Húsið við sjóinn

Foodwaves

Category: Kjúklingur

Jóladagatal Soffíu – 4 dagar til jóla

Jóladagatal…4

Ef maður mylur brjóstsykur og setur hann inn í ofn þá bráðnar hann og verður eins og litað gler.  Það kemur mjög vel út sem skraut í smákökum.  Ég fann flotta mynd á netinu, ein hugmynd hvernig nýta má þessa aðferð.

smákökur

Kínverski cashew kjúklingurinn sem ég var með um daginn í kínverska boðinu var mjög góður og hér er uppskriftin að honum.

Kínverskur cashew kjúklingur

Kínverskur Cashew kjúklingur

 • Kjúklingabringur
 • Vorlaukur
 • Paprika
 • 1 poki cashew hnetur
 • 1 msk  Soya sósa
 • 1 msk hvítlaukur, rifinn
 • 1 msk ferskt engifer, rifið
 • 1 rauður chile (eða magn fer eftir styrkleika hans)
 • 2-3 msk sesamfræ
 • 3 tsk sykur (eða hunang)
 • 3 tsk soya sósa
 • 1 eggjahvíta
 • Smá hveiti
 • Salt og pipar

Hrærið eggjahvítu með gaffli þar til hún byrjar að freyða, tekur enga stund.  Bætið við soya sósu og hrærið henni við.

Skerið grænmeti og rífið hvítlauk og engifer

Skerið kjúklinginn í bita og veltið þeim upp úr eggjahvítunni og svo upp úr smá hveiti. Saltið og piprið. Steikið á pönnu.

Bætið við grænmeti, hvítlauk og engifer.  Og að lokum hrærið saman soya sósu og sykri (eða hunangi) og bætið því við á pönnuna.  Setjið cashew hneturnar út í. Látið malla í smá stund.

Setjið á fat og stráið sesamfræjum yfir.

Berið fram með hrísgrjónum.

Í kínverskum uppskriftum er gjarnan notuð kornsterkja á kjúklinginn áður en hann er steiktur.

Advertisements

Jóladagatal Soffía – 16 dagar til jóla og bbq speltvefja í hádeginu

Jóladagatal…16

Það er hellingur af sætum smákökuuppskriftum á þessari síðu.

tre

Mér finnst koma rosalega vel út að nota silfurlituðu kökuskrautskúlurnar sem jólakúlur á smákökujólatré!

snowmankaka

Og svo er sniðug hugmynd að gefa einhverjum snjókallasmáköku í pörtum sem viðkomandi setur saman sjálfur. Sem sagt, margt skemmtilegt á þessu bloggi.

Í hádeginu fékk ég mér kjúklingavefju, langaði í fersk grænmeti en samt eitthvað sem bragð var af, þar kom kjúklingur með bbq sósu sterkur inn.  Gott hráefni er lykilatriði og ferskt kóríander og avacado gerir mikið.  Ég notaði speltvefjur sem ég keypti út í búð og voru stórfínar.

kjúklingavefja

BBQ kjúklingavefja (fyrir 4)

 • 2 kjúklingabringur
 • Nokkrar msk bbq sósa
 • Salat
 • Grænmeti
 • Avacado
 • Ferskt kóríander, 1-2 lúkur
 • pínku sítrónusafi
 • Sýrður rjómi, ca hálf dós
 • mossarella
 • Speltvefur eða tortilla kökur

Skerið bringur í munnbita, veltið þeim upp úr bbq sósu.  Steikið á pönnu.

Skerið niður salat og grænmeti.  Ég notaði agúrku, papriku, tómata, salatblöð, ferskt kóríander og rauðlauk.

Maukið saman með t.d töfrasprota sýrðan rjóma og lúku af kóríander og smá sítrónusafa.  Saltið og piprið eftir smekk.

Hitið tortilla kökurnar í ofn í smá stund.  Fyllið þær með kjúklingi, grænmeti, osti og sósu.

Kjúklingabitar með cashew hnetum og indverskum kryddum

Ég á stundum kjúklingabita í frysti, leggir, læri og vængir. Margt gott hægt að gera við það.  Að þessu sinni fór ég út í indverskt þema.

Ég var ekki með uppskrift heldur nýtti það sem til var og spilaði þetta jafnóðum.  Ég átti Cashew hnetur sem mig langaði að nota.  Þannig að það var grunnurinn.

Þetta var mjöööööög mjög bragðgóður réttur.

Indverskur kjúklingaréttur

Indverskur kjúklingaréttur

 • Kjúklingabitar
 • 1 poki cashew hnetur
 • 2-3 msk ólífuolía
 • 1 dós tómatar
 • 1/2 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • Salt
 • Pipar
 • 1 -2 tsk Durban krydd
 • 3-4 msk sýrður rjómi (eða jógúrt sem ég hefði frekar notað ef það hefði verið til)
 • 3-4 msk smjör

Saltið og piprið kjúklinginn og setjið í eldfast fat.  Eldið í ofni við 200°c í klst eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.  Þetta geri ég því stundum vil ég ekki það sem lekur úr kjúklingnum í réttinn.

Allt nema kjúkling og smjör setti ég í matvinnsluvél og maukaði í sósu.  Sósuna setti ég á pönnu og hitaði hana upp, setti kjúklinginn út í og lét malla á meðan ég gerði hrísgrjón og naan.  Í lokin bætti ég við smjöri í sósuna og hrærði því saman þar til það bráðnaði.

Naan brauðið var afgangur af pizzadeigi, flatt út og steikt á pönnu.  Annað meðlæti var hrísgrjón, mangó chutney og agúrkusalat, svo er alltaf gott að hafa Raita.

Þetta er kryddið sem ég notaði, fékk það í Nóatúni einhvertíma.  Það má nota hvaða indverska krydd í þennan rétt.  Bara það sem ykkur finnst gott.

durban curry

Lífrænt smjör og afgangur af risotto og kjúklingnum

Það varð afgangur af kjúklingnum og risotto sem kom sér vel þegar við skelltum í lunch með nágrönnunum okkar á næsta bæ.  Ekki smakkaðist þetta verra svona upphitað daginn eftir, þetta var dásamlega gott.

Rífið kjúklinginn og steikið á pönnu, bætið risottoinu við kjúklinginn og hitið.  Berið fram með nýbökuðu brauði og bjóðið vinum yfir í léttan lunch.

Í Maður lifandi fæst svakalega gott smjör.  Þetta er lífrænt smjör frá bændum hér í sveitinni.

 

Eldað með Jamie – Ofnbakaður kjúklingur og risotto með pancetta og rósmarín

Í gær eldaði ég upp úr bókinni minni Kokkur án klæða.

Að þessu sinni valdi ég tvær uppskriftir, kjúkling og svo risotto sem ég taldi geta passað vel með kjúklingnum og viti menn…  Þetta var ljómandi gott.  Þetta er fullkomin máltíð á köldu vetrarkvöldi eða sem hádegismatur á stormasömum sunnudegi…til dæmis.

pancetta

Ég fjárfesti í pancetta til að nota í risottoið. Þegar ég segi fjárfesti, þá meina ég sko fjárfesti því kg kostar 4000 kr.  Þannig að ég keypti 150g.  Pancetta er kallað ítalskt beikon, söltuð og krydduð svínasíða sem er svo þurrkuð.  Mér finnst hún mjög bragðgóð, og alveg þess virði að prófa.  Ég keypti hana í kjötborðinu í Hagkaup, Kringlunni.  Það er líka hægt að nota beikon en það er aðeins önnur stemmning í því.

kjúklingur

Ofnbakaður kjúklingur eða eins og Jamie orðar það:

Minn fullkomni steikti kjúklingur (bls 120)

 • 1.5 kg kjúklingur
 • Salt og pipar
 • 3 lúkur af ferskum smátt söxuðum kryddjurtum. (Basil, steinselju og marjoram)
 • 4 msk ólífuolía
 • 1 sítróna, skorin til helminga
 • 4 lárviðarlauf
 • 2 greinar af fersku rósmarín

(Það var ekki til marjoram þannig að ég sleppti því væri jafnvel hægt að nota ferskt oregano.  Svo er ég með fordóma fyrir lárviðarlaufi þannig að ég sleppti því).

Hitið ofn og ofnskúffu í 225°c.

Skolið kjúkling og þerrið með eldhúspappír.

Nuddið kviðarhol með salti.

kjúklingur

Losið húðina við endann á bringunni frá kjötinu, gerið samt bara smá gat og troðið kryddjurtunum þar inn ásamt smá salti og olíu.

Setjið sítrónu og rósmarín í kviðarholið.  Hér er hægt að binda kjúklinginn svo hann haldist betur saman.  (ég gerði það reyndar ekki því ég var ekki með neitt band).

Skerið 3 skurði í sitthvort lærið og nuddið kryddjurtum þar inn í skurðina.

Nuddið húðina með ólífuolíu, salti og pipar.

Leggið kjúkling í ofnskúffu með bringuna niður í 5 mín, snúið svo á hina hliðina með bringu niður og bakið í 5 mín.

Setjið svo kjúkling á afturendann og eldið í klst, eða þar til fuglinn er eldaður í gegn.

Risotto með pancetta og rósmarín (bls 172)

 • 1 líter kjúklingasoð eða grænmetis, ekki er það verra ef það er heimalagað
 • 1 msk ólífuolía
 • 2 smátt saxaðir shallot laukar
 • 1/2 selleríhöfuð
 • Salt og pipar
 • 2 smátt söxuð hvítlauksrif
 • 400 g risotto
 • 100 ml þurrt hvítvín
 • 70 g smjör
 • 100 g ferskur rifinn parmesanostur
 • 50 g pancetta
 • 2 msk smátt saxað rósmarín

Jamie notar Borlotti baunir, þær voru ekki til þannig að ég notaði engar baunir.

FYLGIST VEL MEÐ RISOTTOINU ALLAN TÍMANN, EKKI LÍTA AF ÞVÍ!!

Hitið soðið.

Hitið olíu, steikið pancetta.

Hitið olíu í breiðum potti.  Steikið við vægan hita lauk og sellerí, allt smátt skorið í 3 mín.  Bætið við hvítlauk og steikið í aðrar 2 mín.

Hækkið hitann og lítið nú aldrei af pottinum.

Setjið hrísgrjónin út í pottinn.  Ekki láta þau samt brúnast.  Hrærið stöðugt í pottinum í 2 mín eða svo.

Bætið við pancetta og rósmarín

Hellið hvítvíninu út í.  Sjóðið niður

Bætið nú einni ausu af soði út í og látið sjóða upp.  Þetta gerið þið svo þar til allt soðið er búið, eina ausu í einu og láta gufa upp þar til næsta ausa er sett í pottinn.  Þetta tekur um 20 mín.

Þegar soðið er búið og allt gufað upp og grjónin tilbúin bætið þá við rifna parmesanosti og smjörinu. Blandið vel saman.

Berist fram strax.

Þennan rétt má bera fram einan og sér eða eins og ég gerði með kjúkling.  Einnig finnst mér alltaf gott að fá risotto með fiskmeti.

Ef þið notið borlotti baunir þá skuluð þið sjóða þær og blanda þeim saman við í lokin.

Hafið ferskan parmesanost á borðin svo hægt sé að rífa smá yfir diskinn sinn, nammi namm.

Svo getið þið leikið ykkur með meðlætið, nýbakað brauð, gott salat osfv.  Mér finnst algjör óþarfi að nota sósu því það myndi taka bragðið frá risottoinu sem er alveg dúndur bragðmikið og gott.

Og hérna var svo smjörið sem ég var að leita að…

smjör á bók

Eiga matreiðslubækur ekki annars að líta út fyrir að vera notaðar?

Pizza með dijon sinnepi, fetaosti, ólífum og hvítlauk

Það er gaman í sveitinni. Sérstaklega þegar kemur að því að borða með nágrönnunum.

Þá þarf ekki að hafa mörg orð um hvað verður á boðstólnum, heldur töfrum við húsmæðurnar fram hverja stórmáltíðina á fætur annarri, þegjandi og hljóðalaust. Það sem til er í ísskápnum er notað og spunnið út frá því.

leggir

Ef þið eigið kjúklingaleggi þá mæli ég með því að þið setjið þá í eldfast fat með döðlum, kapers, ólífum, balsamikediki og hunangi, smá hvítlauk, salti og pipar.

pizza

Ef ykkur langar í öðruvísi pizzu þá sló þessi í gegn:

 • Pizzabotn, þunnt útflattur
 • Ólífur
 • Hvítlaukur, skorinn í skífur
 • Fetaostur í kryddolíu
 • Dijon sinnep
 • Salt og pipar

Smyrjið smá sinnepi á pizzabotninn, raðið álegginu á, saltið og piprið. Bakið í ofni þar til botninn er bakaður.

Ég hef sérstaklega gaman að ílöngum pizzum þessa dagana og skera þær í þunnar ræmur og renna þeim niður með rauðvínstári og nágrannaspjalli.

pizza

pizza

Sólarlag í Hvalfirði og nýji drykkurinn okkar sem gestir og gangandi fá að smakka

liljur

Það er Páskadagur hér í sveitinni þegar þetta er skrifað og hér snjóar og það er hífandi rok og skítakuldi. Stundum held ég að þakið ætli af húsinu, er þetta ekki komið gott?

En, þá er lítið annað að gera en að opna góða rauðvínsflösku og skrifa niður allar góðu uppskriftirnar sem hafa orðið til yfir páskana.

Föstudagskvöldið var stórskemmtilegt. Við ákváðum að elda sinn hvorn smáréttinn, og til að fá smá krydd í eldamennskuna þá urðum við að nota hráefni sem hinn aðilinn lagði til. Ég lét kærastann nota bulgur og grænan aspas í dós og hann lét mig nota kjúklingabringu, sykur og sólblómafræ.

Kærastinn gerði dúndurgóðan rétt, í anda saumaklúbbs-aspasréttina. En í staðin fyrir brauð vorum við með bulgur.

(Ég steingleymdi að mynda þessa rétti, vandræðalegt!)

Sólarlag í Hvalfirði

 • Aspas í dós
 • Bulgur, soðnar skv leiðbeiningum
 • Tómatar
 • Kartöfluklattar
 • Hvítlaukur
 • Ostur
 • Salt
 • Pipar

Kartöflubrauðið rifið niður, tómatar skornir smátt, hvítlaukurinn pressaður. Bulgurnar settar í botninn á eldföstu móti og bleyttar aðeins með safa úr aspasdósinni, restinni dreift yfir og rifinn ostur stráður yfir allt.

Í þessu tilfelli var afgangur af kartöfluklöttum, það má algjörlega sleppa þeim, eða t.d rífa niður soðnar kartöflur og nota í réttinn.

Þetta var bakað í ofni við 200°c í korter eða svo.

fylltir tómatar

Ég þurfti að nota kjúklingabringu, sykur og sólblómafræ og bjó til úr því fyllta tómata með virkilega góðum sumarlegum drykk þrátt fyrir að það hafi ekkert gefið til kynna að sumarið væri komið..

Fylltir tómatar

 • Tómatur
 • Kjúklingabringa
 • Rúsínur
 • Sólblómafræ
 • Soðnar bulgur
 • Lime
 • Engifer
 • Hvítlaukur
 • Mynta
 • Smjör

Ég skar í tvennt tómat og skóf innan úr honum. Setti þá í eldfast fat og inn í ofn á meðan ég gerði eftirfarandi:

Ég setti soðnar bulgur í pott með smjöri, myntu, rúsínum, sólblómafræjum, það sem var inn í tómatnum og hvítlauk og lét “sjóða saman”.

Á pönnu steikti ég kjúkling með hvítlauk, lime, salti og pipar og blandaði honum svo við bulgurnar.

Ég fyllti tómatana í eldfasta fatinu með bulgur-kjúklinga mixinu, dreifði smá rifnum ost yfir og setti inn í ofn á 200°c í smá stund, eða þar til osturinn var fallega bráðnaður.

Ég bar tómatana fram á hvolfi og skreytti með myntu sem ég skar til í hjarta. Rómó…

páskaliljur

Páskaliljurnar horfa út um gluggann og skilja ekkert í þessu íslenska sumarveðri.

Með þessu bar ég fram drykk sem var með svipuð element og rétturinn, þ.e lime og myntu til að vinna með bragðinu í réttinum. Einnig notaði ég eitt af því hráefni sem ég varð að nota, þ.e sykurinn.

Þessi drykkur verður á boðstólnum fyrir gesti og gangandi í sumar og heitir:

Velkomin í Hvalfjörðinn

 • Sykur
 • Lime
 • Fersk mynta
 • Ferskt engifer
 • Sódavatn
 • Hvítvín
 • Skvetta af Superberries djúsi frá the berry company.

Maukið saman myntu, sykur, lime og engifer, svipað og ef þið væruð að gera Mojito. Hellið saman við það hvítvíni, smá sódavatni og skvettu af berjadjúsi. Það mætti nota hvaða berjadjús sem er, Pomegranate djús væri eflaust rosalega góður líka.

Fimm daga veisla, dagur eitt…

Ég ákvað að versla ekki í páskamatinn þetta árið. Venjuleg ferð í matvörubúð kostar mig alltaf 15.000 kall plús þannig að ég hefði eflaust endað með 25.000 kr matarinnkaup að miiiinnsta kosti.

Því ákvað ég að kaupa helstu nauðsynjar (7000 kall) og elda úr því sem til væri. Og ekki nóg með það heldur fórum við í sveitina svo það til var var það sem rúmaðist í einum bláum IKEA poka.Ég semsagt gramsaði í eldhússkápunum heima og týndi til það sem mér þótti spennandi og lét það duga.Og hingað til hefur engin soltið, það er búið að vera veisla á hverjum degi síðan á fimmtudag.

Fyrsta daginn okkar í sveitinni fórum við að týna krækling. Úr varð kræklingaveisla tvo daga. Annarsvegar strax eftir að við komum heim úr kræklingatínslu og hinsvegar á laugardagskveldi er við buðum bóndanum og frú af næsta bæ í léttan kvöldverð.

Byrjum á byrjuninni, fimmtudeginum.

Þá var okkur boðið í mat til vina. Þar var nóg til af mat og elduðum við smárétti eftir hentisemi. Þetta er langskemmtilegustu matarboðin sem ég fer í þar sem borið er fram nokkrir smáréttir og hver og einn eldar eins og honum langar úr því sem til. Þetta hentar vel fyrir þá sem hafa gaman að því að elda og langar í smá “challenge”.

sesame kjúklingur

Kjúklingabitar með sesam, sýrópi og soya

Að þessu sinni varð úr 7 rétta veisla með frábærum eftirrétti, sem var þó ekki síðasti rétturinn, eftirréttamilliréttur…

Á boðstólnum var:

 • Kjúklingabitar með sesame, sýrópi og soya.
 • Nautaframhryggsbiti, létt steiktur á grillpönnu borin fram á baguette með rauðlaukssalsa og klettasalati
 • Humar steiktur með sterkri thai chili sósu, kláraður í hvítvínssósu með rjómaosti og vorlauk
 • Tikka masala kjúlingur í hrísgrjónapappír með mango chutney og raita
 • Lambafille með blómkálssósu og sætri kartöflu.
 • Perur í karamellulegi með rjóma og myntu
 • Maís tortillameð nautakjöti í Chilpotle Adobo sósu

Og stiklum nú á stóru í þessari upptalningu.

nautakjöt

Nautaframhryggsbiti með rauðlaukssalsa

Rauðlaukssalsa

Grillið rauðlauk á grillpönnu (skerið hann þá í fernt t.d ) eða setjið hann heilan í ofn.  Skerið smátt og maukið með sýrðum rjóma og salti og pipar.

Blómkálssósa
Blómkálið fór afskaplega vel með lambinu.  Einfalt meðlæti sem gerir mikið réttinn.
Sjóðið blómkál með vatni og jafnvel smá mjólk.  Saltið og piprið. Sigtið vatnið frá.  Bætið við klípu af smjöri við blómkálið.  Farið með töfrasprotann ofan í pottinn og maukið blómkálið mjög vel.  Ef  það er mjög blautt sígið þá vökvann frá með að láta hann renna í gegnum viskastykki.
Tikka Masala
Ég keypti tikka masala krydd í New York, mjög gott krydd.  Ég marineraði kjúklinginn með kryddinu og ab mjólk.  Steikti hann svo á pönnu með smá tómötum í dós.
Svo vafði ég honum inn í hrísgrjónablöð.  Það var skemmtilegt tvist.  Mæli með að þið leikið ykkur með svona hrísgrjónablöð, rice paper.  Þau fást í flestum matvöruverslunum.

Kjúklingur með sesame fræum, sýrópi og vorlauk

Þessi réttur er mjög einfaldur og ég henti honum upp sem smá appetizer fyrir matargesti á no time.

kjúklingur

Kjúklingur með sesame fræum, sýrópi og vorlauk

 • 1 kjúklingabringa
 • 2-3 msk sesame fræ
 • 1 msk sýróp
 • 1 tsk dijon sinnep
 • 3-4 msk ólífuolía
 • Smá vorlaukur
 • 1 hvítlauksrif
 • Salt og svartur pipar

Skerið kjúklinginn í hæfilega munnbita. Hrærið öllu saman og veltið kjúklingnum upp úr marineringunni.

Steikið kjúklinginn á meðalheitri pönnu eða bakið hann í eldföstu fati í ofni.  Skerið smá extra vorlauk og dreifið yfir kjúklinginn og jafnvel smá meir af sesame fræjum þegar þið berið hann fram.

Svona marineringar eru líka góðar á kjúklingaleggi eða vængi.

Lasagna með kjúklingafarsi og kjúklingabollur úr afganginum af farsinu

Einn af mínum uppáhalds réttum er cannelloni með kjúklingafarsi.  Í gær hélt ég að ég ætti lasagnaplötur inn í skáp og ætlaði því að búa til svipaðan rétt og cannelloni-ið.  Svo barasta átti ég engar plötur þannig að við hentum í ferskt pasta deig og rúlluðum út nokkrum plötum.  Þá hefði verið upplagt að nota þær í að rúlla þeim upp sem cannelloni en mig langaði að prófa að útfæra þennan rétt eins og lasagna.  Og þetta var ótrúlega gott.

Sósan heppnaðist einstaklega vel og vil ég þakka því að tómatarnir (úr dós) eru mjög bragðgóðir,  Crushed tomatoes frá Eden.

Einnig notaði ég shallotlauk í sósuna, það er mjög gott.

lasagna

Lasagna með kjúklingahakki fyrir 2-3

Kjúklingahakk

 • 2 kjúklingabringur
 • skvetta af rjóma (1/2 dl)
 • Lúka af ferskri basil
 • 1 egg
 • 1 hvítlauksrif
 • Salt og pipar

Maukið öllu saman í matvinnsluvél

Tómatsósan

 • 1 dós crushed tomatoes frá Eden
 • 3 shallotlaukar
 • 1-2 tsk Balsamic edik
 • 1 tsk Agave sýróp
 • Salt
 • Pipar
 • Ólífuolía

Svitið lauk og hvítlauk upp úr smá ólífuolíu.  Bætið við tómötum og öllu öðru.  látið malla við vægan hita í korter.

Hér er uppskrift af fersku pasta

Setjið sósu í botninn á eldföstu móti, þvínæst lasagnaplötur og dreifið svo úr kjúklingafarsblöndunni yfir lasagnaplötunar, svona svipað magn og ef um kjötsósu væri að ræða, kannski aðeins meira.  Svo kemur aftur lag af pasta plötum  og ofan á það slatta af tómatsósunni.  Bakið í ofni í 25 mín.  Bæti þá við rifnum osti ofan á og jafnvel ferskri basil og bakið í aðrar 10 mínútur.

sósa-lasagna-kjúklingafars-lasagna-sósa-ostur

Þetta var svona gott, að þetta rétt dugði ofan í tvo…..

lasagna

Svo má móta bollur ef afgangur er af farsinu (nú eða bara gera bollur) og bera fram með sósunni og fersku basil.

kjúklingabollur

%d bloggers like this: