Húsið við sjóinn

Foodwaves

Category: Súpur

“Butternut squash” súpa // Instant Pot

Þessi súpa var gerð í Instant Pot og sló rækilega í gegn, líka hjá krökkunum.

Uppskrift miðað við 4.

  • 1/2 Butternut squash grasker
  • 1 laukur
  • 1 epli
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 2 tsk Za´athar
  • 1-2 msk góð krydd, ég notaði Gyros krydd frá kryddhúsinu
  • Salt og pipar
  • 1 dós kókósmjólk
  • 3 dl vatn
  • 2 msk olía
  • 1 dós kjúklingabaunir

Um að gera að leika sér með kryddin. Einnig gott að setja indversk krydd, engifer og túrmerik.

INSTANT POT LEIÐBEININGAR

  1. Sauté stilling. Setjið olíu í pott, þegar pottur sýnir “HOT” setjið graskerið, lauk og epli (allt skorið í tenginga) og eldið í 3-5 mín, bætið við hvítlauk og öðrum kryddum.

2. Ýtið á Cansel.

3. Bætið út í kókósmjólk og vatni.

4. Stillið pott á “Pressure Cook” High, í 10 mín. Svo strax Pressure release. PASSA SIG, GUFAN ER MJÖÖÖG HEIT!

5. Hér bætti ég við kjúklingabaunum (úr dós) hellti vökvanum frá og set baunir út í. Þar sem að þetta var krakkavæn súpa þá tók ég frá næstum alla súpuna, skildi eftir eina ausu af súpuvökva, sem ég bætti kjúklingabaununum við og setti á sauté stillingu og hitaði þannig upp í 5 mín.

Súpuna sem ég tók frá setti ég í matvinnsluvél og maukaði í silkimjúka súpu. Hér myndi ég bæta við kjúklingabaununum út í maukaða súpu, en ég bar þær fram í sér skál því ekki allir vildu þær. Einnig er hægt að bæta þeim út í súpuna í pottinum í lokin og mauka þær með.

Tvær mjög ólíkar blómkálssúpur og vanmetinn hálfmáni

Við nágranni minn ákváðum að elda saman en þó í sitthvoru lagi, sem við gerum ansi oft. Hún eldar heima hjá sér og ég heima hjá mér og svo hittumst við á öðru hvoru heimilinu með allan matinn og borðum saman.  Við leggjum svona óljóst línurnar hvað við ætlum að elda og í hvert sinn verður allt fáránlega gott sem við gerum og smellpassar saman.

Meir að segja tókst vel til þegar hún kom með gulrótarsúpu og ég gerði hálfgerða pizzu með sýrðum rjóma og chile pipar.  Á meðan við borðuðum súpu og chile pizzu var flannastór hálfmáni í ofninum, stútfullur af gæða salami, osti og fleiru góðu.  Ég sá ekki fyrir mér að snert yrði á honum enda allir vel saddir eftir súpu og flatböku.

Ég tók hann nú samt úr ofninum og lét hann á borðið, skar eina sneið af honum til að smakka. Hann var étinn upp til agna á 10 mínútum.

Þetta var besti hálfmáni sem ég hef smakkað og minnti mig á að gera hálfmána oftar, en ég hef forðast það því mér finnst venjulegar pizzur svo góðar.  Það verður fljótlega gerður hálfmáni aftur.

Í þetta sinn átti  nágranni minn blómkál og ég einnig þannig að við ákváðum að fara í blómkálssúpukeppni.  Við unnum báðar!

Það er magnað hvað hægt er að gera ólíkar súpur úr þessu ágæta hráefni.

Ég er ekki með nákvæma uppskriftir en það er bara ekki svo nojið hvernig þið gerið þetta, málið er að smakka sig bara til og segja það gott þegar maður er sáttur.

Blómkál og kartöflur eru góður grunnu að súpum. Ég nota aldrei súputeninga.  Mér finnst hráefnið sem maður notar í súpur hverju sinni njóta sín vel.  En það er líka lykilatriði að nota gott hráefni. Ég notaði enga mjólk né rjóma í mína súpu.

súpa

Blómkálssúpa með beikoni

  • 1 blómkál
  • 4-5 kartöflur
  • 3-4 sneiðar af góðu beikoni (Fékk mitt hjá Kjötpól á laugarnesvegi)
  • Valhnetukjarnar, lúka og smá vatn til að mauka með
  • Smjörklípa
  • Pipar
  • Hvítlausrif
  • Rjómi ef þið viljið (Ég átti engan rjóma)
  • 2 epli

Sjóðið blómkál, kartöflur og epli í vatni.

Steikið beikon og bætið út í pottinn.

Maukið í töfrasprota valhnétukjarna með smá vatni svo úr verði mauk.

Bætið valhnetumauki, pipar, smjöri og pressuðu hvítlauksrifjum út í súpuna. Setjið súpuna í blender og maukið.  Þið getið ráðið þykktinni með að taka eins mikið vatn úr pottinum með í blenderinn og þið viljið. Setjið súpuna aftur í pottinn með smá skvettu af rjóma og mallið saman.

súpa

Blómkálssúpa með grillaðri papriku

  • 1 blómkál
  • 5-6 kartöflur
  • Grilluð paprika
  • Hvítlauksrif
  • Basilíka, fersk
  • karrí
  • Mjólk eða rjómi

Grillið papriku í ofni.  Sjóðið allt saman í vatni, bætið við paprikunni og kryddi. Maukið í blender.

EATING ANIMALS – Súpa með grænum linsum, kjúklingabaunum og fennel

Ég er að lesa bók, nýbyrjuð en hún lofar góðu. Hún er sem sagt um það að borða dýr.  Rithöfundurinn er ekki að predika það að allir ættu að gerast grænmetisætur, heldur bara benda á ýmsa þætti varðandi það að borða dýr.

Það er þá helst meðferðin á dýrunum.  Mjög ólystug meðferð og fjöldaframleiðsla. (Fyrir utan að sum fá að éta hunda, ketti, skúnka og rottur sem hafa drepist á þjóðveginum, nammi namm.)  Það ekkert náttúrulegt við svona ofur fjöldaframleiðslu landbúnað, enda er þetta ekki landbúnaður heldur verksmiðja.

Það er einmitt til orð yfir þetta, Factory Farming.

Og hér er heimasíða bókarinnar, Eating Animals.

Mér finnst mikilvægt að vita hvað það er sem maður er að láta ofan í sig.  Ég versla mitt kjöt beint af býli, býli þar sem ég horfi á kýrnar nánast út um stofugluggann. Ég  kaupi kjúkling og svín ööörsjaldan. Svo þarf maður líka að vera meðvitaður um fiskinn, hvernig ferlið er í kringum hann, það er ekki alltaf glansmynd.

Og til gamans veltir hann fyrir sér afhverju við (flestir, sérstaklega á vesturlöndum) borðum ekki hunda…

En ég er bara rétt að byrja, sjáum hvernig þessi bók endar 🙂

Það er því við hæfi að koma með uppskrift af grænmetisrétti.

Það var svona mismikið til í ísskápnum en eitthvað til í niðursuðuskápnum sem er lítið notaður þannig að ég ákvað að ganga á birgðarnar þar.

Þar átti ég gæða tómata í dós og kjúklingabaunir. Svo fann ég grænar linsur sem ekki þarf að leggja í bleyti og aðeins sjóða í hálftíma eða svo.

Ef þið vitið ekki hvað þið eigið að gera við baunir, eins og þær eru nú hollar og góðar, þá er alltaf gott að skella þeim í súpur.

Með hjálp google eftir að hafa slegið inn Soup, green lentils tomatoes, þá fékk ég slatta af girnilegum uppskriftum og ein var innihélt einnig fennel, sem ég aldrei þessu vant átti.

fennel

Fennel er ótrúlega skemmtilegt hráefni. Það er afgerandi lakkrísbragð þegar maður smakkar það hrátt, en það mildast við eldun finnst mér og verður mun bragðbetra.

Ég átti ekki til allt sem uppskriftin bar fram, eins og t.d ferskt kóríander sem hefði verið skemmtilegt.

linsuIMG_3568


Krydduð linsu og kjúklingabaunasúpa
 (svolítið stór skammtur, örugglega fyrir 6)

  • 1 fennel
  • 1/2 laukur
  • 1/2 rauðlaukur
  • 1 dós crushed tomatoes
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 1/2 tsk engifer (ferskt eða duft)
  • 1 tsk turmeric
  • 1 tsk kanill
  • 2 dl grænar linsur (ósoðnar)
  • Ferskt kóríander,
  • 1 lúka
  • Salt og pipar
  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 1 L vatn og grænmetiskraftur
  • Ólífuolía, 2-3 msk til steikingar
  • Smá rjómi í lokin, ef þið við viljið, það var ekki í uppskriftinni, en ég átti smá og bætti, það var ekki verra.

Skerið lauk og fennel í litla bita eða ræmur.  (Skiptir ekki máli ef þið ætlið að setja allt í matvinnsluvél í lokin.)

Svitið á pönnu, bætið við tómötum í dós, hvítlauk og kryddum.

linsusúpa

Bætið við vatni, grænmetiskrafti og fáið upp suðu.  Bætið út í kóríander og linsubaunum og sjóðið þar til baunirnar eru soðnar.   Salt og pipar eftir smekk.

Bætið við kjúklingabaunum, látið malla í 5 mín.

Hér er einnig hægt að bæta við smá rjóma.

Svo er hægt að setja alla súpuna í matvinnsluvél (blender) eða bara helming og hana bæði “smooth and chunkey”

Svo var einnig uppskrift af pestó til að setja út í súpuna sem hljómaði vel en ég átti ekki kóríander, langar að prófa þetta samt við tækifæri.

Charmoula

  • 4-5 msk ólífuolía
  • 1 tsk cumin fræ, ristuð og maukuð (ground)
  • 1 rif hvítlaukur
  • 1 jalapeño
  • Safi úr einni sítrónu
  • 1 búnt ferskt kóríander
  • Salt og pipar.

Allt maukað í matvinnsluvél.


Sveppasúpa með beikoni.

Mér finnst gott að hafa sveppi á pizzum en þess á milli, þá geri ég lítið við þá. Nú sat ég með fulla öskju af flúðasveppum inn í ísskáp og ákvað að gera sveppasúpu.

sveppasúpa

Mig langaði að hafa hana aðeins meira spennandi en bara sveppir og rjóma og fór að gúggla. Þá datt ég niður á mjög girnilega uppskrift í fallega vefritinu hjá Sweet Paul.

Þetta er “mikil” súpa, smjör, beikon, rjómi… þið skiljið… og mér fannst hún mjög góð en hún nýtur sín best sem forréttur í  lítilli skál, svona sem “teaser” fyrir aðalrétt.

Ég notaði uppskriftina hans Paul til hliðsjónar og gerði svona.

sveppasupa

Sveppasúpa (fyrir 2)

  • 1 askja sveppir (ef þið eigið einhverja gúrmei sveppi þá er það ekki verra)
  • 5-6 lengjur beikon, skorið í cm bita 1/2 laukur, smátt skorinn
  • 2 rif hvítlaukur, rifinn
  • 1/2 L vatn og grænmetiskraftur
  • Smá skvetta hvítvín
  • 2 dl rjómi
  • Smjör og olía til steikingar (t.d 2 msk olía og 2 msk smjör)
  • Pipar
sveppasúpa

Steikið lauk, beikon og hvítlauk á pönnu með olíu, bætið svo við sveppum og smjöri.

Piprið eftir smekk.

Takið frá ca 1/3 af sveppablöndunni. (Því þetta fer í blender, ef þið viljið smá “chunky” súpu).

Setjið út í vatn og grænmetiskraft. Bætið við skvettu af hvítvíni.

Látið malla í 20 mín. Setjið súpuna í blender, eða maukið með töfrasprota. Setjið súpuna aftur í pottinn.

Bætið við rjóma og látið malla í smá stund. Berið fram með góðu brauði.

Ég saltaði súpuna ekkert, fékk nóg salt frá beikoninu og smjörinu.

Þið getið leikið ykkur með ferskar kryddjurtir til að skreyta súpuna með þegar þið berið hana fram.  Timian gæti gerið gott.

Að fá sér súpu…spennandi? Ég get að minnsta kosti mælt með þessari.

Kannist þið ekki við það að elda sjaldan súpu því það er ekki nógu djúsí og spennandi.  En svo loksins þegar maður fær sér súpu þá hugsar maður, vá hvað þetta er gott, afhverju geri ég þetta ekki oftar.

Það er einmitt það sem ég lenti í um daginn.  Ég hafði hugsað mér að gera tómatsúpu því ég átti stóra dós af niðursoðum Roma tómötum sem var opin og þurfti að nota.  Ég var alltaf að reyna að finna eitthvað meira spennandi en tómatsúpu til að nýta þessa tómata í.  En það var eitthvað sem togaði í mig að gera tómatsúpu.

Og á á endanum fór ég á netið og fann hinar og þessar uppskriftir, tók út það sem mér fannst hljóma vel og setti saman þessa uppskrift miðað við það sem til var og það sem ég hafði lesið mig til um.

Ein af þeim uppskriftum sem ég datt niður á var tómatsúpa sem innihélt ofnbakaðar paprikur.  Það err lykilatriðið í þessari ótrúlega góðu og einföldu uppskrift.

Tómatsúpa

  • 1 stór dós tómatar í dós, eða tvær litlar.  Mér finnst tómatar í dós frá Eden mjög góðir
  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 paprika
  • Rjómi, ætli ég hafi ekki notað um 2-3 dl
  • Ólífuolía
  • Salt
  • Pipar

Skerið papriku í tvennt, setjið hana í eldfast mót með skurðinn niður og skinnið upp og dreypið yfir hana ólífuolíu og salti og pipar.  Bakið í ofni við 220°c í hálftíma, síðustu 3- 4 mínúturnar setti ég ofninn á grill til að fá vel svart hýðið, en fylgist vel með þeim því þær brenna fljótt á grilli.

paprikur

Setjið paprikur í skál og plast yfir og látið standa.  Þetta er gert til að hýðið losni auðveldlega af. Fjarlægið brennt hýðið af paprikunum.

Svitið lauk og hvítlauk sem hefur verið skorinn í bita. Bætið við tómötum og papriku og látið malla í korter eða svo.  Setjið þetta í matvinnsluvél og maukið vel.  Setjið tómatsúpuna aftur í pottinn og bætið við rjómanum, bara eftir smekk, og hitið upp.

Svo er annað, sem að gerir þessa súpu enn meira spennandi og það croutons.  Ég hafði súpuna milda og einfalda að ásettu ráði því ég ætlaði að krydda hana upp með croutons.

croutons

Croutons

  • Brauð sem er dagsgamalt eða meira, baguette eða eitthvað gott brauð
  • Ítalsk pastakrydd eða einhverskonar blanda af t.d rósmarín, oregano og basil
  • Salt
  • Ferskur svartur pipar
  • Olía, 3-4 msk

Skerið brauðið í smáa ferninga.  Ég notaði brauð sem ég bakaði sjálf úr heimagerðu pizzadeigi.

Steikið þá upp úr ólífu olíu með góðu kryddi.

Berið fram með súpunni.

Til að fá enn meira bragð þá mætti rífa ferskan parmasen ost yfir súpudiskinn.

Enn er eldað með Jamie Oliver – Vitið þið hvað börnin hans heita?

Ég vissi ekki að Jamie Oliver á 4 börn, síðast þegar ég vissi voru þau tvö, en svona líður tíminn.  En hann er ansi frumlegur í nafnavali.  Ég veit ekki hvað mannanafnanefndin hér á Íslandi myndi segja við þessu…

Elsta barnið heitir Poppy Honey, og svo eru það Daisy Boo,  Petal Blossomog Buddy Bear.

Það byrjaði vel, að elda upp úr Kokkur án klæða með Jamie Oliver. Hörpudiskurinn smakkaðist mjög vel, virkilega vel heppnuð uppskrift.  Ég ætla ekki að elda allt  upp úr bókinni.  Aðallega af því að mig langar að njóta matargerðarinnar en ekki gera þetta að kvöð.

Það sem vefst fyrir mér núna er í hvaða röð ég eigi að elda uppskriftirnar.  Ég mun eflaust vaða úr einum kafla í annan og ef  ég á ákveðið hráefni sem ég vil eða þarf að nota þá fer ég í atriðaskrá til að finna uppskriftir sem innihalda það hráefni .

Ef ég er í stuði þá nefni ég einhverja tölu og elda uppskriftina sem er á þeirri blaðsíðu eða læt kærastann velja einhverja uppskrift eftir geðþótta eða handahófi.

Bara hvað sem hentar hverju sinni þar til allar uppskriftir hafa verið eldaðar.

blaðlaukssúpa

Að þessu sinni varð Kjúklingabaunasúpa með blaðlauk fyrir valinu.  Því ég átti bæði kjúklingabaunir og blaðlauk. (Ég miða hér miðað við 3 og breytti magni lítillega).

Þessi uppskrift var bæði bragðgóð og “easy peasy” eins og Jamie myndi segja.

  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 4 meðalstórar soðnar skrællaðar kartöflur
  • 1 stór blaðlaukur
  • 1 msk ólífuolía
  • Smjörklípa
  • 2 hvítlauksrif
  • Salt og pipar
  • 1/2 L kjúklinga eða grænmetissoð (ég notaði einhvern organic grænmetistening)
  • Rifinn parmasenostur
  • Extra virgin ólífuolía

blaðlaukur

Fjarlægið ystu blöðin á blaðlauknum, skerið hann langsum og saxið smátt.

Hitið pönnu eða pott með msk af ólífuolíu og smá smjöri.  Steikið lauk og hvítlauk sem þið saltið við vægan hita.

Látið renna af baununum, skolið þær aðeins undir köldu vatni.  Bætið þeim við laukinn ásamt soðnum kartöflum og steikið í um 1 mín.

Bætið við 1/3 af soðinu og látið malla í 15 mín.

Maukið svo helminginn af súpunni (eða alla súpuna eða bara alls ekki..fer eftir því hvernig þið viljið hafa áferðina.  Það var mælt með að mauka helming, svo að þið fáið bæði “smooth” áferð og “chunky” sem var mjög gott.

Bætið því sem þið maukuðuð aftur út í pottinn og restinni af soðinu og hitið upp.

Kryddið eftir smekk með salti, pipar og parmasenosti.  Hellið smá extra virgin ólífuolíu út í súpuna eftir að hún er komin í skálina hjá ykkur ásamt aðeins meir af rifnum parmasenosti ef þið viljið.

Með þessu bar ég fram auðvelda brauðið sem ég gerði einnig með hörpudisknum.

Haustlitirnir eru fallegir.  Það er ákveðin stemning sem fylgir haustinu, svona kósí time…

haust

Pho

Þessi stórskemmtilega súpa er ættuð frá Vietnam og kallast Pho.  Ef ykkur vantar hugmynd fyrir næsta matarboð þá mæli ég alveg með þessari súpu.

pho

Pho er núðlusúpa, gerð úr uxahalasoði.  Þunnt skorið kjötið er svo sett út í
súpuna þegar hún er komin á borðið og eldast þar í heitu soðinu.
Ef þið viljið vita meir um Pho þá er hægt að lesa ítarlega um þessa súpu á wikipedia.
Lykilatriðið er að vera með ferskt kóriander, hrísgrjónanúðlur og gott nautakjöt.

pho

pho

Ég byrjaði á soðinu:

  • 1 uxahali
  • 4 anis stjörnur
  • 1 kanelstöng
  • 1 msk fennelfræ
  • 6 negulnaglar
  • Nokkur kóríander fræ (1 -2 tsk)

uxahali
Ég byrjaði á að sjóða uxahala í 4 tíma eða svo ásamt fersku engifer, 4 anis stjörnur
1 kanelstöng, 1 msk fennelfræ, 6 negulnaglar og nokkru kóríanderfræ.
Fleytti af fitu og sigtaði svo soðið.

Þetta er svo meðlætið sem þið hafið á borðinu og látið matargesti um að setja sjálfir meðlætið í sinn súpdisk.

  • 1 poki af hrísgrjónanúðlum
  • Nautakjöt, skorið þunnt.  Ég notaði klumpsteik. sirloin myndi virka vel.
  • 2 lime, skorið í báta
  • 2 chili piprar
  • 2 lúkur af baunaspírum
  • Vorlaukur, skorinn í strimla
  • Ferskt kóríander
  • Scriracha sósa

Sjóðið núðlur
Skerið nautið mjög þunnt (svipað og carpacio)
Skerið lime í báta
Saxið niður kóríander
Skerið chili mjög smátt
Skerið vorlauk í strimla
Setjið nautakjöt á bakka, ásamt lime bátum, kóríander, baunum og chili.

sriracha sósa

Hafið Scriracha sósu á borðinu.

pho
Setjið núðlur í skál og hellið heitu soði yfir.  Berið strax fram og bjóðið gestum að setja sitt eigið kjöt og meðlæti í súpuna.
Þar sem hráa kjötið eldast í súpunni er mikilvægt að bera hana fram mjög heita.

Glettilega góð fiskisúpa

Mér finnst fiskur rosalega góður og hægt að elda hann á svo marga vegu en samt dett ég of oft í nautahakks pakkann og eitthvað allt annað en fisk.

Veit ekki hvað það er, hann er kannski ekki nógu djúsí, svona þegar maður er svangur að versla í matinn….sem maður á víst ekki að gera, að fara svangur að versla.

En undanfarið hef ég borðað mjög mikið af fiski og í gær gerði fiskisúpu úr því sem til var.  Ég var að glugga í bókina Betri kostur – fiskréttir og þar er uppskrift af fiskisúpu. Ég ákvað að styðjast við þá uppskrift.

Svona varð mín útgáfa

fiskisúpa

Glettilega góð fiskisúpa

  • 1/2 kg ýsa
  • Smá lax (átti um 2-300 g)
  • Rækjur, um 1 dl
  • Laukur eftir smekk
  • Hvítlaukur eftir smekk
  • 2-3 saxaðir tómatar
  • Tómatsósa í dós eða tómat paste
  • Kartöflur, ég notaði um 5 stk
  • 1 tsk cumin
  • Lúka af grænum baunum
  • 1 tsk fiskikrydd frá Prima, rann út fyrir 3 árum..
  • Safi úr 1/2 sítrónu, mætti líka rífa smá af berkinum út í
  • 2-3 msk matarolía
  • Lúka af steinselju
  • Smá ferskur parmasen ostur

Svitið lauk og hvítlauk í olíunni.

Bætið við kartöflum, vatni, salti og pipar, sjóðið í 10 mín.

Bætið við tómötum, tómatsósu eða tómatpaste, cumin, smá sítrónu, grænum baunum og fiskinum sem þið notið og rækjum.  Sjóðið í 10 mín. Bætið við steinselju og parmasen osti.

Berið fram með góðu baguette og glasi af shiraz.  Hafið smá steinselju á borðinu og parmasen ost

til að rífa út í súpuskálina.

fiskisúpa

NB: Ef þið eigið einhver góð fiskikrydd endilega prófið þau í þessa súpu.  Grænu baunirnar (sem ég átti í frysti) voru súper góðar í þessa súpu.

Súpa með Cannellini baunum og grillaðri papriku

Ég gerði mjög milda en góða súpu, hún var ætluð barni þannig að ég hafði hana einfalda.  Það má svo dansa í kringum þessa súpu og krydda að vild.  Ég var með smá ferska basil sem fór vel með.

súpa

Súpa með Cannellini baunum og grillaðri papriku

  • 1 dós canelli baunir
  • 2 paprikur, settar í ofn á grill þar til skinnið brennur
  • 2 shallot laukar
  • 1 hvítlauksrif
  • Salt og pipar
  • Fersk basil
  • Smá rjómi til að bæta á þegar súpan er borin fram
  • Olía

Saxið lauk og svitið hann ásamt hvítlauk.  Bætið við paprikunni og baunum, salti og pipar.  Ég lét þetta malla í nokkrar mínútur áður en ég bætti við um hálfum líter af vatni.  Sauð þetta saman og setti svo í blender, maukaði það vel og aftur í pott.  Þá er þetta komið.  Setti súpu á disk og bar fram með smá rjóma (mætti þeyta hann lauslega, en ekki nauðsynlegt) og feskri basil.

Þetta var mjög gott, ég ætla að halda áfram að þróa þessa.  Það mætti t.d bæta við sætum kartöflum eða öðrum baunategundum, tómötum og svo væri hægt að krydda hana með ferskum kryddjurtum að eigin smekk.

Ætifíflasúpa

Ætifífill er það sem kallast á ensku Jerusalem artichoke og á dönsku er það jordskokker.  Ekki sérlega fallegir en mjög bragðgóðir.

Hef búið til súpu úr þeim sem var rosalega góð.

Ætifíflasúpa

  • 300 g ætifíflar (skornir í bita)
  • 200 g kartöflur (skornar í bita)
  • 2 laukar
  • Ólífuolía
  • Smá smjör
  • 1 dl möndlur
  • 1 1/2 L grænmetiskraftur
  • Smá  rjómi
  • Smá hvítlaukur
  • Salt
  • Pipar

Steikið lauk, kartöflur og ætifífla í olíu. Bætið við grænmetiskrafti og vatni, látið sjóða, bætið við rjóma og smjöri eftir smekk.  Þegar þetta er tilbúið maukið þetta í blender.  Berið fram með smá sýrðum rjóma og möndlum.  (Ég á sjaldnast möndlur og sleppi þeim þá bara)

Svo má breyta þessari uppskrift eins og manni dettur í hug, nota kjúklingakraft, krydda hana til , nota t.d steinselju eða sellerí osfv osfv…

 

Ég á reyndar ekki mynd af ætifíflum, bara rófum….

www.soffia.net