Húsið við sjóinn

Foodwaves

Category: Nautahakk

Meistarakokkurinn Hrefna Sætran í eldhúsinu hjá mér

Haldiði ekki að ljúflingurinn og meistarakokkurinn Hrefna Sætran hafi komið í heimsókn.  En því miður var það ekki hún sem eldaði fyrir mig heldur ég fyrir hana.

Hún er með frábæra matreiðsluþætti á Skjá Einum og hún fékk mig til að elda fyrir sig dýrindis Lahmacun, tyrkneska pizzu.

Uppskriftina má nálgast hér.

Ef þið eruð með Skjá Einn þá getið þið séð þáttinn á vefsíðu stöðvarinnar, þetta var þriðji þáttur í sjöundu seríu.

hakk

EF þið ætlið að skella í pizzu um helgina prófið þá þessa.  Finnið ykkur gott lambakjöt og hakkið það sjálf eða fáið þá í kjötborðinu til að gera það fyrir ykkur, er ekki annars svoleiðis þjónusta einhverstaðar í boði hér á Íslandi?

Svo er hægt að fylgjast með Hrefnu á Facebook, Matarklúbburinn með Hrefnu Sætran.

GÓÐA HELGI!

Empañadas

Empañadas er mjög vinsælt í Suður Ameríku.  Þar eru þeir með ýmsar fyllingar, meðal annars kartöflur, nautahakk, ost, grænmeti, ávexti og fleira.

Harðsoðið egg er líka mjög algengt í fyllinguna.

Ég ákvað að setja hálfgert chile con carne í mínar Empañadas, guggnaði á að setja harðsoðna eggið, prófa það síðar.

Á Wikipedia er góður fróðleikur um Empañadas.

Empañadas með nautahakki

Deig

  • 4 bollar hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk salt
  • 1/2 bolli smjör, skorið í litla bita
  • 1 bolli kalt vatn
  • 1 egg, hrært með msk af vatni

Blandið öllu saman nema egginu.  Hrærið vel í hrærivel. Rúllið deiginu út í litlar þunnar kökur, ca 10-12 cm í þvermál.

Hrærið eggið með vatni rétt áður en þið setjið Empañadas í ofninn, því þá penslið þið þau með egginu.

Fyllingin

  • Nautahakk (ca 700 g)
  • Vorlaukur
  • Hvítlaukur, smátt skorin
  • Paprika, smátt skorin
  • Salt og pipar
  • 1 dós Chili beans frá Eden
  • Ferskt kóríander

Steikið hakk, papriku og lauk á pönnu, bætið við baunum og kryddi.  Setjið 1-2 msk af hakki á hverja köku. Lokið henni og klemmið endanum saman með gaffli.

Hlutföll af grænmeti og kryddi er barasta eftir smekk.  1 paprika og 1 lítill laukur t.d.

Bakið í ofni við 200°c í korter eða þar til þær eru gullinbrúnar.

Stromboli, alveg jafn gott og það er gaman að segja stromboli

Stromboli er pizzadeig, flatt út ferkantað og fyllt með kjöti og osti og svo er því rúllað upp og bakað í ofni.  Það er engin sósa inn í rúllunni heldur er hún borin fram með þessu í skál “on the side”  Rúllan er skorin í sneiðar og sneiðinni svo dýft í sósuna.

Það á engin gestur eftir að vera svikinn af Stromboli…nema hann sé grænmetisæta 😛

Það sem mér finnst best við mitt stromboli er 5 kornablandan sem ég strái ofan á rúlluna. Hér kemur hugmynd að Stromboli eins og ég gerði það síðast og það smakkaðist rosalega vel.

stromboli

Stromboli

  • Pizzadeig
  • Grænpipars-salami (fæst í ostabúðinni) eða annað gott pepperoni
  • Steikt nautahakk (steikt með hvítlauk, smátt skornum lauk og pizzakryddi)
  • Skinka
  • Ferskur mossarella
  • Einhver góður brauðostur
  • Brie

Álegginu er raðað á pizzadeigið eins og sýnt er á myndinni hér fyrir neðan.

stromboli

Svo er því rúllað upp, skerið rendur í rúlluna og penslið hana með eggjahvítu.  Ef þið viljið stráið þá smá fimmkornablöndu eða sesamfræjum ofan á rúlluna.

stromboli

Bakið í ofni við 200°c þar til það er fullbakað, um 20 mínútur.

stromboli

 stromboli

Sósan:

  • Hakkaðir tómatar í dós eða tómatsósa í dós
  • Laukur
  • Hvítlaukur
  • Oregano
  • Salt og pipar
  • Smá sýróp
  • pínku balsamik edik

Laukur og hvítlaukur svitaður í olíu. Restin sett í pottinn. Allt soðið saman.

Samloka samlokanna

Hér er lítil myndasaga af ótrúlega góðri samloku. Þetta er ein af þessum samlokum sem ég hef gert öðru hvoru í háa herrrans tíð en þetta var í fyrsta sinn sem ég gerði nokkurs konar ciabatta brauð sjálf, og það átti vel við innihald lokunnar.

Hér er sagan á bak við þessa samloku og uppskrift af nautahakki og sósunni:Focaccia samloka með nautahakki

Bakið Ciabatta eða annað gott brauð.

ciabatta

Skerið það til helminga eins og hér er sýnt.

ciabatta

Leggið þau með skurðinn upp.

ciabatta

 Setjið á þau steikt nautahakk, sinnepssósu og ost.

ciabatta

Leggið þau saman, með skurðinn að utanverðu.

ciabatta

Ef ykkur finnst jalapeno eða chile gott, þá mæli ég með svoleiðis, ferskum eða niðursoðnum.

ciabatta með nautahakki

 Grillið á panini grilli þar til osturinn bráðnar.  Ef þið eigið ekki panini grill þá má skella þessu í ofninn

ciabatta með nautahakki

ciabatta með nautahakki

Berið fram með rauðvíni, hvítvíni eða ísköldum bjór.

ciabatta

Ciabatta brauð er ekki ósvipað pizzadegi en maður þarf að búa til starter, og svo hnoða það vel og vandlega en hafa deigið samt fremur blautt.

Ef þið nennið ekki að dudda of við þetta þá mæli ég með því að:

1. Þið gerið nákvæmlega eins og þegar þið eruð að gera pizzu.

2. Látið deig hefast í klst og skellið því svo á smjörpappír á bökunarplötu án þess að eiga of mikið við það, nema til þess að bæta við smá fræjum, t.d þriggjakorna blöndu eða sesame fræjum ef þið viljið. Ég mæli sko með því!

3. Mótið úr deiginu brauð sem er í laginu eins og ciabatta brauð ( þ.e eins og inniskór, en ciabatta þýðir inniskór (slipper) þar sem brauðið þykir í laginu eins og inniskór). 

4. Bakið í ofni í ca 20 mín við 200°c.

Hér er linkur á uppskrift og video um það hvernig gera má Ciabatta.

Mexíkósk maíssnitta

Vinkona mín sagði um daginn: ” Afhverju eru íslendingar alltaf að bíða eftir sumrinu?” Ég er ein af þessum sem er alltaf að bíða eftir sumrinu og ALLTAF jafn hissa að sjá hagl í júní, ár eftir ár.

En þetta árið, nú er ég hætt að bíða eftir sumrinu, jah, eða frekar hætt að bíða eftir vorinu og undra mig ekkert á því að hafa séð eitthvað sem líkist snjókornum út um gluggann rétt áðan og hafi lent í brjáluðu hagli í gær.
Fyrir utan það að það er að nálgast miður júní og ég er ekki enn búin að setja niður kartöflur.

En á meðan kalt er í veðri iljar maður sér bara í eldhúsinu.

Nágrannarnir færðu mér sneið af ótrúlega góðri og hollri köku. Og fyrst þeir færðu okkur köku þá hljóp ég yfir síðar þann daginn með maís tortillu  því hún var svo rosalega góð.
tortilla
 

Chile con carne á “homemade” maís tortillu með sýrðri sósu og spínati, öðru nafni:

Ekki gleyma “zestinu”

Byrjið á að búa til tortillu, helst með maís hveiti, sem ég hef því miður ekki séð hér heima. Þannig að hveiti virkar í staðinn fyrir maís hveitið.

Tortillur úr maís hveiti

  • Maíshveiti
  • vatn
  • salt

Blandið saman hráefnum og hnoðið þar til degið helst saman, mótið úr því litlar kúlur á við golfbolta, fletjið kúlurnar út með því að setja þær á milli tveggja smjörpappírsblaða og þrýsta ofan á þær með t.d litlu skurðbretti.  Steikið upp úr olíu á pönnu á báðum hliðum.

Þetta er ekki mjög nákvæm uppskrift en ég set yfirleitt bara það magn af hveiti sem ég ætla að nota í skál með salti og bæti við vatni þar til þetta er orðið að deigi sem ég er ánægð með.

Búið til gott Chile con carne eða sin (con þýðir með en sin þýðir án, s.s chile með kjöti eða chile án kjöts sem er líka gott, hafa þá bara góðar baunir.

sýrður

Sýrður með zesti

    • Sýrður rjómi
    • Nokkrar sneiðar af niðursoðnum jalapeno
    • Svartar ólífur, sneiddar
    • Lime, safi og rifinn börkur
    • Salt

Setjið nokkrar msk af sýrðum rjóma í skál.  Bætið við fínt söxuðum jalapeno sneiðum, ólífum, salti
lime safa og rífið með fínu rifjárni börk af lime og blandið við.

Leggið spínat blöð ofan á tortilla kökuna, setjið skeið af chile con carne og ofan á það skeið af sýrða rjómanum.  Skreytið með graslauk.

Kanadískt og japanskt fjúsíon = KanPan

Ég var hálf andlaus í eldhúsinu og gat ekki tekið ákvörðun um hvað mig langaði að elda.
Það var til spínat og nautahakk, það voru svona hráefni sem ég ætlaði að nota.
Ég bað kærastann um að nefna tvö lönd og svo myndi ég elda eitthvað út frá því í anda þessara tveggja landa og “fjúsíona” þeim saman í einn rétt.

Ég hélt að það myndi auðvelda mér lífið og var eiginlega búin að sjá fyrir mér að hann segði Ítalía og Grikkland eða eitthvað álíka.  En nei, hann valdi Kanada og Japan.

Þetta var ekki beint að auðvelda mér matreiðsluna, en þetta var skemmtileg áskorun og hugurinn fór á flug.

Í fyrsta lagi, KANADA, hver í ósköpunum er samnefnari kanadískrar eldamennsku.
Reynslan sem ég hef er pöbbamatur, allt djúpsteikt, hamborgarar, beef dip samlokur sem er roastbeef samloka sem þú dýfir í einhverskonar soð.
Ég ætla að tileinka annarri færslu þeirri uppskrift fljótlega, það er alveg komin tími á Beef dip!
En ég er að miða við því sem ég kynntist þegar ég bjó í litlum indíána og kúreka bæ sem heitir Kamloops. Það eru allt aðrir straumar í t.d Vancouver og ég tala nú ekki um ef þú ferð til Halifax, Kanada er stórt land með mikið af fólki, og íbúarnir eiga ættir sínar að rekja til ýmissa landa, til dæmis víða frá Asíu, Úkraínu og Rússlandi, Íslandi auðvitað, Bretlandi og svo mætti lengi telja.

Maple sýróp er stór útflutningsvara Kanada.  Ég lumaði á flösku og það var ekki spurning að ég ætlaði að nota það í þennan rétt.

Svo má ekki gleyma indíánum, þeim sem hafa búið þarna hvað lengst. Þeirra matarmenning er áhugaverð. En ég ákvað að fara ekki út á þá stefnu að þessu sinni. Heldur tók ég pöbbamatinn á þetta með Vancouver yfirbragði.

JAPAN.  Fyrsta sem mörgum dettur i hug er sushi. Það var það sem ég hugsaði. Ég leit í hillur og skápa og skoðaði hvaða hráefni ég ætti sem tengdust japanskri matargerð.
Ég fann sesame fræ, engifer og soya sósu.

Og án þess að ofhugsa dæmið þá dembdi ég mér í matargerð

KanPan
KanPan ( 4 snittur)

100 g nautahakk
1-2 rif hvítlaukur
1-2 cm bútur engifer
1-2 tsk Soya sósa
Lúka af sesamfræjum
Baguette, 4 sneiðar (ég notaði ítalskt ólífu baguette frá Mosfellsbakarí)
Salt
Pipar
Spínat, 4 lauf
3-4 msk rifinn ostur (ég notaði brauðost því ekkert annað var til)

Sósan
Sýrður rjómi, 2 msk
Maple sýróp, 1 msk
Salt, ca 1-2 tsk

Blandið saman í skál nautahakki, sesamfræjum, soyasósu, rifnum hvítlauk og rifnum engifer.  Ég notaði grófari hliðina á rifjárninu til að rífa hvítlaukinn og engifer.
Saltið og piprið.  Mótið úr þessu 4 litla hamborgara, í stærð sem passar ofan á snittubrauð.

Steikið hamborgarana upp úr smá olíu.

Sósan:  Blandið saman sýrðum, sýrópi og salti, hrærið vel saman.

Hitið baguette sneiðarnar á pönnunni sem þið steiktuð hamborgarana. Setjið ostinn ofan á aðra hliðina
á brauðinu á meðan þið steikið hina til að hann bráðni aðeins.

Setjið spínatlauf ofan á brauðið og svo borgarann.  Dreifið úr smá sósu ofan á borgarann.  Borðið strax á meðan þetta er heitt og gott.

Mér hefði aldrei dottið í hug að setja soya í nautahakk, en það svínvirkar!  Þetta er það skemmtilega við svona áskoranir, maður prófar nýja hluti.

Sliders – hamborgarar fyrir fólk með valkvíða og heimagerð hamborgarabrauð

Ég elska hamborgara og stundum langar mig í hamborgara með sinnepi og gúrkum og á sömu stundu borgara með guacamole eða bbq með chilpote mæjónesi.

Í gær var svoleiðis dagur þannig að ég bjó til sliders, litla hamborgara.  Ég bjó til hamborgabrauðið sjálf.  Með lítilli fyrirhöfn var ég komin með 16 lítil hamborgarabrauð sem smökkuðust mjög vel, en sama deig væri líka hægt að nota í pulsubrauð.

Hver hamborgari er um 40 grömm. Ég gerði grunnhakk og tók svo til hliðar part af því og bætti við það indverskum kryddum og bar þann borgara fram með “hamborgara-raitu”

Nokkra penslaði ég með bbq sósu og nokkrir voru þurrkryddaðir.

hamborgarabrauð

hamborgarabrauð

Hamborgarabrauð

  • 1 1/4 bolli mjólk
  • 6 msk Palmin
  • 3 bollar hveiti
  • 1/4 bolli sykur
  • 2 1/4 tsk þurrger
  • 1 msk salt

1 bolli = 2,4 dl

Hitið mjólkina, bætið Palmin út í svo það bráðnar.

Skellið öllu í hrærivél með krókinn á. Hrærið þar til deigið er farið að verða mjúkt og klísturslaus.  Um það bil 4 mínútur á meðalhraða.

Látið hefast undir rökum klút í klst.  Mótið 16 bollur úr deiginu, raðið á bökunarplötu og leyfið hefast aftur undir rökum klút í ca hálftíma.  Bakið í um 20 – 30 mín við 200 °c.

Ég penslaði sum brauðin í lokin með eggjahvítu og stráði sesam fræjum yfir  10 mín áður en ég tók þau út.

Nautahakk

  • Krydd eftir smekk

Mótið litla hamborgara og steikið.

Ég notaði shalottlauk, chilpotle krydd, salt, pipar, hvítlauk, byggflögur og egg.

hamborgari

Svo gerði ég bbq sósu í potti: Smjör, hvítlaukur, shalottlauk, púðursykur, tómatsósa, tómatar í dós, ananassafi, chilpotle krydd, salt og pipar, rauðvín og chilpotle pipar í adobo sósu.

hamborgari

Hamborgararaitan var ab mjólk, rauðlaukur, tómatar, paprika og agúrka, allt smátt skorið og blandað við ab mjólkina, kryddað með tikka masala kryddi og hvítlauk.

hamborgari

Svo gerði ég chilpotle sósu, skar hálfan chilpotle og hrærði við sýrðan rjóma.  Ef þið eruð erlendis þá mæli ég með að þið kíkjið eftir dós af chilpotle í adobo sósu, frábærlega gott!

Páskadagur, óvenjuleg eldamennska

Glaða sól, brjálað rok, haglél. Þetta veður þennan dag sem þetta var skrifað var með eindæmum. Það blæs og hvín og hafa fjölskyldumeðlimir sofið værum lúr í allan dag, enda svæfandi að heyra hvernig vindurinn leikur um húsið. Svona á þetta að vera í sveitinni.

Og á meðan laufin sváfu lá ég, spaðinn,  í matreiðslubókum og skrifum, og henti í einn rétt sem ég beið spennt eftir að geta klárað þegar fólkið mitt vaknaði.  (Hér var ég að vitna í snilldar frasa úr gömlu áramótarskaupi, á meðan laufin sofa liggja spaðarnir andvaka…)

Og svo fór að ganga á byrgðir. Engin ostur til né hvítlaukur og það er það sem ég helst tók eftir að mig langaði að grípa í.

hakk

Þetta er ekki kokteilsósa

Ég var með hrísgrjónapappír sem mig langaði að steikja en var ekki með nákvæma hugmynd um fyllingu, svona miðað við það sem til var, steikt nautahakk, paprika, agúrka… eitthvað svoleiðis… og svo var til svakalega góð sterk chili sósa.

Úr varð að ég tók steikta nautahakkið, setti það í pott með smjöri, myntu, fersku rifnu engifer og sveppum. Ég leyfði þessu malla við vægan hita í smá stund.

Þá tók ég hrísgrjónablöðin, bleytti þau, lét þau standa í eina mínútu á viskastykki og setti nautahakksfyllinguna á þau og rúllaði þeim upp svipað og vorrúllur.

Ég steikti rúllurnar í örfáar mínútur í olíu á pönnu.

Með þeim bar ég fram sýrðan rjóma sem ég hafði hrært við Sriracha chili sósu. Ég held að það sé hægt að fá hana þessa í austurlensku búðunum. Sósan leit út eins og kokteilsósa þegar ég hrærði chili sósunni saman við sýrða rjómann, og þegar kærastinn sá réttinn sagði hann, NEI! Kokteilsósa. Þannig að rétturinn ber nafnið “Þetta er ekki kokteilsósa”.

Svo skar ég niður agúrku og kreisti yfir hana lime, smátt skorna myntu og salt.

Og hvernig smakkaðist þetta svo….super duper ljómandi vel!

Hægeldaðir kirsuberjatómatar og næstum því fullkomnar ítalskar kjötbollur

Gaman að segja frá því og talandi um kjötbollur.  Eftir að ég skrifaði þessa færslu fór ég að elda kvöldmat og endaði á að gera bestu kjötbollur sem ég hef gert!  Hvorki meira né minna og það er fyndið því þessi færsla fjallar um góðar kjötbollur.  Og til að hafa þessa færslu ekki of langa þá kem ég með uppskriftina af kjötbollum kvöldsins á morgun sem er næstum því hinar fullkomnu kjötbollur.

Og þá hefst lesturinn:

Það gerir gæfumun að hægelda tómata, setja þá í ofninn á lágan hita í nokkra klukkutíma.

Það er rosalega gott með kjötbollum. Ég er alltaf að leita að hinum fullkomnu ítölsku kjötbollum. Ég hef ekki enn fundið þær og enn hefur mér ekki tekist að búa þær til sjálf.

Ég datt niður á rosalega heimilislegan ítalskan stað í New York, þetta var eins og að vera komin í eldhúsið hjá ama de la casa, ítölsku ömmu gömlu. Maður labbaði inn langan gang þar til maður kom inn í eldhús með nokkrum stólum og borðum. Þar fékk ég mjög góðar bollur og þær voru svo mjúkar, mér finnst mínar oft verða eitthvað svo steiktar…

italian

italian

Og þetta var svona kjötbollur í sub, lungamjúku brauði.

italian

Ég bjó til kjötbollur fyrir 5 rétta matarboðið, þær voru góðar, en ekki fullkomnar. Ég held að eldunartími sé stórt atriði í að fá þær mjúkar og góðar. Eins hef ég heyrt að gott sé að blanda saman kjöti, ég prófaði það, var með svínahakk, kálfalundir og nautahakk. Svo er málið að vera með góða fitu prósentu, gott krydd og bindiefni svo þær verði ekki lausar í sér.

Gamla góða uppskriftin með ritz kexi og púrrulaukssúpu er klassík, en ekki alveg þessi hefðbundna ítalska eins og ég er að leita að.

Hér er uppskriftin eins og gerði fyrir boðið góða. Ég held að málið sé að steikja þær ekki um of heldur leyfa þeim að eldast í tómatsósunni.

kjötbollur

Ítalskar kjötbollur með hægelduðum kirsuberjatómötum og baguette með hvítlauksmauki

  • 150 g svínahakk
  • 100 g kálfalundir
  • 150 g nautahakk
  • 1 egg + extra eggjarauða
  • 1 dl rifinn parmasnostur
  • 1/2 dl steinselja
  • Salt
  • Pipar
  • 1 dl brauðrasp (bleytið aðeins í því)
  • Hvítlaukur

Hakkið kjötið og blandið öllu vel saman í skál, mótið úr þessu bollur, aðeins minni en golfkúlur.  Létt steikið þær við vægan hita upp úr olíu.  Klárið að elda þær í tómatsósunni…

…sem gæti hljóðað svona…

  • Tómatar í dós
  • hvítlaukur
  • Agave sýróp
  • Balsamic edik

Allt látið malla.

tómatar

Hægeldaðir tómatar

  • Tómatar (ég notaði kirsuberjatómata)
  • Salt
  • Pipar
  • Hvítlaukur
  • Ólífuolía

Skerið tómatana til helminga, raðið þeim á bökunarplötu á bökunarpappír.  Dreypið yfir ólífuolíu, saltið og piprið.  Skellið nokkrum hvítlaukum með í ofninn, án þess að taka þá úr hýðinu.

Eldið í 120°heitum ofni í 3 klst.

tómatar

Hvítlaukinn tók ég síðan úr hýðinu og maukaði og smurði það á baguette.

Svo þegar þið eruð búin að elda tómatana þá mætti bræða saman í potti ólífuolíu og sykur og pensla tómatana með því.

Sykurgljái

  • 1 msk sykur
  • 4 msk ólífuolía
  • krydd, t.d 4 msk ferskt oregano

Bræðið sykur í ólífuolíu í potti, bætið við kryddi.  Penslið tómata með blöndunni.

Chile con carne

Ég keypti nokkrar mismunandi dósir af chilli beans um daginn og opnaði þær allar til að finna út hver þeir væri best.  Mér fannst Chili beans, red chili –  Jalapenos frá Eden lang best!

chilli beans

Ég hef nú áður bloggað um chile con carne en hér kemur einföld útgáfa þar sem ég nota chili beans frá Eden

Chile con carne

  • 500 g nautahakk
  • 1/2 – 1 laukur
  • Hálf askja sveppir
  • Ferskur chili, eftir smekk
  • Nokkur hvítlauksrif, eftir smekk
  • Nautakraftur og vatn, 1/2 L eða svo
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 1 lítil dós tómatpure
  • 1 dós chili beans frá Eden (eða einhverjar nýrnabaunir)
  • Salt
  • Pipar
  • Oregano
  • Smjör, 2-3 msk

Steikið sveppi, lauk og hakk upp úr smjöri með hvítlauk og smátt skornum chili. Bætið öllu hinu út í og látið malla vel og lengi.

Það er bara um að gera að smakka sig áfram þegar maður býr til chili con carne. Það má svo bragðbæta með t.d  hvítvíni, bjór, steiktu beikoni eða einhverjum góðum kryddum …

Borið fram með sýrðum rjóma, hrísgrjónum, tortillakökum eða nachos-i.