Blómkáls-gratín

Það var til blómkál svo ég ákvað að henda í blómkáls-gratín sem meðlæti en það eiginlega endaði á að vera aðalrétturinn, það varð svooo gott. Bakaraofninn okkar bilaði í apríl 2023 og ég er ekki enn búin að skipta honum út. Ég keypti airfryer og nota hann sjúklega mikið og Instant Pot. Svo fjárfestum við í almenninlegum pizzaofni til að hafa inni. Hann hitnar upp í 500 og pizzan er tilbúin á innan við mínútu. Mæli svooo með! Ég fékk mér þennan: https://napoli.is/product/effe-n3-rafmagnsofn/

Blómkáls-gratín og að sjálfsögðu í Air-fryer og Instant Pot. 

  • 1 blómkálshaus
  • 2 dl rjómi
  • 2msk rjómaostur
  • 1 tsk salt
  • 1 msk Brauðstangakrydd (Kryddhúsið)
  • Emmental ostur

Ég byrjaði á að setja blómkálið sem ég tók aðeins í sundur á grindina og í Instant Pot með 4 dl af vatni. Setti á pressure Cook og stillti á 1. mín (svo natural release eða opna sjálfur…FARA VARLEGA! ) Hér er einning hægt að nota pott og hellu og mýkja blómkálið þar.

Í potti bræddi ég ca 2 dl rjóma, 2 msk rjómaost og kryddaði með 1 tsk salt og 1 msk Brauðstangakrydd frá Kryddhúsinu. Blómkálið setti ég í eldfast mót og helti rjómablöndunni yfir og reif niður heilan helling af Emmental osti og stráði yfir. Emmental osturinn er stjarnan í þessum rétti og því meira af honum, því betra! Þetta fór inn í Air fryer í 10 mín eða þar til ykkur finnst osturinn hæfilega gullinn að lit. Einnig hægt að setja í ofn á 200°c þar til osturinn er gullin og fylgjast vel með.

Það er um að gera að nýta sína uppáhalds osta í þennan rétt.


MEÐ FYRIRVARA:  
Ég er algjör slumpari þegar kemur að eldamennsku, þannig að mælieiningar hjá mér eru ekki sérlega nákvæmar, en nærri lagi.  Með æfingunni finnur maður sinn takt í eldamennsku.  

Uppskriftirnar hér eru hugsaðar sem hugmyndir að samsetningu frekar en hárnákvæmum lýsingum á innihaldi og aðferð.  Þær eru svo settar hér á internetið fyrir sjálfa mig til að muna eftir uppskriftum sem mér þykja góðar, fyrir vini og vandamenn og alla aðra sem ramba inn á þessa síðu.