Soð og ástæðan fyrir því að ég hætti að blogga…

…en byrja svo alltaf aftur, þó svo að stundum líði ár og dagar er sú að ég nenni ekki að fara í hlutverk stílista við myndatökur á því sem ég elda eða gera þetta að fullu starfi. Oftast er maturinn sem ég geri ekki “insta perfect” en mjög bragðgóður og standardinn í myndum fyrir matarblogg verður sífellt hærri, komið á það stig að maturinn á myndunum er ekki einu sinni ætur því ísinn er raksápa og gljáinn er hárlakk.

Nú var ég aðeins að flétta í gegnum uppskriftirnar mínar og hugsaði með mér, þessar myndir mínar eru hræðilegar en svo mundi ég eftir matnum, hversu góður hann var og fólkinu sem naut hans með mér, og mest að öllu er mikilvægi þess að halda þessum uppskriftum til haga því ég á það að til að gleyma öllu sem ég elda.

Ég hef undanfarið verið að gera soð úr beinmerg en hann kemur frá 100% grasfóðruðum nautum á Hálsi í Kjós og er algjör ofurfæða, stútfullt af vítamínum og andoxunarefnum, gott fyrir heilsuna og liðina líka. Svo gerið ég merg-paté úr merginum, einnig allra meina bót. Ég fæ allt mitt kjöt hjá bændunum á Hálsi í Kjós, en þau eru með 100% grasfóðrað kjöt, sem er talið mun hollara en naut sem alin eru á korni.

Merg-paté er orðskrípi frá mér komið, ég veit ekki hvað skal kalla þetta en á ensku myndi ég kalla þetta “spread” en mörgum finnst gott að nota þetta til að smyrja með, t.d glóðareldað baguette sneiðar eða ofan á steikur eins og kryddsmjör.

Soð, gert í “Instant pot”

  • Bein með merg
  • Vatn
  • Hvítlaukur
  • Salt
  • Pipar.
  • Grænmetisafskurður og krydd að eigin vali

Setjið beinin í ofnskúffu og inn í ofn á 200°c í 30-40 mín

Skafið mergin úr beinunum ef þið ætlið að gera Merg-paté og leggið til hliðar, ég skóf gróflega til að hafa eitthvað með í soðinu.

Stillið Instant pot á sauté og svitið hvítlauk og það grænmeti sem þið ætlið að nota í rúmgóðum potti, ég hafði einungis hvítlauk. Bætið við beinum og vatni. Hér notaði ég 1.5 L af vatni á móti ca 1 kg af beinum.

Ýtið á Cancel, setjið lokið á og ventil í rétta stöðu. Ýtið á Pressure Cook og eldunartíma á 2 klst.

Munið að fara alltaf varlega þegar átt er við ventillin í lok eldunar.

Þetta soð má einnig gera í potti en þá þarf mun lengri suðutíma.

Að lokum leyfi ég soðinu að kólna í ískáp og þá storknar fitan efst, hana tek ég svo af og geymi í lokuðu íláti en tólgur er afar góður til steikingar.

Ég frysti gjarnan hluta af soðinu í teninga sem ég hita svo upp og drekk eins og te.

Þessi mynd er ekki það girnilegasta í heimi… en læt hana fylgja 🙂

Merg-paté

  • Mergur
  • Salt
  • Pipar
  • Pizzakryddblanda frá Kryddhúsinu

Blandið saman með töfrasprota. Setjið í ílát, geymist í kæli. Ég rúllaði minni upp með smjörpappír, svona eins og kryddsmjör.

Ef þið hafið áhuga á að kynna ykkur töfra beinbergs frá grasfóðruðum nautum þá eru hér hugmyndir að leitarorðum:

  • Beef bone marrow benefits
  • Tallow benefits
  • 100% grass-fed beef bone broth
  • Bone Marrow spread

MEÐ FYRIRVARA:  Ég er algjör slumpari þegar kemur að eldamennsku, þannig að mælieiningar hjá mér eru ekki sérlega nákvæmar, en nærri lagi.  Með æfingunni finnur maður sinn takt í eldamennsku.  

Uppskriftirnar hér eru hugsaðar sem hugmyndir að samsetningu frekar en hárnákvæmum lýsingum á innihaldi og aðferð.  Þær eru svo settar hér á internetið fyrir sjálfa mig til að muna eftir uppskriftum sem mér þykja góðar, fyrir vini og vandamenn og alla aðra sem ramba inn á þessa síðu.