Húsið við sjóinn

Foodwaves

Category: Mínar uppáhalds uppskriftir

Huevos rancheros, besti morgunmatur í heimi, og egg elduð í muffinsformi

Næst þegar þið bjóðið í brunch þá mæli ég með Huevos rancheros. Þetta er mitt uppáhald, með slatta af jalapeno og fersku kóríander.
Farið nú og finnið einhverja góða vini eða fjölskyldumeðlimi og bjóðið þeim í Huevos ranchers brunch  fljótlega.
Svo þetta smakkist sem best þá verðið þið að nota ferskt kóríander, ferska heimagerða salsa, ferskt heimagert guacamole og heimagerðar nýsteiktar tortillur.

Já það þarf að hafa fyrir þessum rétti en það er hverrar mínútu virði þegar sest er til borðs, fáið ykkur bara smá Mímósu á meðan þið nostrið við matargerðina.

Besti morgunmatur í heimi

Til að gera gott Huevos rancheros þarf:

Svartar baunir, steiktar með góðgæti
Tómat salsa
Egg
Mossarella, ferskur
Guacamole eða bara avacado
Maís tortillur
Fullt af fersku kóríander
Sýrður rjómi

Besti morgunmatur í heimi

Svartar baunir

 • Svartar baunir, í dós eða soðnar
 • Græn paprika, smátt skorin
 • Laukur, smátt skorinn
 • Salt og pipar
 • Ferskt kóríander
 • Hvítlaukur, 2-3 rif pressuð
 • Ferskur jalapeno, smátt skorinn
 • Gott krydd.  Ég nota helst chilpotle í adobo sósu, og svo á ég líka þurrkað “smoked chilpotle” krydd.

Grænmetið skorið smátt og allt steikt á pönnu í góðri olíu, kryddað eftir smekk.

Besti morgunmatur í heimi

Ef maður er á annað borð að gera Huevos rancheros þá er nauðsynlegt að gera heimalagaða tómat salsa.

Tómata salsa

 • Tómatar, smátt skornir
 • Hvítur laukur, smátt skorinn
 • Ólífuolía
 • Ferskur eða niðursoðinn jalapeno, smátt skorinn
 • Ferskt kóríander, smátt skorið
 • Salt og pipar

Blandið öllu saman í skál.  Það er hægt að sleppa jalapeno ef þið viljið hafa hana milda.  Það er lykilatriði að vera með ferskt kóríander.  Einnig væri hægt að merja smá hvítlauk út í.

Besti morgunmatur í heimi

Egg

Ekki má gleyma eggjunum.  Það er sniðugt að baka eggin í muffinsformi í ofni ef maður þarf að elda mörg egg í einu.  Hafið ofninn á 190°c og fylgist vel með þeim, sérstaklega ef þið viljið ekki ofelda rauðuna.

Guacomole

Ég geri lítið annað en að stappa avocado gróft og salta hann vel.  Stundum saxa ég ferskt kóríander og blanda við.

Besti morgunmatur í heimi

Best af öllu er tortillur úr Masa harina hveiti, maíshveiti.  Ég held að Kostur selji Masa harina. En ef þið getið ekki nálgast Masa harina þá má nota venjulegt hveiti í staðin fyrir maís hveitið.

Maís tortilla

 • 5 dl Masa harina
 • 2,5 dl volgt vatn
 • 1-2 tsk salt
 • Ferskur chile pipar (má sleppa)

Setjið maíshveitið og salt í skál.  Bætið við volgu vatni eftir þörfum, ca 2,5 dl og hrærið saman þar til þið erum komin með mjúkt deig, það má vera svolítið blautt.  Búið til nokkrar kúlur á stærð við golfkúlu og fletjið þær út með því að leggja nestispoka sitthvorum megin við kúluna og þrýsta svo flötum diski eða skurðarbretti ofan á þær.  Leggið chili piparinn ofan á kökurnar og þrýstið aftur létt á kökurnar. Steikið á pönnu í olíu, eða á þurri pönnu, á báðum hliðum, um það bil 1 mínúta á hvorri hlið.

Berið öll herlegheitin á borð og bjóðið fólki að fá sér tortilla köku og allt það meðlæti sem það kærir sig um.

Ég ber einnig á borð ferskan mossarella og sýrðan rjóma.

Njótið!

Advertisements

Ostagerð er leikur einn

Ég gerði mossarella sem heppnaðist vel, kúlan leit út eins og þessi sem maður kaupir í vökva út í búð og smakkaðist þannig.

 

Það eru mikil fræði á bak við ostagerð.  Ég get seint sagt að ég sé sérfræðingur, en maður lærir leikmikið á að fikta og prufa sig áfram.
Ostagerð getur verið misflókin.  Einfaldast eru ferskostarnir sem þurfa enga geymslu og eru því tilbúnir strax, jafnvel eftir hálftíma.  Einfaldasti osturinn sem ég hef gert er Ricotta.  Mossarella var einnig einfaldur í gerð og tilbúin á innan við klukkutíma.
Ég keypti ostagerðabókina og þar er góður fróðleikur og nokkrar uppskriftir.  Á netinu má einnig finna fullt af uppskriftum og þar fann ég nokkrar mossarellauppskriftir sem ég hafði til hliðsjónar þegar ég gerði minn mossarella.

 

Í ostagerðabókinni var manni bent á að halda dagbók þegar maður gerir osta til að fylgjast með vinnsluferli og útkomu því það er margt sem spilar inn í, til dæmis hitastigið á mjólkinni.
Ég var ekki með hitamælir þegar ég gerði mossarella í fyrsta sinn. Í einni uppskrift var talað um 30°c og hækka svo í 37°c.  Ég hitaði mjólkina aðeins of mikið en það virtist ekki koma að sök, a.m.k varð
osturinn að kúlu og góður var hann.  Svo finnst mér líka hafa að segja hversu mikla mysu maður kreystir úr honum.
Ég notaði 3 dropa af ostahleypi í 1 L af mjólk og safa úr hálfri sítrónu.

 

Fróðleiksmolar
10 L af mjólk gefa af sér 1 kg af osti
Það er hægt að gera mismunandi osta með sama hráefninu en eiginleikar osta breytast við mismunandi skilyrði t.d hitastigi á mjólkinni, hversu lengi hún er síuð og með geymsluaðferð.
Ostar þroskast mislengi.  Ferskostar eru tilbúnir strax.  Harðir ostar, t.d Gouda, eru geymdir í 3 mánuði.  Parmasen ostur þarf að geymast í a.m.k 2 ár.

 

Mysa
Eins og ég sagði þá gefa 10 L af mjólk 1 Kg af osti.  Þá sitjum við uppi með 9 L af mysu.
Mysan er holl og próteinrík og má nýta á marga vegu.  Til dæmis er hægt að nota hana í brauðgerð þar sem uppskrift kallar á mjólk eða vatn, setja í smoothie og svo þykir hún góð sem fóður fyrir skepnur og einhverstaðar las ég að hægt sé að vökva með henni plöntur.
Það má lesa sér til um nýtingu á mysu á netinu, á ensku nefnist mysa whey.

 

Ostahleypir
Það er búið að vera aðeins í umræðunni að í ostum er ostahleypir sem gerður er úr ensímum úr kálfamaga.
Það er ekki að henta grænmetisætum, sem margar hverjar vissu ekki af þessu. Svo má minnast á gelatín, sem er gert úr dýrabeinum og er í ýmsum mat.
Það er misjafnt hversu langt fólk gengur í að neyta ekki dýraafurða, og það er spurning hvort fólk sem borðar ekki osta með ostahleypi gangi í leðurskóm.

 

Mossarella
 • 1 Líter Nýmjólk
 • 2 dropar ostahleypir (Það ætti að vera nóg að nota 1 dropa segja þeir)
 • 1-2 msk sítrónu
 • Smá salt
 
Setjið mjólk og 1 msk af sítrónu í pott og hitið að 30°c.  Ég setti líka tsk af salti.  Hrærið reglulega í.
Þegar mjólkin nær 30°c bætið þá við ostahleypi og hitið mjólkina að 37°c.  Hrærið varlega, bara smá á nokkura mínótna fresti til að brjóta ekki upp ostakornin.
(Hér setti ég aðeins meiri sítrónu út í pottinn, var hrædd um að ég hefði ekki sett nóg og væri að klúðra þessu).
Slökkvið á hellunni og látið pottinn standa í 20 mín.
Takið nú ostinn upp úr pottinum með sigti og sigtið frá mysuna.
(Á þessum tímapunkti var osturinn minn “vel hlaupinn” í kúlu og barasta tilbúin).
Í uppskriftinni sem ég fór eftir svona að einhverju leyti, þessari hér, átti svo að setja ostinn í örbylgju og teygja á honum og allskonar ævintýri en þegar ég setti ostinn í örbylgjuna fannst mér endalaust leka mysa úr honum og hann rýrna ansi mikið.
Þannig að ég lét staðar numið.
Svo er stórt atriði að salta ostana.  Það má gera á ýmsan hátt, t.d með pækilsöltun eða þurrsöltun.
Ég stráði bara Maldon salti yfir ostinn sem smám saman leysist upp og fer inn í ostinn.
Þessi ostur var borðaður daginn eftir þannig að ég hef ekki kynnt mér geymsluaðferðir enn sem komið er, hvort maður ætti að geyma hann í poka eða setja í vökva og í box.  Finn út úr því næst.
Til að láta reyna á nýju afurðina gerði ég tómat bruchetta.  Mér fannst góð teygja í ostinum og hann var ferskur og skemmtilegur undir tönn.
Ostagerð er semsagt eitthvað sem hægt er að leika sér með, gera tilraunir og prófa sig áfram aaaalveg óhræddur.  Það er með þetta eins og allt annað, þegar maður er komin í æfingu þá er þetta leikur einn.
Ég mæli með að þið lesið ykkur aðeins til áður en þið byrjið, það er nóg af fróðleik hér á netinu. Og látið svo bara vaða, í versta falli misheppnast þetta einu sinni eða tvisar áður en þið “masterið” ostagerð.

Besti eftirréttur sem ég hef smakkað langa lengi, kókós desert

Þetta er einn besti eftirréttur sem ég hef smakkað. Ég smakkaði hann fyrst hjá bóndakonunni á Hálsi og fékk að sjálfsögðu uppskriftina.

Ég lét svo vaða í að prófa hann núna um páskana, sem eftirrétt á Páskadag.  Ég var með svo miklar væntingar og vissi svo sem ekki hvort hann yrði jafn góður hjá mér.  En, ég fylgdi uppskriftinni samviskusamlega og hann varð alveg jafn góður og sá sem lifði í minningunni.

Þannig að þessi uppskrift er skotheld og ég algjörlega gjörsamlega mæli með því að þið prófið þennan eftirrétt. Hmmmm, það sakar ekki að prófa!

Svona fallegur var eftirrétturinn hjá húsfrúnni á Hálsi

Kókós desert

 • 400 ml kókósmjólk í dós
 • 30 g kókósmjöl
 • 120 g sykur
 • 3 gelatin blöð
 • 400 ml rjómi
 • 2 msk ferskur sítrónusafi
 • 10 g vanillusykur (eða 1 tsk vanilludropar)

Kókósmjólk, kókósmjól, sykur, vanillusykur og sítrónusafi sett í pott og fengin upp suða.  Takið pott af hellu og látið standa í 5 mín.

Setjið kókósmjólkurblönduna í skál og bætið gelatíni við og hrærið því vel saman við, látið kólna í 40 mín.

Þeytið rjómann og blandið honum saman við herlegheitin.

Kælið inn í ísskáp í a.m.k 2 klst

Berið fram með rifsberjasósu eða einhverri góðri berjasultu. Svo er hægt að skreyta hann með rifnu góðu súkkulaði og blæjuberjum.

Ég notaði þessa uppskrift af sultu með.

Skógarberjasulta

 • 2,4 dl blönduð ber (frosin) ég notaði berjablöndu, jarðaber, hindber, bláber ofl.
 • 1/2 bolli sykur
 • 1/2 dl vatn

Allt sett í pott og leyfið suðu koma upp.  Látið þá malla við meðal hita í 10 mín.  Setjið sultuna í skál og leyfið henni að kólna.  Ef þið viljið hana hana maukaða þá skellið þið henni í blender (eða maukið með töfrasprota)

Engar smá súkkulaðibitakökur. Mæli með þessum!

Þessar súkkulaðibitakökur stóðust alveg undir væntingum.  Og vegna þess að þær eru frekar stórar þá verða þær mmmmmmjúkar í miðjunni.

Þetta er svona uppskrift sem allir súkkulaðibitakökuaðdáendur

verða að prófa að minnsta kosti einu sinni. 

Ég hefði ekkert á móti því að vera að narta í eina núna í tilefni dagsins, því ég á afmæli í dag.  En ég læt mér duga að narta í afmælisgjöf, súkkulaðið frá Hafliða Ragnars…

súkkulaði

Það sem er lykilatriði við þessa uppskrift og verður að gera, er að geyma deigið í ísskáp í amk sólarhring.

Það er sniðugt á minni heimilum að baka 4 stk í einu því þær eru svo stórar, deigið geymist í kæli í 3 daga og svo má líka geyma það í frysti.  Ekki amalegt það 🙂

súkkulaðibitakökur

 Súkkulaðibitakökur

 • 3 2/3 bollar hveiti
 • 1 1/4 tsk matarsódi
 • 1 1/2 tsk lyftiduft
 • 1 1/2 tsk salt
 • 1 1/4 bolli smjör
 • 1 1/4 bolli púðursykur (ljós, en ég notaði dökkan)
 • 1 bolli sykur
 • 2 stór egg
 • 2 tsk vanilludropar
 • 120 g 70 % súkkulaði eða annað svakalega gott súkkulaði, verður að vera gæða!
 • Sjávarsalt

Setjið þurrefni í skál.  Setjið smjör og sykur í aðra skál og hrærið saman með hrærivél þar til blandan er létt (3-5 mín). Hér er gott að vera með smjör við stofuhita.

Bætið við eggjum, einu í einu.

Því næst vanillu.

Bætið við þurrefnum.

Setjið súkkulaðið í deigið og blandið því saman við svo það dreyfist  jafnt úr því.  Pakkið deiginu inn í plastfilmu.

súkkulaðibitakökur

Geymið deigið í ísskáp í sólarhring eða í allt að 72 klst.

súkkulaðibitakökur

DAGINN EFTIR: Mótið kúlur úr deiginu, hver kúla hjá mér var um 100 g.  Það er u.þ.b á við golfkúlu.  Já, þær eru svolítið stórar, það er best!

Raðið 4 kúlum á smjörpappír á ofnplötu með góðu millibili því þær fletjast út og þurfa sitt pláss.

Bakið við 180° c í 18-20 mín.

Ef þið notið ekki allt degið þá er hægt að gera kúlur úr öllu deginu og setja rest í frysti.

Passið að baka þær ekki of lengi sem þær verði ekki of harðar.

Þessi uppskrift er birtist fyrir þó nokkrum árum í New York times.

Frábærar Brownies, með smá “tjúí” áferð

Ég baka mjög sjaldan súkkulaðikökur eða Brownies, finnst þær oft verða þurrar og lítið spennandi hjá mér.

Annað hvort er ég að skána í bakstrinum eða hef dottið niður á góða uppskrift, ég held bæði.  Þessar Brownies voru ótrúlega skemmtilegar, hvernig úskýrir maður chewy – þá er ég ekki að meina seigar heldur karamellu chewy stemmning.

Ég á eftir að gera þessar aftur.

brownies

Brownies

 • 140 g smjör
 • 280 g sykur
 • 80 g kakó
 • 1/4 tsk salt
 • 1/2 tsk vanilludropar
 • 2 egg (köld)
 • 70 g hveiti

Hitið ofninn á 160°c

Setjið smjörpappír í eldfast mót eða notið það kökumót sem þið erum vön, mitt var um 20×30 cm. Og smjörpappírinn náði upp á sitthvora brún þannig að ég gat togað kökuna upp þegar hún var bökuð.

Bræðið saman smjör, sykur, kakó og salt.

Setjið smjörblönduna í þá skál sem þið ætlið að hræra þetta saman í (ég nota Kitchen Aid) þegar smjörið hefur kólnað aðeins. Bætið við vanilludropum. Bætið við eggjum, einu í einu.

Þegar þetta er orðið vel glansandi og vel blandað saman bætið þá við hveitinu og hrærið því vel saman við. (Það tekur ekki langan tíma í hrærivél, talað var um 40 strokur með sleif)

Dreifið úr deiginu í eldfasta formið.

Bakið í 25 – 30 mínútur, þannig að þið sjáið að hún er enn rök (moist) í miðju ef tannstöngli er stungið í hana.

kaka

Takið kökuna úr forminu og skerið í hæfilega bita og borðið hana helst volga og ekki er slæmt að fá sér rjómaklessu eða vanilluís með.  Lítill hjálparkokkur var mjög hrifin af þessari köku bæði áður og eftir að hún fór í ofninn.

Samloka samlokanna

Hér er lítil myndasaga af ótrúlega góðri samloku. Þetta er ein af þessum samlokum sem ég hef gert öðru hvoru í háa herrrans tíð en þetta var í fyrsta sinn sem ég gerði nokkurs konar ciabatta brauð sjálf, og það átti vel við innihald lokunnar.

Hér er sagan á bak við þessa samloku og uppskrift af nautahakki og sósunni:Focaccia samloka með nautahakki

Bakið Ciabatta eða annað gott brauð.

ciabatta

Skerið það til helminga eins og hér er sýnt.

ciabatta

Leggið þau með skurðinn upp.

ciabatta

 Setjið á þau steikt nautahakk, sinnepssósu og ost.

ciabatta

Leggið þau saman, með skurðinn að utanverðu.

ciabatta

Ef ykkur finnst jalapeno eða chile gott, þá mæli ég með svoleiðis, ferskum eða niðursoðnum.

ciabatta með nautahakki

 Grillið á panini grilli þar til osturinn bráðnar.  Ef þið eigið ekki panini grill þá má skella þessu í ofninn

ciabatta með nautahakki

ciabatta með nautahakki

Berið fram með rauðvíni, hvítvíni eða ísköldum bjór.

ciabatta

Ciabatta brauð er ekki ósvipað pizzadegi en maður þarf að búa til starter, og svo hnoða það vel og vandlega en hafa deigið samt fremur blautt.

Ef þið nennið ekki að dudda of við þetta þá mæli ég með því að:

1. Þið gerið nákvæmlega eins og þegar þið eruð að gera pizzu.

2. Látið deig hefast í klst og skellið því svo á smjörpappír á bökunarplötu án þess að eiga of mikið við það, nema til þess að bæta við smá fræjum, t.d þriggjakorna blöndu eða sesame fræjum ef þið viljið. Ég mæli sko með því!

3. Mótið úr deiginu brauð sem er í laginu eins og ciabatta brauð ( þ.e eins og inniskór, en ciabatta þýðir inniskór (slipper) þar sem brauðið þykir í laginu eins og inniskór). 

4. Bakið í ofni í ca 20 mín við 200°c.

Hér er linkur á uppskrift og video um það hvernig gera má Ciabatta.

Frönsk sveitakæfa

Þetta er ljúffengur matur, borið fram með köldu hvítvíni eða góðu rauðvíni.  Þetta er algjör stemmnings matur og gaman að bera á borð fyrir góða gesti. Það eru til ýmsar útfærslur á sveitakæfu.  Ég fékk uppskrift hjá vinkonu og svona endaði þetta hjá mér

.sveitakæfa

Frönsk sveitakæfa

 • 400 g svínahakk
 • 400 g svínalifur og spekk (2:1, 2 hlutar lifur, 1 spekk)
 • 100 g beikon
 • 1 egg
 • 1 msk hveiti
 • 1/4 l rjómi
 • Salt
 • Pipar
 • Krydd, t.d timian
 • 1 dl haframjöl
 • 1/2 laukur
 • 1-2 rif hvítlaukur

Ég kryddaði með lamba kryddblöndu frá NOMU, sem í var m.a cumin, timian, rósmarín ofl.

Öllu blandað saman í skál, ég notaði hendurnar.  Látið standa í ísskáp í klst eða svo.  Setjið í smurt eldfast mót og inn í ofn í klst á 180°. (Gæti þurft að vera lengur í ofninum þó). Hafið vatn í ofnskúffu í ofninum á meðan þið eldið kæfuna.

Berið fram með sveppasósu, rúgbrauði, súrum gúrkum og rauðbeðum.

Sveppasósa

 • 1 box sveppir
 • 1/2 L rjómi
 • 2 msk hvítlauksrjómaostur
 • Smá hvítlaukur
 • Salt
 • Pipar
 • Timian
 • Smjör
 • Sósujafnari

Steikið sveppi upp úr smjöri og smá hvítlauk.  Bætið við rjóma og rjómaostinum. Kryddið. Látið malla, þykkið með sósujafnara.  Ef þið eigið koníak er gott að setja smá skvettu út í, eða smá skvettu af hvítvíni.

 

 

Það vantar alveg löðrandi rjómalöguðu sveppasósuna og íslenska smjörið á rúgbrauðið á þennan disk!

 

Tapas veisla

Án gríns þá er must að smakka þetta kombó!!  Næst þegar þið setjist niður í góðra vina hóp til að fá ykkur í glas setjið þá þetta á borðið.

tapas

 • Baguette, nýtt, mjúkt og gott og skorið í sneiðar
 • Ítalska eða spænska pulsu, helst svolítið bragðmikla eða spicy
 • Brie eða Camembert
 • Rauðlauk, skorinn í þunnar litlar sneiðar
 • Rauð papríka, skorin fremur þunnt og í tvennt eða eitthvað svoleiðis
 • Góð sulta, hvort sem það er hindberja, jarðaberja, sólberja…

Svo er þetta sett krúttlega á bakka, og allir búa til sínar eigin snittur.

Svona geri ég þetta: Ostur settur á brauðið, svo sulta og því næst pulsusneið og að lokum smá rauðlaukur og papríka.

baguette

Ef þetta er hráefni sem ykkur geðjast að, þá bara verðið þið að prófa þetta, nákvæmlega allt þetta á einni baguette sneið.

ÞIÐ VERÐIÐ!

Huevos Rancheros- besti morgunmatur í heimi og egg elduð í muffinsformi í ofni

Svartar baunir, egg, guacamole, maístortilla, tómatsalsa, ferskur mossarella.  Næst þegar þið gerið brunch þá mæli ég með Huevos rancheros!  Allavegana mitt uppáhald, og slatti af jalapeno og fersku kóríander.

Farið nú og finnið einhverja góða vini eða fjölskyldumeðlimi og bjóðið þeim í Huevos ranchers um helgina. 🙂

Ferskt, ferskt, ferskt! Svo þetta smakkist sem best þá verðið þið að nota ferskt kóríander, ferska heimagerða salsa, ferskt heimagert guacamole og heimagerðar nýsteiktar tortillur.

Huevos rancheros

 • Svartar baunir, steiktar með góðgæti
 • Tómat salsa
 • Egg
 • Mossarella, ferskur
 • Guacamole eða bara avacado
 • maís tortillur
 • fullt af fersku kóríander

Guacamole

Ég geri lítið annað en að stappa avacado gróft og salta hann vel.  Stundum set ég smá ferskt kóríander

Svartar baunir

"svartar baunir"

Svartar baunir eru lykilatriði í Huevos rancheros.

 • Svartar baunir, í dós eða soðnar
 • græn paprika, smátt skorin
 • Laukur, smátt skorinn
 • Salt og pipar
 • Ferskt kóríander
 • Hvítlaukur, 2-3 rif pressuð
 • Ferskur jalapeno, smátt skorinn
 • Gott mexíkóskt krydd.  Ég nota helst chilpotle í adobo sósu, og svo á ég líka þurrkað “smoked chilpotle” krydd.  Það er líka hægt að nota taco eða burritos krydd.

Grænmetið skorið og allt steikt á pönnu í góðri olíu.

egg

Ekki má gleyma eggjunum.  Það er sniðugt að baka eggin í muffinsformi í ofni ef maður þarf að elda mörg egg í einu.  Hafið ofninn á 190°c og fylgist vel með þeim, sérstaklega ef þið viljið ekki ofelda rauðuna.

tortilla

Best, best, best BEST af öllu er tortillur úr masa harina hveiti, maíshveiti.  Ég heyrði að hugsanlega er hægt að kaupa Masa harina í austurlensku búðinni á suðurlandsbrauð, en hef ekki tékkað á því sjálf.

En ef þið getið ekki nálgast masa harina þá getið þið bara gert venjulegar hveititortillur og þurrsteikt á pönnu eða steikt upp úr olíu.  (Og þá má líka kaupa tortillur út í búð ef í hart fer 🙂

 • Masa harina hveiti
 • Volgt vatn
 • Smá salt

Setjið eitthvað magn af hveiti í skál, t.d 2 dl og smá salt.  Bætið við volgu vatni eftir þörfum, ca 1 dl og hrærir saman þar til þið erum komin með mjúkt deig, það má vera svolítið blautt.  Búið til nokkrar kúlur á stærð við golfkúlu og fletjið þær út með því að leggja nestispoka sitthvorum megin við kúluna og þrýsta flötum diski eða skurðarbretti ofan á þær.  Steikið á pönnu í mikilli olíu á báðum hliðum, ca 1 mín á hvorri hlið.

salsa

Ef maður er á annað borð að gera huevos rancheros þá er nauðsynlegt að gera heimalagaða salsasósu.  Hún er svo miklu ferskari.

 • Tómatar, smátt skornir
 • Hvítur laukur, smátt skorinn
 • Ólífuolía
 • Ferskur eða niðursoðinn jalapeno, smátt skorinn
 • Ferskt kóríander, smátt skorið
 • Salt og pipar

Blandið öllu saman í skál.  Það er hægt að sleppa jalapeno ef þið viljið hafa hana milda.  Það er lykilatriði að vera með ferskt kóríander.  Einnig væri hægt að merja smá hvítlauk út í.

Ég bið spænskumælandi lesendur afsökunar á að ég nenni ekki  að finna rétta n-ið í jalapeno…þrátt fyrir að það meir að segja böggi mig doldið og taki enga stund laga þetta 🙂

%d bloggers like this: