlokur úr afganginum.

08terta

Daginn eftir í blíðviðri fórum við í bíltúr um nágrenni okkar í Hvalfirðinum og enduðum á Bjarteyjarsandi. Þar er lítið notalegt kaffihús, það fannst geitinni.

10terta

Bókaskápurinn:

Nú er ég að lesa bók eftir Michael Moss sem heitir Sugar, salt, fat:How the Food Giants Hooked Us

Ég mæli eindregið með þessari bók, hún fæst einnig fyrir Kindle.

Advertisements

Túnfiskur undir þaki – Fyrsta máltíðin sem ég eldaði fyrir kærastann

Þessi máltíð hefði bara betur mátt lifa í minningunni.  Þegar uppi  er staðið þá er þetta bara heitt túnfisksalat með bechamel sósu og smjördegi.

Við erum að tala um að það eru næstum því 20 ár síðan ég dúkaði skrifborðið mitt inn í herberginu mínu og bauð upp á þennan rétt með flösku af Lambrusco.

Þetta var fyrir tíma digital myndavéla og instragram þannig að ég því miður ekki mynd frá þessu stórkostlega kvöldverðarboði.  En það lifir þrátt fyrir það vel í minningunni, eins og það hafi gerst í gær…næstum því.

tuna

Ég á litla ferðatösku fulla af úrklippum og litlum bæklingum með uppskriftum sem ég hef sankað að mér (Þessir sem maður fær ókeypis hér og þar í búðum frá t.d osta og smjörsölunni og fleira.)

Einn af þessum bæklingum, einmitt frá Osta og smjörsölunni inniheldur uppskrift sem ég fór eftir þegar ég bauð kærastanum í mat í fyrsta sinn, eins og ég sagði, það eru ansi mörg ár síðan og margt munnvatn runnið til sjávar síðan þá.

Ég fór að grafa ofan í töskuna í leit að þessari uppskrift því ég hef bara gert hana í þetta eina skipti og mundi ekki alveg hvernig hún var.  Lukkulega þá fann ég hana. Ég fór mjög nákvæmlega eftir uppskriftinni á sínum tíma og gerði slíkt hið sama núna.  Myndin sem fylgir uppskriftinni í bæklingnum er rosalega girnileg samt.  Þetta er alls ekki vont og ef þið kaupið vandaðan túnfisk í dós þá er þetta frekar hreint og basic hráefni, þó ekki megrunarfæði.

Uppskriftin er svohljóðandi.

tuna

Túnfiskur undir þaki (Gott úr ofninum, NR 95.  Osta og smjörsalan sf.)

 

 • 1/2 laukur, sneiddur
 • 1/4 paprika, sneidd
 • 3 msk smjör
 • 6 msk hveiti
 • 1/2 tsk salt
 • 7 1/2 dl mjólk
 • 200 g túnfiskur úr dós
 • 3 harðsoðin egg, söxuð
 • 2 msk sítrónusafi

þak

 • 225 g hveiti
 • 3 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 1/2 tsk pipar
 • 3 msk smjör
 • 1 1/4 dl mjólk
 • 75-100 g 26% ostur, rifinn
 • 2 paprikur, saxaðar

Hitið ofn í 220°c.  Laukur og paprika látið krauma í smjöri þar til það verður mjúkt.  Þá er hveitinu hrært saman við.  Mjólk bætt út  og hræra þar til þetta sýður og þykknar. Saltið.  Bætið út í túnfiski., eggjum og sítrónusafa.  Setjið blönduna í smurt eldfast mót.

tuna

Þak: Sigtið saman hveiti og lyftidufti.  Saltið og piprið.  Myljið smjörið saman við með fingrum.

Þá er mjólkinni bætt út í.  Hnoðað með hröðum handtökum þar til deigið verður samfellt og glansandi.

Svo fletjið þið það út í ferkantaða köku.

tuna

 Stráið osti og papriku yfir.

tuna

Rúllið upp eins og þið væruð að rúlla upp rúllutertu.

tuna

Skerið rúlluna í sneiðar, ca 2 sm sneiðar.

 tuna

Raðið rúllum yfir fyllinguna í eldfasta mótinu.

tuna

Bakið í um 30 mínútur.

tuna

 

Þetta verður kannski á boðstólnum hjá einhverjum um helgina.  Ég er viss um að mörgum krökkum þætti þessi réttur góður.

Góða helgi.

 

Útieldhús er draumurinn

Mig dreymir um útieldhús.  Það er svo sem ekki mikið mál að skella upp einhverri aðstöðu og það er á teikniborðinu þar sem við erum að byggja draumahúsið í sveitinni.

Veðrið er kannski ekki upp á marga fiska alla daga en það koma dagar og þá er það svo þess virði að hafa góða aðstöðu til að geta dúllað sér í matargerð og boðið vinum og fjölskyldu í brunch, lunch eða dinner… Ég er ekki sólbaðstýpa en að geta verið úti að elda, þá er tímanum í sólinni vel varið.

Ég skellti litla ofninum mínum út á hlað um daginn og bakaði flatkökur í sólinni.  Það kemur oft bræla þegar maður bakar flatkökur inni á hellu þannig að það var frábært að sitja út í sólinni og baka. Mjög afslappandi!

Ef þið eigið svona lítinn sumarbústaðarofn þá er brill að fara út á svalir eða pall og skella í nokkrar flatkökur í næsta góðviðri.

Ég á ekki grill þannig að ég veit ekki hvernig það kemur út að grilla þær, en um að gera að prófa, örugglega mjög gott.  Muna bara svo að stinga  kökunum í vatn þegar það er búið að baka  þær áður en þær fara inn í rakt viskastykki eða plast.

Hádegisverðarklúbbur og mér var boðið

Þær eru nokkrar stelpur sem hittast reglulega í Brunch.  Síðast hittust þær hér hjá vinkonu minni og nágranna í Kjósinni og ég var svo heppin að vera boðið að vera með og fá því að kynnast þessum stelpum og borða matin þeirra.  Það er miklar kröfur gerðar hvað varðar matargerð og mikið lagt upp úr góðu hráefni og góðum mat.

Ekki spillti fyrir að veðrir var brilliant og hægt var að sitja úti á palli allan daginn og njóta kræsinganna

Þær buðu upp á mintu salat, basil pasta, kúrbítssmárétt, kryddjurta kokteil, hrísgrjónavefju, rækjusalat og banana kókós eftirrétt með basil svo fátt eitt sé nefnt.  Þemað að þessu sinni var Ferskar kryddjurtir.

Þegar maturinn var komin á borðið gleymdi ég alveg myndavélinni og tók því ekki fleiri myndir en naut þess í stað matarins, félagsskapsins og ekki síst veðurblíðunnar sem er svo kærkomin,.

Ég bauð upp á bleiku pönnukökurnar með salvíu, borið fram með sýrðum rjóma og stökku beikoni.

Rúgbrauð og vorlaukurinn endalausi

Ég er búin að vera að baka í alla í nótt….þannig séð.  Ég setti rúgbrauðið í ofninn um 9 leytið í gærkvöldi og tók það út kl 7 í morgun.

En viljiði fyrst sjá hvað vorlaukurinn hefur vaxið mikið á einni viku? Sá til vinstri var jafn lítll og þessi til hægri, og þessi til hægri var orðin jafn stór og sá til vinstri, ég var að klippa af honum til að nota…

 

Rúgbrauð

 • 375 g rúgmjöl
 • 125 g heilhveiti
 • 2 tsk matarsódi
 • 2 tsk salt
 • 1/2 l AB mjólk
 • 325 ml síróp

 

Öllu hrært saman. Deigið var fremur blautt.  Ég setti það í Ikea pottinn mitt sem er úr steypujárni og glerhúðaður að innan.

Ég var ekki viss um hvort það myndi klessast við pottinn þannig að ég setti smá bökunarpappír inn í pottinn.

Bakaði í ofni við 100°c í 10 klst.

Svo er auðvitað hægt að nota mjólkurfernur eða kökubox.

Brauðið heppnaðist mjög vel og smakkaðist eins og seytt rúgbrauð 🙂

Ég er ekki mikið fyrir rúgbrauð í morgunmat, en þetta er frábært með léttum hádegis brunch. Mmmmm, rúgbrauð með kæfu og agúrku eða steiktu eggi.  Og best af öllu, með plokkfiski.

Enn eitt brauðið, og ekki af verri endanum. Brilliant með brönsinum

Nú las ég að verið sé að gera tilraunir með að auka D vítamín í sveppum hjá Flúðasveppum.

Ég fór aðeins að googla um D vítamín í sveppum og rakst á þessa grein á heillheimur.is.

Hér má lesa aðeins meira um sveppi og D vítamín

Mér finnst bara eitthvað ónáttúrulegt að vera sífellt að breyta mat, en kannski er það bara náttúrulegt fyrst þróunin er þessi og tæknin til staðar.

Ég mun  halda mig við sveppina sem hafa ekki verið D vítamínbættir og fá mér þá frekar lax með sveppunum til að fá D vítamínið.  Ég hef fulla trú á að nóg sé af næringu í fjölbreyttu mataræði.

sveppir

Ég hef verið dugleg við að gera heimagerð brauð.  Ég prófa gjarnan nýjar uppskriftir hvað varðar hlutföll og hvort ég noti egg, mjólk og smjör í degið eða hvort ég geri brauð úr pizzadeigi.

Ég fann uppskrift  sem bar titilinn FEATHER LIGHT ROLLS.  Feather light hljómaði vel í mínum eyrum enda er maður alltaf að leitast efir því að gera létt og loftrík brauð.

Ég var mjög sátt við þessa uppskrift.  Brauðið var bakað í potti, en potturinn þarf að vera Cast iron, enamel eða keramik og ég mæli með því að baka í potti og hafa lokið á.

morgunverðarbrauð

Laufléttar brauðbollur

 • 1 msk ger
 • 1 1/4 bolli volg mjólk
 • 1/4 bolli sykur
 • 1/4 bolli matarolía
 •  2 stór egg
 • 3 1/2 bolli hveiti
 • 1 msk salt
 • 4 msk smjör

Blandið saman geri, mjólk, sykur, olíu og eggi í skál.   Bætið við 2 1/2 bolla af hveiti og látið vélina vinna í eina mínútu.

Bætið við saltinu og restinni af hveitinu smám saman þar til áferðin er orðin góð.  Hrærið í hrærivél í smástund, eða hnoðið með höndum.

Mótið kúlu úr deiginu, setjið í stóra skál, breiðið yfir hana röku viskastykki eða plasti og látið hefast í 1-2 klst.

morgunverðarbrauð

Skiptið deiginu í kúlur á stærð við tennisbolta, ég gerði 8 kúlur. Setjið kúlurnar í pottinn, eina í einu og rúllið þeim upp úr smjörinu sem er í pottinum.

morgunverðarbrauð

Lokið pottinum og látið deigið hefast, ca 40 mín.

Þegar deigið er búið að hefast bræðið þá smjörið í pottinum sem þið ætlið að baka það í og veltið pottinum svo smjörið leiti upp á hliðarnar.  Eitthvað af smjörinu liggur svo eftir í botninum á pottinum, það er gott.

morgunverðarbrauð

Hitið ofinn í 180°c.  Setjið pottinn í  ofninn og bakið í 20 mínútur.  Takið lokið af pottinum og bakið í 10 – 15 mín til viðbótar.

Ekki vera að opna ofninn að óþörfu og sífellt kíkja á brauðið á meðan það er með pottlokið. Það lengir eldunartímann.

morgunverðarbrauð

Takið pottinn úr ofninum, takið brauðið úr pottinum, þökk sé smjörinu þá er það lítið mál.

Eins og alltaf þá eru þessar lang lang bestar enn volgar úr ofninum.

Döðlubrauð, sætt og sykurlaust

Ég fann þessa ágætu uppskrift á pressunni og ætla að henda henni hérna inn því ég á kannski eftir að gera þetta einhvern tíma aftur.

Ég er búin að færa inn vandræðalega mikið af sykruðum uppskriftum upp á síðkastið.  Og kosturinn við þessa uppskrift er að það er engin sykur í henni en þess í stað eru bæði döðlur og bananar.

döðlubrauð

 Döðlubrauð

 • 200 gr. döðlur
 • 2,5 dl. soðið vatn
 • 2 egg
 • 2 msk. brætt smjör
 • 2 bananar
 • 1 tsk. lyftiduft (hveitilaust úr Yggdrasil eða bara venjulegt)
 • 1 tsk.Matarsódi 1/2 tsk. sjávarsalt.
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 300 gr. speltmjöl

döðlubrauð

Saxið döðlur smátt og leggið í bleyti í sjóðandi vatni.  Látið kólna.

Þeytið saman egg og smjör, bætið við bönunum og þurrefnum.

Hrærið vel.  Sigtið vatnið frá döðlum og blandið við deigið.

Bakið í kringlóttu formi í 25-30 mín eða formkökuformi í ca 40 mín við 175°c.

IMG_3233

Ég bakaði þetta í kringlóttu formi í hálftíma og skar hana svo til helminga og því næst í sneiðar.

Best nýbakað svo smjörið bráðnar á brauðsneiðinni.

Alíslenskt brauð, allt hráefnið framleitt hér á landi

Eitt af því sem ekki er hægt að kaupa ef maður er að borða íslenskan mat er alíslenskt brauð.  Því varð ég að láta reyna á að búa til eitt slíkt og var ekki mjög bjartsýn á útkomuna.  En viti menn, það var vel ætt…. 🙂

íslenskt brauð

Íslenskt brauð

 • 150 g íslenskt heilhveiti
 • 150 g íslenskt byggmjöl
 • 1 tsk íslenskt salt
 • 2 tsk íslenskt hunang
 • U.þ.b 300 g mjólk

Hrærið hunangi í mjólkina.  Þurrefnum blandað saman, svo mjólkin út í.  Öllu hrært lauslega saman með sleif.

Setjið í bökunarform með smjörpappír í botninn.

Bakað við 200°c í 50 – 60 mín.

Hvernig bakar maður bolluvönd?

“Bolluvöndur, hvað er það?” spyr vinkona mín.  “Eru það svona bollur sem þú bakar nálægt hvor annarri svo þær festast saman?”

Það er svona að alast ekki upp á Íslandi sem barn.  En mér finnst hugmyndin hennar ekki galin og aldrei að vita nema ég bjóði henni í bolluvönd við tækifæri.  Bolluvendirnir eru sem sagt ekki svo alþjóðlegt fyrirbæri.  Ég settist á sunnudagsmorgni og bjó til bolluvönd með dóttur minni, aðalega svo ég gæti sent hana að rassskella pabba sinn sem lá sofandi inn í rúmi.

Kannski ekki alveg ástæðan.  Heldur finnst mér  gaman að halda í gamlar hefðir sem maður sjálfur ólst upp við.

Nú er ég til dæmis alveg týnd í öskudeginum, nú eru engir öskupokar fyrir krakkana.  Og ég er svo gömul að þá var ekki farið í búninga á þessum degi.  Mín minning er frí í skólanum og svo fór maður í Melabúðina að hengja öskupoka sem maður hafði föndrað alla vikuna (og aðal sportið var að beygja títuprjónana) á viðskiptavini búðarinnar.

Ég var nú ekki að senda mína tveggja ára í leikskóla með öskupoka með títuprjónum, en kannski eftir nokkur ár væri gaman að setjast niður og kenna henni að sauma öskupoka.

Hér er uppskrift af vatnsdeigsbollunum sem ég gerði og þær heppnuðst mjög vel.

vatnsdeigsbollur

Vatnsdeigsbollur

 • 125 g smjör
 • 2.5 dl vatn
 • 125 g hveiti
 • 3 egg
 • 1/4 tsk salt
 • 1 tsk sykur

Sjóðið saman vatn og smjör (sykur og salt ef það er notað).  Bætið við hveiti í pottinn og hræra því kekklaust saman við. Sumir hafa pottinn á hellunni á meðan þeir hræra í hveitið aðrir taka pott af hellunni á meðan.  Ég hafði hann á hellunni.

Setjið deigið í hrærivél

Hrærið við eggjum, einu í einu.

vatnsdeigsbollur

Mótið bollur á smjörpappírsklædda ofnskúffu, um það bil 1 matskeið hver bolla með hæfilegu millibili.

Bakið við 200°c í 30 -40 mín. (35 mín hjá mér).

Þetta urðu um 20 bollur.

Og meir um vatnsdeigsbollur hér.

Vatnsdeigsbollur – samanburður á nokkrum uppskriftum

Ég valdi af handahófi nokkrar vatnsdeigsbolluuppskriftir af netinu til að bera saman ásamt uppskriftum frá mömmu og tengdó sem hafa bakað sínar bollur í tööööttöguogfimm ár (eða kannski nær 45 árum).  Uppskrift frá Cafe Sigrún fær að fljóta með því það eru svo margir í spelt – agave – kókósolíu pælingunni.

Leiðbeiningar við bakstur eru yfirleitt mjög svipaðar.

Sjóðið saman vatn og smjör (sykur og salt ef það er notað).  Bætið við hveiti í pottinn og hræra því kekklaust saman við. Sumir hafa pottinn á hellunni á meðan þeir hræra í hveitið aðrir taka pott af hellunni á meðan.

Setjið deigið í hrærivél

Hrærið við eggjum, einu í einu.

Deigið á ekki að leka, heldur halda lögun.

Og svo þarf að muna:

 • Það er alveg bannað að opna ofninn á meðan verið er að baka bollurnar
 • Hafa gott bil á milli þeirra  á plötunni
 • Betra of lítið af eggi en of mikið, hálft egg of mikið getur eyðilagt uppskrift

 

Leiðbeiningamiðstöð heimilina

Mosfellsbakarí

Pressan.is

Freisting.is

Mömmur.is

Cafe Sigrún

bollur

UPPFÆRSLA FRÁ RITSTJÓRA:

Ég var að smakka bollurnar hennar mömmu, bakaðar skv. hennar uppskrift sem má sjá hér að ofan.  þær heppnuðust vel og voru mjög bragðgóðar.  Get mælt með þeirri uppskrift.

%d bloggers like this: