Húsið við sjóinn

Foodwaves

Category: Forréttir

Jóladagatal Soffíu – 12 dagar til jóla

Jóladagatal…12

Í gær vorum við með jólaglögg fyrir sveitunganágranna.  Það var gaman og góður matur og að sjálfsögðu gott glögg.

Á boðstólnum var meðal annars:

pate

Hreindýrapate og meðlæti

 • Hreindýrapate (fæst í flestum matvöruverslunum)
 • Súrar gúrkur
 • Steikt beikon
 • Sveppasósa
 • Rúgbrauð

Sveppasósan er sveppir, steiktir upp úr smjöri og hvítlauk.  Slatti af rjóma og smá sósujafnara.  Saltað og piprað.

Allt borið saman á borð, fáið ykkur rúgbrauð, setjið á það kæfuna, gúrku, beikon og sósu.

Sérrí sveskjur með beikoni

 • Sérrí
 • Sveskjur, þurrkaðar
 • Beikon
 • Valhnetur
 • Múskat

Ég er ekki með nákvæma uppskrift af þessum rétti, en málið er að leggja þurrkaðar sveskjur í sérrí yfir nótt.  Veltið valhnetubrotum upp úr múskati.  Stingið einu broti í hverja sveskju.  Vefjið utan um hana beikoni.  steikið á pönnu.  Það má einnig elda þetta í ofni.  Jólalegur réttur og mjög bragðgóður.

lax

Laxasamlokur

 • Fransbrauð
 • Reyktur lax
 • Rjómaostur
 • Graslaukur
 • Steinselja

Smyrjið brauð með rjómaosti og setjið laxinn ofan á, dreifið yfir smátt skornum graslauk.  Gerið samloku og skerið í þríhyrninga.  Smyrjið rjómaosti á endann á hverjum þríhyrningi og þrýstið honum í steinselju sem þið skerið mjög smátt.

panettone

Panettone var á borðum, mjög gott ítalskt jólabrauð. Það væri gaman að gera svoleiðis við tækifæri.  Ég á eftir að googla allt um Panettone.

Einnig var boðið upp á óheyrilega gott ris a la mande sem ég er ekki búin að fá uppskrift að, ætla að fá einkakennslu í gerð þess.  Svo voru tartalettur með hangikjöti sem slóu í gegn.

Og svo svona til að minna mann á að einfaldleikinn svíkur engan þá kom einn gesturinn með rækjusalat og ritz kex sem gerði mikla lukku og var étið upp til agna.

Þessa fann ég netinu, svoldið sætt.

jólaherðatré

Advertisements

Brilliant réttur fyrir litlu frosnu rækjurnar sem maður á stundum í frysti…

Einstaka sinnum á ég poka af frosnum rækjum í frysti, mér dettur sjaldan nokkur í hug í hvað ég get notað þær nema þá í rækjusalat með mæjónesi.  Þar til um daginn, þá var ég að ráfa um netið og satt niður á svo girnilegan rétt, en þar var reyndar notaðar einhverjar fínar hráar rækjur.

Ég ákvað því að heimfæra þennan rétt upp á gömlu góðu mæjónesrækjurnar og hann endaði á að smakkast dúndur vel.

Þessi réttur hljómar kannski undarlega en ég segi það og skrifa, þetta var ofboðslega gott.

djúpsteikt rækjubrauð

Djúpsteikt rækjubrauð

 • Brauðsneiðar án skorpu, franskbrauð t.d eða annað hvítt brauð
 • 1/4 poki frosnar rækjur
 • Vorlaukur, 1 eða 2
 • 1 egg
 • Salt og pipar
 • Ferskt rifið engifer, 2-3 msk
 • Sesamfræ
 • Olía til steikingar

Skerið brauðið í þríhyrninga, eins marga og rækjumaukið dugar á.  Ef þið eruð með formbrauð skerið skorpuna frá og brauðið í 4 ferhyrninga.

Blandið saman í blender eða matvinnsluvél rækjum, einu eggi, engifer, salti og pipar.  Maukið. Setjið maukið í skál og blandið við það smátt skornum vorlauk.

rækjumauk

Smyrjið þessu á þríhyrningana, um það bil 1 matskeið á hvern þríhyrning.  Stráið yfir þá sesamfræjum, svörtum (ef þið eigið til) og ljósum.

Djúpsteikið í 1 mín með rækjuhliðina niður fyrst.  Snúið sneiðunum  við og steikið í 1/2 – 1 mín til viðbótar.  Leggið á eldhúspappír til að þerra mestu olíuna.

rækjumauk

Ég prófaði líka að setja maukið í hrísgrjónapappír og djúpsteikja, það var einnig mjög gott.

bodskort

Nú er ég á fullu að undirbúa sýningu, en ég verð með opnun á fimmtudaginn milli 17.00-19.00 og allir eru velkmomnir.

Sýningin er í Skotinu hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu 15, 6.hæð.  (Sama hús og Borgarbókasafnið).

Að elda allar uppskriftir upp úr einni matreiðslubók. Fyrsti rétturinn…

Og nú er ég komin með rauðvín í glas og hér hefst ritgerðin (og lesturinn fyrir ykkur, mæli með vínglasi  á meðan þið rúllið yfir þetta….nema þið séuð í vinnunni)
Og þá hefst lesturinn…

Það hefur verið í tísku undanfarið að taka fyrir eina matreiðslubók og elda allar uppskriftirnar sem í bókinni eru. Eins og margir kannast við m.a frá myndinni Julie and Julia.

Með metnaðarfyllri verkefnum af þessum toga er án efa þessi kona sem ætlar að elda allar uppskriftir úr Alinea.

Ég keypti mér þessa bók, Alinea, og hún er listaverk út í gegn með fullt af spennandi uppskriftum og skemmtilegum útfærslum.
Það hefur stundum hvarflað að mér að ráðast í svona verkefni.  Sérstaklega þegar ég hef verið að hjakkast í sama farinu, þ.e elda sömu réttina, nota mikið sama hráefnið og verið andlaus í eldhúsinu.

Og þá hefur valkvíðinn komið til sögunnar, hvaða matreiðslubók maður ætti að taka fyrir.
Nú finnst mér ég einmitt búin að vera að elda svipað og mig langar mikið til að fara að prófa nýjar uppskriftir.
Ég er oft hrædd við að prófa sumar uppskriftir því þær hljóma kannski ekki nógu vel eða virðast flóknar.

Ég var að kíkja á þær matreiðslubækur sem ég á og ein af þeim sem mér finnst spennandi en er ódugleg að elda upp úr er með fyrstu bókum Jamie Oliver, Kokkur án klæða.

Uppskriftir eins og ravioli með hestabaunamauki, myntu og ricotta eða snöggmaríneraður heilbakaður leirslabbi með balsamikediki og stökku marjora hljóma spennandi en hráefni eins og brenninetlur og hjólkróna hafa gert það að verkum að ég nenni ekki að prófa þær uppskriftir. Ég hef reyndar aldrei heyrt talað um leirslabba, veit ekki ef ég hvort ég fæ hann út í fiskbúð.
Þannig að það er bara að taka ákvörðun.  Sumar bækur sem ég á eru of einhæfar, t.d einungis fiskiréttir eða pasta eða þá frá ákveðnum löndum t.d indverskt (ég gæti nú samt alveg borðað indverskt á hverjum degi í nokkra mánuði 🙂

Bókin hans Jamie er með mjög fjölbreyttan mat, fisk, kjöt, súpur, pasta og grænmeti.  Það er oft skemmtileg samsetning á hráefni og oftar en ekki hráefni sem ég nota sjaldan eða aldrei.  Þannig að það væri góð áskorun að elda upp úr þessari bók.  Ég á aldrei eftir að elda allar þessar uppskriftir en ég ætla að minnsta kosti að reyna að elda helminginn og bara gefa mér góðan tíma í þetta, þess vegna nokkur ár 🙂

Fyrsta uppskriftin sem ég ætla að elda er hörpudiskur. Og svona fór þetta hjá mér…
Í fyrsta lagi á ég greinilega erfitt með að elda eftir uppskrift nákvæmlega, mig langaði strax að gera breytingar. EN ég ákvað að halda mig við uppskriftina, þannig myndi ég kannski læra eitthvað nýtt og leyfa því hráefni sem í uppskriftunum eru að njóta sín …eins og kokkurinn hannaði þær.
Og viti menn.  Þessi samsetning var bragðlaukaveisla!
hörpudiskur
Hörpudiskur með salvíu, beikoni og puy baunum. (Fyrir 2)

 • 6 beikonsneiðar
 • 6 hörpudiskar
 • 1 msk ólífuolía
 • 8 fersk salvíublöð
 • Salt og pipar
 • Safi úr hálfri sítrónu
 • 4 msk linsubaunir, gufusoðnar með hvítlauk og rósmarín í kjúklingasoði *
 • 2 lúkur af salati (það sem þið eigið eða ykkur finnst gott)
 • Salat olía (sjá uppskrift hér fyrir neðan

það mætti líka sjóða puy baunirnar í vatni og sleppa öllu tilstandi!  Þetta er það bragðmikill réttur.  (Ég gerði það því ég fattaði of seint að þetta voru fyrirfram soðnar baunir úr bókinni, sem ég á því eftir að prófa síðar).

Steikið beikon á pönnu, rétt í lokin bætið þið við salvíu og steikið hana í 2 mín.  Setjið á eldhúspappír til að draga í sig fitu.  Salvían verður stökk og flott.
hörpudiskur
Steikið hörpudisk á sömu pönnu og beikonið (funheitri), skvettið smá ólífuolíu á pönnuna áður.  Steikið hörpudiskinn í 1-2 mín á hvorri hlið.  Kreistið sítrónusafa yfir hörpudiskinn í miðjum eldunartíma. (Þá á hann að brúnast betur)
puy
Hitið upp soðnu puy baunirnar á pönnunni.
Veltið salati upp úr dressingu, setjið á disk.  Raðið ofan á það hörpudiskinum, beikoni og salvíu og svo puy baunum.
Berist fram stax.

Salatdressing
 • 1 msk sítrónusafi
 • 2 msk ólífuolía
 • Salt og pipar

Blandið vel saman.
brauð

Svo gerði ég örsnöggt brauð.  Leyfði geri, sykri og volgu vatni að freyða í 5 mín.  Bætti þá við hveiti og fjölkornablöndu.  Hrærði því saman með gaffli í eina mínútu.  Lét það hefast í tæpan hálftíma.  Hrærði upp í því með smá hveiti …með gafflinum. (Nennti ekki að skíta út puttana).  Mótaði það eins og baguette, penslaði með eggjahvítu og stráði yfir meiri fræjum.

Bakaði í 220°c ofni í 20 mín.

Hlutföll í brauði sirka… (mældi þetta ekki nákvæmlega)

 • 2 tsk ger
 • 1 tsk sykur
 • 1/2 glas volgt vatn
 • (láta freyða)
 • Bæta við 1 glasi af hveiti og hálfu vatnsglasi til viðbótar
 • Strá út í fræjunum.  Hræra þessu saman með gaffli.  Bæta við hveiti eftir þörfum.

Og hvernig smakkaðist svo herlegheitin?  Fyrsti rétturinn af mörgum… MJÖG VEL!  Þetta var rosalega gott.

Sumir myndu líta á þetta sem forrétt en ég bar þetta fram sem aðalrétt.  Með brauðinu sem var étið upp til agna þá dugar þetta okkur sem aðalréttur.
Þannig að þetta er flottur forréttur, þá miðað við t.d 2 hörpudiska á mann með 1-2 sneiðum af beikoni.  Og ekki spurning, súper góður léttur aðalréttur.

beaujolais
Með þessu bar ég fram George Dubæuf, Beaujolais.  Mig langaði meir í rauðvín en hvítvín. Hvítvín fer þó sérlega vel með þessum rétti.
Og lærði ég eitthvað á þessu?
Já.  Hörpudiskur, salvína og beikon fer mjög vel saman.  Puy baunirnar fóru sérlega vel með réttinum.  Sítróna!  Þarf að nota hana meira.
Kærastinn sagði:  Þetta var fáránlega gott!
Ég á eflaust eftir að bjóða gestum upp á svipaðan rétt.

Stromboli, alveg jafn gott og það er gaman að segja stromboli

Stromboli er pizzadeig, flatt út ferkantað og fyllt með kjöti og osti og svo er því rúllað upp og bakað í ofni.  Það er engin sósa inn í rúllunni heldur er hún borin fram með þessu í skál “on the side”  Rúllan er skorin í sneiðar og sneiðinni svo dýft í sósuna.

Það á engin gestur eftir að vera svikinn af Stromboli…nema hann sé grænmetisæta 😛

Það sem mér finnst best við mitt stromboli er 5 kornablandan sem ég strái ofan á rúlluna. Hér kemur hugmynd að Stromboli eins og ég gerði það síðast og það smakkaðist rosalega vel.

stromboli

Stromboli

 • Pizzadeig
 • Grænpipars-salami (fæst í ostabúðinni) eða annað gott pepperoni
 • Steikt nautahakk (steikt með hvítlauk, smátt skornum lauk og pizzakryddi)
 • Skinka
 • Ferskur mossarella
 • Einhver góður brauðostur
 • Brie

Álegginu er raðað á pizzadeigið eins og sýnt er á myndinni hér fyrir neðan.

stromboli

Svo er því rúllað upp, skerið rendur í rúlluna og penslið hana með eggjahvítu.  Ef þið viljið stráið þá smá fimmkornablöndu eða sesamfræjum ofan á rúlluna.

stromboli

Bakið í ofni við 200°c þar til það er fullbakað, um 20 mínútur.

stromboli

 stromboli

Sósan:

 • Hakkaðir tómatar í dós eða tómatsósa í dós
 • Laukur
 • Hvítlaukur
 • Oregano
 • Salt og pipar
 • Smá sýróp
 • pínku balsamik edik

Laukur og hvítlaukur svitaður í olíu. Restin sett í pottinn. Allt soðið saman.

Avacado franskar – djúpsteiktur avacado

Ég prófaði að djúpsteikja avacado sem ég hafði velt upp úr brauðmylsnu og eggi.  Það kom ferlega vel út og smakkast rosalega vel með góðri sósu, t.d jalapeno-lime sósu.

avacado franskar

avacado franskar

Avacado franskar (fyrir 2)

 • Avacado, 2 stk.
 • Brauðmylsna, ca 1-2 dl
 • Byggflögur ef þið viljið, 1/2 dl eða svo
 • Salt
 • Lemon pepper
 • Og svo hvaða krydd sem ykkur dettur í hug og finnst gott ef þið viljið hafa þetta meira spicy…

avacado franskar

Skerið avacado í sneiðar, sem líta út svona eins og franskar í lögun.  Ég skar hann í tvennt, fjarlægði steininn og skar svo 3-4 rákir endilangt og skóf svo úr hýðinu.

avacado franskar

avacado franskar

Veltið honum upp úr eggi, brauðmylsnu og jafnvel aftur í egg og aftur brauðmylsnu ef þið viljið þykkari húð utan um hann.

Djúpsteikið í potti í 10 -15 sek, eða þar til hann lítur gullinbrúnn út, en þó ekki brunninn.

avacado franskar

Jalapeno sósa

 • 2 msk sýrður rjómi
 • Smátt skorinn jalapeno, niðursoðinn (2-3 hringir)
 • 1-2 tsk lime safi
 • 1 tsk sýróp
 • Salt

Öllu blandað vel saman.  Ég steytti í morteli jalapeno, lime og salti, bætti svo við sýrðum og sýrópi.

avacado

Fimm daga veisla, dagur eitt…

Ég ákvað að versla ekki í páskamatinn þetta árið. Venjuleg ferð í matvörubúð kostar mig alltaf 15.000 kall plús þannig að ég hefði eflaust endað með 25.000 kr matarinnkaup að miiiinnsta kosti.

Því ákvað ég að kaupa helstu nauðsynjar (7000 kall) og elda úr því sem til væri. Og ekki nóg með það heldur fórum við í sveitina svo það til var var það sem rúmaðist í einum bláum IKEA poka.Ég semsagt gramsaði í eldhússkápunum heima og týndi til það sem mér þótti spennandi og lét það duga.Og hingað til hefur engin soltið, það er búið að vera veisla á hverjum degi síðan á fimmtudag.

Fyrsta daginn okkar í sveitinni fórum við að týna krækling. Úr varð kræklingaveisla tvo daga. Annarsvegar strax eftir að við komum heim úr kræklingatínslu og hinsvegar á laugardagskveldi er við buðum bóndanum og frú af næsta bæ í léttan kvöldverð.

Byrjum á byrjuninni, fimmtudeginum.

Þá var okkur boðið í mat til vina. Þar var nóg til af mat og elduðum við smárétti eftir hentisemi. Þetta er langskemmtilegustu matarboðin sem ég fer í þar sem borið er fram nokkrir smáréttir og hver og einn eldar eins og honum langar úr því sem til. Þetta hentar vel fyrir þá sem hafa gaman að því að elda og langar í smá “challenge”.

sesame kjúklingur

Kjúklingabitar með sesam, sýrópi og soya

Að þessu sinni varð úr 7 rétta veisla með frábærum eftirrétti, sem var þó ekki síðasti rétturinn, eftirréttamilliréttur…

Á boðstólnum var:

 • Kjúklingabitar með sesame, sýrópi og soya.
 • Nautaframhryggsbiti, létt steiktur á grillpönnu borin fram á baguette með rauðlaukssalsa og klettasalati
 • Humar steiktur með sterkri thai chili sósu, kláraður í hvítvínssósu með rjómaosti og vorlauk
 • Tikka masala kjúlingur í hrísgrjónapappír með mango chutney og raita
 • Lambafille með blómkálssósu og sætri kartöflu.
 • Perur í karamellulegi með rjóma og myntu
 • Maís tortillameð nautakjöti í Chilpotle Adobo sósu

Og stiklum nú á stóru í þessari upptalningu.

nautakjöt

Nautaframhryggsbiti með rauðlaukssalsa

Rauðlaukssalsa

Grillið rauðlauk á grillpönnu (skerið hann þá í fernt t.d ) eða setjið hann heilan í ofn.  Skerið smátt og maukið með sýrðum rjóma og salti og pipar.

Blómkálssósa
Blómkálið fór afskaplega vel með lambinu.  Einfalt meðlæti sem gerir mikið réttinn.
Sjóðið blómkál með vatni og jafnvel smá mjólk.  Saltið og piprið. Sigtið vatnið frá.  Bætið við klípu af smjöri við blómkálið.  Farið með töfrasprotann ofan í pottinn og maukið blómkálið mjög vel.  Ef  það er mjög blautt sígið þá vökvann frá með að láta hann renna í gegnum viskastykki.
Tikka Masala
Ég keypti tikka masala krydd í New York, mjög gott krydd.  Ég marineraði kjúklinginn með kryddinu og ab mjólk.  Steikti hann svo á pönnu með smá tómötum í dós.
Svo vafði ég honum inn í hrísgrjónablöð.  Það var skemmtilegt tvist.  Mæli með að þið leikið ykkur með svona hrísgrjónablöð, rice paper.  Þau fást í flestum matvöruverslunum.

Chilpotle in adobo sauce dósin vígð!

Ég næ að skrifa þessa færslu á meðan dóttirin leikur sér með kúrekastígvélin mín og frostpinna…eða ekki, frostpinninn er komin ofan í stígvélin..brb

Fyrsti rétturinn sem var eldaður var með chilpotle-inu var mjög beisik.

chilpotle

Baunastappa með Chilpotle in adobo sauce

 • Mixed beans frá biona organic (fæst víða)
 • 2 tsk sósan frá Chilpotle in adobo sauce dósinni
 • 1 hvítlauksrif

maís mjöl

Tortillur úr maís hveiti

 • Maíshveiti
 • vatn
 • salt

Gerið deig, mótið úr því litlar kúlur, fletjið kúlurnar út með því að setja þær á milli tveggja smjörpappírsblaða og þrýsta ofan á þær með t.d litlu skurðbretti.

Tómatsalsa

 • Tómatar
 • Maís úr dós
 • Ananas úr dós
 • Salt
 • Pipar

Maukið allt saman í matvinnsluvél, frekar gróft samt.  Hlutföllin hér eru ekki svo nákvæm, ég notaði 2 tómata, eina ananas sneið og 3 msk maísbaunir, smá salt og pipar.

chilpotle

Ég hef ekki séð chilpotle in adobo sauce hér heima, en þetta er í svo mörgum  uppskriftum sem ég hef verið að lesa og mig hefur langað að smakka hana, en ég er mikið fyrir chile af öllum stærðum og gerðum.

Ég keypti þrjár dósir (þetta er í niðursuðudósum) og nú er að finna eitthvað af þessum uppskriftum. Ein sem ég man eftir í fljótu bragði er að gera kalda sósu með mæjónesi.

Það er víst hægt að búa til svona frá skrats, hef ekki prófað það en það má gúggla Chilpotle Adobo sauce Recipes.

Ég fann þessa linka sem ég ætla að kíkja betur á:

http://www.inspiredtaste.net/3506/agave-salmon-burgers-with-chipotle-mayonnaise

http://www.bigoven.com/recipe/15956/adobo-sauce

http://patismexicantable.com/2011/02/chipotle-chiles-in-adobo-sauce.html

http://www.grouprecipes.com/108319/chipotles-en-adobo-chipotles-chili-in-adobo-sauce.html

http://www.cheftalk.com/forum/thread/31924/wanted-adobo-sauce-recipe

Og víkjum okkur að listum.  Vinkona mín, Rakel Mcmahon, er með skemmtilegan gjörning á Sequence hátíðinni, hann er að Grandagörðum 16 og í dag er síðasti sýningardagur.  Mæli með því að kíkja þangað í sunnudagsbíltúrnum, þar eru líka fleiri ungir og hæfileikaríkir listamenn að sýna.

mcmahon

Grísasnitta

Ég bjó til kúbubrauðið aftur, það heppnaðist ágætlega.  Mig langar að minna ykkur á þetta dásamlega kombó sem einkennir samloku kennda við Kúbu.

brauð

Ég skar eitt brauðið í sneiðar og bar fram með skinku, osti, sinnepssósu, grísalundinni og súrum gúrkum, en súrar gúrkur fara einstaklega vel með þessu kombói.

grísasnitta

Ef þið eigið ekki grísalund þá er um að gera að prófa snittu með sinnepssósu, skinku, góðum osti og súrum gúrkum.  Og setja hana undir grillið í ofninum og bræða ostinn.  En grísalundin er þó galdur í þessari snittu.  Svo væri hægt að skella öðru snittubrauði ofan á og gera þannig úr þessu samloka og setja í panini grillið eða í samlokugrill.  Lykilatriðið er að bræða ostinn, nammi namm.

Ég marinera grísalundina einhvernvegin svona eins og ég hef áður sagt frá:

Grísalund með Mojo marineríngu

Grísalund ca 1/2 kg

Marinering:
10 – 20 hvítlauksrif
2 tsk salt
1 1/2 bolli appelsínusafi
Safi úr einni sítrónu og einu lime
1 bolli hakkaður laukur
1 msk oregano
1 1/2 bolli góð ólífuolía

Merjið hvítlauk með hvítlaukspressu og hakkið laukinn og setjið svo allt nema ólífuolíu í mixer. Hitið olíu á pönnu og setjið allt mixið í olíuna og látið malla.  Hrærið vel í.

Stingið fullt af götum með hníf eða gaffli í lundina og hellið svo marineríngunni yfir og látið marinerast í 2-3 tíma eða yfir nótt.  (mætti því gera marinerínguna þegar þið gerið “drulluna” og láta standa yfir nótt)

Eldið svo lundina í ofni í um hálftíma á 180°c

Og svo mæli ég með þessu á pizzu.

Túnfisk tataki, Cava og Beaujolais

Þriðji rétturinn í matarboðinu var Túnfisk tataki. Með því bar ég fram Cava og Beaujoulais. Bæði vínin voru að dansa með soya sósunni.

cava

Cava er dásamlegt með sushi, ég mæli með að þið fáið ykkur Cava næst þegar þið fáið ykkur sushi. Ef þið eldið sushi heima prófið að bera fram með því Cava og Beaujolais, skemmtileg tilbreyting og skemmtun fyrir bragðlaukana.

túnfisk tataki

Túnfisk tataki

 • Ferskur túnfiskur
 • Sesame fræ, svört og ljós
 • Salt
 • Pipar

Hitið þurra viðloðunarfría pönnu. Saltið og piprið fiskinn. Lokið fiskinum á öllum hliðum með því að steikja hann í 10 – 20 sekúndur á hverri hlið.

Skellið því svo í skál í hálfa mínútu sem hefur verið fyllt með ísköldu vatni og kannski nokkrum klökum.

Þerrið fiskinn, makið á hann sesame fræjunum og setjið í álpappír. Það mætti salta og pipra kjötið aftur á þessu stigi ef þið viljið áður en þið pakkið því inn í álpappír.

Geymið í kæli eða frysti í nokkra klukkutíma. Skerið í þunnar sneiðar. Berið fram með soya, fersku engifer, vorlauk og wasabi.  Í soyasósuna setti ég svo eina radísuspíru, for presentation…

Tataki nautalundir

Tataki er japönsk matreiðsla. Kjöti eða fisk er lokað á þurri pönnu, örsnöggt og svo skellt í ísvatn til að stöðva eldunarferlið. Því næst er því pakkað í álpappír og skellt inn í ísskáp þar til þess er neytt. Einnig má setja það í frysti.

Svo er það skorið í þunnar sneiðar og borið fram með t.d ponzu sósu.

Ef þið viljið ná mjög þunnum sneiðum þá er sniðugt að frysta það, það auðveldar skurðinn. Þetta var réttur tvö í matar og vín boðinu, sem ég fjallaði um í síðustu færslu.

Ég ákvað að nýta mér eldunaraðferð Tataki, og bar kjötið svo fram með hvítlaukssósu.

Ég hef verið að leita að litlum diskum til að bera fram smárétti sem þennan.  Í Ikea fann ég svo diska sem koma vel út, en þá fann ég í kertastjakadeildinni. Þetta eru diskar undir kerti sem sagt.

nauta tataki

Nauta Tataki með rótsterkri hvítlaukssósu

 • Nautalund (ca 50 g á mann sem forréttur)
 • Salt
 • Pipar

Hitið þurra viðloðunarfría pönnu. Saltið og piprið kjötið  Lokið nautinu á öllum hliðum með því að steikja það í 10 – 20 sekúntur á hverri hlið. Skellið því svo í skál í hálfa mínútu sem hefur verið fyllt með ísköldu vatni og kannski nokkrum klökum.  Þerrið kjötið og setjið í álpappír.  Það mætti salta og pipra kjötið aftur á þessu stigi ef þið viljið áður en þið pakkið því inn í álpappír.  Geymið í kæli eða frysti í nokkra klukkutíma, eða lengur.

Ég setti kjötið í ísskáp í sólarhring. Meirara hefði nautið ekki getað orðið.

Hvítlaukssósa

 • 3-4 msk sýrður rjómi
 • Nokkur rif af hvítlauk (magnið fer eftir styrkleika hvítlauksins og smekk)
 • Salt
 • Pipar

Pressið hvítlaukinn, ég mæli með að nota vel af hvítlauk, þannig að það sé kraftur í henni.  Ekki vera hrædd við að prófa að hafa hana vel sterka.

Ég pipraði extra yfir lundina áður en ég bar hana fram.

vín

Með þessu bar ég fram  Peter Lehmann of the Barossa, Shiraz, Ástralía 2008 og Cono sur, Pinot Noir, Chile 2009.  Shirazinn var mjög góður með kjötinu, Pinot noir var meira söturvín en samt alveg ágætt engu að síður, fer eflaust betur með léttari mat, t.d túnfisk.

%d bloggers like this: