Lahmacun – Tyrknesk pizza

Pizzur eru mesta snilld í heimi. Það er alveg sama hvaða álegg ég hef sett á pizzu, það bragðast alltaf mjög vel. Til dæmis afgangur af indverskum lambarétti með mangó chutney, afgangur af kúbverskri samloku endaði á pizzu, það var skinka, súrar gúrkur og sinnep. Meir að segja afgangur af kínverskum dumplingum sem samanstóð af svínahakki, fennel og chile pipar.

 

Í algjöru uppáhaldi hjá mér þegar kemur að pizzagerð er þó Lacmahun, eða Tyrknesk pizza.

Það er að sjálfsögðu mikilvægt að vera með gott hráefni, og þar má fyrst nefna lambahakkið.

01lacmahun

Ég hef yfirleitt keypt lambavöðva og hakkað sjálf, en einnig hef ég fengið einstaklega gott lambahakk í Frú Laugu. 

02lacmahun

Svo er lykilatriði að vera með ferska myntu og ferska steinselju.Ég kaupi steinselju með flötu blöðunum. 

03lacmahun

Lacmahun (fyrir 4)

Pizzadeig

 • 500 g hveiti

 • 300 ml volgt vatn, um það bil, þið finnið það í hnoðinu hve mikið vatn þarf á móti hveitinu

 • 1 tsk salt

 • 2 tsk þurrger

Setjið hveiti í skál og bætið við geri, salti og volgu vatni. Hnoðið í hrærivél (eða höndum) þar til deigið er orðið mjúkt og ekki klístrað. Því er gott að setja vatnið út í smám saman.  Setjið poka eða filmu yfir skálina og látið deigið hefast í klst eða svo.  

04lacmahun

Þetta er einföld uppskrift að deigi og klikkar sjaldan. Það eru mikil fræði á bak við pizzudeig sem þyrfti sér færslu, jafnvel fleiri en eina. Mér hefur til dæmis þótt það koma vel út að geyma deigið í ísskápi í nokkra daga.

Einnig er hveiti ekki bara hveiti. Sú umræða gæti einnig endað í langri færslu. Ég nota hveiti frá Marino, en það er lífrænt ræktað og steinmalað af fjölskyldufyrirtæki í Piemonte á Ítalíu.

Lambahakk

 

 • 400 g gott hakkað lambakjöt (t.d lambavöðvi, lambainnralæri)
 • 1 laukur
 • Ein væn lúka fersk minta
 • Ein væn lúka kóríander
 • 1/2 rauður chile pipar
 • 3 hvítlauksrif
 • 1/2 gul paprika
 • 200 ml tómata passata
 • 1 tsk cumin
 • 1 tsk túrmerik
 • Safi úr hálfri sítrónu
 • 2 msk góð extra virgin ólífuolía
 • 1-2 tks salt

 

Hakkið saman lauk, hvítlauk og papriku (eða saxið smátt).  Saxið mintu og kóríender. Setjið lambahakkið í stóra skál og blandið öllu hráefninu vel saman með fingrunum.

05lacmahun

Fletjið pizzadeigið þunnt út og setjið á ofnplötu eða pizzustein.

Makið lambahakkinu fremur þunnt á pizzudeigið en þannig að það þeki og passið að það nái vel út í alla kanta því hakkið skreppur saman við eldun.  Setjið pizzuna inn í 220°c heitan ofn í 10 – 15 mín eða þar til hakkið er eldað.

06lacmahun

Meðlæti:

 • Steinselja, gróft söxuð

 • Sítróna, skorin í báta

 • Rauðlaukur, skorinn í strimla

Þegar pizzan er borin fram þá á að dreyfa yfir hana ferskum rauðlauk og ferskri steinselju og kreista smá sítrónu yfir hana.

Advertisements