Grænmetis og kjúklingasúpa í Instant Pot

by soffiagudrun

Það er svo auðvelt að elda allskyns dýrindis súpur í Instant Pot. Ég gerði eina slíka í gær fyrir 15 manns, en var þá með tvo Instant potta og aðra súpuna gerði ég aðeins mildari. Þetta var mjög ónákvæm eldamennska, slump eftir tilfinningu.

Grænmetis og kjúklingasúpa

  • Kjúklingur, skorinn í bita. Mér þykir best að nota úrbeinuð læri.
  • Sæt kartafla
  • Paprika, hvaða litur sem er, græn er beiskari og rauð sætari, ég nota oft gula, græna og rauða
  • Laukur
  • Púrra
  • Sveppir
  • 1 lítið blómkál
  • 1 lítill brokkólíhaus
  • 1 dós Chili nýrnabaunir frá Biona
  • 2 dósir San marzano tómatar
  • Hvítlaukur
  • Góð olía til steikingar
  • Salt, pipar, cayenne pipar, oregano
  • Vatn eftir smekk 3-5 dl. Muna að vökvainnihaldið heldur sér í Instant potti.

Ég notaði eina sæta kartöflu, einn hvítan lauk, ca 5 cm af púrru, 4 hvítlauksrif, 2 paprikur og 3 stóra brúna Flúðasveppi. Ég deildi grænmetinu og kjúklingi í báða pottana en munurinn á mildari súpunni var að ég sleppti cyenne pipar og chili nýrnabaunum.

Meðlætið er stór hluti af súpunni þar sem hver og einn getur bætt í eftir smekk. Með súpunni bárum við fram afbragðsbrauð úr bakaríi, nachos flögur, rifinn ost, mossa og cheddar, ferskan habanero í olíu,smátt skorinn vorlauk, ferskt kóríander, avocado og sýrðan rjóma.

Ef ég hefði átt rjómaost þá hefði farið 2-3 msk af honum í súpuna. Einnig er hægt að styðjast við Listamannasúpu uppskriftina þar sem rifinn sítrónubörkur og eplaedik gerir oftar en ekki gott betra. Ef ég hefði átt soð af beinmergi hefði ég notað það í staðin fyrir vatnið og rífa upp hollustuna enn frekar.

INSTANT POT LEIÐBEININGAR: Ég byrja á að stilla á SAUTÉ og brúna kjúklinginn, svona rétt aðeins að loka honum og með kryddunum. Svo bæti ég við öllu öðru, geri cancel á SAUTÉ og loka pottinum. Stilli á Pressure Cook í 10 mín og svo er annað hvort hægt að gera natural release eða opna fyrir ventilin ef maður vill komast fyrr í að borða.

Alltaf að passa að ventill sé í lokaðri stöðu þegar verið er að elda

MEÐ FYRIRVARA:  Ég er algjör slumpari þegar kemur að eldamennsku, þannig að mælieiningar hjá mér eru ekki sérlega nákvæmar, en nærri lagi.  Með æfingunni finnur maður sinn takt í eldamennsku.  

Uppskriftirnar hér eru hugsaðar sem hugmyndir að samsetningu frekar en hárnákvæmum lýsingum á innihaldi og aðferð.  Þær eru svo settar hér á internetið fyrir sjálfa mig til að muna eftir uppskriftum sem mér þykja góðar, fyrir vini og vandamenn og alla aðra sem ramba inn á þessa síðu.